Hoppa yfir valmynd
12. september 2014 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra í tilefni opnun sýningarinnar Hallgrímur Pétursson – 400 ára

Hallgrímur Pétursson
Hallgrímur Pétursson

Góðir gestir
Það er mér mikil ánægja og sannkallaður heiður að ávarpa ykkur við opnun þessarar veglegu sýningar til minningar um prestinn og skáldið Hallgrím Pétursson sem fæddist fyrir 400 árum norður á Höfðaströnd. Fáir ef nokkrir samtímamanna hans lifa jafn sterkt í minningu heillar þjóðar eins og hann hefur gert og mun vonandi gera um ókomna tíð.

Lífshlaup Hallgríms var í senn bæði einstakt og mótað almennum dráttum 17. aldarinnar. Lífsskilyrðin voru hörð og oft grimm og höfðu lítið þokast til betri vegar í margar aldir, ef ekki beinlínis til hins verra.  Basl og barnsmissir, barátta fyrir tækifærum til að sinna æðri menntun og listum, sjúkdómar svo hræðilegir og óviðráðanlegir að óttinn um lífið í brjóstinu var stöðugur förunautur.

Hallgrímur komst til hinnar einu raunverulegu valda- og menntamiðstöðvar Íslands sem þá var, Kaupmannahafnar, og naut í því ætternis og tengsla við máttarstólpa á Íslandi. Ævi hans mótaðist líka af atburðum sem ekki áttu sér hliðstæðu, Tyrkjaránunum, sem urðu örlagavaldur í lífi hans eins og við þekkjum öll.

Í gegnum kvonfang sitt og kynni af öðrum sem heimtust úr vistinni í Alsír opnuðust honum efalaust gluggar inn í aðra veröld og aðra siði, sem sjálfsagt hefur veitt honum innsæi um mannlegt eðli. Og þessi maður, sem vísbendingar eru um að hafi í æsku verið baldinn og höfðingjadjarfur og löngum nokkuð illrækur í hópi förunauta sinna, varð síðar tákn um innilega meðlíðan með píslum lausnarans og sanna auðmýkt andans frammi fyrir almættinu.

En það eru líka til samtímalýsingar þar sem minnst er á kerskni hans og létta lund og hann skildi einnig eftir sig veraldlegan kveðskap og ýmislegt sem seint getur talist hátíðlegt en minnir okkur á hið margbreytilega eðli mannsins.

Annar skáldmögur og bróðir í trúnni, séra Matthías Jochumsson, orti frægt minningarkvæði um Hallgrím þjóðhátíðarsumarið 1974 þegar tvö hundruð ár voru liðin frá láti hans. Það kvæði þekkja margar kynslóðir Íslendinga í gegnum Skólaljóðin gömlu en það byrjar svona:

Atburð sé ég anda mínum nær, aldir þó að liðnar séu tvær. Myndin sem þar er dregin upp af Hallgrími er af honum hlöðnum kaunum holdsveikinnar nálægt sínu eigin skapadægri, þar sem hann ákallar lausnarann sárlega og lýsir píslargöngu Krists í hinum ódauðlegu Passíusálmum.

Þjáningar hans sjálfs eiga sér samsvörun í pínu Krists. Og hversu margir áttu ekki eftir að finna í Passíusálmunum huggun við harmi, von í þraut og vængjaslátt andans hátt yfir jarðnesku amstri?  Og gera enn?

Síðasta erindið í þessum 18 erinda bálki er svona:

Trúarskáld, þér titrar helg og klökk  

tveggja alda gróin ástarþökk;

niðjar Íslands munu minnast þín

meðan sól á kaldan jökul skín!

Niðjar Íslands minnast enn skáldsins Hallgríms Péturssonar, fjórum öldum eftir fæðingu hans, og enn setur hann meiri svip en flestir aðrir á trúariðkun og trúarhefðir hér á landi. Minningin um líf hans viðheldur einnig innsýn okkar í kjör og aðstæður forfeðranna og það líf sem lifað var um aldir hér á Íslandi.

Skáldin hafa ort um hann, bækur og leikrit verið skrifuð, ein mesta kirkja Íslands helguð honum og fræðimenn hafa rannsakað líf hans, verk og arf. Svo mun áfram verða, ekki aðeins meðan sól á kaldan jökul skín, heldur einnig meðan skáld eru til með þjóð vorri, kirkjan boðar sitt erindi og manneskjan leitar huggunar.

Góðir gestir.
Ég vil þakka öllum sem hafa komið að gerð þessarar glæsilegu sýningar og hinnar fróðlegu sýningarskrár sem hér liggur frammi. Þið hafið eflaust haft vanda af þessu verki sem hefur verið leystur af prýði en líka veg sem ykkur er sómi að. Ég lýsi sýninguna opna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum