Hoppa yfir valmynd
31. desember 2010 Forsætisráðuneytið

Áramótaávarp forsætisráðherra 2010

Áramótaávarp Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra 31. desember 2010
Áramótaávarp Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra 31. desember 2010
Kæru landsmenn.

Árið sem nú er að líða verður okkur lengi minnisstætt fyrir margra hluta sakir. Það verður skráð á spjöld sögunnar – ekki síst fyrir þá þrautseigju sem þjóðin sýndi þegar hún leysti flókin viðfangsefni og fyrir þann árangur sem við höfum náð – sameiginlega – við erfiðar aðstæður.

Á þessum degi fyrir einu ári hvatti ég til þess að við gerðum árið 2010 að ári uppgjörs, réttlætis og sátta og ég tel að okkur hafi auðnast að stíga slík skref á árinu.

Við gerðum það með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og við gerðum það með skýrslu þingmannanefndarinnar og á vettvangi stjórnmálanna og víðar í samfélaginu. Í auknum mæli hefur okkur tekist að fjalla um erfið úrlausnarefni af yfirvegun og jafnvægi og í nokkrum verkefnum hefur okkur tekist að sameinast, þvert á flokka eða hagsmunahópa. Íslendingar eru búnir að fá nóg af flokkspólitísku karpi og eiga skilið að við stjórnmálamenn breytum vinnubrögðum okkar.

Það er von mín að árið, sem nú er að líða, verði árið sem við drógum lærdóm af erfiðri reynslu. Það er von mín og trú að það tímabil sem nú er senn að baki hafi þroskað okkur bæði sem einstaklinga og sem þjóð.

Margt bendir til þess að þeir erfiðleikar og  þau áföll, sem við höfum gengið í gegnum, styrki samfélag okkar til lengri tíma litið – það verði heilsteyptara og þroskaðra og að sjálfsmynd okkar sem þjóðar eflist. Það sama gildir um þjóðfélög og einstaklinga sem lenda í brimróti erfiðleika. Þeir sem takast á við mótlætið af reisn, staðráðnir í að sigra, standa sterkari á eftir. -  Menn læra að endurmeta gildin í lífinu, greina kjarnann frá hisminu og forgangsraða í samræmi við lífsviðhorf sín.

Árið 2010 var að ýmsu leyti sérstakt. Á Íslandi rumskuðu náttúruöflin þannig að áhrifanna varð vart víða um heimsbyggðina. Þrátt fyrir mikið öskufall, truflanir á flugumferð og þær erfiðu aðstæður sem sköpuðust í nágrenni við Eyjafallajökul fór þó betur en útlit var fyrir.

Umbrotin leystu úr læðingi djörfung, dug og samtakamátt sem við getum svo sannarlega verið stolt af. Ýmsar aðgerðir okkar og viðbrögð þjóðarinnar hafa hlotið lof á alþjóðlegum vettvangi. -  Í mínum huga skiptir þó mestu hvaða styrk við sýndum hér innanlands og hverju samtakamáttur þjóðarinnar fékk áorkað. Nú virðist aftur hafa færst kyrrð yfir náttúruöflin. Kyrrð sem við kunnum enn betur að meta eftir að hafa verið minnt illþyrmilega á þann óbeislaða kraft sem ólgar í iðrum jarðar.

Góðir landsmenn.
Við höfum rökstudda ástæðu til að ætla að nú séu bjartari tímar framundan. Við vissum að það tæki langan tíma að vinna úr afleiðingum hins mikla efnahagshruns. Við höfum þurft að kljást við þessar afleiðingar, oft úr þröngri stöðu,  - en nú sjást loks jákvæð teikn um bata og um að mikill árangur hafi náðst. Og ég fullyrði að framundan séu ár uppbyggingar og vaxtar.

Þennan árangur hefur þjóðin öll skapað með þrautseigju og stöðugri baráttu. Sannarlega ekki átakalaust, né heldur hafa menn verið einhuga um hvernig leysa skyldi úr málum. En öll höfum við þó talið okkur vera að vinna þjóðinni gagn, landinu okkar og fólkinu sem hér býr. Fyrir það er full ástæða til að þakka nú í lok árs.

Við skulum þakka þeim stóra hópi fólks sem hefur tekið virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni og krafist breytinga, aðgerða og réttlætis. Stjórnmálaumræðan hefur öðlast nýjan kraft. -  Fyrir tilstyrk þessa fólks eru hugmyndir okkar um samfélagið að breytast og nýtt og betra Ísland að verða til.

Okkur ber að þakka launafólki fyrir þolinmæði og þrautseigju. Þrátt fyrir mikla og óhjákvæmilega kjaraskerðingu vegna hrunsins hefur þetta fólk haldið hjólum atvinnulífs og opinberrar þjónustu gangandi.

Þetta er alls ekki sjálfsagt, eins og við sjáum víða í kringum okkur þar sem verkföll og mótmæli lama heilu samfélögin sem þurfa síst á slíku að halda.

Ég er jafnframt þakklát þeim öfluga hópi stjórnenda og eigenda fyrirtækja sem hefur haldið sjó og jafnvel ráðist í fjárfestingar og framkvæmdir þrátt fyrir óvissu og erfiðleika. Það skiptir miklu máli fyrir samfélagið í heild.

Ég vil sérstaklega nefna hér ferðaþjónustuna sem hefur, til viðbótar við afleiðingar hrunsins, tekist á við afleiðingar eldgossins í Eyjafjallajökli. Með samstilltu átaki ferðaþjónustuaðila og þjóðarinnar allrar tókst hins vegar að snúa vörn í sókn. Þrátt fyrir þetta högg stendur greinin sterkari nú en í upphafi árs.

Við þurfum á slíkri samstöðu og áræðni að halda á fleiri sviðum atvinnulífsins.

Góðir landsmenn.
Velferð almennings er einn af mikilvægustu þáttum hvers samfélags, ekki síst velferð barna.

Rannsóknir hafa sýnt að börn og ungmenni líða oft með afar ósanngjörnum hætti þegar kreppa skellur á. Af því þurfum við að læra. Þakka ber kennurum, foreldrum og öllum þeim sem standa vörð um hagsmuni þeirra á þessum erfiðu tímum.
Það hefur oft verið afar þungbært að horfa upp á alvarlegar afleiðingar hrunsins á ýmsum sviðum samfélagsins. Við höfum reynt eftir mætti að verja grunngildi velferðarsamfélagsins.

Langflestir eða allir búa þó við lakari kjör en áður og stórir hópar láglaunafólks, lífeyrisþega og þeirra sem misst hafa vinnuna þreyja þorrann og góuna af miklu æðruleysi.

Enda þótt margt hafi verið gert til að verja stöðu þessara hópa blasir við að þegar úr rætist ber okkur sem samfélagi að setja kjarabætur til þessara hópa í forgang. Það er afar mikilvægt að standa vörð um jafnræði og jöfn tækifæri fyrir alla nú þegar birtir á ný - og slík gildi vil ég standa vörð um.

Góðir Íslendingar
Í samtölum mínum við erlenda þjóðarleiðtoga – bæði á Norðurlöndum, innan Evrópusambandsins, í Bandaríkjunum og víðar – sem og í samræðum við erlenda sérfræðinga í efnahagsmálum – hef ég ítrekað verið minnt á að víða er fylgst með endurreisnarferli Íslands.

Við erum að endurvinna traust og virðingu með þeim góða árangri sem við blasir í endurreisninni. Og af þeim verkum verðum við ekki síður dæmd í framtíðinni en af hruninu sjálfu.

Í alþjóðlegum samanburði getum við líka verið mjög stolt af stöðu Íslands á fjölmörgum mikilvægum sviðum. Við erum í efstu sætum í alþjóðlega viðurkenndum samanburði á sviði nýsköpunar, jafnréttis-, lýðræðis- og umhverfismála. Einnig að því er varðar hreinleika, aðgang að ferskvatni, heilsusamlegt umverfi og aðbúnað mæðra. Allt eru þetta afar dýrmætir þættir sem skapa forsendur fyrir almenna velferð og jöfnuð hér á landi.

Við höfum hins vegar fallið niður í alþjóðlegum samanburði að því er varðar velmegun og lífskjör. En það eru þættir sem við höfum nú í hendi okkar að laga á komandi árum.

Ég er sannfærð um að við getum verið bjartsýn á komandi tíð. Og umfram allt getum við, og eigum, að vera jákvæð gagnvart framtíðarmöguleikum okkar og tækifærum. Okkur Íslendingum eru allir vegir færir ef við einsetjum okkur að horfa fram á veginn með jákvæðni að leiðarljósi. Sú orka sem býr í jákvæðu hugarfari getur gert kraftaverk.

Við skulum leysa úr læðingi þann mikla samtakamátt sem í þjóðinni býr og beina honum í jákvæðan farveg uppbyggingar, framkvæmda, sköpunar og þróunar.

Við þurfum að nýta öll sóknarfæri til að drífa áfram hjól atvinnulífsins og auka hér atvinnu, kaupmátt og hagvöxt. Forsenda þessa er ekki síst sú að okkur lánist á nýju ári að skapa áframhaldandi frið á vinnumarkaði. Það verður ein af stóru áskorunum komandi árs.

Ágætu landsmenn, nær og fjær.
Á næsta ári verður þess minnst með margvíslegum hætti að 200 ár eru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar. Við minnumst hans fyrir þrautseigju og þor og við minnumst framlags hans í þjóðfrelsisbaráttunni.

Háskóli Íslands, sem tók til starfa á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, fagnar því einnig tímamótum á næsta ári og það er von mín og trú að á þessu afmælisári muni okkur auðnast að styðja við vaxtarsprota nýsköpunar og skapandi greina um leið og við stöndum vörð um auðlindir okkar og hefðbundna atvinnuvegi og byggjum hér upp störf á sviði grænnar orku.

Það er jafnframt afar vel við hæfi að stjórnlagaþing og smíði nýrrar stjórnarskrár beri upp á þetta mikla tímamótaár. Það ber vott um pólitískan þrótt og þroska Íslendinga að þjóðin skuli nú undirbúa gerð nýrrar stjórnarskrár.

Á stjórnlagaþinginu verða tekin fyrir stórmál sem varðað geta veg okkar um ókomna tíð: Sameign þjóðarinnar á auðlindum, framtíð forsetaembættisins, þingræðisins og þjóðkirkjunnar og þróun lýðræðis í landinu, svo eitthvað sé nefnt.

Á nýju ári þurfum við einnig að leiða til lykta áratuga deilur um auðlindamál. Við þurfum að ná sátt um nýjan grunn að sjálfbærri og sanngjarnri stefnu varðandi dýrmætustu auðlindir þjóðarinnar, meðal annars um fiskveiðistjórnunarkerfið. Auðlindir sjávar, orkan í iðrum jarðar og þau verðmæti sem fólgin eru í vatninu, jafnt heitu sem köldu eiga að vera sameign þjóðarinnar og þannig þarf að ganga frá málum að arðurinn renni með sanngjarnari hætti en verið hefur til allra Íslendinga.

Kæru landsmenn.
Gerum árið 2011 að tíma uppbyggingar og uppskeru. Gerum það að árinu þegar við sögðum skilið við kreppuna með áþreifanlegum hætti og hagur þjóðarinnar hóf að vænkast á ný. Látum þetta verða árið þegar farsælu samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðin lauk og full sátt náðist við alþjóðasamfélagið á ný. Árið þegar við byrjum að uppskera aukna sátt, samstöðu og bjartsýni í samfélaginu eftir umrót og umbætur undanfarinna tveggja ára.

Það er einlæg von mín að þegar líða tekur á árið 2011 getum við öll horft til baka, nokkuð hnarreist og stolt, sannfærð um að við höfum unnið vel úr þeim gífurlega erfiðu verkefnum sem efnahagshrunið kallaði yfir íslenskt samfélag. Við stefnum nú þegar í rétta átt og það er sannfæring mín að í sameiningu munum við skapa okkur og afkomendum okkar farsæla framtíð á Íslandi.

Góðir landsmenn.
Ég óska ykkur öllum gæfu og gengis á árinu 2011 og þakka samfylgdina á árinu sem er að líða.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum