Fréttasafn

Bætt launatölfræði

6.4.2017

Í tengslum við fund Þjóðhagsráðs, sem haldinn var í dag, vann Hallgrímur Snorrason, fyrrum hagstofustjóri, greinargerð um launatölfræði fyrir forsætisráðuneytið. Í greinargerðinni fjallar Hallgrímur um reglubundnar tölfræðiathuganir á launum og atvinnu í Noregi og á Íslandi, nýlegar breytingar í þeim efnum í Noregi, stöðuna hér á landi og hvort æskilegt sé að nýta fordæmi Norðmanna til breytinga á skipulagi og vinnu við launatölfræði hér. Forsenda þessarar umræðu er sú að notendur innlendrar launatölfræði virðast samróma um að þær hagskýrslur um laun og atvinnu sem hér eru unnar séu ekki fullnægjandi til undirbúnings kjarasamningum, gerð þeirra og eftirfylgni. 

Til að bæta gagnasöfnun um laun og atvinnu er um tvo kosti að velja að mati Hallgríms, annars vegar að stækka núverandi úrtak og endurbæta launarannsókn Hagstofunnar og hins vegar að hverfa frá úrtaksathugunum og safna þess í stað launagögnum frá öllum launagreiðendum á svipaðan hátt og Norðmenn hafa gert. 

Niðurstaða greinargerðarinnar er sú að stækkun og endurbætur úrtaks í launarannsókn Hagstofunnar væri nægjanleg aðgerð fyrir almenna hagskýrslugerð en ekki ef stefna á að markvissri hagnýtingu launatölfræði við gerð kjarasamninga svipað og gert er í Noregi. Heildartalning að norskri fyrirmynd gæfi færi á aukinni sundurliðun og nákvæmari og tímanlegri upplýsingum en endurbætt launarannsókn Hagstofunnar. Niðurstöður yrðu því trúverðugri og þar með notadrýgri en ella. 

Til baka Senda grein