Hoppa yfir valmynd
17. júní 2011 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra á Austurvelli 17. júní 2011

Góðir Íslendingar. Gleðilega þjóðhátíð.

„Það þarf annað en hjalið tómt til að hrinda Íslandi á fætur aftur, það þarf atorku og ráðdeild og framsýni og þollyndi.“

Svo mæltist Jóni Sigurðssyni, brautryðjanda í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og baráttumanni fyrir bættum hag landsmanna en við minnumst þess í dag, á þjóðhátíðardeginum 17. júní, að 200 ár eru liðin frá fæðingu hans. Af því tilefni verða hátíðarhöldin á fæðingarstað Jóns, vestur á Hrafnseyri, veglegri en nokkru sinni fyrr og fjölbreytt afmælisdagskrá hefur verið skipulögð af kostgæfni þar og víða um land í tilefni af þessum tímamótum.

Á þjóðhátíðardeginum fögnum við Íslendingar um land allt sjálfstæði þjóðarinnar. Við gleðjumst yfir þeim lífsgæðum sem landið okkar veitir og þeim áföngum framfara og velmegunar sem við höfum náð með sameiginlegu framlagi kynslóðanna.

Þjóðhátíðardagurinn heilsar okkur að þessu sinni eftir óvenju kalda tíð. Okkur hefur réttilega fundist að sumarið hafi látið bíða eftir sér og íslensku fjöllin hafa heilsað okkur hvít niður í rætur þótt langt væri komið fram í júnímánuð. Veðurfarið skiptir okkur Íslendinga miklu og fáar þjóðir búa við jafn mikinn mun á sólargangi eftir árstíðum og við. Tilhlökkun eftir vori og sumri er því óvíða meiri og við kunnum vel að meta þann árstíma sem nú fer í hönd eftir langan vetur. Allt vaknar til lífsins, fuglarnir, gróðurinn og mannfólkið. Við fyllumst bjartsýni og gleði og sameinumst um að njóta þess góða tíma sem framundan er.

Það er til marks um þá virðingu sem Jón Sigurðsson hefur ætíð notið í huga Íslendinga að lýðveldið var stofnað á afmælisdegi hans fyrir réttum 67 árum.  Á þessum sextíu og sjö árum, sem hlýtur að teljast stuttur tími í sögu hverrar þjóðar, höfum við Íslendingar öðlast dýrmætan þroska og reynslu.

Samfélag okkar hefur styrkst að flestu leyti og þróast yfir í það að vera til fyrirmyndar á fjölmörgum sviðum í samfélagi þjóða þannig að við njótum nú virðingar í alþjóðasamfélaginu sem brautryðjendur á ýmsum vettvangi.

Við eigum að vera stolt af okkar einstaka landi, fegurð náttúrunnar, sameiginlegum auðlindum og náttúrugæðum sem okkur hefur verið falið að hlúa að og varðveita. Við eigum að vera stolt af því að unga fólkið í dag er betur menntað og enn meðvitaðra um umhverfi sitt og ómetanleg gæði náttúrunnar en fyrri kynslóðir. Við eigum að vera stolt af því samfélagi sem hér hefur mótast í aldanna rás og tekið stórstígum efnahagslegum framförum frá stofnun lýðveldisins. Samfélagi sem býr við sterka innviði og sýnir styrk sinn og samtakamátt, ekki síst þegar tekist er á við óblíð náttúruöfl. Við eigum að vera stolt af menningararfi okkar og þeirri frjóu menningu sem hér dafnar. Við getum verið stolt af því að hér eru mannréttindi virt - stolt af því að vera talin friðsamasta þjóð í heimi, og að hvergi sé talið betra að fæða og ala upp börn. 

Það var stór dagur þegar Alþingi Íslendinga samþykkti nýlega samhljóða frumvarp til laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls og ber í senn vott um þá virðingu sem við sýnum menningu okkar og sögu og mannréttindum í hvívetna.

Góðir Íslendingar.
Á síðustu áratugum nítjándu aldar, þegar Jón Sigurðsson barðist fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, voru tekjur á mann hér á landi aðeins helmingur af því sem aðrar vestrænar þjóðir státuðu af. Nánast allan lýðveldistímann hafa lífskjör hér hins vegar verið meðal þess besta sem gerist í heiminum.

Vissulega hafa skipst  á skin og skúrir í efnahagslífi okkar og í meira mæli en víðast annars staðar. Við sem eldri erum minnumst efnhagsþrenginga í lok sjöunda áratugarins og hvernig menn náðu tökum á vandanum þannig að við tók einstakt hagsældarskeið, m.a. með inngöngu í Fríverslunarsamtök Evrópu.

Við minnumst nýlegri þrenginga svo sem í byrjun 10. áratugar síðustu aldar þegar samdráttur eða stöðnun stóð í áraraðir. Dýpsta lægðin og sú krappasta er hins vegar nýafstaðin. Hagvöxtur er orðinn jákvæður á ný og framundan eru aukin fjárfestingarverkefni sem skapa munu arðbær störf  víða um land. Lykillinn að betri tíð er samstaða þjóðarinnar og traust manna í millum. Við höfum góð spil á hendi og alla burði til að vinna vel úr þeim. 

Grundvöllur verðmætasköpunarinnar hér á landi hefur verið að breytast. Í öndverðu byggðist afkoma okkar nær einvörðungu á sjávarútvegi og landbúnaði, en nýjar og verðmætaskapandi greinar s.s. ferðaþjónusta og hugverkaiðnaður styrkjast nú ár frá ári.

Okkur ber skylda til  að vera sívakandi gagnvart möguleikum til að skapa hér varanleg og verðmæt störf og hlúa að þeim mikla mannauði sem býr í unga fólkinu okkar, unga fólkinu sem brátt munu taka við keflinu af þeim sem eldri eru.

Hver atvinnugrein styður aðra og mikilvægt er að full virðing ríki á milli þeirra sem eldri og rótgrónari eru og hinna sem eru að hasla sér völl. Í dag skipar umfjöllun um græna hagkerfið og framtíð þess öndvegi á Norðurlöndum og meðal annarra vestrænna þjóða. Á því sviði eigum við Íslendingar að skipa okkur í fremstu röð og bjóða fram þekkingu okkar og reynslu.

Við eigum hér á landi vísindamenn í fremstu röð á mörgum sviðum og við höfum m.a. verið að byggja hér upp þekkingu á sviði orku- og líftækni sem er eftirtektarverð.

Ég nefni Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs sem voru að þessu sinni veitt brautryðjanda við uppbyggingu rannsókna á lífefnum og lífvirkum efnum úr íslenskri náttúru. Á Sauðárkróki vinna sérfræðingar að innlendum og erlendum rannsóknarverkefnum í náinni samvinnu við matvælaiðnaðinn í Skagafirði sem og annars staðar í landinu. Sprotafyrirtæki og önnur öflug líftæknifyrirtæki njóta þessa starfs einnig og fleiri dæmi eru um slíkt víðar á landinu. Á þessu sviði eru sóknarfærin ótæmandi.

Háskóli Íslands hefur m.a. sett sér metnaðarfull markmið á sviði rannsókna og í tilefni af 100 ára afmæli skólans í dag verður stofnaður sérstakur Aldarafmælissjóður með það takmark að stórefla rannsóknir hér á landi.

Ég nefni skapandi greinar, alþjóðleg verðlaun Vesturports fyrir framúrskarandi leiklist og bókamessuna sem framundan er í Frankfurt í Þýskalandi. Og ég nefni tónlistarviðburðina í Hörpu og Hofi sem hafa snortið marga djúpt.

Þetta eru einungis örfá dæmi um þá jákvæðu þróun sem á sér stað hér á landi og  sem gjarnan mætti fá mun meiri athygli. Á ferðum mínum um landið hef ég fundið fyrir mikilli grósku á mörgum sviðum og  það á ekki síst við þar sem menn vinna vel saman þvert á greinar atvinnulífs.

Góðir Íslendingar.
Enda þótt landið okkar Ísland sé einstakt má margt betur fara. Ekki síst á þetta við í dag í kjölfar þeirra miklu erfiðleika sem hrunið hefur haft í för með sér. Þetta eru hinsvegar tímabundnir erfiðleikar, þó vissuleg séu þeir þungbærir og skilji eftir sig sár bæði í efnahagslegu og samfélagslegu tilliti. En þessi sár má græða og úr þessari stöðu má vinna þannig að við búum hér eftir í sterkara samfélagi en nokkru sinni fyrr. 

Eitt af stóru verkefnunum framundan er að móta samfélagi okkar nýja stjórnarskrá, nýjan samfélagssáttmála um stjórnkerfi landsins og grundvallarreglur.

Á mótunartíma íslenska ríkisvaldsins, frá endurreisn Alþingis árið 1845 til lýðveldisstofnunar, glímdu Íslendingar við tvær stjórnskipulegar spurningar. Annars vegar hvernig sambandinu við Dani skyldi háttað og hins vegar hvernig innri stjórnskipun íslenska ríkisins skyldi hagað. 

Jón Sigurðsson lét hvort tveggja sig miklu varða. Hann sat stjórnlagaþing Dana veturinn 1848-1849 þar sem danska stjórnarskráin var samin, en hún var talin ein sú framsæknasta í Evrópu á þeim tíma. Og sem þjóðkjörinn fulltrúi sat Jón þjóðfundinn fræga í Lærða-skólanum 1851 þar sem til stóð að semja fyrstu stjórnarskrána fyrir Ísland.

Það var almennt viðurkennt við lýðveldisstofnun að því verkefni að móta varanlega stjórnskipan væri ólokið. Það er í raun merkilegt að nú fyrst, 160 árum eftir að þjóðfundinum var slitið, skuli hilla undir fyrstu alíslensku stjórnarskrána á vettvangi Stjórnlagaráðs. Fyrst nú hafa handhafar valdsins stigið það skref að fela óháðum fulltrúum þjóðarinnar að móta nýjar leikreglur fyrir íslenskt samfélag, án afskipta stjórnmálaflokka, framkvæmdarvalds eða löggjafarvalds.

Á þjóðfundinum fyrir 160 árum síðan var það Trampe greifi sem hafði völdin í sínum höndum. Nú, árið 2011 er það Alþingi Íslendinga sem getur brugðist við tillögum Stjórnlagaráðsins og sett þær í hendur fólksins í landinu. Minningu Jóns Sigurðssonar verður vart meiri sómi sýndur en með því að þegar tvær aldir eru liðnar frá fæðingu hans rætist ósk hans um íslenska stjórnarskrá- stjórnarskrá fólksins í landinu.

Góðir Íslendingar

Jón Sigurðsson getur verið stoltur af þjóð sinni, þar sem hann horfir yfir héðan af Austurvelli og metur framgang mála. Ég er sannfærð um að hann einblínir ekki einungis á þá tímabundnu erfiðleika sem þjóðin hefur átt við að glíma, eða festir hugann við það dægurþras sem oftar en ekki er hluti af stjórnmálaumræðunni og umfjöllun fjölmiðla.

 Hann veit sem er, að allt er þetta  hjóm eitt þegar litið er til þess mikla árangurs sem íslenskt samfélag hefur náð. Hann veit að það þarf annað en hjalið tómt til að ná fótfestu og framförum. Án nokkurs vafa hefur íslenska þjóðin náð enn lengra en væntingar Jóns Sigurðssonar og samferðamanna hans um framþróun íslensku þjóðarinnar fólu í sér.

Jón Sigurðsson vissi að lykillinn að framþróun og árangri lægi hjá þjóðinni sjálfri. Þjóðin sjálf yrði að hafa trú á framtíðinni, hafa sannfæringu fyrir mætti sínum og megin og að í samtakamætti þjóðarinnar væri framtíð hennar falin.

Á tímum Jóns Sigurðssonar voru Íslendingar bláfátæk þjóð bænda og sjómanna, aðeins 60-70 þúsund manns, og ekki var sjálfgefið að slík þjóð væri þess umkomin að stjórna sér sjálf. Erfiðleikarnir voru því miklir og langt frá því að vera sambærilegir við það tímabundna mótlæti  sem Íslendingar hafa nú átt við að etja. 

Skipulagðir innviðir samfélagsins voru litlir sem engir og segja má að það hafi verið vanþróað í mörgu tilliti. Jón taldi deyfðina vera mesta óvin Íslendinga og vildi ögra þeim til framkvæmda og neyða þá til að hugsa.

Það gerði hann meðal annars með því að hvetja þá til að mennta sig á öllum sviðum, til virkrar þátttöku í félagsstörfum af margvíslegu tagi og til að endurbæta atvinnuvegi sína.

Í dag höfum við svo sannarlega innviðina, flesta sterka, og í dag höfum við tækin til þess að tryggja að þetta land byggi í framtíðinni ein þjóð - eitt samfélag. Samfélag manna sem byggir á jöfnuði og sátt og jafnvægi í kjörum og aðbúnaði.

Við höfum nú tækifæri í kjölfar efnahagsáfallsins til þess að byggja upp réttlátara þjóðfélag, þar sem virðing fyrir öllum hópum og stéttum er í öndvegi. Þar sem öllum eru sköpuð jöfn tækifæri til þess að láta til sín taka á mismunandi sviðum allt eftir kostum, eiginleikum og hugðarefnum hvers og eins.

Það er engin tilviljun að norrænu velferðarsamfélögin eru á flesta mælikvarða hagsælustu samfélög heimsbyggðarinnar og þangað sækja aðrar þjóðir fyrirmyndir vegna þess að velferð og hagsæld haldast þar í hendur.

Ekki síst á þetta við í fámennum samfélögum eins og okkar Íslendinga. Slík samfélög þrífast einfaldlega ekki þegar ójöfnuður vex úr hófi fram. Við villtumst af leið um tíma - en það er von mín og trú að sá mikli ójöfnuður sem hér á landi skapaðist á áratugnum fram að hruni muni ekki skjóta rótum hér á ný.

Ég trúi því að öll viljum við að fjölskyldur okkar, vinir og samferðamenn búi við sem jöfnust tækifæri og deili kjörum hvert með öðru í samfélagi þar sem jafnvægi og virðing ráða ríkjum.

Um þetta á lífskjarasóknin sem framundan er að snúast. Með auknum jöfnuði mun hún tryggja íslensku samfélagi enn frekari sigra og græða þau sár sem hrunið og ójöfnuður nýliðins áratugar hefur skilið eftir sig í efnahagslífi og samfélagi okkar.

Vera má að okkur takist að nýta það áfall sem dundi yfir okkur í átt til aukins þroska. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort svo verður.

Góðir Íslendingar
Atorka, ráðdeild, framsýni og þollyndi voru orðin sem Jón Sigurðsson valdi til hvatningar íslenskri  þjóð á öndverðri nítjándu öld. Þessi hvatningarorð eiga ekki síður erindi við okkur í dag og við skulum heiðra minningu þessa baráttumanns með því að hafa þau að leiðarljósi.

Verum atorkusöm, sýnum ráðdeild, verum framsýn, verum þolinmóð og stöndum saman að því sem einn maður að byggja hér upp heilbrigt og öflugt samfélag. Framundan er sumarið og framundan eru svo sannarlega bjartari tímar fyrir íslenska þjóð.

Megi landsmenn allir njóta þjóðarhátíðardagsins og afmælisársins. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum