Hoppa yfir valmynd
13. september 2013 Forsætisráðuneytið

Erindi á aðalfundi sambands sveitarfélaga á Austurlandi

Ágætu aðalfundargestir,
Kærar þakkir fyrir að bjóða mér að ávarpa ykkur. Það er ánægjulegt að vera með ykkur fulltrúum sveitarfélaga á Austurlandi hér á Eskifirði í dag.  Er við ókum inn fjörðinn fyrr í morgun tók ég eftir því að framkvæmdir eru að hefjast við Norðfjarðargöngin.  Það gladdi mig því ég veit hversu lengi ýtt hefur verið á eftir framkvæmdinni og hvað þessi samgöngubót skiptir gríðarlega miklu máli.

Þessar nýju framkvæmdir leiða hugann að þeim framförum sem hafa orðið í kjölfar þeirrar uppbyggingar sem átt hefur sér stað hér síðustu árin og hvernig slík uppbygging gæti haldið áfram. Hvað ef olía finnst á Drekasvæðinu og við á sama tíma reisum umskipunarhöfn á Norð-Austurlandi til að þjónusta norð-austur siglingaleiðina. Leið sem t.d. Kínverjar stefna að því að flytja  20% af öllum sínum útflutningi til Evrópu um árið 2020.

Mér varð almennt hugsað til þess hversu mikilvægt það er fyrir okkur að vera opin fyrir tækifærum en á sama tíma þurfum við í stóru myndinni að samþætta ólík sjónarmið nýtingar auðlinda annars vegar og verndun þeirra hins vegar og svo að sjálfsögðu hvernig við förum að því að skila jörðinni sem best frá okkur til komandi kynslóða.

Austurland

Þessi landshluti hefur í gegnum tíðina verið bugspjót þegar kemur að nýsköpun og þróun í samvinnu  sveitarfélaga á landsvísu. Sambandið sem í dag heldur aðalfund var stofnað árið 1966 en verkefni þess byggðust á því samstarfi sem átt hafði sér stað í landshlutanum á vettvangi Fjórðungsþings Austfirðinga allt frá árinu 1943.

Frumkvöðlar fjórðungsþingsins, þeir Gunnlaugur Jónasson og Hjálmar Vilhjálmsson töldu að „byggðaröskunin“  í landinu væri komin á hættulegt stig og að íbúum á Austurlandi hefði ekkert fjölgað áratugum saman og áberandi væri að ungt fólk flyttist búferlum til höfuðborgarsvæðisins.  

Tilgangur fjórðungsþingsins var að vinna að auknu samstarfi um sameiginleg hagsmuna- og menningarmál fjórðungsins og stuðla að framgangi slíkra mála.  Þessi tilgangur er nánast sá sami og sá tilgangur sem ný stoðstofnun landshlutans, Austurbrú var reist á tæpum 70 árum síðar. Það er, að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja á Austurlandi og veita samræmda og þverfaglega þjónustu tengda atvinnulífi, menntun og menningu.  

Það að öll átta sveitarfélög landshlutans auk 24 ríkisstofnana og frjálsra félagasamtaka taki sig saman um  rekstur sameiginlegrar  stoðstofnunar fyrir landshlutann sýnir sérstaklega góða blöndu: framtakssemi, félagsþroska og skynsemi. Það liggja einnig fjölmörg tækifæri í því að setja á einn stað þjónustu tengda byggða- og atvinnuþróun, menntun, rannsóknum, menningu og málefnum ferðaþjónustunnar. 

Mér skilst að vel hafi tekist til þótt auðvitað fylgi einhverjir byrjunarörðugleikar svo miklu framtaki, þá sjá menn hagsmuni heildarinnar til lengri tíma í betri farvegi með slíkri samvinnu á landshlutavettvangi. 

Austurland reið á vaðið með samþættingu stoð-stofnana. Síðan hafa nokkrir landshlutar fylgt í kjölfarið. Enginn þeirra hefur þó gengið eins langt og Austurland. Þróunin virðist almennt stefna í sömu átt, að samþætta stoðþjónustu í landshlutunum. Enn á ný er Austurland frumkvöðull í breyttri stjórnskipan og útfærslu nýrra leiða er kemur að samvinnu sveitarfélaga. Með Austurbrú er kominn vettvangur fyrir sameiginlega stefnumótun og bein samskipti og samstarf landshluta við ríkisvaldið. Samstarf sem gæti leitt af sér aukin tilflutning verkefna og aukið frumkvæði og sjálfræði.  Aukið val og vald til þess að stýra eigin byggðamálum. 

Byggðamál

Við lítum svo á að byggðamál séu öll þau viðfangsefni sem hafi  áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta, s.s. búseta, atvinna og nýsköpun.  Að byggðamál snúi að eflingu samfélaga, félagsauðs, atvinnulífs, menntunar, menningar, velferðarmála, samgangna og fjarskipta. Hingað til og um all nokkurt skeið hefur Alþingi falið ríkisstjórninni að vinna byggðaáætlun til fjögurra ára í senn. Þá síðustu 2010-2013. Það verður því miður að segjast að framkvæmd þeirra 32 aðgerðaliða sem fram eru settir í síðustu byggðaáætlun hefur ekki verið nægilega markviss. Í greiningu forsætisráðuneytisins á áætluninni frá því 2011 kemur fram að áætlunin skorti tengingu við fjárlög, henni fylgi ekki aðgerðaáætlun, ekki séu skilgreindir mælikvarðar og samhæfingu hennar við aðrar megin stefnur og áætlanir hins opinbera sé ábótavant.  Úr þessu viljum við bæta.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar minnar segir:  „Unnið verður að samþættingu opinberra áætlana og gerð sérstakra landsáætlana í samvinnu við sveitarfélögin. Þannig verður hlutverk sveitarstjórna og heimamanna á hverjum stað aukið við forgangsröðun í héraði.“ Við ætlum okkur að fylgja vel eftir þeirri vinnu sem hafin er við að dreifstýra almannafé í gegnum áætlanir hvers landshluta.  Markmiðið er að færa aukin völd og ábyrgð til landshlutanna. Þannig má ná fram betri nýtingu fjármuna, einfalda stoðkerfi atvinnu og byggðaþróunar, ýta undir enn meira samráð innan hvers landshluta,  byggt á svæðisbundnum áherslum og færa ákvarðanatöku nær heimamönnum.  Ávinningur slíks vinnulags er margvíslegur, bæði fyrir sveitarfélög og ríki.

Einföldun

Samskipti ríkis og einstakra landshluta um verkefnafé og áherslur hafa hingað til verið bundin u.þ.b. 200 samningum  eða í nokkurs konar „skyndisamráði“ um sértækar aðgerðir. Með landshlutaáætlunum er gerð tilraun til þess að ráðstafa fjármagni til verkefna á grundvelli stefnumótunar og áætlanagerðar hvers landshluta þar sem landshlutasamtök sveitarfélaga eru ábyrgðaraðilar. 

Í stað fjölmargra samninga margra ráðuneyta við fjölmarga aðila í landshlutunum ætti markmiðið að vera ein fjárveiting komi til hvers landshluta byggð á sanngjarnri skiptareglu.  Samráðsvettvangur landshlutans, sem landshlutasamtökin halda utanum og kæmi í stað hinna ýmsu stjórna og nefnda í eldra skipulagi, mótar sóknaráætlun landshlutans sem forgangsraðar fjármagninu í verkefni og bætir jafnvel við verkefnin öðru fjármagni t.d. frá atvinnulífinu. Samningar eru svo gerðir á milli landshlutanna og fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem felur stýrineti Stjórnarráðsins að halda utan um útfærslu samningana og samskipti við landshluta. 

Í Stýrinetinu eiga sæti öll ráðuneyti og framkvæmdastjóri samtaka sveitarfélaga. Með því vinnur verkefnisstjóri frá Byggðastofnun. Með þessu fyrirkomulagi einföldum við kerfið auk þess sem samskipti ríkis og sveitarfélaga styrkjast, verða markvissari og byggjast á stefnumörkun og forgangsröðun landshlutanna sjálfra. 

Fyrstu landshlutaáætlanirnar voru fyrir árið 2013 og innan þeirra liggja nú verkefni upp á 630 milljónir króna. Í vinnu ráðuneytanna að undanförnu höfum við gert ráð fyrir áframhaldandi fjármögnun áætlananna með fyrirvara um samþykki Alþingis. Sú vinna sem hefur verið unnin í ráðuneytinu gerir ráð fyrir að það fjármagn sem nú rennur um vaxtarsamninga, menningarsamninga og samninga eða styrkja sem lúta að byggðaþróun í víðtækri merkingu, bætist auk þess við farveg áætlanagerðarinnar.  

Hugmyndin er að áætlanir landshlutanna verði nú aftur til eins árs en síðan taki við þriggja ára áætlun frá 2015-2017.  Ný byggðaáætlun mun svo byggjast á landshlutaáætlunum ásamt öðrum þáttum. Til þess að festa þetta vinnulag í sessi þarf að meta hvort gera þurfi lagabreytingar og endurskoða og efla hlutverk Byggðastofnunar og tengja stofnunina með markvissari hætti við stýrinet ráðuneytanna. 

Nú eru byggðamál samkvæmt forsetaúrskurði staðsett innan sjávarútvegs- og landbúnaðarhluta atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Þar munum við sameina og samræma utanumhald þessara mála. Eðli byggðamála er þó slík að þau koma við sögu í öllum ráðuneytum. Þess vegna er mikilvægt að Stjórnarráðið sé samhent í vinnu við málaflokkinn. Við ætlum að halda samráði allra ráðuneyta um byggðamál áfram og samhæfa aðkomu stjórnvalda í skrefum. Full mynd ætti að vera komin á þessa vinnu um og upp úr næstu áramótum.

Þessar skipulagsbreytingar munu eiga sér stað í skrefum en mér er ljóst mikilvægi þess að virkt og gott samtal sé um þær á milli stjórnsýslustiganna tveggja. Vettvangur byggðamála eins og ég hef lýst honum ætti að vera tilvalinn fyrir það samtal. Láréttur vettvangur innan Stjórnarráðsins með aðkomu sveitarfélaga.  Að mínu mati liggja þarna tækifæri til nýsköpunar og þróunar í samskiptum okkar.

Landið

Margt hefur breyst á síðastliðnum 20 árum.  Þróun síðustu ára hefur leitt af sér fækkun skipulagsheilda og aukna samhæfingu í þjónustu á sama tíma og þjónusta hefur færst í auknu mæli frá ríkisvaldinu til sveitarfélaga. Sveitarfélögum hefur á þessum 20 árum fækkað úr 202 í 74 og samvinna þeirra á vettvangi landshluta stóraukist.  Það er þó eitt grunnstef í umræðunni varðandi lífskjör og tækifæri á Íslandi sem virðist lítið breytast, illu heilli. Þ.e. landsbyggðin  „versus“ höfuðborgarsvæðið. Það er grunnstefið sem litað hefur stóran hluta stjórnmálaumræðu síðustu aldar og klofið þjóðina of oft bæði í hugsun og orði í „við“ og „þið“.  

Ég sé tækifæri í samvinnu en ekki aðskilnaði. Við verðum að komast upp úr þeirri tvípóla orðræðu sem einkennt hefur okkur svo lengi. Vissulega eru sjónarmið á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu oft grundvölluð á ólíkum hagsmunum og/eða ólíkri upplifun á veruleikanum. En við bara komumst svo miklu betur áfram ef við byrjum á því að skilgreina sameiginlega hagsmuni okkar og sameiginlegan veruleika.

Við erum ein þjóð í einu landi sem við höfum í gegnum tíðina skipt niður í landshluta, sýslur, sveitarfélög, hreppa og hverfi. Það er í eðli mannsins að greina sig frá öðrum, það er einnig í eðli mannsins að vinna saman að hagsmunum heildar.  Þann hluta manneðlisins þurfum við að virkja til hins ítrasta í þágu samfélagsins alls.

Ágætu gestir,
Það er fallegur dagur í dag og framtíð þessa lands er björt.  Ég veit að síðar í dag setjist þið niður og eigið umræður í hópum um hvernig þið metið samtímann og hvað framtíðin ber í skauti sér.  Þið viljið laða að fleiri íbúa;  fjölga ferðamönnum;  styrkja grunnstoðir atvinnulífsins; þið viljið hafa þjónustu hins opinbera eins góða og eins aðgengilega og hægt er. Ríkisstjórnin vill vinna að þessum markmiðum með ykkur. 

Ég hef í grófum dráttum farið yfir það fyrirkomulag sem við vonum að geti nýst til að við náum árangri saman og stefnu sem miðar að því að þið ákveðið hvernig verkefnafé er best varið. 

Ég veit að þeir fjármunir eru ekki miklir en engu að síður er það eins með þetta samtal eins og annað í lífinu að sé það ræktað af staðfestu og alúð yfir ákveðinn tíma þá vex það og dafnar og mun með tímanum bera ávöxt. – Að því stefnum við saman.

Ágætir gestir, ég óska ykkur farsælla aðalfundarstarfa.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum