Hoppa yfir valmynd
23. maí 2014 Forsætisráðuneytið

Opnun nýsköpunartorgs Samtaka iðnaðarins

Forsætisráðherra flytur ávarp við opnun nýsköpunartorgs Samtaka iðnaðarins
Forsætisráðherra flytur ávarp við opnun nýsköpunartorgs Samtaka iðnaðarins

Kæru vinir

Kærar þakkir fyrir að bjóða mér að ávarpa ykkur hér í dag og opna nýsköpunartorgið. Það er fallegur dagur. Þó að sólin skíni ekki í augnablikinu þá er vorið með sinni auknu birtu og gróanda komið og það hefur eflt með okkur lífsorkuna.  Á svona dögum fyllist maður krafti og vellíðan í stíganda nýs upphafs.  

Á þessu ári eiga Samtök Iðnaðarins 20 ára afmæli. Ég vil óska ykkur til hamingju. Samtök íslenskra líftæknifyrirtækja eiga einnig afmæli og eru 10 ára á þessu ári.  Tíu ár eru frá því samtök sprotafyrirtækja á Íslandi urðu til og Samtök leikjafyrirtækja á Íslandi eru 5 ára. Ég vil óska þessum aðilum öllum hjartanlega til hamingju með afmælið.

Það eru fleiri afmælisbörn sem ég vil minnast á því Tækniþróunarsjóður Íslands er 10 ára á þessu ári. Það var því einstaklega ánægulegt á þessu afmælisári sjóðsins að ríkisstjórnin samþykkti nú fyrr í vikunni að efla sjóðinn en hann er einn af samkeppnissjóðunum sem heyra undir Vísinda- og tækniráð.

Sú aðgerð var hluti af aðgerðaáætlun Vísinda og tækniráðs fyrir árin 2014 til 2016 sem hefur verið í vinnslu nú um all nokkurt skeið og var samþykkt á fundi ráðsins í gær.  

Samþykkt ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir því  að samkeppnissjóðirnir verði efldir um 800 milljónir króna  á næsta ári og stefnt að enn frekari aukningu 2016 með hliðsjón af fjárhagsstöðu ríkissjóðs eða um 2 milljarða króna. Á sama tíma er gert ráð fyrir, meðal annars með skattahvötum, að atvinnulífið auki hlut sinn í rannsóknar- og nýsköpunarstarfi. Markmiðið með þessum aðgerðum er að í heildina verði fjárfestingar til vísinda og nýsköpunar á Íslandi auknar úr áætluðum tæpum 2,7% af vergri þjóðarframleiðslu árið 2014 í 3% árið 2016.

Helstu markmið áætlunarinnar eru snúa að atvinnulífinu eru m.a.:

  • að nýta skattkerfið markvisst til að hvetja til fjárframlaga fyrirtækja og einstaklinga til vísinda og nýsköpunar,
  • að innleiða skattalega hvata til að auka fjárfestingu í nýsköpunarfyrirtækjum,
  • að skapa umhverfi fyrir virk viðskipti með hlutabréf í nýsköpunarfyrirtækjum,
  • að efla sókn í samkeppnissjóði og markaði á alþjólegum vettvangi,
  • að auka stuðning og ráðgjöf við nýsköpunarfyrirtæki sem stefna á alþjóðlegan markað,
  • að efla samstarf háskóla og atvinnulífs við grunn- og framhaldsskóla,
  • að fjölga útskrifuðum nemendum í raun-, tækni-, og iðngreinum,
  • að hvetja til aukinnar samvinnu háskóla, rannsóknarstofnana og fyrirtækja um rannsóknartengt framhaldsnám,
  • að styrkja fjármögnun doktorsnáms,
  • að endurskoða skipulag og umgjörð vísinda- og nýsköpunarkerfisins m.a. með því að setja ný rammalög um rannsóknastofnanir
  • að þróa heildstætt upplýsingakerfi um afrakstur vísinda- og  nýsköpunarstafs,
  • að meta gæði og afrasktur vísinda- og nýsköpunarstarfs í samræmi við alþjóðleg viðmið, 
    og
  • að bæta hagtölugerð um íslenskt atvinnulíf m.t.t. rannsókna, verðmætasköpunar, útflutnings og nýsköpunar.

Aðgerðaráætlun Vísinda- og tækniráðs er raunhæf og metnaðarfull og erum við í ríkisstjórninni afar ánægð með vinnuna, en þetta er í fyrsta skiptið sem slík aðgerðaáætlun er unnin á grundvelli stefnu Vísinda- og tækniráðs.

Hér í dag er að fara af stað tveggja daga nýsköpunartorg og afmælishátíð. Ætlunin er að beina kastljósinu að þeirri nýsköpun sem hefur átt sér stað í atvinnulífinu undanfarin. Ræða starfsumhverfið, verkefnin, áskoranirnar, árangurinn og framtíðina.  Um leið og ég set afmælishátiðina og segi nýsköpunartorgið sett þá vil ég þakka ykkur fyrir gott aðhald á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar og vonast eftir góðu samráði um framtíðina næstu þrjú árin.

Ég segi nýsköpunartorgið sett.

(talað orð gildir)

Forsætisráðherra kynnir sér nýsköpunartorgið

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum