Hoppa yfir valmynd
22. desember 2005 Forsætisráðuneytið

Fundur Vísinda- og tækniráðs 19. desember 2005

Framsaga forsætisráðherra á fundi Vísinda- og tækniráðs 19. desember 2005

Ég segi þennan sjötta fund Vísinda- og tækniráðs settan og býð ykkur öll velkomin til fundarins.

Senn líður að lokum fyrsta starfstíma Vísinda- og tækniráðs en nýtt ráð verður skipað til þriggja ára hinn 1. apríl 2006. Þeir mánuðir sem eftir lifa verða nýttir til þess að undirbúa áherslur í starfi ráðsins fram til ársins 2009.

Vísindi og tækni hafa fengið aukið vægi á opinberum vettvangi þann tíma sem Vísinda- og tækniráð hefur starfað. Stefnumótun ráðsins sem gengið var formlega frá fyrir tveimur árum hefur varðað leiðina fyrir ráðuneyti og opinberar stofnanir. Þegar litið er yfir farinn veg verð ég að segja að opinberir aðilar og atvinnulífið hafa verið samstíga við að fylgja fram áherslum ráðsins og ljóst er að margt hefur áunnist.

Aukin áhersla ríkisstjórnarinnar á frumkvæði og nýja hugsun með því að stórefla opinbera samkeppnissjóði hefur orðið stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum hvatning til að taka höndum saman um viðameiri rannsóknarverkefni en áður. Tilkoma tækniþróunarsjóðs hefur stuðlað að framgangi nýsköpunarhugmynda sem ella hefðu átt erfiðara uppdráttar. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar nú í haust að leggja Nýsköpunarsjóði til aukið fé er rökrétt framhald af eflingu tækniþróunarsjóðs.

Efling háskólanáms og gagnrýn skoðun á innihaldi og uppbyggingu háskólamenntunar mun án nokkurs efa skila sér í meiri færni til að takast á við alþjóðlega samkeppni á sviði menntunar, framleiðslu og þjónustu.

Í byrjun þessa mánaðar lagði ég fram á Alþingi frumvarp til laga um Matvælarannsóknir hf. Þar er gert ráð fyrir að sameina þrjár ríkisstofnanir í eitt hlutafélag í eigu ríkisins. Félaginu er ætlað að sinna rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis.

Það verður í verkahring stjórnenda hins nýja félags að skilgreina þau verkefni á sviði matvælarannsókna sem brýnt er að félagið sinni, útfæra og efla samstarf við aðrar rannsóknaraðila, háskóla og fyrirtæki og huga að framtíðaruppbyggingu starfseminnar og húsnæðismálum.

Hlutafélag í eigu ríkisins starfar á almennum markaði og hefur enga sérstöðu umfram önnur hlutafélög nema sérstaðan sé skilgreind í lögum. Verkefni sem núverandi stofnanir hafa annast fyrir ríkið, s.s. rannsóknir í almannaþágu, öryggisþjónusta o.fl., þarf því að skilgreina mun betur en til þessa svo hægt sé að koma þeim út á markað og gera um þau samninga samkvæmt lögum og reglum um opinber innkaup. Það þýðir meðal annars að ríkið þarf að skerpa á hlutverki sínu sem kaupandi að þjónustu á sviði matvælarannsókna. Í ljósi eðlis og umfangs þeirra verkefna ætti hið nýja hlutafélag að hafa alla burði til að bjóða hagstætt verð í þau verk þegar þau verða auglýst.

Gert er ráð fyrir að öllum núverandi starfsmönnum þeirra ríkisstofnana sem lagðar verða niður, verði boðið starf hjá Matvælarannsóknum hf. Lögð er áhersla á að fyrirtækið verði stofnað í rekstrarhæfu formi, þ.e. nægjanlega stöndugt til að geta komið yfir sig húsnæði og staðið undir eðlilegri endurnýjun á tækjabúnaði. Stofnfundur félagsins verður haldinn fljótlega eftir að frumvarpið verður orðið að lögum frá Alþingi. Þar verður félaginu skipuð 7 manna stjórn sem mun ráða hið fyrsta forstjóra sem ásamt stjórn félagsins undirbýr starfsemi félagsins sem ráðgert er að hefjist síðari hluta árs 2006.

Það hefur verið mikil gerjun í vísindasamfélaginu á undanförnum árum. Ný tækni og meiri vitneskja hefur stóraukið möguleika til rannsókna. Það samfara auknum áhuga stjórnvalda og fyrirtækja á gildi rannsókna kallar á að vísindamenn þurfa gjarnan að bregðast skjótar við og beina sjónum í nýjar áttir. Hlutafélagsformið gefur meiri færi á sveigjanleika í fjárfestingum, rekstri og samvinnu við aðra aðila en ríkisrekstrarformið, en það getur verið óþjált að búa við þær reglur sem gilda um ríkisreksturinn almennt.

Þekking og hæfni starfsmanna er drifkraftur allra rannsókna og nýsköpunar. Aukinn sveigjanleiki í rekstri hlýtur því að verða starfsmönnum til framdráttar.

Fjárfesting í sprotafyrirtæki er háð mikilli óvissu, gjarnan byggð á bjartsýni og sannfæringarkrafti frumkvöðla. Í sumum tilvikum verður hugmyndin að arðbærum veruleika í öðrum tilvikum ekki.

Sem dæmi um hugmynd sem snýr að áhugasviði Íslendinga þá greiddi ég götu áhugahóps um loftslagsrannsóknir við gerð hagkvæmnisathugunar á forsendum þess að koma á fót rannsóknarstofnun á Ísafirði á sviði loftslagsbreytinga. Í fyrstu fannst mér hugmyndin fremur fjarlæg, en gott dæmi um þann áhuga sem er á því að efla vísindi og rannsóknir víða um land.

Athugunin fól í sér skilgreiningu á rannsóknarsviði stofnunarinnar og sóknarfærum, greiningu og upplýsingaöflun um sambærilegar stofnanir, athugun á mögulegum samstarfsaðilum, styrkjum, stærð stofnunar í ársverkum talið, húsnæðismál og staðsetningu. Niðurstöður þeirrar skýrslu voru kynntar á Ísafirði í síðustu viku.

Loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra eru að mati margra vísindamanna ein mesta ógn sem steðjar að mannkyni til lengri tíma litið. Ísland hefur látið þessi mál mjög til sín taka á alþjóðavettvangi.

Mikilsvert framlag Íslands til umhverfis- og loftslagsmála í heiminum er sú staðreynd að rúmlega 70% af allri orkunotkun Íslendinga er framleidd úr endurnýjanlegum auðlindum og það liggur fyrir að þetta hlutfall mun vaxa á komandi árum. Aðkoma Íslands að rannsóknum sem beinast að því að nýta vetni til orkuframleiðslu hefur ennfremur vakið athygli um heim allan.

Á vegum Hafrannsóknastofnunar er áhersla lögð á virka stýringu, byggða á rannsóknum, sem stuðlar að skynsamlegri nýtingu auðlinda hafsins og að bregðast við breytingum vegna hlýnandi veðurfars, hafstrauma og annars.

Ísland hefur um sýnt rannsóknum á jarðkerfi Norðurslóða áhuga, enda er Ísland ákjósanlegur staður til að stunda rannsóknir á þessu sviði, ekki síst vegna þróunar Golfstraumsins, sem og að hér er auðvelt að rannsaka bráðnun jökla, áhrif loftslagsbreytinga á gróður, á dýralíf og að sjálfsögðu á lífríkið í sjónum. Þá vakti frumkvæði Íslands um málefni Norðurslóða í formennsku í Norðurskautsráðinu jákvæð viðbrögð.

Það er því fyllsta ástæða til að láta á það reyna hvort erlendir háskólar sem reka stofnanir á þessu sviði séu tilbúnir til koma að rekstri og fjármögnun alþjóðlegrar rannsóknastofnunar á sviði jarðkerfisfræða. Ef svo færi myndi mikilsverð þekking berast til landsins sem mun hafa hvetjandi áhrif á rannsókna- og vísindastarf hér á landi. Þekking sem grundvallast á vísindalegum rannsóknum mun án nokkurs efa verða veigamikið afl til að auka hagsæld okkar í framtíðinni.

Fyrir þessum fundi liggur að afgreiða ályktun Vísinda- og tækniráðs sem unnin hefur verið af vísindanefnd og tækninefnd í samráði við þau ráðuneyti sem að þessum málum koma. Að lokinni þeirri afgreiðslu verða opnar umræðum um nokkur málefni sem koma munu til kasta ráðsins á næsta tímabili.

Ég vænti þess að þær umræður komi til með að gagnast vel við frekari vinnu ráðsins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum