Hoppa yfir valmynd
31. desember 2004 Forsætisráðuneytið

Einkar bjart framundan

I.

Góðir Íslendingar

Það er gömul saga og ný að það skiptast á skin og skúrir, jafnt í lífi hvers einstaklings sem heilla þjóða. Þau hörmulegu tíðindi bárust heimsbyggðinni yfir hátíðirnar að náttúruhamfarir í Suður Asíu hefðu valdið gríðarlegu manntjóni og eyðileggingu. Við slíka atburði sést glögglega hversu vanmáttugir við mennirnir erum þegar óblíð náttúruöflin sýna mátt sinn og megin, hversu viðkvæm við erum.

Við Íslendingar þekkjum vel þau sár sem náttúruhamfarir geta skapað, við höfum tekist á við slíkt í gegnum aldirnar og sameinast í stuðningi og uppbyggingu. Við getum að einhverju marki sett okkur í spor þeirra sem nú eiga um sárt að binda um víða veröld og ég veit að hugur margra Íslendinga dvelur nú á þessum fjarlægu slóðum, en ekki síður hjá vinum okkar á Norðurlöndum sem hafa orðið fyrir miklu áfalli og þurfa á stuðningi og vinarþeli að halda. Við höfum þegar veitt nokkru fé til að byggja upp að nýju það sem rifið hefur verið niður og munum leggja enn meira fram á næstunni, aðstoð sem sýnir að við gleymum ekki þeim sem minna mega sín.

II.

Um áramót er bæði horft til fortíðar og framtíðar. Árangur ársins sem er að líða er gerður upp og ný markmið sett fyrir komandi ár. Sitt sýnist hverjum þegar litið er til baka en þó er hægt að fullyrða að við Íslendingar höfum það betra nú en nokkru sinni fyrr. Hver alþjóðleg könnunin á fætur annarri sýnir að Íslendingar eru í fararbroddi hvað varðar lífsgæði, afkomu og lýðræði, enda er hagvöxtur hér meiri en annars staðar, kaupmáttaraukning heimilanna hefur aukist um 40% á síðustu 9 árum og stefnir í 55% aukningu áður en kjörtímabilinu lýkur. Atvinnuleysi er minna en þekkist í flestum löndum, afkoma ríkissjóðs betri og verðbólga innan skynsamlegra marka.

Í umræðunni um skuldasöfnun þjóðarinnar vill gleymast að þeir aðilar sem standa fyrir skuldaaukningu þjóðarbúsins eru ekki ríkið heldur fyrirtækin, heimilin og sveitarfélögin. Það er hins vegar athyglisvert að þegar litið er til skulda fyrirtækja eru það ekki allar greinar sem hafa aukið skuldir sínar á síðustu árum. Skuldir sjávarútvegs og ýmissa iðnfyrirtækja hafa staðið í stað meðan skuldir ýmissa hátækni- og fjármálafyrirtækja hafa aukist. En það eru einmitt þessar greinar sem hafa vaxið hvað mest að undanförnu, bæði hér innanlands og ekki síður á erlendum mörkuðum.

Það er ekkert óeðlilegt við það að skuldsetningin skuli vera mest í þeim hlutum hagkerfisins sem eru að vaxa hvað hraðast. Útrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði hefur gengið vonum framar og vakið mikla athygli erlendis. Þetta er því mjög jákvæð þróun og ánægjulegt að þær skipulagsbreytingar á íslensku efnahagslífi sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir, hafi stuðlað að uppbyggingu öflugra og framsækinna fyrirtækja. Það er líka nauðsynlegt að hafa í huga að á móti aukinni skuldsetningu fyrirtækja standa miklar eignir. Þetta vill oft gleymast í umræðunni og menn tala stundum eins og fyrirtækin séu að skuldsetja sig út í bláinn.

III.

Á árinu sem er að líða varð eitt helsta kosningamál Framsóknarflokksins fyrir að veruleika.   Framsóknarflokkurinn gekk fram fyrir skjöldu fyrir síðustu alþingiskosningar og gaf þau heit að hækka lán Íbúðalánasjóðs upp í 90% á kjörtímabilinu. Þegar þetta loforð var gefið var hámarkslánshlutfall 70% við kaup á fyrstu íbúð og hámarkslánsfjárhæð 9 milljónir króna.

Þetta kosningaloforð þótti mörgum fráleitt, jafnt pólitískum andstæðingum sem ýmsum aðilum á fjármagnsmarkaði.  Þegar ljóst var að þetta loforð yrði að raunveruleika fóru ytri aðstæður að breytast.  Það frumkvæði og sú vinna sem fólst í þessari ákvörðun leiddi til róttækra breytinga á húsnæðismarkaði með aðkomu bankanna og á svipstundu breyttist landslagið og því var ákveðið að lögin tækju strax gildi.  Nú í desemberbyrjun, rétt rúmu einu og hálfu ári eftir kosningar varð frumvarp félagsmálaráðherra um 90% lán að lögum og þar með náðist að uppfylla þetta mikilvæga kosningaloforð sem sýnir svo ekki verður um villst að ríkisstjórnin og þeir flokkar sem að henni standa láta verkin tala.

Íbúðalánasjóður býður nú 90% lánshlutfall og hámarkslán upp undir 15 milljónum króna.  Nýr raunveruleiki blasir við þeim sem vilja eignast sitt eigið þak yfir höfuðið, raunveruleiki sem sumum þótti fjarstæðukenndur fyrir aðeins nokkrum mánuðum.

IV.

Á sviði heilbrigðisþjónustu hefur verið gert rækilegt átak í uppbygging grunnþjónustu heilsugæslunnar á árinu sem senn er liðið og þessi þjónustuþáttur heilbrigðiskerfisins verið styrktur. Mikil breyting varð fyrir nokkrum misserum á samskiptum samtaka eldri borgara og yfirvalda heilbrigðis- og tryggingamála. Samkomulag varð um áherslur í uppbyggingu hjúkrunarheimila, um áherslur í tryggingamálum og fleiri málum sem snerta hag aldraðra og á árinu var settur punkturinn aftan við það samkomulag sem gert var og með því að fullu staðið við samkomulagið.

Ríkisstjórnin hefur unnið markvisst að því á undanförnum árum að stytta biðlista fatlaðra og verður á annað hundrað fleiri rými á sambýlum á næsta ári en fyrir fjórum árum síðan. Hvað öryrkja varðar, þá tala tölurnar sínu máli þrátt fyrir harðan áróður gegn staðreyndunum. Sérstaða þeirra sem yngstir eru hefur verið viðurkennd með tvöföldun á grunnlífeyri þeirra og hefur rúmur milljarður króna verið settur sérstaklega í þann málaflokk.  Heildarbótagreiðslur til öryrkja síðustu sex ár hafa þrefaldast og er óhætt að segja að undir forystu Framsóknarflokks hafi þar orðið meiri bót á en nokkur annar getur státað af.  En áfram verður unnið að því að styrkja þennan málaflokk, ekki síst með vitundarvakningu um heilbrigðan lifsstíl og samspili lífshátta og sjúkdóma.

V.
 
Á árinu var unnið að undirbúningi við sölu á hlut ríkisins í Landssíma Íslands hf. samkvæmt heimild Alþingis og stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefur umsjón með undirbúningi sölu og hefur sér til ráðgjafar Morgan Stanley í Lundúnum, sem er virt fjármálafyrirtæki og býr meðal annars yfir mikilli reynslu af einkavæðingu í fjarskiptageiranum.

Gætt verður að því að sala Símans fari fram við hagstæðar markaðsaðstæður og þannig tryggt að ríkissjóður fái sanngjarnt verð fyrir eign sína. Nú um stundir eru aðstæður til sölu hagstæðar og hefur markaðurinn hérlendis sem erlendis brugðist jákvætt við fregnum af fyrirhugaðri sölu, enda Síminn einkar vel rekið fyrirtæki í fremstu röð á sínu sviði. Miðað við núverandi aðstæður gæti sala á hlutum í fyrirtækinu hafist fyrri hluta næsta árs.

Með sölu á hlut sínum í Símanum er markmið íslenskra stjórnvalda að auka samkeppni á fjarskiptamarkaði enn frekar og bæta þannig hag neytenda. Það verður þó áfram skylda stjórnvalda að beita tiltækum úrræðum til að tryggja nauðsynlega uppbyggingu á fjarskiptaþjónustu á svæðum þar sem markaðsaðilar treysta sér ekki til.

VI.

Góðir landsmenn,

Framundan er nýtt ár; ár tækifæra, ár uppbyggingar, ár vaxta og þroska. Eins og ég hef rakið hefur ríkisstjórnin látið verkin tala og árangurinn liggur fyrir. Það er því einkar bjart framundan, en verkefnin eru næg og á næsta ári tökumst við á við krefjandi og mikilvæg verkefni á borð við endurskoðun stjórnarskrárinnar, áframhaldandi styrkingu grunneiningar þjóðfélagsins; fjölskyldunnar og viðhald og eflingu velferðarkerfisins. 

Um leið og ég þakka ykkur fyrir samstarfið á árinu sem er að líða, bið ég þess að árið 2005 verði ykkur ár farsældar og friðar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum