Hoppa yfir valmynd
31. desember 2012 Forsætisráðuneytið

Áramótaávarp forsætisráðherra 2012

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra flytur áramótaávarp
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra flytur áramótaávarp

Góðir landsmenn!
Við þessi áramót, í lok kjörtímabilsins, er mér efst í huga þakklæti til þjóðarinnar, þakklæti til allra þeirra fjölmörgu sem lagt hafa mikið af mörkum og hönd á plóg við þá endurreisn íslensks samfélags, sem staðið hefur allt þetta kjörtímabil og reynst  mörgum sár og erfið.

Þjóðin hefur á þessum tíma sýnt styrk sinn og elju og hefur vaxið við hverja raun og ekki fallist hendur, þó á brattan hafi verið að sækja og um grýttan veg að fara.

Nú, þegar mestu efnahagserfiðleikarnir eru að baki, getum við litið bærilega sátt um öxl og horft nokkuð bjartsýn fram á veginn.

Í farteskinu höfum við nú dýrmæta reynslu og veganesti sem við getum byggt á til framtíðar og skapað hér betra og réttlátara þjóðfélag.

Við erum á margan hátt ríkari nú en fyrir hrun, því margir hafa nýtt þennan umbrotatíma til að endurmeta hin samfélagslegu gildi og hvað það er sem skiptir máli í lífinu.

Börnin okkar, fjölskyldan, dýrmætar samverustundir með okkar nánustu, sem ekki er unnt að treysta á að forsjónin gefi okkur  tíma til að sinna á morgun.  Náungakærleikur og virðing fyrir mannréttindum  eiga að  vera grunngildi hvers samfélags.

Ég tel að árangur erfiðis okkar á síðustu fjórum árum megi m.a. sjá í að gildi jöfnuðar, mannúðar og samfélagslegrar ábyrgðar vega þyngra en áður. Krafan um traust, heiðarlegt og siðað samfélag, þar sem meira fjárhagslegt jafnræði og félagslegt réttlæti ríkir hefur fengið aukinn þunga.  

Þó sumum finnist á stundum að firringin frá 2007 sé aftur farin að skjóta upp kollinum er það mikilsverður árangur, að slík ógn við heiðarleg og sanngjörn samfélagsleg gildi á erfiðara uppdráttar og mun færri bandamenn en á árunum fyrir hrun.  

Það er ósk mín og von  að  á nýju ári  berum við gæfu til að hafa að leiðarljósi gildin um jöfnuð, heiðarleika og samfélagslega ábyrgð, sem við þurfum svo sárlega á að halda nú þegar við mótum þjóðfélag okkar á komandi árum.

Góðir landsmenn.
Danski greiningaraðilinn, sem sá hrunið fyrir og varaði okkur við, vakti nýlega máls á því að líklega væri eitt helsta afrek Íslands að hér hefði þjóðin tekist á við afleiðingar hrunsins án stórkostlegra uppþota, verkfalla og átaka, sem í flestum öðrum löndum hefði verið raunin.

Þetta vakti sérstaka athygli mína, enda hefur það almennt verið upplifun okkar Íslendinga að allt frá hruni hafi samfélagið einkennst af hörðum átökum og heift.

Sannarlega er sú upplifun á rökum reist og ekki síst á vettvangi stjórnmálanna hefur verið tekist harðar á með orð að vopni en ég hef áður kynnst á mínum langa stjórnmálaferli. Hið sama má segja um suma fjölmiðla, jafnt netmiðla sem aðra.

En líklega hefur danski sérfræðingurinn mikið til síns máls.

Staðreyndin er sú að allt frá hruni hefur ríkt nánast fullkominn friður á vinnumarkaði, sömu flokkar hafa stjórnað landinu án pólitískra kollsteypa og óeirðir eða uppþot hafa engin orðið að því er heitið getur, eftir að núverandi ríkisstjórn tók við.

Umræður hafa verið harkalegar, óvægnar og stormasamar á köflum, en það sýnir ótrúlegan styrk og yfirvegun þjóðarinnar, að við höfum þrátt fyrir allt mætt þeim áföllum sem rekja má til hrunsins af æðruleysi.

Sannarlega hafa þó margir liðið vegna hrunsins og óánægjan verið mikil, en þau miklu og eðlilegu hagsmunaátök sem átt hafa sér stað hafa góðu heilli að mestu fundið sér farveg í samfélagslegri og pólitískri umræðu.

Eins og danski sérfræðingurinn bendir réttilega á, þá eigum við Íslendingar að vera stolt af þessu afreki okkar, þó við séum ekki endilega fyllilega ánægð með stöðuna. Í þessu liggur að mínu viti ein af ástæðum þess að okkur hefur vegnað eins vel við uppbygginguna og raun ber vitni.

Rétt eins og þegar við glímum við  náttúruöflin, eldgos, óveður, jarðskjálfta og flóð,þá bitum við á jaxlinn og tókumst á við þessa miklu erfiðleika með óbilandi þrautseigju og kjarki.

En muna menn hvernig staðan var í upphafi kjörtímabilsins, kæru landsmenn?

Þjóðargjaldþrot virtist blasa við og mikil ólga, reiði og óvissa ríkti í samfélaginu. Fjármálaleg samskipti við útlönd voru í algeru frosti, fjármálakerfið var hrunið, halli ríkissjóðs var 216 milljarðar,  spáð var 10-15% atvinnuleysi, verðbólgan var 18,6%, gengið hafði fallið um 50%.

Stór hluti fyrirtækja og heimila landsins var tæknilega gjaldþrota vegna stökkbreyttra lána og fordæmalauss tekjutaps.

Nú, fjórum árum síðar, hillir undir sjálfbæran ríkisrekstur, lok einhverrar umfangsmestu skuldaaðlögunar heimila og fyrirtækja sem sögur fara af og stöðugur hagvöxtur hefur mælst í rúm tvö ár.

Eignastaða heimilanna hefur batnað um tæp 17% á milli áranna 2010 og 2011.

Skuldir heimila og fyrirtækja hafa nú lækkað sem nemur um tvöfaldri landsframleiðslu á einungis þremur árum.

Rúmlega 200 milljarðar króna af lánum heimila hafa verið afskrifaðar og niðurgreiðsla ríkisins á vaxtakostnaði þeirra hefur verið meira en tvöfölduð.

Í rúm tvö ár hefur kaupmáttur heimila vaxið og ójöfnuður ráðstöfunartekna í landinu minnkað um helming frá árinu 2007.

Hagur fyrirtækja er einnig að batna, atvinnuleysi hefur dregist saman um helming, störfum er farið að fjölga, atvinnuvegafjárfesting vex og vanskil og gjaldþrot fyrirtækja dragast hratt saman.

Ekkert bendir til annars en að þessi góða þróun haldi áfram á komandi árum, verði rétt á málum haldið.

Þó opinber umræða gefi ef til vill ekki tilefni til jákvæðni eða almennrar ánægju þá benda opinberar hagtölur, mat erlendra greiningaraðila og mælingar á raunverulegri líðan landsmanna allar til hins sama – hagur heimilanna batnar jafnt og þétt.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, OECD, Evrópusambandið og fjölmargir erlendir greiningaraðilar hafa lokið lofsorði á árangur uppbyggingarstarfsins og hægt og bítandi er Ísland að ávinna sér traust á alþjóðamörkuðum á nýjan leik.

Lífskjarasóknin hér á landi er einnig kröftugri en í flestum löndum sem við helst berum okkur saman við.

Hagvöxtur hefur á liðnum tveimur árum verið einna mestur hér á landi meðal þróaðra OECD-ríkja.

Atvinnuleysi er minna hér en víðast annars staðar.

Atvinnuþátttaka hér er með því mesta sem gerist  í heiminum.

Skattar sem hlutfall af landsframleiðslu eru lægstir á Íslandi af öllum Norðurlöndunum.

Góðir landsmenn.
Vegna þrautseigju, æðruleysis og vinnusemi þjóðarinnar hefur okkur auðnast ótrúlega vel að vinna okkur út úr erfiðleikunum. Við höfum alla burði til að verða í fremstu röð þjóða heims hvað lífskjör, umhverfisgæði og mannréttindi varðar.

Það veltur mest á okkur sjálfum hvernig til tekst. En við verðum að vita hvert við viljum stefna – hvernig samfélag við viljum byggja upp á okkar gjöfula landi.

Þar höfum við einnig lagt mikið af mörkum á liðnu kjörtímabili og mér er til efs að eins ítarlega hafi verið unnið í framtíðarstefnumótun fyrir land og þjóð og gert hefur verið á liðnu kjörtímabili.

Ég nefni stefnumörkun um stórauknar erlendar fjárfestingar, í auðlindamálum, um vernd og nýtingu náttúrusvæða, um græna hagkerfið, um málefni Norðurslóða, um aðgerðir í loftslagsmálum og um langtímamarkmið í  ríkisfjármálum og efnahagsmálum.

Síðast en ekki síst nefni ég fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar til ársins 2015 sem markar nýja sýn stjórnvalda í atvinnumálum. Þar er á fimmta tug milljarða varið í stórfellda uppbyggingu á innviðum samfélagsins og vaxtarbrodda atvinnulífsins.

Í nýsamþykktum fjárlögum eru stigin fyrstu skrefin á þeirri vegferð með tvöföldun framlaga til rannsókna og nýsköpunar, stórefldum framlögum til grænnar atvinnusköpunar, sóknaráætlana landshluta, skapandi greina, kvikmyndaiðnaðar og ferðaþjónustu.

Þessi mikilvægu skref er m.a. mögulegt að stíga nú með tilkomu veiðigjalds sem nýtist í þágu þjóðarinnar allrar. Kappkosta þarf að ná fram enn frekari breytingum á stjórn fiskveiða til þess að tryggja betur sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar.

Á þessu ári hófum við viðamikla vinnu til að meta stöðu Íslands  og sóknarfæri til framtíðar. Sú vinna hefur nú verið þróuð áfram  með aðkomu allra stjórnmálaflokka ásamt aðilum vinnumarkaðarins, háskólasamfélaginu og fulltrúum viðskiptalífsins.  

Ráðgjafarfyrirtækið McKinsey, sem nýlega kynnti skýrslu um  tækifæri  hér á landi til að ýta undir vöxt og framtíðarstyrk hagkerfisins, kemur að þessu verkefni.

Sérstaklega verður fjallað um drifkrafta á almennum markaði, vaxtarsprota í alþjóðlegu samhengi, vernd og nýtingu auðlinda og  öfluga opinbera þjónustu.

Góðir Íslendingar.
Á liðnu hausti gafst okkur, kjósendum í þessu landi, á ný tækifæri til beinnar aðkomu að mótun nýrra grundvallarreglna fyrir landið okkar, þegar tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá og tengd álitaefni voru borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Niðurstöður voru afgerandi. Þjóðin kallar eftir breytingum á grunnreglum samfélagsins. Málið er nú í höndum Alþingis og ábyrgð þess gagnvart almenningi er mikil.

Það er einlæg von mín að alþingismönnum auðnist nú að ná saman um breytingar á stjórnskipan landsins fyrir komandi alþingiskosningar.

Framundan er einnig tími mikilvægra ákvarðana á vinnumarkaði, en endurskoðunarákvæði kjarasamninga eru opin nú í janúar. Gríðarlega miklu máli skiptir að samningalotan sem framundan er verði nýtt til að tryggja áframhaldandi lífskjarasókn fyrir launafólk.

Slík lífskjarasókn landsmanna byggir á áframhaldandi friði á vinnumarkaði og sátt um bætt kjör þeirra sem lakast standa.

Þar þurfa menn að mínu mati að horfa sérstaklega til láglaunastétta og fjölmennra kvennastétta og endurmeta störf þeirra. Vonandi náum við líka árangri með því átaki sem stjórnvöld eru að ráðast í til að vinna gegn launamun kynjanna, í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og vinnumarkaðinn.

Allir aðilar vinnumarkaðarins þurfa að koma að borðinu í þessum efnum – ríkið, sveitarfélögin, launþegahreyfingin og atvinnurekendur á almennum markaði. Allir þessir aðilar bera ríka ábyrgð á að tryggja hér áframhaldandi frið á vinnumarkaði og áframhaldandi lífskjarasókn.

Góðir landsmenn.
Það er í mörgu tilliti ástæða til að líta björtum augum til næsta árs.

Við getum verið þakklát fyrir svo ótal margt, ekki síst fyrir það að vera friðsöm þjóð sem hefur verið svo lánsöm að vera laus við vopnaburð, átök stríðandi fylkinga og mannskæða atburði, sem því miður hafa verið of algengir víða um heim á árinu sem er að líða.

Vissulega eiga ýmsir um sárt að binda hér á landi af ýmsum ástæðum og hugur okkar hefur verið hjá þeim nú yfir hátíðarnar. Öll þjóðin hefur fylgst með áhrifum veðursins undanfarna daga, ekki síst á Vestfjörðum, þar sem margir hafa þurft að yfirgefa heimili sín yfir hátíðarnar vegna snjóflóðahættu. Mikill viðbúnaður hefur verið og björgunarsveitarfólk og starfsmenn almannavarna eiga heiður skilinn

Góðir Íslendingar.
Það er von mín og trú að við munum á næstu árum halda áfram að byggja hér upp samfélag samhjálpar og jöfnuðar, samfélag þar sem allir hafa tækifæri en ekki bara sumir, samfélag sem byggir upp þjónustu við þá sem minna mega sín.

Það eru forréttindi að búa við menntakerfi og heilbrigðiskerfi sem er aðgengilegt öllum.

Það eru forréttindi að tilheyra þjóð, sem ber virðingu fyrir mannréttindum og virðir ólík viðhorf mismunandi hópa samfélagsins.

Það eru forréttindi að tilheyra þjóð sem er fremst í heiminum þegar kemur að jafnrétti kynjanna.

Slíkri þjóð eru allir vegir færir.

Ég óska ykkur farsældar á nýju ári og þakka fyrir samfylgd á krefjandi tímum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum