Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2016 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra heimsótti Rauða krossinn og flóttamannabúðir í Líbanon í dag

Sigmundur Davíð heimsótti heilsugæslu á hjólum - mynd

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hóf daginn í Líbanon á því að funda með Georges Kettaneh, framkvæmdastjóra Rauða krossins í Líbanon, og heimsótti strax í framhaldinu eina af sjö svonefndum heilsugæslum á hjólum sem Íslendingar hafa styrkt. Verkefnið veitir sýrlenskum flóttamönnum á svæðinu grunnheilbrigðisþjónustu og er afar mikilsvert framlag til heilbrigðisþjónustu við flóttamenn á svæðinu.

Þá átti forsætisráðherra fundi með Tammam Salam, forsætisráðherra Líbanons, og Nabib Berri forseta þingsins. Á báðum fundunum var fjallað ítarlega um átökin í Sýrlandi og áhrifin sem þau hafa á líbanskt samfélag.

Forsætisráðherra heimsótti einnig í dag Shatila flóttamannabúðir palestínskra flóttamanna í Líbanon, ræddi við flóttamenn og fundaði með fulltrúum Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna. Þá heimsótti forsætisráðherra einnig móttökustöð flóttamanna á vegum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Á morgun mun forsætisráðherra heimsækja aðrar flóttamannabúðir í Líbanon og funda með yfirmönnum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), samræmingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (OCHA) og loks með sérstökum samræmingaraðila SÞ í Líbanon (UNSCOL) en um 25 stofnanir Sameinuðu þjóðanna eru með starfsemi í Líbanon.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir að dagurinn í dag hafi haft mikil áhrif á sig, það sé öðruvísi að upplifa aðstæður að eigin raun en að heyra sögur og sjá myndir. Einnig þótti honum mikið gagn af því að ræða við fólk sem er að fást við hin miklu áhrif flóttamannavandans á hverjum degi. Mjög áhugavert verði að taka þátt í umræðum á leiðtogafundinum í London síðar í þessari viku og mikilvægt að þær leiði til varanlegs árangurs.

 
Forsætisráðherra hitti framkvæmdastjóra Líbanska Rauða krossins

Forsætisráðherra ræddi við forseta Líbanska þingsins

Forsætisráðherrar Íslands og Líbanons ræddu saman

Forsætisráðherra ræddi við palentíska flóttamenn í Shatila flóttamannabúðunum í Líbanon

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum