Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2005 Forsætisráðuneytið

Viðskiptaþing Verslunarráðs Íslands 2005

Ræða Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, á Viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands í febrúar 2005.

English version

Góðir fundarmenn,

Það er mér mikið ánægjuefni að standa fyrir framan þennan glæsilega hóp úr íslensku viðskipta- og atvinnulífi og sjá þar samankominn á einum stað ljóslifandi þann mikla kraft sem býr að baki því sem sumir hafa gengið svo langt að kalla íslenska viðskiptaundrið. Ég átti þess kost um daginn að bjóða stjórn Verslunarráðs Íslands til hádegisverðarfundar þar sem við fórum yfir stöðu og horfur og áttum gagnleg skoðanaskipti. Það er mér afar mikilsvert að eiga nána samvinnu við forystufólk í íslensku atvinnulífi og metnaðarmál að þau samskipti einkennist af sanngirni, hreinskilni og gagnkvæmum skilningi.

Íslenskt efnahagslíf hefur tekið ótrúlegum breytingum síðasta áratug og ég tel varla ofmælt að þetta séu einhverjar mestu breytingar á skipulagi efnahagsmála sem hér hafa orðið. Ég veit að sumum finnst þetta kannski farið að hljóma eins og rispuð plata, en staðreyndin er sú að síðan núverandi stjórnarflokkar komust í ríkisstjórn, höfum við innleitt frelsi á fjármagnsmarkaði, bæði inn á við og út á við, skattkerfinu hefur verið umbylt og styrkum stoðum hefur verið rennt undir íslenskt atvinnulíf. Það sem skiptir þó mestu er að tekist hefur að koma hér á stöðugleika, bæði efnahagslegum og stjórnmálalegum. Kollsteypurnar og efnahagskrísurnar sem voru nær daglegt brauð hér á árum áður eru liðin tíð. Auðvitað geta komið ágjafir endrum og eins sem rugga bátnum en okkar efnahagslíf er nú miklu betur í stakk búið til að mæta þeim en áður var vegna þessara skipulagsbreytinga. Við getum þess vegna litið til baka yfir þennan áratug með ákveðnu stolti og ánægju yfir að hafa tekið þátt í að hrinda þessum breytingum í framkvæmd.

Meginverkefni okkar undanfarinn áratug hefur verið og er enn að móta hér sterkt og framtíðarvænlegt nútímasamfélag með öflugu markaðskerfi, kröftugu atvinnulífi, metnaðarfullu menningar- og menntalífi og lipru þjónustu- og félagsmálakerfi, í anda frjálslyndrar lýðræðislegrar félagshyggju og þjóðlegrar alhliða framfarastefnu.

Mér finnst ástæða til að taka þetta fram hér, vegna þess að það er ekki alltaf auðvelt að merkja það á umræðunni hér á landi að erlendis sé talað um Ísland og okkur Íslendinga af aðdáun og forvitni þegar talið berst að efnahagsmálum og viðskiptum. Að hér sé samfelldur hagvöxtur, lítið atvinnuleysi, ört vaxandi kaupmáttur og öflugt velferðarkerfi sem stendur öllum opið, óháð efnahag. Að héðan sæki öflugir kaupsýslumenn á ókunn mið og fjárfesti sem aldrei fyrr á framandi slóð til hagsbóta fyrir þjóð sína. Að hér ríki sannkallað góðæri og framtíðin sé einstaklega björt.

Þvert á móti finnst mér opinber umræða á Íslandi snúast miklu fremur um vandamál en góðan árangur. Vissulega getum við gert betur. En væri ekki skynsamlegra að takast á við slík verkefni af einlægni og líta á þau sem úrlausnarefni fremur en boða myrkur og svartsýni þjóð sinni til handa. Þeir eru örugglega til sem vildu fá aftur ríkisrekna banka og fjárfestingarsjóði, svarthvítt sjónvarp og frí frá því á fimmtudagskvöldum, en gætum við hin ekki fengið að spegla okkur í sólargeislum framtíðarinnar og þeim feykilegu tækifærum sem felast í henni?

Er íslenskt viðskiptalíf nógu duglegt við að koma þessum boðskap á framfæri? Að hér hafi verið sköpuð tækifæri til vaxtar og útrásar? Nei, það held ég ekki. Gleymum því ekki að til er önnur hugmyndafræði sem gengur út á að hið opinbera eigi að auka afskipti sín af atvinnulífinu og vill setja á boð og bönn um alla skapaða hluti. Vilja Íslendingar hverfa aftur til þess tíma þegar gengisfellingar, verkföll, verðbólga og atvinnuleysi tóku lungann úr fréttatímum sjónvarpsstöðvanna? Nei, það held ég alls ekki.

Góðir þingfulltrúar,

Við Íslendingar höfum uppskorið ríkulega, eins og við sáðum. Við tókum erfiðar ákvarðanir, sem oft voru pólitískt umdeildar, eins og uppbygging stóriðju, endurskipulagning sjávarútvegsins með kvótakerfi og einkavæðing bankanna, en staðreyndirnar tala sínu máli.

Áhrif þessara skipulagsbreytinga birtast meðal annars í því að samkeppnisstaða íslensks efnahags- og atvinnulífs hefur batnað verulega í alþjóðlegu samhengi. Samkvæmt könnun IMD viðskiptaháskólans í Sviss eru Íslendingar nú komnir í 5.sæti yfir samkeppnishæfni þjóða. Til samanburðar má nefna að á árinu 1995 vorum við í 25. sæti. Það sem er ekki síður áhugavert er að við erum nú í efsta sæti allra Evrópuþjóða á þessum lista en vorum í 13. sæti árið 1995. Í þessari könnun er horft til fjölmargra þátta sem snúa að samkeppnisstöðu atvinnulífsins svo sem efnahagslegs árangurs, hagkvæmni í rekstri hins opinbera, hagkvæmni fyrirtækja og innviði þjóðfélagsins. Við erum til dæmis í fyrsta sæti þegar horft er á vöxt fjárfestingar erlendis og viðskiptafrelsi milli landa. Þá er atgervisflótti minnstur hjá okkur og tæknileg samvinna fyrirtækja mest.
Á tiltölulega stuttum tíma hefur íslenskt efnahagslíf þróast úr því að vera fyrst og fremst framleiðsluþjóðfélag þar sem sjávarútvegur hefur verið meginuppistaðan yfir í fjölbreytt og afar tæknivætt framleiðslu- og þjónustuhagkerfi þar sem nýjar atvinnugreinar skipta sífellt meira máli. Hér er ég ekki einungis að tala um þau nýju stóriðjufyrirtæki sem hér hafa haslað sér völl heldur einnig þau fyrirtæki sem hér hafa sprottið upp í hinum ýmsu greinum hvort sem er á sviði hugbúnaðar, lyfjaiðnaðar, lækningatækja, líftækni, fjarskipta eða annarra hátæknifyrirtækja. Jafnframt hafa æ fleiri íslensk fyrirtæki sótt af miklum og vaxandi krafti inn á erlenda markaði sem hefur rennt enn styrkari stoðum undir okkar efnahagslíf.

Það er fróðlegt að skoða nokkrar tölur í þessu samhengi sem sýna hvað breytingarnar hafa verið gríðarlegar. Bein fjármunaeign Íslendinga erlendis hefur frá árinu 1998 hvorki meira né minna en fimmfaldast, úr tæplega 24 milljörðum í 120 milljarða árið 2003. Langmest munar um fjárfestingu fjármálafyrirtækja, eignarhaldsfélaga og hugbúnaðarfyrirtækjum sem fara úr nánast engu árið 1998 í 18 milljarða hjá fjármálafyrirtækjum og í 40 milljarða hjá eignarhaldsfélögum og hugbúnaðarfyrirtækjum. Fjármunaeign ýmissa framleiðslufyrirtækja jókst einnig verulega og var orðin fjórfalt meiri árið 2003 en 1998, eða um 40 milljarðar króna.

Ég lít svo á að eitt af meginverkefnum stjórnvalda á næstu árum sé að tryggja áframhald á þessari þróun og huga að því hvernig best megi búa í haginn fyrir aukna útrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði og ekki síður að skapa skilyrði fyrir auknar fjárfestingar erlendra aðila hér á landi. Ég tek því heils hugar undir þau meginsjónarmið sem fram koma í skýrslu Verslunarráðs Íslands sem hér hefur verið lögð fram um að stjórnvöld hugi að frekari breytingum á því efnahagsumhverfi sem við búum við. Það á ekki bara við um skattaumgjörðina, heldur einnig eftirlitsþáttinn og almennt um reglugerðarumfangið. Við þurfum að finna þann gullna meðalveg sem tryggir heilbrigt og framsækið atvinnulíf þar sem svo er búið um hnútana að almennar leikreglur séu í heiðri hafðar og opinbert eftirlit hefti ekki eðlilegan framgang fyrirtækjanna.

Þetta er ekki auðvelt verkefni eins og reynslan sýnir í mörgum af okkar nágrannalöndum.

Góðir fundarmenn,

Ríkisstjórnin hefur sem kunnugt er stigið afar mikilvæg skref í að lækka skatta á þessu kjörtímabili. Þessar ákvarðanir endurspegla ákveðna forgangsröðun enda er svigrúm til skattalækkana ekki ótakmarkað. Það er hins vegar ljóst að frekari breytinga er þörf sem þurfa einfaldlega að bíða betra færis. Þannig get ég tekið undir það sjónarmið að álagning stimpilgjalda er barn síns tíma og ástæða til þess að taka hana til endurskoðunar. Sama gildir um álagningu vörugjalda. Þar hefur þó verið talsvert hreinsað til á undanförnum árum. En hér eru vissulega enn ýmsir agnúar fyrir hendi eins og bent er á í skýrslu Verslunarráðs. Ég tel einsýnt að þessi atriði verði tekin til endurskoðunar fyrr en síðar þegar frekara svigrúm til skattalækkana skapast.

Ég tek undir þau sjónarmið Verslunarráðsins að það er mikilvægt að innlendir fjárfestar hafi eignarhald sitt fremur í innlendum eignarhaldsfélögum en erlendum. Við megum ekki við því að missa öflug fyrirtæki úr landi af skattalegum ástæðum. Það skiptir því miklu að jafna aðstöðu milli innlendra og erlendra fyrirtækja og freista þess að styrkja samkeppnisstöðu okkar og laða hingað erlend fyrirtæki í ríkari mæli en nú er og skapa þannig spennandi og vel launuð störf. Með það í huga finnst mér eðlilegt að fara vandlega ofan í saumana á tilhögun skattlagningar á arði og söluhagnaði erlendra fyrirtækja sem stofna dótturfélög hér á landi.

Mér finnst þetta atriði raunar mjög mikilvægt, ekki aðeins fyrir okkur sem störfum að stjórnmálum og höfum umboð þjóðarinnar til að móta hér lagaumhverfi og skilyrði fyrir heilbrigðan atvinnurekstur. Ég tel að ekki síður sé mikilvægt fyrir ykkur, forkólfa atvinnulífsins, að fá þarna tækifæri til þess að auka gagnsæi á markaðnum og eyða tortryggni sem getur og hefur skapast þegar upp spretta erlend eignarhaldsfélög eins og gorkúlur og eignarhald á venjulegu meðalstóru fyrirtæki er farið að minna á ofvaxið ættartré í Íslendingabókinni hans Kára Stefánssonar.

Þær breytingar sem orðið hafa á umgjörð efnahagsmála á síðustu árum hafa skilað sér í því að staða efnahagsmála er mjög traust. Hagvöxtur er meiri en annars staðar; atvinnuleysi minna; kaupmáttur heimilanna hefur aukist meira en annars staðar þekkist, eða um 40% frá árinu 1995 og stefnir í 55% aukningu til loka kjördæmabilsins. Þá hefur afkoma ríkisins verið betri en víðast hvar annars staðar sem meðal annars hefur orðið til þess að skuldir ríkissjóðs hafa minnkað mjög mikið. Þótt verðbólga hafi færst heldur í aukana upp á síðkastið stafar það fyrst og fremst af hækkandi fasteigna- og olíuverði. Sterkt gengi krónunnar vinnur gegn verðbólguþrýstingi og allt útlit er fyrir að verðlagsforsendur kjarasamninga haldi. Meginverkefni hagstjórnar á næstu árum er að tryggja að stóriðjuframkvæmdirnar raski ekki þeim efnahagsstöðugleika sem hér hefur ríkt.

Afgreiðsla fjárlaga fyrir árið 2005 með 10 milljarða króna afgangi endurspeglar staðfestu ríkisstjórnarinnar um að slaka ekki á aðhaldinu. Þá bendir margt til að hagvöxtur verði jafnvel enn meiri en gert er ráð fyrir í fjárlögum og mun það skila sér í meiri afgangi en fjárlögin sýna. Í þessu sambandi má nefna að ein meginniðurstaða nýrrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins er að fyrirhugaðar og þegar kynntar aðgerðir í ríkisfjármálum og aukið aðhald í peningamálum muni duga til að tryggja áframhaldandi efnahagslegan stöðugleika á næstu árum.

Ábyrg og traust efnahagsstjórn undanfarin ár og styrk staða ríkissjóðs eru lykilatriði þess að tekist hefur að lækka skatta heimilanna í landinu án þess að stofna stöðugleikanum í hættu. Áherslur ríkisstjórnarinnar eins og þær birtust í fjárlagafrumvarpi og langtímaáætlun í ríkisfjármálum gera fyrst og fremst ráð fyrir aðhaldi hvað varðar opinberar framkvæmdir. Þessi stefnumörkun er algjörlega í takt við ábendingar innlendra sem erlendra hagfræðinga, til dæmis frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og OECD sem hafa mælt með slíkum aðgerðum til að hamla gegn þensluáhrifum stóriðjuframkvæmdanna. Áfram er hins vegar gert ráð fyrir auknum útgjöldum til þess að halda uppi almennri og umfangsmikilli þjónustu á sviði velferðar- og menntamála.

Mörgum hefur orðið tíðrætt um tímasetningu skattalækkana og talið þær geta stuðlað að aukinni þenslu og verðbólgu á tímum mikillar stóriðjuuppbyggingar. Að viðskiptahallinn sé mikill og að skattalækkanirnar muni bara kynda undir hann. Hér gætir grundvallarmisskilnings á stöðu efnahagsmála og áhrifa stóriðjuframkvæmdanna. Flestar efnahagsspár gera ráð fyrir að viðskiptahallinn muni snarlækka þegar framkvæmdunum lýkur. Þá er það engin tilviljun að meginþungi tekjuskattslækkunarinnar kemur fram á árinu 2007 þegar stóriðjuframkvæmdunum er að mestu lokið. Þetta kemur í veg fyrir niðursveiflu í efnahagslífinu á þeim tíma og tryggir áframhaldandi kaupmáttaraukningu almennings. Í þessu samhengi er einnig rétt að benda á að þessar aðgerðir eru kynntar með góðum fyrirvara. Slíkt skapar meira öryggi og vissu um efnahagsþróunina og stuðlar að stöðugleika. Um það eru allir hagfræðingar sammála.

Mér finnst ástæða til að vekja athygli á, að við erum að horfa fram á afar óvenjulegt tímabil í íslenskri hagsögu. Verið er að ráðast í einhverjar mestu framkvæmdir í sögu þjóðarinnar á sama tíma og ríkir uppgangur á flestum öðrum sviðum efnahagslífsins. Íslenska hagkerfið er eins og allir vita mjög lítið og þess vegna skapa svona aðstæður vissulega ákveðin vandamál í hagstjórn. Þrátt fyrir þetta hafa þeir aðilar sem hafa tjáð sig um efnahagsmál, innlendir sem erlendir, ekki talið hættu á að hér fari allt úr böndunum. Auðvitað mun reyna á þanþol hagkerfisins og verðbólguþolmörk Seðlabankans. Ég tel hins vegar að íslenskt efnahagslíf muni standast þessa þolraun og njóta síðan góðs af því þegar framleiðslan hefst og tekjurnar fara að skila sér.

Óhjákvæmilegur fylgifiskur þessara framkvæmda er að gengi íslensku krónunnar hefur styrkst umtalsvert. Þetta hefur jákvæð áhrif á verðlagsþróun til skamms tíma þar sem innflutningsverð lækkar en gerir útflutnings- og samkeppnisgreinunum erfiðara fyrir auk þess sem þessi þróun hefur neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuðinn. Það er hins vegar afar erfitt að koma í veg fyrir að þetta gerist. Mikið innstreymi erlends fjármagns hefur einfaldlega þessi áhrif. Á móti vega áhrif þeirra skipulagsbreytinga á hagkerfinu sem gerðar hafa verið sem hafa styrkt samkeppnisstöðu atvinnulífsins og gert fyrirtækjunum kleift að búa við hærra raungengi en áður. Aukin hagræðing og mikil framleiðniaukning íslensku atvinnulífi á undanförnum árum hefur haft svipuð áhrif.

Ágætu þingfulltrúar

Einkavæðing og sala hlutabréfa í fyrirækjum í eigu ríkisins sem starfa í samkeppnisumhverfi hefur verið eitt af helstu stefnumálum ríkisstjórnarinnar. Mér telst svo til að á árunum 1999-2004 hafi alls farið fram 14 sölur á hlutabréfum í eigu ríkisins. Söluvirði seldra hlutabréfa á þessum tíma nemur tæplega 55 milljörðum króna, söluvirði sem notað hefur verið til niðurgreiðslu skulda og ýmissa þarfra verkefna.

Ég leyfi mér að fullyrða að einkavæðingarferlið, ef svo má að orði komast, hafi gengið vel undanfarin ár og til þess fallið að auka samkeppni og skilvirkni í þjóðfélaginu, neytendum til hagsbóta. Íslensku viðskiptabankarnir eru gott dæmi um slíkt. Heldur einhver að afl þeirra, sem sýnir sig ekki bara í lækkandi vöxtum og þjónustugjöldum heldur einnig í magnaðri útrás og starfsemi á erlendri grundu, hefði stóraukist eins og raun ber vitni undir væng ríkisvaldsins? Ég held ekki og hef ég þó prýðilega trú á sjálfum mér og öðrum stjórnmálamönnum! Það hefur sannast á undanförnum misserum að þessum rekstri er einfaldlega betur fyrir komið í höndum einkaaðila.

Svo á einnig við um ýmsan annan rekstur - eins og rekstur fjarskiptafyrirtækja. Eins og kunnugt er, er nú unnið að sölu á hlut ríkisins í Landssíma Íslands. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu heldur utan um það ferli og hefur sér til ráðgjafar hið virta fjármálafyrirtæki Morgan Stanley í Lundúnum.

Undirbúningurinn gengur vel og forsendur eru fyrir því að hægt verði að ráðast í sölu á hlutabréfum í Símanum á vormánuðum. Markaðsaðstæður nú um stundir eru hagstæðar og áhugi á fyrirtækinu mikill meðal fjárfesta, enda er Síminn einkar vel rekið fyrirtæki í fremstu röð á sínu sviði. Með sölu á hlut ríkisins í Símanum er jafnframt ráðist í stærstu einstöku einkavæðingu Íslandssögunnar, og því afar mikilvægt að vel takist til.

En til eru þeir sem sjá sér hag í því að gera sölu á Símanum tortryggilega. Innihald þeirrar umræðu er að mestu gamalkunn og kannski skiljanleg að einhverju leyti. Gamlir kunningjar hafa kvatt sér hljóðs á nýjan leik. Þeir sem lengst til vinstri standa vilja halda fyrirtækinu áfram í ríkiseigu og keppa áfram við atorkusama einkaaðila sem hafa haslað sér völl á fjarskiptamarkaðinum. Fleiri viðurkenna þó að ríkið eigi lítið hlutverk í dag í samkeppnisrekstri sem þessum, en krefjast þess að fyrirtækið verði klofið og grunnnetið aðskilið.

Umræðan um aðskilnað grunnnetsins frá Símanum er ekki ný af nálinni. Hún átti sér stað í fyrra söluferli Símans fyrir rúmum þremur árum. Síðan þá liggur fyrir heimild Alþingis um selja fyrirtækið óskipt. Það er hið pólitíska umboð, það er óbreytt og eftir því er unnið. Veigamikil rök liggja til grundvallar þeirri ákvörðun að selja Símann í heilu lagi.

Við skulum staldra við nokkur atriði.

Í fyrsta lagi erum við ekki að finna upp hjólið. Langflest ríki Evrópu hafa einkavætt fjarskiptafyrirtæki í eigu ríkisins og hvergi hefur grunnnet verið aðskilið þjónustu.

Í öðru lagi myndi aðskilnaður grunnets skapa aukna óvissu um söluna á fyrirtækinu og draga úr verðmæti Símans.

Í þriðja lagi þurfa rekstraraðilar grunnnets sífellt að bregðast við og aðlagast aukinni vöruþróun og þjónustukröfum neytandans. Hverjir eru líklegastir til að bregðast með fullnægjandi hætti við slíkum kröfum –grunnnet í opinberri eigu eða grunnnet í eigu þjónustufyrirtækis sem á allt sitt undir að veita neytandanum þá þjónustu sem hann krefst? Svarið er augljóst í mínum huga.

Í fjórða lagi gerir lagaumhverfið hér, sem og annars staðar í Evrópu, ráð fyrir samkeppni í rekstri grunnneta. Þeir sem bera saman hið nýja raforkuumhverfi, sem samkvæmt evrópskri löggjöf gerir ráð fyrir einkasölu við dreifingu, við rekstur grunnneta í fjarskiptageiranum horfa algerlega fram hjá þessu veigamikla atriði. Nú þegar á grunnnet Símans í samkeppni við fjarskiptanet annarra fjarskiptafyrirtækja. Nægir þar að nefna Orkuveitu Reykjavíkur, Og fjarskipti og Fjarska. Á ríkið að standa í samkeppni í rekstri fjarskiptaneta? Tæpast.

Í fimmta og síðasta lagi, og þetta er einkar mikilvægt atriði, á hið lagalega umhverfi að tryggja samkeppnisaðilum Símans greiðan aðgang að grunnnetinu á sama verði og Landssíminn greiðir. Löggjöfin hér á landi hvað þetta atriði varðar er í samræmi við þá löggjöf er ríkir í Evrópu. Lögin gera ríkar kröfur til markaðsráðandi aðila á fjarskiptamarkaði og gefa skýr fyrirmæli um aðgang annarra fjarskiptafyrirtækja inn á grunnnet slíks aðila. Eftirlit með löggjöfinni hafa svo Samkeppnisstofnun og Póst- og fjarskiptastofnun og hafa úrræði til að grípa inn í ef með þarf.

Markmið íslenskra stjórnvalda með sölu á hlut sínum í Símanum eru skýr: að auka samkeppni á fjarskiptamarkaði enn frekar og bæta þannig hag neytenda. Til að þessi markmið megi nást er virkt eftirlit algert skilyrði. Þurfi að styrkja það frekar til að eyða tortryggni gagnvart markaðsráðandi aðila sem starfrækir grunnnet, þá tel ég rétt að skoða það sérstaklega.

Þá legg ég áherslu á að þrátt fyrir að ríkið sleppi hendinni af Símanum verður það áfram skylda stjórnvalda að beita tiltækum úrræðum til að tryggja nauðsynlega uppbyggingu á fjarskiptaþjónustu á svæðum þar sem markaðsaðilar treysta sér ekki til. Eðlilegt er að horft verði til hluta söluandvirðis Símans í þágu þess. Þetta er annað mikilvægt atriði og ég fullyrði að möguleikar stjórnvalda til þess að tryggja landsmönnum öflugt dreifikerfi munu ekki minnka við sölu Símans, heldur aukast verulega.

Ágætu fundargestir,

Á dagskrá viðskiptaþings að þessu sinni eru umræður um þau tímamót sem menn hyggja að íslenskt viðskiptalíf standi nú á. Fyrir rúmum tíu árum urðu enn meiri straumhvörf í íslensku viðskiptalífi þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tók gildi. Má með sanni segja að þar hafi verið lagður grunnurinn að nútímavæðingu íslensks viðskipta- og athafnalífs.

Um EES-samninginn hefur um langt skeið ríkt góð sátt þótt ýmsir hafi fundið honum ýmislegt til foráttu á sínum tíma. Nú nýverið spannst hins vegar nokkur umræða um EES- samstarfið vegna þeirra ummæla prófessors Ragnars Árnasonar að Íslandi væri jafnvel betur borgið utan EES.

Slík fullyrðing hafði ekki heyrst lengi, en ég tel rétt að velta henni fyrir sér enda er umræðan af hinu góða og skoðanir skiptar á jafn mikilvægu máli. Meginmálið er hins vegar það að huga ávallt að því hvernig við getum í framtíðinni tryggt hagsmuni okkar í Evrópu og á öðrum lykilmörkuðum og með hvaða leiðum. Ekki þarf að fjölyrða við ykkur sem hér sitjið hvílíkir hagsmunir eru í húfi. Það er nauðsynlegt að við veltum fyrir okkur hvernig við tökumst á við þær miklu breytingar sem nú eru að verða á Evrópusambandinu og metum hvað gera skal ef fjarar undan EES-samstarfinu, ekki síst taki Norðmenn þá ákvörðun að hag lands og þjóðar sé best borgið innan Evrópusambandsins. Þá þarf og að skoða þá möguleika sem leynast utan Evrópu.

Ég hef oftsinnis bent á að breytingar kunni að verða á EES- samstarfinu og brýnt sé að við metum stöðu okkar í tíma og þá kosti sem valið gæti staðið um. Ragnar Árnason nefndi einn þessara kosta, að standa alfarið utan EES og taka upp tvíhliða samningaviðræður við Evrópusambandið. Hann benti á að Svisslendingar hefðu valið þessa leið og hefði þeim vegnað vel utan sambandsins. Rétt er að Svisslendingum hefur vegnað vel eins og endranær, en þar með er vitanlega ekki öll sagan sögð, en ég hef áður bent á að staða Íslands er allt önnur en Sviss. Evrópusambandið er annað nú en þegar Svisslendingar hófu við það samninga eftir að þjóðin hafnaði EES-samningnum sem stjórnvöld höfðu lagt í hennar dóm.
Þá hefur því og verið haldið fram að nú væri svo komið að þær reglur um heimsviðskipti sem Alþjóðaviðskiptastofnunin, WTO, setur ríkjum nægðu til og ekki væri lengur þörf á samningum á borð við EES- samninginn. Við tökum að sjálfsögðu virkan þátt í starfi alþjóðaviðskipta-stofnunarinnar enda dylst væntanlega engum hér inni hversu miklu aukið frjálsræði í alþjóðlegum viðskiptum skiptir Ísland. Þrátt fyrir samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eru ríki heims enn að tengjast fríverslunarböndum af ýmsu tagi. Enn sem komið er hrekkur sú umgjörð sem Alþjóðaviðskiptastofnunin setur ríkjum ekki til.

Ljóst er að velflest ríki heims, stór og smá, hafa séð hag sinn í gerð samninga við þau ríki sem þau hafa mest samskipti og viðskipti við. Ísland er þar engin undantekning. Misjafnt er hversu víðtækir þessir samningar eru, sumir taka aðeins á viðskiptum en æ fleiri taka til fleiri þátta þótt ekki sé mér kunnugt um samninga sem ganga svo langt sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Mitt mat er að við værum ekki í þeim sporum sem við erum nú án EES-samningsins og hefðum því ekki átt að kjósa að standa utan EES eins og Svisslendingar. Hvort EES-samningurinn lifir hins vegar um ókomna tíð er önnur saga og það geta skapast þær aðstæður að ekki bjóðist annar kostur en að fóta sig í Evrópu án þess haldreipis sem EES-samningurinn hefur verið Íslandi í meira en áratug. Þá er ónefndur kosturinn um aðild að Evrópusambandinu sem menn verða að skoða ofan í kjölinn og enginn má útiloka. Nefnd skipuð fulltrúum og þingmönnum allra flokka hefur hafið það miklvæga og tímabæra starf. Niðurstaðan verður eflaust ekki einhlít og kemur þar margt til sem ekki gefst tóm til að tíunda hér. Þá þætti alla hef ég rakið áður í ræðu og riti. Niðurstaða mín er hins vegar sú að sterkt athafnalíf og víðtæk og öflug alþjóðleg viðskipti gera Ísland að áhugaverðum kosti sem mun styrkja stöðu okkar á alþjóðvettvangi hver sem afdrif EES-samningsins verða. Því er mikilvægt að við höldum ótrauð áfram á þeirri braut sem menn á borð við þann sem hér talar á eftir mér hafa markað með miklum glæsibrag.

Góðir fundarmenn,

Mig langar til að enda tölu mína á því að vísa í upphaf og endi þess sem hér hefur verið umfjöllunar, nefnilega þann glæsilega árangur sem náðst hefur fyrir tilstuðlan dugmikillar þjóðar sem lætur smæð sína ekki slá sig út af laginu heldur siglir ótrauð áfram, jafnvel þótt stundum blási hraustlega á móti. Á sama hátt og ég leyfi mér að telja okkur stjórnmálamennina að nokkru leyti ábyrga fyrir þeim góða árangri sem náðst hefur, fyrst og fremst með því að skapa ákjósanleg og hvetjandi skilyrði, þá er það og okkar hlutverk að móta framtíð sem býður upp á enn frekari tækifæri.

Ég á mér þann draum að í framtíðinni verði Ísland þekkt um víða veröld sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Að hér á þessari litlu og hjartfólgnu eyju starfi kraftmikil alþjóðleg fyrirtæki, sem hafa kosið að eiga hér höfuðstöðvar vegna ákjósanlegra skilyrða af hálfu stjórnvalda, vegna þess mannauðs sem í landinu býr og vegna mikils og góðs stöðugleika, hvort sem er í efnahaglegu eða stjórnmálalegu tilliti.

Ég er þeirrar skoðunar að með samstilltu átaki getum við gert þennan draum að veruleika. Við eigum ekki að harma það þótt upp spretti stöndug fyrirtæki hér á landi og fleiri fái ríkulega greitt fyrir vinnu sína. Það er ekkert takmark að allir verði á endanum meðalmennskunni að bráð. Miklu fremur á það að vera sameiginlegt markmið okkar allra að sýna hvernig allt í senn er hægt að skapa á Vesturlöndum ríki þar sem fyrirtækjum er boðin samkeppnishæf aðstaða til rekstrar og vaxtar við það sem best þekkist í heiminum, en um leið sé áhersla lögð á öflugt velferðarkerfi sem byggist á ævagömlum lögmálum um samhjálp og manngæsku. Þar sem eru til peningar fyrir betri skóla, öflugri heilbrigðisstofnunum og til þess að búa hinum öldruðu áhyggjulaust ævikvöld.

Þetta er allt hægt og þarf í raun ekki að vera flókið. Við þurfum hins vegar að hafa markmiðin á hreinu og halda áfram á sömu braut og sýna sömu djörfung og til þessa. Við stórlækkuðum skatta á fyrirtæki, þeir eru til sem voru andsnúnir því. Við stórlækkum nú skatta á einstaklinga og þeir eru svo sannarlega til sem eru andsnúnir því. Þeir verða því örugglega margir sem munu finna þessari framtíðarsýn allt til foráttu, en þeir um það.

Það er líka alveg á hreinu að það er hægt að glutra niður þeim góða árangri sem náðst hefur á örkotsstundu, verði ekki rétt á málum haldið.

Við höfum náð langt, en getum náð enn lengra. Tækifærið er til staðar. Það er hægt að grípa það og ná sameiginlegu marki. Slík framtíðarsýn krefst víðsýni og áræðni, bæði af hálfu atvinnulífs og stjórnvalda. Ég hef fulla trú á að þeir sem hér sitja og aðrir mikilhæfir fulltrúar íslensks viðskiptalífs séu vandanum vaxnir og mun fyrir mitt leyti beita mér fyrir þeim breytingum sem eru nauðsynlegar af hálfu stjórnvalda til að nýta þau sóknarfæri sem framundan eru í íslensku efnahagslífi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum