Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2016 Forsætisráðuneytið

Fundir og heimsókn í flóttamannabúðir í Zahle í Líbanon

Forsætisráðherra fundaði með yfirmönnum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) í flóttamannabúðunum í Zahle - mynd

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hélt í dag áfram heimsókn sinni í Líbanon.

Dagskráin hófst á heimsókn í flóttamannabúðir í Zahle í útjaðri Beka dalsins þar sem forsætisráðherra fundaði m.a. með yfirmönnum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Forsætisráðherra hitti fulltrúa sveitarstjórna á svæðinu auk þess sem hann ræddi við flóttamenn og kynntist aðstæðum þeirra.

Þá kynnti ráðherra sér starfsemi OCHA á vettvangi og margvísleg félagsleg verkefni sem íslensk stjórnvöld styrkja þar ásamt sex öðrum þjóðum.

Loks fundaði forsætisráðherra með Sigrid Kaag, sérstökum samræmingarfulltrúa SÞ í Líbanon (UNSCOL), sem hefur það hlutverk að samræma starfsemi þeirra 25 stofnana Sameinuðu þjóðanna sem starfandi eru í Líbanon.

Eftir að hafa komið i flóttamannabúðirnar sagði forsætisráðherra: „Það hefur auðvitað mikil áhrif á mann að sjá hvað fólkið býr við erfiðar aðstæður og heyra sögurnar af því hvað það hefur mátt þola á undanförnum árum en það er líka mjög uppörvandi að sjá hvað hjálparstarfið skiptir miklu máli ekki hvað síst þau verkefni sem Íslendingar hafa verið að styðja. Það er mikilvægt að stjórnvöld í Evrópu og víðar geri sér grein fyrir hversu mikið álag er á Líbanon vegna flóttamannastraumsins og hugi að því að styðja við þetta litla land til þess að verja þann viðkvæma stöðugleika sem tekist hefur að viðhalda í Líbanon til þessa og hlúa sem best að flóttamönnum sem leita til landsins.“

Forsætisráðherra og sérstakur samræmingarfulltrúi SÞ í Líbanon (UNSCOL)

Frá heimsókn forsætisráðherra í flóttamannabúðir í Zahle

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum