Hoppa yfir valmynd
28. október 2014 Forsætisráðuneytið

Ræða forsætisráðherra á þingi Norðurlandaráðs

Forseti,
Þegar við norrænir stjórnmálamenn komum saman á Norðurlandaráðsþingi vill það oft verða svo að umræðan beinist að framtíð norræns samstarfs. 

Þingdagarnir verða norrænum fjölmiðlum tilefni til að vera með vangaveltur um gildi samstarfsins. Þessi umfjöllun er sem betur fer oftast jákvæð, en stundum getur hún verið bæði neikvæð og óvægin. Því er haldið fram að norrænt samstarf skili litlu, það kosti of mikið, sé léttvægt í pólitískum skilningi og ekki í takt við tímann.  

Auðvitað á þessi umræða rétt á sér á hverjum tíma og ástæðulaust að kveinka sér undan henni. Sá veruleiki sem við okkur blasir í dag er sannanlega talsvert frábrugðinn þeim sem mótaði umgjörðina fyrir stofnun Norðurlandaráðs og síðar Norrænu ráðherranefndarinnar.

Í dag er alþjóðlegt samstarf mjög fjölbreytt og norrænu ríkin taka þátt í því af miklum krafti. Er þá nokkur ástæða fyrir okkur að halda áfram að vinna saman á norræna vísu þegar við erum á sama tíma að taka þátt í margvíslegu fjölþjóðlegu samstarfi þar sem sömu málefnin eru jafnvel á dagskrá? Það er ekki óeðlilegt að spyrja slíkra spurninga. 

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að norrænt samstarf sé ekki síður mikilvægt í byrjun 21. aldarinnar en þegar til þess var stofnað í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar. Svæðasamstarf af því tagi sem við eigum með okkur er einstakt og margir líta til þess sem fyrirmyndar – og það í auknum mæli.

Það mun aldrei breytast að við eigum okkur sameiginlega sögu og menningararfleifð. Skyldleiki Norðurlandaþjóða er mikill. Við deilum sömu gildum og hagsmunir okkar fara oftast saman. Við keppum gjarnan að sömu markmiðunum, einnig í alþjóðlegu samstarfi. 

Allt eru þetta undirstöður norræns samstarfs og nægja í sjálfu sér til þess að verja tilvist þess um ókomna tíð.

Forseti, 
Í framtíðinni þurfum við hins vegar að nýta hið norræna samstarf betur en nú er gert til þess að ná sameiginlegum markmiðum okkar. Samstarfið eigum við að nýta okkur í alþjóðlegri samkeppni með því að kynna Norðurlönd sem aðlaðandi markaðssvæði og þá sameiginlegu og jákvæðu ímynd sem hugtakið ,,Norden“ kallar fram í hugum fólks.  Norræna virðisaukann er víða að finna og beinlínis óskynsamlegt að láta hann liggja óhreyfðan. 

Aðferðin sem kennd er við Thorvald Stoltenberg og felst í því að skilgreina betur mögulega samstarfsfleti á afmörkuðum sviðum norræns samstarfs hefur þegar skilað árangri.

Enn er unnið samkvæmt tillögum Stoltenbergs um aukið samstarf í utanríkismálum og það er nú orðið nánara en margir töldu áður mögulegt. Má þar nefna vel heppnaða loftvarnaræfingu á Íslandi í febrúar síðastliðnum þar sem Noregur, Svíþjóð og Finnland sameinuðust um eftirlit með loftrými á Íslandi. 

Sömu aðferð var nýlega beitt þegar Bo Könberg tók fyrir samstarf á heilbrigðissviði og verður áhugavert að sjá hvernig tillögum hans verður fylgt eftir á næstu misserum. Ég teldi upplagt að beita þessari aðferð á fleiri samstarfssvið, til dæmis þegar kemur að stjórnsýsluhindrunum, en viðureignir við þær eru orðnar að föstum lið í norrænu samstarfi.

Forseti,
Formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni lýkur um næstu áramót þegar Danmörk tekur við keflinu. 

Það er sannarlega áskorun fyrir fámenna stjórnsýslu eins og þá íslensku að taka við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Verkefnið er krefjandi en um leið skemmtilegt og gefandi.

Undir formerkjum Íslands var farið af stað með mörg spennandi verkefni sem lýkur ekki þó Íslandi láti af formennsku, heldur eiga þau sér framhaldslíf að minnsta kosti næstu tvö árin. Metnaður okkar Íslendinga stendur að sjálfsögðu til þess að verkefnin verði sjálfbær og að þau verði áfram viðfangsefni norræns samstarfs. 

NordBio-verkefnið um þróun lífhagkerfis á Norðurlöndum er þar gott dæmi. Verkefnið tekur fyrir viðfangsefni sem öll ríki heims þurfa að takast á við í framtíðinni. Í því samhengi gefur norræna samstarfið okkur forskot og gullið tækifæri til að takast á við þær áskoranir í sameiningu - og virðisaukinn er augljós. 

Með verkefninu um Velferðarvaktina geta Norðurlöndin dregið sameiginlegan lærdóm af þeim efnahagskreppum sem löndin hafa þurft að takast á við og fundið leiðir til þess að bregðast hratt við þegar velferðarkerfinu er ógnað. 
Norræni spilunarlistinn er menningarverkefni sem hefur alla burði til þess að standa sjálft undir sér þegar norrænum stuðningi við það lýkur. Árangur verkefnisins hefur þegar farið fram úr okkar björtustu vonum, en markmið þess er að kynna norræna tónlist jafnt innan sem utan Norðurlanda og greiða fyrir útflutningi hennar. 

Forseti,
Áður en ég lýk máli mínu langar mig að nefna eitt þeirra verkefna sem Ísland beitti sér fyrir á árinu, en það var að boða til fundar norrænna ungmenna í Reykjavík í byrjun apríl. Þarna komu saman um eitthundrað ungmenni á aldrinum 16-20 ára til þess að ræða þróun norræns samstarfs og framtíð þess. 

Niðurstöður fundarins eru um margt athyglisverðar. Þær lýsa þroska og samfélagslegri meðvitund og gefa jafnframt til kynna mikla trú á og fylgi við norrænt samstarf. Aukið samstarf og sterkari tengsl milli Norðurlanda voru unga fólkinu hugleikin, sem og að styðja við það sem sameinar löndin, að efla kennslu í norrænum tungumálum og sögu Norðurlanda og að styrkja menningarlæsi milli landanna.

Sameiginlegt menntakerfi, skattkerfi og heilbrigðiskerfi lýsti framtíðarsýn fundar ungra Norðurlandabúa og gamall draumur um endurreisn Kalmarsambandsins skaut meira að segja upp kollinum í umræðu þeirra. 

Skilaboð unga fólksins voru skýrt ákall um kraftmikið norrænt samstarf í framtíðinni og eru gott veganesti þegar tekist er á við verkefni næstu ára. Framtíð norræns samstarfs í höndum komandi kynslóða er því björt.

Þakka ykkur fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum