Hoppa yfir valmynd
31. október 2007 Forsætisráðuneytið

Ræða forsætisráðherra á 59. þingi Norðurlandaráðs

Ræða Geirs H. Haarde forsætisráðherra í þemaumræðum um loftlagsbreytingar á 59. þingi Norðurlandaráðs, 30. október 2007


Forseti,

Loftslagsbreytingar eru eitt helsta viðfangsefni heimsbyggðarinnar á 21. öldinni. Ríki heims verða að vinna saman og hvert fyrir sig að því að draga úr styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu og efla loftslagsvæna tækni. Loftslagssamningur S.þ. er rétti vettvangurinn fyrir ríki heims að vinna saman að þessu markmiði. Ísland vonast eins og flest ríki til þess að aðildarríkin fái umboð á komandi ráðstefnu um Loftslagssamninginn nú í desember á Balí fyrir víðtækum viðræðum um nýtt samkomulag sem taki við eftir að fyrsta skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar lýkur árið 2012.

Það er af hinu góða að rætt sé um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum sem víðast, þ.á m. í Norðurlandaráði, en það er mikilvægt að það sé á grunni alþjóðlegs samkomulags, sem nái til allra ríkja. Hnattvæðingin hefur í för með sér að iðnaður og fyrirtæki líta í vaxandi mæli á heiminn allan sem starfssvæði sitt og geta fært starfsemi sína á milli ríkja þangað sem skilyrði eru best. Það er eðlilegt að þróuðu ríkin gangi á undan í viðleitni við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en það er líka nauðsynlegt að Bandaríkin, Kína og önnur iðnaðarstórveldi taki virkan þátt. Hinar hnattrænu reglur eiga að stuðla að því að draga úr losun á heimsvísu, en mega ekki verða til þess að hvetja iðnað að færa sig til ríkja þar sem litlar hömlur eru á losun.

Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt stefnumörkun þar sem stefnt er að því að minnka nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 50-75% til 2050. Það er að mörgu leyti erfitt að draga hratt úr losun á Íslandi, þar sem endurnýjanlegir orkugjafir sjá nú þegar fyrir allri rafmagnsframleiðslu og húshitun. Þess vegna höfum við takmarkaða möguleika á að draga úr losun á þeim sviðum sem eru hvað mikilvægust öðrum löndum. Ísland er skoða leiðir til að draga úr losun frá samgöngum og fiskiskipaflotanum. Þar stefnum við að því að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi innan fáeinna áratuga og vera í fremstu röð við innleiðingu á loftslagsvænni tækni. Losun frá stóriðju, einkum álframleiðslu, er stór þáttur í losun frá Íslandi. Losunin á hvert tonn af áli er þó innan við helmingur af meðaltali á heimsvísu og líklega sú minnsta í heiminum. Til lengri tíma vonumst við eftir að ný tækni skili enn betri árangri, þannig að fyrir 2050 verði hægt að framleiða ál á Íslandi með óverulegri losun gróðurhúsalofttegunda. Á Íslandi var nýlega hleypt af stokkunum tilraunaverkefni, hinu fyrsta á sínu sviði í heiminum, sem felst í því að þétta koldíoxíð í vökva og dæla í berglög, þar sem það fellur út sem steintegundir.

Í loftslagsstefnu Íslands segir að Ísland geti líklega hvergi lagt meira af mörkum í loftslagsmálum, en með útflutningi á tækni og þekkingu, ekki síst á sviði jarðhitanýtingar. Ísland hefur í mörg ár rekið jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, þar sem nemendur frá þróunarríkjum og fyrrum Sovétríkjum afla sér þekkingar á því sviði til uppbyggingar heima fyrir.

Forseti,

Staða Norðurlanda á sviði endurnýjanlegrar orku og loftslagsvænnar tækni er ákaflega góð. Svíar og Finnar eru framarlega í framleiðslu á lífrænu eldsneyti, Danir leiðandi á sviði vindorku, Íslendingar í jarðvarma, Norðmenn brautryðjendur í niðurdælingu koldíoxíðs – það má auðvitað tína fleira til. Það er vissulega ástæða til að vekja athygli umheimsins á þessu, því heimsbyggðin þarf ekki eingöngu nýtt samkomulag um loftslagsmál, heldur ekki síður praktískar lausnir á vandanum.

Og það er einmitt hér sem Norðurlönd eiga að koma sterk inn, ekki bara hvert um sig heldur einnig sameiginlega. Þess vegna er hnattvæðingaráherslan svo mikilvæg. þar eru andrúmsloftið, orkan og umhverfið sett í forgang og megin áherslan á norrænt samstarf bæði heima og á alþjóðvettvangi.

Norðurlönd starfa á tvennum vettvangi innan loftslagssamningsins, í ESB og innan svokallaðs “regnhlífarhóps” sem Ísland og Noregur tilheyra. Ég held að þetta sé styrkur vegna þess að samvinna Norðurlanda nýtist til þess að byggja brýr í samningaferlinu. Norðurlönd eru í grundvallaratriðum samstíga í loftslagsmálum, við erum sammála um nauðsyn nýs hnattræns samkomulags eftir 2012. Við höfum margvíslega og uppbyggilega samvinnu sem við verðum að halda áfram að rækta og efla, svo við getum tekið þátt í að þoka viðræðum í rétta átt og vonandi náð nýju samkomulagi í Kaupmannahöfn 2009.

Forseti,

Ég vil að lokum taka undir orð Ole Danbolt Mjøs, formanns norsku Nóbelnefndarinnar sem hann lét falla við afhendingu friðarverðlaunanna í ár um að allur heimurinn verði að gera allt sem í hans valdi stendur til að stemma stigu við hlýnun jarðar. Það þarf að grípa í taumana strax, áður en loftslagsbreytingarnar komast á algerlega stjórnlaust stig.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum