Fréttasafn

Sérfræðingahópur um stöðuleikasjóð skipaður

9.2.2017

Í stjórnarsátttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um stofnun stöðugleikasjóðs sem haldi utan um arð af orkuauðlindum í eigu ríkissjóðs, tryggi komandi kynslóðum hlutdeild í ávinningi af sameiginlegum auðlindum og geti verið sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið.

Í samræmi við þetta hefur forsætisráðherra skipað sérfræðingahóp um stofnun slíks stöðugleikasjóðs.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir ánægjulegt að nú skuli þessi vinna vera formlega hafin. „Við sjáum fyrir okkur að markmið stöðugleikasjóðs verði að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum án þess að það leiði til skuldasöfnunar eða ójafnvægis í hagkerfinu eins og við þekkjum svo vel úr sögunni. Markmiðin lúta því einkum að sveiflujöfnun, varúðarsjónarmiðum og sjálfbærni opinberra fjármála. Horft er til þess að hlutverk slíks stöðugleikasjóðs yrði að byggja upp þjóðhagslegan sparnað með því að taka við og ávaxta fjárhagslegar eignir ríkissjóðs sem til hans eru lagðar og að ráðstafa fjármunum til ríkissjóðs í samræmi við ákvæði laga,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.

Gert er ráð fyrir að fjármögnun stöðugleikasjóðs verði með þeim hætti að til hans verði ráðstafað fjárhagslegum arði ríkisins af orkuauðlindum, eftir atvikum í formi afnotagjalda, arðgreiðslna orkufyrirtækja, verðbréfa tengd orkufyrirtækjunum eða í öðru formi. Þá þarf að meta hvort til sjóðsins yrði lagðar aðrar fjárhagslegar eignir, svo sem fjármunir sem varðveittir eru í gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands samkvæmt sérstöku samkomulagi við bankann.

Sérfræðingahópurinn er þannig skipaður:

  • Ingimundur Friðriksson, hagfræðingur
  • Kristín Haraldsdóttir, lögfræðingur
  • Erlendur Magnússon, fjárfestir.

Til baka Senda grein