Hoppa yfir valmynd
22. mars 2007 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra á ráðstefnu Öryrkjabandalagsins og Vinnumálastofnunar 22. mars 2007

Fundarstjóri, góðir gestir.

Mér er það sönn ánægja að setja þessa ráðstefnu Öryrkjabandalagsins og Vinnumálastofnunar hér í dag. Meginþema ráðstefnunnar er að fjalla um ný tækifæri öryrkja til atvinnuþátttöku. Á ráðstefnunni verða meðal annars kynntar tillögur nefndar á vegum forsætisráðherra um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar sem nýlega voru lagðar fram.

Ég fagna þessum tillögum og tel að þær marki tímamót. Framkvæmd þeirra mun gera öryrkjum kleift að gerast öflugir þátttakendur á vinnumarkaði án þess að eiga það á hættu að örorkubæturnar falli niður. Það er líka mjög mikilvægt að um tillögurnar varð full samstaða í nefndinni milli fulltrúa ríkisstjórnarinnar, Öryrkjabandalags Íslands, Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Samtaka atvinnulífsins og Landssambands lífeyrissjóða. Þetta tryggir vonandi víðtæka samstöðu um tillögurnar þegar þær koma til meðferðar Alþingis nú í haust.

Tillögurnar eru í meginatriðum tvíþættar. Annars vegar er lagt til að núgildandi örorkumat verði fellt niður og að í stað þess komi miklu sveigjanlegra mat sem taki fremur mið af starfsgetu einstaklingsins en örorku. Í þessu felst jafnframt að öryrkjar geti stundað vinnu án þess að eiga á hættu að missa allar bætur.

Hins vegar felst í tillögum nefndarinnar að starfsendurhæfing verði stórefld og skipulag hennar bætt þar sem meðal annars verði lögð áhersla á að saman fari læknisfræðileg endurhæfing og starfsendurhæfing eftir því sem við á og að hún hefjist eins fljótt og hægt er. Jafnframt verði gildandi reglur um tekjuskerðingu örorkubóta og greiðsluþátttöku vegna stoðþjónustu endurskoðaðar þannig að þær letji ekki frá vinnu.

Það leikur í mínum huga enginn vafi á því að þessar tillögur muni hafa víðtæk áhrif í okkar samfélagi. Þar skiptir mestu máli að þær munu bæta aðstöðu og kjör öryrkja svo um munar. Núgildandi tilhögun hefur virkað letjandi og beinlínis hamlað gegn því að einstaklingar sem verða fyrir því að missa vinnugetu sína tímabundið hafi getað snúið aftur út á vinnumarkaðinn. Þar kemur hvort tveggja til, lítt sveigjanlegt örorkumat og of mikil tekjutenging örorkubóta og skortur á viðunandi starfsendurhæfingu. Tillögurnar gera ráð fyrir að þessu fyrirkomulagi verði í grundvallaratriðum breytt.

Ég tel mikilvægt að tryggja framgang ofangreindra tillagna þannig að þær komi til framkvæmda í byrjun árs 2008. Ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt tillögur nefndarinnar og undirbúningur er hafinn að því að hrinda þeim í framkvæmd. Fyrsta skrefið er skipun sérstakrar framkvæmdanefndar sem er ætlað að fylgjast með og hafa eins konar yfirumsjón með þeim breytingum á lögum og reglugerðum sem tillögurnar leiða til. Í nefndinni sitja fulltrúar sömu aðila og áttu sæti í fyrri nefndinni og hún verður einnig undir forystu forsætisráðuneytisins.

Að svo mæltu segi ég þessa ráðstefnu setta og vona að þið eigið hér ánægjulegar stundir og gagnlegar umræður.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum