Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2004 Forsætisráðuneytið

Ræða forsætisráðherra á 56. þingi Norðurlandaráðs

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Hið talaða orð gildir

Ræða Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra
á 56. þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi, 1. nóvember 2004


Forseti!
Ég vil þakka Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur fyrir áhugaverða kynningu á formennskuáætlun Dana í Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2005. Sérstaklega vil ég þakka Dönum fyrir að fylgja eftir ýmsum forgangsverkefnum Íslendinga, svo sem þeim sem miða að því að auka vægi Vestur-Norðurlanda í norrænu samstarfi, efla nýsköpun og styrkja lýðræðið.

Í norrænum lýðræðis- og velferðarsamfélögum stöndum við frammi fyrir mörgum áríðandi verkefnum. Alþjóðavæðingin dregur úr mætti margra lýðræðislegra ákvarðana og með aukinni velferð verður fólk um margt einstaklingsmiðaðra. Norðurlandabúar eru vissulega félagslega virkir og áhugasamir um stjórnmál, hins vegar dregur úr trausti þeirra á stjórnmálamönnum. Í nokkrum norrænu ríkjanna fækkar skráðum félögum í stjórmálaflokkum, og unga fólkið lætur sig vanta.

Af hverju vill ungt fólk ekki starfa í stjórnmálaflokkum? Hvaða áhrif hefur þessi þróun á fulltrúalýðræðið? Þetta eru áríðandi spurningar sem við verðum að leita svara við og bregðast við – annars er hætta á að það myndist of stór gjá mili stjórnmálamanna og kjósenda.

Norræn lýðræðisnefnd sem sett var á laggirnar á formennskutíma Íslands í Norrænu ráðherranefndinni hefur greint þessi og önnur brýn vandamál sem við verðum að takast á við á komandi árum. Það gildir m.a. um þann vanda sem steðjar að hinu staðbundna lýðræði. Minnkandi þátttaka í sveitarstjórnarkosningum í nokkrum norrænu ríkjanna er hættumerki sem við verðum að taka alvarlega.

Forseti!
Það er afar mikilvægt að við stöndum vörð um þau  gildi sem við eigum sameiginleg og byggja á félagslegum og efnahagslegum jöfnuði og tjáningarfrelsinu. Þess vegna er það líka skylda okkar að taka þátt í alþjóðlegri baráttu gegn hvers kyns öfgastefnum. Við getum ekki setið aðgerðarlaus á hliðarlínunni í norðrinu og vonast eftir því að aðrir axli þá ábyrgð að verja hin lýðræðislegu gildi,  sé þeim ógnað úti í hinum stóra heimi. Staðreyndin er sú að það er raunveruleg hætta á að gereyðingarvopn komist í hendur öfgamanna. Alþjóðleg hryðjuverka-starfsemi er alvarleg ógn við þá samfélagsskipan sem við höfum kynslóðum saman byggt upp á Norðurlöndum.

Gegn henni verðum við að berjast með sameinuðum kröftum. 

Það hefur þótt sjálfsagt mál að Norðurlönd tækju virkan þátt í efnahagslegri og lýðræðislegri uppbyggingu í þróunarlöndunum. Þetta hefur kostað mikið fé, en á Norðurlöndum hefur verið breið sátt um að rétta fram hjálparhönd. Sama gildir um friðargæsluverkefni þar sem norræn sérþekking hefur nýst vel. Í því sambandi bendi ég á samstarf Norðurlanda í Afganistan og á Sri Lanka – þá reynslu sem þar hefur fengist getum við og eigum við að byggja á í framtíðinni.

Forseti!
Ástandið í Miðausturlöndum er löngu orðið óbærilegt og eitrar út frá sér um allt svæðið og víðar – jafnvel til okkar á Norðurlöndum. Ekki þýðir að bíða eftir breyttum aðstæðum eða nýjum tækifærum sem gætu hugsanlega falist i úrslitum forsetakosninganna í Bandaríkjunum eða leiðtogaskiptum í Palestínu. Norðurlönd þurfa að beita sér af alefli fyrir lausn,  hverjir sem kunna að sitja við samningsborðið.

Norrænu ríkin hafa átt frumkvæði að stofnum margra þeirra svæðisbundnu samtaka sem við höfum í Norður-Evrópu. Sjálfur hef ég verið ákafur formælandi þess að efla samstarf ríkja á norðurskautssvæðunum – og ég er sannfærður um að það svæðasamstarf á eftir að fá enn meiri þýðingu. Ísland fer nú með formennsku í Norðurskautsráðinu og leggur mikla áherslu á náið samstarf og samráð milli ráðsins og Norrænu ráðherranefndarinnar. Niðurstaða nýrrar skýrslu sem kynnt verður ráðherrum í Norðurskautsráðinu síðar í þessum mánuði bendir til þess að við höfum aldrei áður staðið frammi fyrir jafn miklum og örum loftslagsbreytingum  á norðurhveli jarðar. Þær munu hafa gríðarleg áhrif á umhverfi, efnahag og félagslegar aðstæður fólks. 

Þetta veldur eðlilega þungum áhyggjum, ekki síst hjá okkur sem búum á heimskautasvæðum Norðurlanda. Umhverfisvernd og sjálfbær nýting lifandi auðlinda hafsins eru umfangsmikil verkefni þar sem öll norrænu ríkin og grannar þeirra við Norður-Atlantshaf verða að axla ábyrgð.

Þess vegna hafa Íslendingar á formennskutímanum í Norrænu ráðherranefndinni lagt áherslu á að styrkja tengsl Norðurlanda við grannsvæði þeirra í vestri. Það er afar mikilvægt að þróaður verði á norrænum vettvangi samstarfsgrundvöllur ríkja við Norður-Atlantshaf til að ræða sameiginleg hagsmunamál. Það verður að loka hringnum í grannsvæðasamstarfi Norðurlanda þannig að hann nái einnig til vesturs – til gagns fyrir öll svið norræns samstarfs. 

Forseti!
Norðurlönd eru meðal tíu samkeppnishæfustu ríkja heims. Engu að síður er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að nýta með skipulegum hætti þá þekkingu sem við búum yfir, svo við megum áfram vera fremst meðal þjóða í rannsóknum og nýsköpun. Það þarf að tryggja víxlverkun milli framsækinna vísinda og atvinnulífs og halda gáttum opnum til grannríkja í austri og vestri þannig að svæðið verði vænlegur kostur fyrir fyrirtæki og fjárfesta.

Á formennskutímanum hafa Íslendingar lagt áherslu á að fylgja eftir því starfi sem önnur lönd hrintu úr vör og miðar að því að ryðja úr vegi hindrunum fyrir samkeppnishæfum norrænum heimamarkaði. Stórt skref verður stigið hér á þinginu þegar undirritaður verður nýr samningur norrænu hagstofanna um almannaskráningu.  En við stefnum áfram. Það eru enn of margar hindranir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á norrænum landamærum – hindranir sem hamla útrás þeirra í grannríkjunum. Við getum ekki sætt okkur við slíkt ástand og væntum því mikils af Dönum á þeirra formennskutíma og áframhaldandi starfi Pouls Schlüters fyrrverandi forsætisráðherra Dana á þessum vettvangi.

Að lokum langar mig að þakka Norðurlandaráði og ríkisstjórnum Norðurlanda fyrir farsælt samstarf á formennskuári Íslands.

Við óskum Dönum velfarnaður með sín stefnumál á formennskuárinu!



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum