Hoppa yfir valmynd
28. janúar 2005 Forsætisráðuneytið

Ávarp við opnun SUT ráðstefnu

25. janúar 2005

 

Ágætu fundargestir

Íslenskt atvinnulíf hefur verið í markvissri uppbyggingu hér á landi um áratugaskeið og lagt grundvöllinn að velferð og velmegun íslensku þjóðarinnar. Þó verkefni á sviði sjávarútvegs, stóriðju og viðskipta hafi verið fyrirferðarmest í umræðunni hefur þó nokkur tími og athygli farið í að hlúa að nýsköpun á ýmsum sviðum. Breytingar á skattaumhverfi fyrirtækja hefur meðal annars orðið til þess að skapast hefur samkeppnishæft umhverfi sem er nauðsynlegt að byggja á þegar horft er til nýsköpunar.

Íslendingar hafa ávallt verið móttækilegir fyrir nýjungum. Á sama tíma er efnahagsumhverfið opnara en fyrr, fjármálakerfið hefur tekið miklum breytingum og menntastig er hátt. Allt þetta er ávísun á aukna grósku og athafnasemi og býður upp á spennandi tækifæri til sóknar. Viðamiklar breytingar hafa átt sér stað hvað varðar viðskipti við útlönd og útrás í stærra mæli en þekkst hefur á sér nú stað í fjármála- og viðskiptageiranum. Flæði fjármagns milli Íslands og annarra landa er opið og frjálst og það hafa Íslendingar nýtt sér vel.

Stjórnvöld stóðu nýlega fyrir stefnumótun í málefnum upplýsingatæknisamfélagsins þar sem notkun upplýsingatækni til að stuðla að velferð þegnanna var viðfangsefnið. Það er mín skoðun að upplýsingatækni muni á næstu árum og áratugum snerta daglegt líf okkar sífellt meira og eiga þátt í að auka hagsæld á öllum sviðum. Það hefur enda sýnt sig að tæknin stuðlar að hagræðingu sem aftur skilar sér í aukinni framleiðni. Upplýsingatækni er í öllu okkar starfi nauðsynleg í dag og við getum illa án hennar verið. Til dæmis er það staðreynd að upplýsingatækni á sinn þátt í velgengni þeirra íslensku fyrirtækja sem hvað atkvæðamest eru í útrás.

Upplýsingatækniiðnaðurinn óx hratt á árunum 1995 - 2000 en hefur síðan verið í jafnvægi. Fyrirtæki í hugbúnaðariðnaði eru í dag, ásamt öðrum fyrirtækjum á sviði þekkingariðnaðar, fyrirtæki sem menn binda miklar vonir við í framtíðinni.

Árangur nágrannalanda okkur á sviði þekkingariðnaðar ætti að geta orðið iðnaðinum hér heima leiðarljós og öðrum hvatning til að horfa til þessa þáttar í framtíðaruppbyggingu samfélagsins. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum lagt mikla áherslu á uppbyggingu fjarskiptakerfa og hafa þannig styrkt innviðina með frekari hagnýtingu upplýsingatækni að markmiði.

Rannsóknir sýna svart á hvítu að hér á Íslandi býr mikill frumkvöðlahugur í mönnum – meiri en víðast hvar annars staðar. Þessi frumkvöðlahugur er eitt sterkasta afl þjóðarinnar og við vitum að hægt er að gera enn betur á þessu sviði. Með sameiginlegu átaki getum við horft til þess að í framtíðinni verði þetta ein styrkasta stoðin í íslensku efnahagslífi, stoð sem við getum öll verið stolt af.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum