Hoppa yfir valmynd
20. október 2006 Forsætisráðuneytið

Ræða Geirs H. Haarde á aðalfundi LÍÚ

Ræða á landsfundi LÍÚ föstudaginn 20. október 2006


Nálægðin við hafið og auðlindir þess hefur alla tíð sett mjög mark á okkur Íslendinga. Við erum eyþjóð sem býr í mikilli nálægð við náttúruöflin, lengst af mjög háð sjávarfangi. Mörg þau grundvallargildi sem við innprentum unga fólkinu eiga rætur í sjómennsku, líkt og dugnaður, þrautseigja, hreysti, hjálpsemi og áræðni auk þess sem tungumálið markast mjög af líkingum og orðtökum tengdum sjónum.

Á þessu ári eru 30 ár liðin frá því efnahagslögsagan var færð út í 200 mílur. Sú aðgerð lagði grunninn að hagsæld okkar í dag og færði okkur aukið sjálfstraust sem forystuþjóð í sjávarútvegi. Segja má að efnahagslegt sjálfstæði Íslendinga hafi ekki unnist fyrr en með fullum yfirráðum yfir fiskimiðunum kringum landið hinn 1. júní 1976. Sú velmegun og þau lífsgæði, sem Íslendingar hafa notið undanfarna áratugi og búa enn við, urðu ekki til af sjálfu sér, heldur kostuðu þau staðfestu, þrautseigju og fórnir. Við stöndum í þakkarskuld við þá fjölmörgu sem lögðu lóð á vogarskálarnar í landhelgismálinu.

Hlutur sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum hefur að sönnu minnkað verulega á síðustu 30 árum, eða úr 14% árið 1976 í 6,8% árið 2005. Á sama tíma jókst hlutur fjármálaþjónustu og tengdrar þjónustu úr 3,8% í 7,6%. Þessi þróun endurspeglast í því að nú starfa færri við sjávarútveg en áður. Aðrar atvinnugreinar hafa vaxið hraðar og orðið meira áberandi. Tækifærin fyrir ungt fólk eru því mun fjölbreyttari en áður fyrr og færri sjá fyrir sér framtíð í sjávarútvegi í hefðbundnum skilningi en áður.

Sjávarútvegur er samt sem áður undirstöðuatvinnugrein hér á landi, um það er engum blöðum að fletta. Um 57% alls vöruútflutnings árið 2005 voru sjávarafurðir. Þetta hlutfall hefur sigið niður á við en er enn mjög hátt. En ekki má gleyma því að atvinnugreinin er orðin mun alþjóðlegri en áður. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og tengd fyrirtæki hasla sér í auknum mæli völl erlendis. Íslenskur sjávarútvegur er að mörgu leyti í forystu á heimsvísu að því er snertir markaðssetningu, vöruþróun, framleiðni og tækniþróun.

Það eru því mörg tækifæri í sjávarútvegi þótt ekki sé endilega verið að tala um hefðbundin störf á sjó eða við fiskvinnslu í landi. Ég get nefnt sem dæmi hvalaskoðun sem dafnar nú víða um land sem hluti ferðaþjónustu eða veitingahúsarekstur sem sérhæfir sig í matreiðslu sjávarfangs. Þótt hlutur sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum hafi minnkað, er ekkert sem bendir til að við munum ekki áfram skilgreina okkur sem sjávarútvegsþjóð þótt merkingin þróist í takt við tímann.

Meiri friður ríkir nú um fiskveiðistjórnarmálin en oft áður. Þær efnahagslegu aðstæður sem nú ríkja eru sjávarútveginum hagstæðar og gefa fyrirtækjunum færi á að eflast og bæta kjör þeirra sem í greininni starfa. Réttur okkar til sjálfbærrar auðlindanýtingar innan fiskveiðilögsögunnar er ótvíræður og frumkvæði íslenskra stjórnvalda í  baráttu gegn ólöglegum veiðum á nytjastofnum í nágrenni við Ísland hefur vakið athygli víða um heim og borið sýnilegan árangur.

Núverandi kvótakerfi hefur sannað gildi sitt. Það hefur leitt til bæði ábyrgrar og hagkvæmrar nýtingar auðlindarinnar. Með upptöku auðlindagjaldsins á sínum tíma var einnig séð til þess að útgerðarmenn greiddu rentu til þjóðarinnar fyrir afnot af auðlindinni. Brýnasta verkefnið er að treysta þá sátt sem er um núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Eyða þarf enn frekar óvissu um réttarstöðu útgerðarmanna, þannig að ljóst liggi fyrir að réttindi þau sem þeir nú kaupa á markaði muni ekki á einni nóttu verða af þeim tekin. Með þeim hætti skapast traustari rekstrarforsendur, útgerðirnar geta skipulagt rekstur sinn til lengri tíma. Jafnframt stuðlar slíkt að enn ábyrgari umgengni um auðlindina. Þótt stjórnvöld hafi hlutverki að gegna við stýringu þá er ábyrgð þeirra sem í greininni starfa ekki síður ljós. Nú þegar fiskveiðistjórnunarkerfið er komið í fastar skorður og stjórnvöld stýra veiðunum ekki lengur með handafli vex ábyrgð útgerðarmanna að hugsa til langs tíma þeim sjálfum og öllum landsmönnum til hagsbóta.

Stjórnvöld verða líka að vera vakandi fyrir því að draga úr ýmsum aukaverkunum kvótakerfisins. Í því felst að leita leiða til að aðrir atvinnumöguleikar skapist þar sem fiskveiðikvóti er ekki lengur fyrir hendi. Því má þó ekki gleyma að landið er í vaxandi mæli eitt atvinnusvæði. Þótt útgerð starfi í Reykjavík, getur áhöfnin komið frá öllum landshornum. Ég myndi líka vilja höfða til ábyrgðar útgerðarmanna sjálfra, sem ráða yfir kvótanum, að þeir leiti leiða til þess að dreifa starfseminni sem víðast um landið. Þannig munu þeir starfa í meiri sátt við almenning og byggðir landsins.

Umhverfismál fá nú aukið vægi á öllum sviðum. Ekki þarf að segja útgerðarmönnum neitt um það, þeir eiga jú manna mest undir því að hafið umhverfis landið mengist ekki og að vel sé gengið um fiskveiðiauðlindina. Stjórnvöld eru reiðubúin að gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að áfram verði litið á íslenskan sjávarútveg sem fyrirmynd um sjálfbæra nýtingu þar sem lífríki sjávar er varðveitt í samræmi við hagkvæma nýtingu. Við þurfum stöðugt að leita að bestu þekkingu um þetta efni til að geta brugðist við ef setja þarf reglur um veiðarfæri, verndaraðgerðir eða þess háttar. Alþjóðlegt samstarf er einnig mjög mikilvægt í þessu sambandi, ekki síst varðandi úthafið þar sem efnahagslögsögu ríkja sleppir. Nægir að minna á sögulegt samkomulag Íslendinga, Dana/Færeyinga og Norðmanna um skiptingu landgrunnsins í suðurhluta síldarsmugunnar sem undirritað var á dögunum.

Þótt tillit til umhverfisins sé Íslendingum í blóð borið hafa þeir jafnframt staðið vörð um rétt sinn til að nýta auðlindir hafsins. Ákvörðun sjávarútvegsráðherra sem kynnt var fyrr í vikunni um að leyfa á ný takmarkaðar hvalveiðar til viðbótar við áður ákveðnar vísindaveiðar er í samræmi við þetta. Leyft verður að veiða allt að 9 langreyðar og 30 hrefnur á yfirstandandi fiskveiðiári. Ástand beggja stofna er gott og deila vísindamenn ekki um það. Hugtakið sjálfbær nýting nær til allra sjávarlífvera og það myndi til lengdar raska nýtingarmöguleikum okkar í efnahagslögsögunni, m.a. hvað varðar hefðbundna nytjastofna, ef hvalir væru undanskildir.
Íslensk fyrirtæki í sjávarútvegsgeiranum hafa verið að hasla sér völl víða erlendis. Gjarnan er um það að ræða að við komum á framfæri tæknikunnáttu okkar við veiðar og vinnslu.  Þar eru miklir ónýttir möguleikar, ekki síst í Asíuríkjum. Má nefna í því sambandi að verið er að kanna möguleika á fríverslunarsamningi við Kína. Hér munu því bjóðast í auknum mæli áhugaverð störf fyrir ungt fólk sem vill spreyta sig á erlendri grund en nýta um leið það sem við Íslendingar kunnum best.

Samskipti Íslands og Evrópusambandsins á sviði sjávarútvegs eru afar mikilvæg enda er Evrópa langstærsti markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir. Þótt við Íslendingar eigum um margt samleið með nágrönnum okkar og frændþjóðum í Evrópusambandi skilur hafdjúp okkur þegar sjávarútvegurinn er nefndur. Hér á landi eru stuttar boðleiðir milli stjórnvalda og atvinnugreinarinnar sjálfrar. Innan ESB er kerfið flókið og ógagnsætt. Íslenskur sjávarútvegur er sjálfbær á meðan sjávarútvegur í Evrópusambandinu er styrktur um nálega 50 milljarða króna á ári hverju.


Góðir fundarmenn.

Sennilega er fátt í hagsögu Íslands tengt meiri órofa böndum en sjávarútvegur og gengi íslensku krónunnar. Þegar ég var að stíga mín fyrstu spor sem hagfræðingur í Seðlabankanum fyrir tæpum þrjátíu árum snerist hagstjórnin hér á landi nær eingöngu um fisk og afkomuna í sjávarútvegi, fiskverð, verðjöfnun o.s.frv. Þetta var á tímum óðaverðbólgu, vísitölubindingar launa og stöðugra gengisfellinga. Sjávarútvegurinn var okkar lifibrauð, um 70-80% af okkar útflutningstekjum mátti rekja til sölu sjávarafurða erlendis og það skipti því sköpum fyrir gangverk efnahagslífsins að tryggja afkomu sjávarútvegsfyrirtækja sem best með öllum tiltækum ráðum.

Gengi íslensku krónunnar var hér í lykilhlutverki. Á þessum tíma var mikill óstöðugleiki í íslensku efnahagslífi sem mátti að hluta rekja til einhæfs atvinnulífs þar sem staða þjóðarbúsins beinlínis stóð og féll með afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Meira máli skipti þó sú staðreynd að íslenska hagkerfið var að miklu leyti lokað og ákvarðanataka í miklum mæli miðstýrð. Verðmyndun á markaði var svo til óþekkt fyrirbæri þar sem allar veigamestu ákvarðanir um verðlag, t.d. fiskverð, voru teknar af eða með beinum atbeina stjórnvalda. Mörg af stærstu fyrirtækjum landsins voru í eigu ríkisins, þ.m.t. bankarnir, og þannig mætti lengi telja. Markaðnum var einfaldlega ekki treyst. Þannig var ástandið því miður allt of lengi.

Þessar aðstæður sköpuðu að sjálfsögðu óróa og óstöðugleika í íslensku efnahagslífi. Utanaðkomandi áföll eins og verðfall á íslenskum sjávarafurðum eða aflabrestur innanlands höfðu alvarlegar afleiðingar í hagkerfinu með því að stefna afkomu fyrirtækja og þar með starfsmanna í hættu. Stjórnvöld brugðust við þessu með því úrræði fyrst og fremst að fella gengi íslensku krónunnar sem leiddi til verðbólgu og kjararýrnunar og varð aftur til þess að launafólk krafðist trygginga í formi vísitölubindingar launa og verðlags. Það er augljóst að það gat enginn heilbrigður atvinnurekstur þrifist til lengdar við þessar aðstæður.

Það var án efa eitt mesta heillaspor í íslenskum efnahagsmálum þegar tókst að brjótast út úr þessari óheillavænlegu hringrás. Og afleiðingarnar blasa alls staðar við. Íslenskt efnahagslíf stendur nú í miklum blóma. Það mælist ekki síst á mælikvarða alþjóðasamfélagsins þar sem Ísland er yfirleitt í einu af efstu sætunum, hvort sem það varðar samkeppnishæfni, frelsi, gagnsæi í viðskiptaháttum, hagstætt viðskiptaumhverfi eða heilbrigt og óspillt efnahagsumhverfi svo nokkur dæmi séu nefnd.

Þennan árangur vil ég þakka ákvörðun stjórnvalda um að opna íslenskt hagkerfi fyrir alþjóðaviðskiptum, jafnt á sviði fjármálahreyfinga, vöru- og þjónustuviðskipta sem vinnuafls. EES samningurinn var vissulega mikilvægur þáttur í þessum breytingum, en gegn honum var grimmilega barist á sínum tíma, svo fáránlegt sem það kann að hljóma í dag aðeins 14 árum síðar.

Ég vil einnig þakka þennan árangur ákvörðun stjórnvalda um að nútímavæða íslenskt efnahagslíf með því að hverfa frá afskiptum ríkisins af atvinnustarfseminni í landinu og koma henni á hendur einkaaðila. Þar skiptir mestu máli rekstur banka og fjármálastofnana sem nú eru á hendi einkaaðila. Loks vil ég nefna miklar umbætur á skattkerfinu sem meðal annars hafa falist í stórfelldri lækkun skatta á fyrirtæki jafnt sem einstaklinga. Þessar skattalækkanir hafa ekki aðeins skilað sér í auknum kaupmætti heimilanna, meiri atvinnu og betri afkomu fyrirtækja, heldur einnig í betri afkomu ríkissjóðs vegna aukinna tekna og minni útgjalda, t.d. til atvinnuleysisbóta.

Það þarf engan hagfræðing til að taka eftir þeim jákvæðu breytingum sem hér hafa orðið á síðustu árum. Þannig hafa framkvæmdir verið miklar og mikill eldmóður verið í efnahagslífinu sem hefur skilað sér til almennings með stöðugri aukningu kaupmáttar allt tímabilið. Kaupmáttur ráðstöfunartekna almennings er nú um 60% meiri en hann var 1995. Slík þróun er einsdæmi, ekki aðeins í okkar hagsögu heldur einnig í alþjóðlegu samhengi. Sömu sögu er að segja af atvinnuleysisstiginu hér á landi sem mælist aðeins 1% þrátt fyrir mikinn innflutning vinnuafls síðustu misserin.

Auðvitað hefur tekið í undanfarin misseri, ekki síst vegna þeirra miklu breytinga sem urðu á íbúðalánamarkaðnum á kjörtímabilinu sem leiddu til þess að meira lánsfé var á boðstólum á hagstæðari kjörum en áður hafði þekkst. Þessi þróun hafði áhrif til hækkunar húsnæðisverðs og þar með á verðbólguna, eins og við mælum hana hér á landi.

Mér sýnist hins vegar allar spár nú benda til þess að verðbólgan verði komin niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans, 2,5%, fyrir mitt næsta ár. Jafnframt mun sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að lækka skattlagningu á matvælum umtalsvert á næsta ári ekki aðeins leiða til þess að matvælaverð verður komið á svipað stig og í okkar helstu nágrannalöndum heldur mun verðbólgan hjaðna mjög hratt á næsta ári og sumir ganga jafnvel svo langt að spá tímabundinni verðhjöðnun. Alla vega virðast verðbólguvæntingar hafa minnkað verulega í kjölfar þessarar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar.

Það sem skiptir þó mestu máli, ekki síst fyrir sjávarútveginn en einnig fyrir aðrar atvinnugreinar og heimilin í landinu, er að hér ríki stöðugleiki, bæði á sviði efnahagsmála og ekki síður á sviði stjórnmálanna. Hagsaga Íslands geymir því miður alltof mörg dæmi um óheppilegar afleiðingar ævintýramennsku á sviði stjórnmálanna.

Að svo mæltu vil ég þakka fyrir gott boð um að fá að ávarpa ykkur hér í dag um leið og ég óska ykkur áframhaldandi velgengni í mikilvægum störfum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum