Hoppa yfir valmynd
17. júní 2007 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra, Geirs H. Haarde á Austurvelli 17. júní 2007

Góðir Íslendingar!

Ég færi landsmönnum öllum bestu óskir og kveðjur héðan af Austurvelli á þjóðhátíðardegi okkar, 17. júní. Hér við styttu Jóns Sigurðssonar forseta söfnumst við saman á þessum degi til að minnast þeirra sem hófu og háðu baráttuna fyrir þjóðfrelsi og til að fagna þeim árangri sem náðist. Merkustu áfangarnir voru endurreisn Alþingis 1845, stjórnarskrá fyrir Ísland 1874, heimastjórn 1904, fullveldi 1918 og loks lýðveldi 1944. Fyrstu tvo áfangana lifði Jón Sigurðsson og átti mikinn þátt í þeim sjálfur, heimastjórn og þingræði var svo síðar skýrt framhald stefnu hans og fullveldi Íslands markmiðið alla tíð.

Það er skylda okkar að halda í heiðri um ókomin ár minningu Jóns Sigurðssonar. Eftir fjögur ár verða tvær aldir liðnar frá fæðingu hans og þess vegna ríkt tilefni til hátíðahalda. Ég hef fyrr í dag gefið út skipunarbréf nefndar sem falið er að undirbúa 200 ára afmæli Jóns í samræmi við samhljóða ályktun Alþingis frá því í vor um það efni. Sólveig Pétursdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis, verður formaður nefndarinnar en hana skipa fulltrúar allra flokka auk Alþingis og Hrafnseyrarnefndar. Ég vænti mikils af störfum nefndarinnar og að markið verði sett hátt svo sem tilefni er til.

Góðir landsmenn!

Síðustu vikur hafa verið viðburðaríkar í íslenskum stjórnmálum. Alþingiskosningar fóru fram 12. maí sl. og í kjölfar þeirra var mynduð ný ríkisstjórn sem hefur óvenjulega sterkan meiri hluta að baki sér á Alþingi og meðal þjóðarinnar allrar. Stærri stjórnarflokkurinn á seinasta kjörtímabili, Sjálfstæðisflokkurinn, og langstærsti stjórnarandstöðuflokkurinn fyrir kosningar, Samfylkingin, hafa tekið höndum saman og bera nú ábyrgð á landsstjórninni. Það eru auðvitað tímamót. Átök milli þessara flokka á Alþingi hafa verið áberandi undanfarin ár, en við höfum borið gæfu til þess að slíðra sverðin og finna flöt til samstarfs næstu árin.

Hverri þjóð er mikilvægt að hún sé ekki þverklofin um mikilvægustu mál sín, heldur ríki sæmileg sátt milli flokka og manna. Eðlileg framþróun felur þó í sér að tekist er á, oft harkalega, en það er líka farsælt að slá annað veifið af kröfum og stefnumiðum, finna málamiðlanir og byggja upp góðan anda. Íslensk stjórnmálaumræða á það til að vera hvassari en í nágrannalöndum okkar, óþarflega hvöss að margra mati. Það væri mikil framför ef íslenskir stjórnmálamenn legðu minna upp úr stóru orðunum. Þau mega ekki vera búin að glata allri merkingu þegar á þeim þarf að halda. Og öll eigum við að byggja á því að öðrum, jafnt stjórnmálamönnum sem öðru fólki, gangi gott til og virða þannig sjónarmið hvers annars.

Engum, sem les stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, á að blandast hugur um hver meginstefnumálin eru. Það er annars vegar traust og ábyrg efnahagsstjórn sem skapar atvinnulífinu þannig rekstrar- og skattaumhverfi að hvetji til vaxtar og framþróunar, hins vegar félagslegar áherslur sem beinast að því að bæta hag barna, aldraðra og öryrkja og efla jafnrétti í þjóðfélaginu á sem flestum sviðum. Þjóðarbúskapur okkar stendur þannig, og mun standa þannig áfram ef haldið verður rétt á málum, að við höfum gott tækifæri til að leggja fé í félagsleg verkefni sem brýnt er orðið að bæta úr. Ríkisstjórnin hefur þegar stigið fyrstu skrefin með lögum og ályktunum nýafstaðins sumarþings í málefnum barna, aldraðra og öryrkja.

En ég vil við þetta tækifæri leggja sérstaka áherslu á það markmið ríkisstjórnarinnar að koma menntakerfi þjóðarinnar í fremstu röð. Mennt er máttur, bæði fyrir hvern einstakling og samfélagið í heild. Á þessu sviði eru verkefni mörg og sum fjárfrek, bæði í kennslu og ekki síður í rannsóknum. Án efa er fjárfesting í menntakerfinu einhver sú arðbærasta sem um getur þótt arðurinn sé ekki greiddur út á hluthafafundi ár hvert. En góð menntun treystir undirstöður samfélagsins, myndar grundvöll jafnréttis og félagsþroska meðal ungs fólks og skilar okkur sterkara atvinnulífi, traustari félagslegri þjónustu og fjölbreyttari menningu þegar stundir líða fram. Á því sviði höfum við ekki efni á að spara.

Stjórnvöld hafa að undanförnu lagt mikla áherslu á gildi menntunar til að efla þekkingu, rannsóknir og nýsköpun. Þannig hefur framlag ríkisins til háskólastarfsemi og vísindarannsókna nær tvöfaldast að raungildi á síðustu 10 árum. Við eigum að byggja upp mennta- og vísindakerfi sem er í fremstu röð meðal þjóða, starfar í nánum tengslum við atvinnulíf og getur brugðist við hraðfara breytingum og leitt þær. Við eigum og viljum byggja öflugar brýr milli vísindanna og atvinnulífsins og milli vísindanna og stjórnvalda sem þurfa í vaxandi mæli að byggja ákvarðanir sínar á vísindalegri þekkingu. Opinberir samkeppnissjóðir gegna hér lykilhlutverki og vilji stjórnvalda stendur til þess að auka verulega fjármagn til þeirra og hvetja þannig íslenska vísindamenn, stofnanir og fyrirtæki til að standa saman að metnaðarfullum umsóknum um vísinda- og nýsköpunarstyrki á alþjóðlegum vettvangi.

Ríkisstjórnin hefur einnig sett sér það markmið að vinna að víðtækri sátt í samfélaginu um aðgerðir á sviði efnahags- og félagsmála, um náttúruvernd og auðlindanýtingu og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Þetta eru metnaðarfull markmið en við höfum allar forsendur til þess að ná þeim.

Við höfum að undanförnu búið við mjög hagstæð efnahagsleg skilyrði. Hagvöxtur hefur verið mikill og hann hefur skilað sér í auknum kaupmætti heimilanna, sterkri stöðu atvinnulífsins og traustri afkomu ríkissjóðs sem nú er orðinn nánast skuldlaus. Þessi árangur hefur skilað Íslandi í hóp þeirra þjóða sem búa við hvað best lífskjör og mesta samkeppnishæfni atvinnulífsins.

Ein helsta skýringin á þessum árangri er sú að við höfum borið gæfu til að nýta þau tækifæri sem aukin alþjóðavæðing og vaxandi samskipti milli þjóða heims hafa skapað til þess að treysta undirstöður atvinnulífsins og gera þær fjölbreyttari en áður. Það eru gömul sannindi og ný að góður búmaður geymir ekki öll eggin í sömu körfunni.

Góðir tilheyrendur!

Eitt mikilvægasta úrlausnarefni dagsins er vandinn í sjávarútvegi. Eins og flestum er kunnugt kynnti Hafrannsóknastofnun fyrir skömmu skýrslu sína um ástand nytjastofna við landið og gerði tillögur um veiði úr þeim á næsta fiskveiðiári. Ég býst við að flestum hafi brugðið við mat og ráð vísindamannanna.

Á undanförnum árum hefur orðið gífurleg hagræðing í sjávarútvegi og afkoma fyrirtækja almennt batnað. Deilur rísa hins vegar reglulega um skipulag fiskveiða hér við land. Ég skal ekki gera lítið úr gagnrýni á kvótakerfið en menn mega heldur ekki gleyma kostum þess né líta fram hjá þeim miklu framförum sem orðið hafa í rekstri sjávarútvegsins undanfarna tvo áratugi. Vísindamennirnir segja að við höfum veitt of mikið úr sjónum. Samt sem áður er háværasta gagnrýnin á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi að menn fái ekki að veiða meira og meira. Engar líkur eru á því að annað kerfi fiskveiða hefði takmarkað veiðarnar meira en það sem við búum við. En við skulum hins vegar ekki loka augunum fyrir því að kvótakerfið er ekki fullkomið fremur en önnur mannanna verk, og það má ugglaust bæta á margan hátt. Mörg byggðarlög á landsbyggðinni eiga í erfiðleikum og af þeim ástæðum segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að huga skuli sérstaklega að áhrifum þess á þróun byggðar í landinu. Það er skylda ríkisvaldsins að koma þeim byggðarlögum til hjálpar þar sem grundvöllur atvinnustarfsemi og samfélags brestur, hvort sem það er í sjávarútvegi eða öðrum greinum.

Ríkisstjórnin stendur einhuga að baki sjávarútvegsráðherra í því að ákvörðun um kvóta næsta árs verði tekin að vandlega athuguðu máli, að fyrir liggi allar hliðar málsins áður en ákvörðun er tekin, ekki einvörðungu hin fiskifræðilega, að leitað verði samstöðu sem flestra um niðurstöðu og jafnframt litið sérstaklega til þeirra byggðarlaga sem verst standa. Hverjum manni er það ljóst að þjóðin er nú betur í stakk búin til að takast á við áföll á þessu sviði en oftast áður. Nú er meiri viðspyrna og við höfum betri efni á að líta til lengri tíma og taka á okkur byrðar sem létt gætu róðurinn síðar. Það eru hyggindi sem í hag koma.

Góðir landsmenn!

Sú ríkisstjórn, sem nú hefur verið mynduð, er kennd við Þingvelli. Þar fóru fram viðræður forustumanna flokkanna og þar var stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar kynnt, í bústað forsætisráðherra við Öxará. Það voru bjartir og fagrir dagir og gott að vinna þar að mikilvægum málum í ?hjarta Fróns? eins og staðurinn hefur verið kallaður. Á vegum forsætisráðuneytis og Þingvallanefndar hefur á undanförnum misserum verið unnið að framtíðaruppbyggingu hins forna þingstaðar og þjóðgarðsins alls. Ég tel ákaflega mikilvægt að vel takist til svo að Þingvellir styrkist í vitund þjóðarinnar sem þýðingarmesti samkomustaður hennar.

?Hátt á eldhrauni upp

þar sem enn þá Öxará rennur

ofan í Almannagjá,

alþingið feðranna stóð.?

Þannig yrkir Jónas Hallgrímsson og orð hans eru svo haganleg að þau brenna sig í vitund hvers Íslendings. Það er við hæfi að undirbúin hafa verið víðtæk hátíðahöld hér á landi og í Kaupmannahöfn á þessu ári þar sem ævi, skáldskap og vísindastarfi Jónasar verða gerð tilhlýðileg skil með hápunkti á afmælisdegi skáldsins 16. nóvember nk. þegar 200 ár verða liðin frá fæðingu hans.

Að undanförnu hafa einnig verið rifjuð upp sjónarmið séra Tómasar Sæmundssonar prests á Breiðabólstað, samherja Jónasar í Fjölnishópnum. Þeir Jónas voru jafnaldrar, en Tómas dó langt um aldur fram árið 1841. Hann var eldhugi, ?gimsteinn að manndómi og mannkostum? eins og ort var um hann í erfiljóði. Draumsýn séra Tómasar um endurreisn Alþingis á Þingvöllum rættist ekki. Þar munaði mestu um atbeina Jóns Sigurðssonar sem sá lengra og bjó yfir meira raunsæi en Fjölnismenn. Þess vegna stendur Alþingishúsið hér fyrir framan okkur á Austurvelli, í hjarta höfuðborgarinnar. Það reyndist heilladrjúgt. Vel færi hins vegar á því að Alþingi ætti stað á Þingvöllum fyrir mikilvægustu fundi sína, til þess í senn að leggja áherslu á þýðingarmestu málin og til þess að viðhalda lifandi sögulegum tengslum.

Góðir Íslendingar.

Velsæld þjóða ræðst fyrst og fremst af getu þeirra til að líta fram á veg, koma auga á tækifærin og nýta þekkingu með skipulegum hætti. Þar skiptir máli samvinna atvinnulífs, vísindamanna, háskóla, stofnana og stjórnvalda og að verkefni morgundagsins geri kröfur sem reyna á og styrkja færni vísindanna og samtímis séu á ferðinni tækifæri sem atvinnulífið leggur áherslu á að nýta.

Þannig stefnum við bæði til hagsældar og farsældar í víðum skilningi þeirra orða þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Sömuleiðis höldum við til haga og virðum boðskap Jóns Sigurðssonar um mikilvægi menntunar og viðskiptafrelsis og síðast, en ekki síst, um íslenska þjóð í frjálsu landi.

?Hvur sem vinnur landi? og lýð,

treysta skal að öll hans iðja,

allt hið góða nái styðja

þess fyrir hönd, er hóf hann stríð.?

Með þessum orðum Jónasar um Tómas Sæmundsson færi ég öllum landsmönnum óskir um gleðilega þjóðhátíð.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum