Hoppa yfir valmynd
21. mars 2005 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra á aðalfundi Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþing 17. mars 2005

Góðir fundarmenn

Það er mér sönn ánægja að koma á þennan aðalfund og ræða um fjármálamarkaðinn og efnahagslífið. Enginn vafi er á því að fjármálamarkaðurinn og Kauphöll Íslands hafa leikið mikilvægt hlutverk í þeirri framfararsókn sem einkennt hefur íslenskt efnahagslíf á undanförnum árum.

Þegar litið er til þróunar hagvaxtar á síðustu tíu árum í helstu iðnríkjum heims hefur Ísland náð meiri árangri en nokkur önnur þjóð - hugsanlega að Írlandi einu undanskildu. Jafnframt eru hagvaxtarhorfur fyrir næstu ár betri en víðast hvar í nágrannalöndunum. Er því að vonum að sumir gangi svo langt að tala um íslenska viðskiptaundrið. Samhliða auknum hagvexti hafa lífskjörin batnað og allir innviðir efnahagslífsins orðið traustari. Fyrir vikið eru kennileiti í efnahagslífinu nú verulega breytt frá því fyrir um tíu árum og bera vitni um nútímalegt og öflugt markaðshagkerfi í fremstu röð í heiminum.

Þetta er allt önnur og hagstæðari mynd en menn sáu fyrir sér fyrir sér um miðjan síðasta áratug. Fróðlegt er að rifja upp að þá voru spár um fjölgun starfa og aukinn hagvöxt á komandi árum harðlega gagnrýndar og talað um bjartsýnishjal sem ætti sér enga stoð í raunveruleikanum. Reynslan sýnir hins vegar að þetta voru fremur varkárar spár en hitt.

Hvers vegna hefur íslenskt efnahagslíf staðið í svo miklum blóma síðustu ár? Um þetta eru vissulega skiptar skoðanir eins og eðlilegt er enda kemur margt til. Tvennt ber þó að mínu viti hæst. Annars vegar eru það þær breytingar sem gerðar hafa verið á efnahagskerfinu og hins vegar miklar fjárfestingar í stóriðju. Seinna atriðið segir sig nokkuð sjálft. Það liggur í hlutarins eðli að nýbyggingar álvera og stækkanir ásamt tengdum virkjunarframkvæmdum hafa aukið umsvif í efnahagslífinu. Ég tel þó að þær skipulagsbreytingar sem gerðar hafa verið á hagkerfinu skipti ekki síður máli enda miðuðu þær að því að leggja grunn að öflugu nútímalegu markaðshagkerfi. Þær breytingar sem skiptu mestu máli eru aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, aukið frjálsræði á fjármagnsmarkaði, einkavæðing ríkisbankanna og, síðast en ekki síst, umfangsmiklar skattkerfisbreytingar, þar á meðal stórfelld lækkun skatta á fyrirtæki. Þessar breytingar hafa gerbreytt umgjörð efnahagsmála; þær hafa leyst mikinn kraft úr læðingi, aukið afköst og framleiðni sem eru undirstöður hagvaxtar og bættra lífskjara.

Þessar breytingar sneru ekki hvað síst að fjármálamarkaðnum. Það er í sjálfu sér ekki undarlegt því fjármálamarkaðurinn á Íslandi var um margt mjög vanþróaður í samanburði við það sem þekktist í öðrum löndum. Nútímavæðing fjármálamarkaðarins var því orðin mjög tímabær. Það kom líka á daginn að breytingarnar á umhverfi fjármálamarkaðarins höfðu í för með sér allt annað vinnulag í hagkerfinu og varla blandast nokkrum manni hugur um að þær hafa stuðlað að hagvexti og efnahagslegum framförum.

Ein birtingarmynd breytinganna er þróun Kauphallar Íslands. Hún var stofnuð 1985 en fyrstu viðskiptin með hlutabréf áttu sér ekki stað fyrr en í byrjun tíunda áratugarins. Það eru því ekki nema um fimmtán ár síðan hlutabréfaviðskipti hófust hér á landi á skipulegum verðbréfamarkaði samanborið við margra áratuga og í sumum tilvikum fleiri hundruð ára sögu slíkra viðskipta í nálægum löndum. Því er einkar athyglisvert að Kauphöll Íslands er nú stærsta kauphöllin á Norðurlöndum þegar litið er til stærðar hagkerfisins. Þannig svarar markaðsvirði hlutabréfa til um 120% af landsframleiðslu hér á landi. Þetta hlutfall er á bilinu 100-110% í Svíþjóð og Finnlandi en nær helmingi lægra í Danmörku og Noregi. Þetta er því merkileg saga og á sér varla hliðstæðu annars staðar.

Við þetta má bæta að markaðurinn hefur verið mjög öflug uppspretta fjármagns fyrir viðskiptalífið sem hefur verið í miklum fjárfestingum erlendis á síðustu misserum. Sem dæmi má nefna að skráð fyrirtæki sóttu 170 milljarða króna á hlutabréfamarkaðinn í fyrra eða sem samsvarar 20% af landsframleiðslu. Enginn annar markaður í Evrópu komst nálægt þessu hlutfalli.

Mestu af því fé sem fyrirtækin hafa sótt á markað hafa þau ráðstafað til fjárfestinga í fyrirtækjum á erlendri grund. Hlutabréfamarkaðurinn hefur því leikið stórt hlutverk í útrás íslenskra fyrirtækja – og í raun er vafasamt að af henni hefði getað orðið ef skilvirkur markaður hefði ekki verið fyrir hendi. Opinn, öflugur fjármálamarkaður sem getur veitt alhliða fjármálaþjónustu í háum gæðaflokki er forsenda fyrir útrás af því tagi sem íslensk fyrirtæki hafa farið í á undanförnum árum.

Sennilega er þessi þróun einstök. Ég veit ekki til þess að fyrirtæki í nokkru landi hafi á jafn skömmum tíma fjárfest jafn mikið erlendis að tiltölu við stærð þess og íslensk fyrirtæki hafa gert á undanförum árum. Þessar fjárfestingar virðast flestar hafa gengið vel fram að þessu. Það er hins vegar mikilvægt að menn hagi fjárfestingum sínum þannig að þeir hafi borð fyrir báru ef veðrabrigði verða í viðskiptalífinu, jafnt hér á landi sem erlendis. Þessi skilaboð eiga að sjálfsögðu við um allt þjóðarbúið, einstaklinga, fyrirtæki og hið opinbera.

Þegar við lítum um öxl getum við verið stolt af því sem hefur áunnist í þessum efnum og þegar horft er fram á við eru flest teikn uppörvandi. Mörg verkefni blasa hins vegar við á sviði viðskipta- og fjármálalífsins. Mestu máli skiptir að laga- og reglugerðarumhverfið mun taka miklum breytingum vegna aðgerðaáætlunar ESB í fjármálum sem hefur það að markmiði að skapa samræmdan evrópskan fjármálamarkað. Þetta er gríðarlega viðamikið og vandasamt verkefni sem felur í sér miklar breytingar fyrir íslenskan fjármálamarkað. Fyrir vikið er mikið í húfi að innleiðing tilskipana ESB sem lúta að þessu verkefni verði farsæl.

Hvað snertir aðgerðaáætlun ESB og innleiðingu tilskipana á hennar grunni er mikilvægast að hagkvæmnissjónarmið verði höfð að leiðarljósi og að sá sveigjanleiki sem einkennt hefur íslenska hagkerfið haldist áfram. Þannig verður unnt að tryggja fjármálamarkaðnum áfram góð samkeppnisskilyrði í hinu kröfuharða alþjóðlega umhverfi. Íslendingar hafa sýnt það á undanförnum árum að þeir standa sig vel í slíku umhverfi. Við getum því horft bjartsýn fram á veginn.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum