Hoppa yfir valmynd
19. maí 2016 Forsætisráðuneytið

Mikilvægi heilsueflingar á íslenskum vinnumarkaði

Talað orð gildir.

Ágætu málþingsgestir.
Það er mér ánægja að ávarpa ykkur hér, á málþingi um mikilvægi heilsueflingar á íslenskum vinnumarkaði.

Eitt það mikilvægasta í lífi hvers manns er góð heilsa, líkamleg, andleg og félagsleg. Við þekkjum það Íslendingar að vinna langan vinnudag, lengri en margar aðrar þjóðir. Ef svefninn er frátalinn þá dveljum við flest lengur á vinnustaðnum, eða við vinnu en á nokkrum öðrum stað samanlagt. Þessi staðreynd vekur mann til umhugsunar um mikilvægi heilsueflingar á vinnustöðum.

Ætli það skipti máli að boðið sé upp á vatn og ávexti á áberandi stað á vinnustaðnum og á fundum - eða allt sé vaðandi í óhollustu? Jú, líklega er hollara að borða ávexti á milli reglulegra máltíða sem eru ríkir af vítamínum, en að skófla í sig sykurvörum sem oft eru án allra næringarefna.

Áríðandi er að á vinnustöðum sé stuðlað að hreyfingu starfsmanna með hvatningu, sveigjanleika og góðri aðstöðu. Keppikeflið ætti að vera að auka hreysti, bæta heilsu og þar með afköst.

Fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að lýðheilsa og forvarnastarf verði meðal forgangsverkefna. Með því móti er hægt að draga úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið. Til að vinna að þessu var sérstök ráðherranefnd um lýðheilsu stofnuð 2014 og geta allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar komið þar að borði. Lýðheilsunefnd, samráðshópur á forræði velferðarráðherra, vann drög að lýðheilsustefnu sem velferðarráðherra mun kynna í ráðherranefndinni innan tíðar.

Stofnun ráðherranefndarinnar hefur hlotið athygli út fyrir landssteinana. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO telur verkefnið til fyrirmyndar þar sem unnið er þvert á ráðuneyti, með víðtæku samstarfi sérfræðinga og hagsmunaaðila. Einnig að áhersla sé lögð á heilsu í allar stefnur og að sveitarfélög á Íslandi verði heilsueflandi samfélög.

Segja má að framkvæmd lýðheilsustefnunnar sé þegar hafin. En embætti landlæknis hefur um skeið unnið gott starf þar, meðal annars með heilsueflandi leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Heilsa í allar stefnur, á ábyrgð forsætisráðuneytis er meðal aðgerða í lýðheilsustefnunni og byggist á þeirri hugmyndafræði að við stefnumótun og aðra áætlanagerð stjórnvalda verði gætt að áhrifum á heilsu og líðan einstaklinga. Ekki er hugmyndin að finna upp hjólið því hægt er að líta til nágrannaþjóða okkar. Finnar hafa verið brautryðjendur í að innleiða heilsu í allar stefnur og Norðmenn hafa sett sér lög um lýðheilsu.

Hér á landi væri mikilvægt að draga úr heilsufarslegum ójöfnuði milli hópa í samfélaginu og stuðla að því að allir geti lifað heilbrigðu lífi og auka þannig starfsgetu og aðra færni fram á efri ár.

Eins og ég nefndi þurfa stjórnvöld í ríkara mæli að kynna sér með hvaða hætti hægt er að hafa áhrif, efla forvarnir og sporna gegn svo kölluðum lífsstílssjúkdómum. Í því sambandi er nú til skoðunar tilraunaverkefni í nokkrum sveitarfélögum sem nefnist: Fjölþætt heilsurækt – leið að farsælli öldrun. Verkefnið byggist á doktorsrannsókn sem sýnir að með fjölþættri þjálfun eldra fólks megi bæta heilsu þess og hreysti.

Þekking á heilsu og forvörnum fleygir fram og það skiptir máli að virkja sem flesta til þátttöku. Hver og einn þarf að bera ábyrgð á sinni heilsu, hreyfingu og mataræði, en aðstæður, ákvarðanir stjórnenda og fyrirmyndir á vinnustað skipta vafalítið einnig máli. Stjórnvöld og vinnumarkaðurinn þurfa því að hvetja til heilsueflingar þegar fólk er við störf.

Góðir gestir. Þrátt fyrir annasöm störf verðum við að gefa okkur tíma til að huga að heilsunni Við þurfum öll að setja hreyfinguna á dagskrá og venja okkur á að borða hollan og góðan mat.

Ég segi málþingið sett.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum