Hoppa yfir valmynd
2. janúar 2007 Forsætisráðuneytið

Áramótaávarp forsætisráðherra 2006

Gott kvöld, góðir Íslendingar og gleðilega hátíð.

Árið 2006 kveður í kvöld og nýjum degi fylgir nýtt ár að morgni. Þessi skil í tímans stöðuga nið eru mannanna verk, eitthvað sem við höfum búið til til þess að setja fastan ramma um líf okkar. En þau eiga engu síður baksvið í náttúrunni sjálfri. Uppganga sólar, lok hins lengsta skammdegis, boðar nýtt líf, eins og jólin gera fyrir kristið fólk. Áramótin boða birtu og nýjar vonir framundan.

Í nýrri bók sinni túlkar skáldið Hannes Pétursson þessa tilfinningu með glæsilegri ljóðmynd:

Seint gleymist sólarkoma

eftir svartasta skammdegi:

gulir eldar

við efstu fjöll!

Við þessi tímamót færi ég landsmönnum öllum hugheilar kveðjur og óskir um farsæld á árinu 2007.

Árið, sem nú er senn á enda, var gott ár þegar litið er til þjóðarbúsins í heild. Hagur okkar er ekki algóður, en með allri sanngirni hlýtur hann þó að teljast með því besta sem þjóðfélög á jarðarkringlunni búa þegnum sínum. Við Íslendingar, sem mörg hver ferðumst víða, sjáum það hvarvetna annars staðar hve vel hefur tekist til hér heima á Fróni. Hagtölur, vísitölur og ýmis samanburður við önnur lönd og aðrar þjóðir sannar að svo er.

Þetta er heildarmyndin en þar á bakvið er auðvitað mismunandi hvernig einstaklingum hefur vegnað. Við skulum ekki draga fjöður yfir það að hópar í samfélaginu búa við erfið kjör. Þar getur verið við hvort tveggja að fást, efnahagslegan og félagslegan vanda. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að glíma við slík viðfangsefni, og sú glíma er viðvarandi. Þeim mun betur sem okkur vegnar sem þjóð þeim mun aðveldara er að bæta kjör þeirra sem lakast eru settir og tryggja þeim von og raunhæf tækifæri til að bæta hag sinn og stöðu.

Íslenskt þjóðfélag hefur breyst hratt á undanförnum árum og flest bendir til þess að miklar breytingar séu framundan. Ég hygg að þar komi saman margir kraftar. Ég skal hér nefna tvennt sem raunar blasir við hverjum manni. Það er annars vegar alþjóðavæðingin sem svo er kölluð, en hún felst fyrst og fremst í því að þjóðir heims eru að færast nær hver annarri í margvíslegum skilningi. Því veldur hvort tveggja, meiri velmegun og þar með möguleikar til að ferðast landa á milli og aukin tækni á mörgum sviðum, sérstaklega í fjarskiptum. Það samfélag sem við nú byggjum þarf á næstu árum að takast á við margs konar viðfangsefni sem af þessari þróun leiðir.

Málefni útlendinga og fjölgun þeirra hér á landi, sem nokkuð hefur verið til umræðu að undanförnu, er einn angi þessarar þróunar. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að takast á við það málefni með víðsýni að leiðarljósi. Sá tími er liðinn að við getum lokað okkur af, verndað menningu okkar og tungu með fjarlægðina eina að vopni. Við búum nú í opnu samfélagi með mikil tækifæri sem laða að sér fólk. Hér á landi munu því verða gestir, bæði þeir sem dveljast um skamman tíma og aðrir sem ílendast hér til frambúðar og verða hluti okkar samfélags - nýir Íslendingar. Það er mikilvægt fyrir okkur að búa svo um hnútana þegar í upphafi að þessi sambúð verði okkur til gagns og sóma, verði til þess að auðga mannlíf á þessu landi, en ekki til þess að skapa ágreining og tortryggni. Í þeim efnum eru vítin mörg að varast í löndunum í kringum okkur. Hitt er svo annað mál og sjálfsagt að við munum fylgja fast eftir því eftirliti hér á landi sem nauðsynlegt er til að halda þeim fjarri okkar ströndum, sem hingað vilja komast í annarlegum eða ólögmætum tilgangi.

Hitt meginafl þeirra breytinga sem orðið hafa á undanförnum árum er sú opnun íslensks þjóðfélags sem hófst fyrir um hálfum öðrum áratug, þar sem meginatriðin voru að fjarlægja alls konar hindranir og auka frjálsræði í efnahags- og viðskiptalífi. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Hagkerfi okkar hefur á þessum tíma stækkað um meira en 50% og kaupmáttur heimilanna aukist enn meir. Bak við þessar breytingar býr sú trú að það sé heilla best að kraftar hvers einstaklings fái að njóta sín. Evrópubúar lærðu á síðustu öld erfiða lexíu, hvernig grimmt einræði, bæði í stjórnmálum og efnahagslífi, getur komið þjóðfélögum á vonarvöl. Við ættum því ekki lengur að þurfa að takast á um grundvallaratriði í þessum efnum, þótt áherslur og leiðir að góðum markmiðum séu mismunandi.

Samfara þessum breytingum urðu þau gleðilegu umskipti á vinnumarkaði að þeir sem áður höfðu tekist á af fullu afli, oft til skaða, tóku nú höndum saman um það sem mestu skipti, það sem gat bætt hag beggja aðila, bæði launamanna og fyrirtækja í landinu. Skynsemin var sett á oddinn. Og þar sem skynsemi ræður för er farsældar að vænta. Án efa réð hér líka miklu að þekking manna á efnahagslífinu og lögmálum viðskipta hefur aukist með meiri skilningi og menntun á þeim sviðum og má segja að það bókvit hafi svo sannarlega verið í askana látið.

Þessi upprifjun sýnir að okkur Íslendingum tókst á réttum tíma að rífa okkur upp úr gömlu fari, ganga á vit nýrra tíma með réttu hugarfari. Þannig á það að vera. Enginn getur efast um að það hefur fært okkur ávinning.

 Þegar við lítum til framtíðar blasa við okkur margvísleg verkefni.

Frumskylda hverrar sjálfstæðrar þjóðar er að tryggja öryggi borgaranna og verja landið og fullveldi þess. Mikil umskipti urðu á árinu þegar bandaríska varnarliðið hvarf á brott. Í kjölfar þess hafa stjórnvöld lagt á það mikla áherslu að tryggja viðunandi varðstöðu í landinu. Nýtt samkomulag við okkar gömlu samherja í vestri, Bandaríkin, er afar mikilvægt í þessu sambandi og byggir á grunni hins gamla varnarsamnings landanna. Við höfum einnig rætt við nágrannaþjóðir okkar við norðanvert Atlantshafið um sameiginlega hagsmuni á sviði eftirlits, öryggis- og björgunarmála. Engum dylst að viðhorf í varnar- og öryggismálum hafa gerbreyst. Áform okkar munu taka mið af því.

Efnahagsmál eru aðalviðfangsefni stjórnmálanna en sem betur fer hefur fyrirferð þeirra minnkað eftir að okkur tókst að brjótast út úr skammtímaráðstöfunum og hyggja að grundvallaratriðunum og koma þeim í rétt horf. En væntingar eru miklar og það reynir á hagkerfi okkar. Það er án efa eitt mikilvægasta verkefni okkar nú að treysta jafnvægið þannig að kröfur okkar og umsvif séu í raunhæfu samræmi við framleiðslugetu hagkerfisins. Við höfum enga ástæðu til annars en vera bjartsýn og nýjustu verðbólgutölur sýna að við erum á réttri leið. Efnahagslegur stöðugleiki er öðru fremur mikilvægur því hann skapar grundvöll traustra framfara.

Gott umhverfi er í vaxandi mæli hluti þeirra lífsgæða sem við kjósum okkur og börnum okkar. Um þau mál hefur verið deilt mikið á undanförnum árum. Það er miður. Í raun er það svo að það er miklu meira sem sameinar okkur í viðhorfum til náttúruverndar en það sem sundur skilur. Öll viljum við leggja áherslu á sjálfbæra nýtingu auðlinda og að gengið sé af umhyggju og nærgætni um náttúru landsins. Við skulum efla samstöðu okkar á þessu sviði.

Við skulum enn fremur ganga til nýrra verkefna á næsta ári með hag allra fyrir brjósti. Jafnrétti karla og kvenna í raun og verki á enn nokkuð í land. Viðhorfin hafa þó sem betur fer breyst og hin lagalega umgjörð er orðin traust. Nýju lögin um fæðingarorlof breyttu miklu. En enn eimir eftir af gömlum og venjuföstum hugsunarhætti sem við þurfum að losa okkur við. Nær full þátttaka kvenna á vinnumarkaði hefur reynst mikil auðlind í efnahagsframförum undanfarinna ára. Skylda okkar stjórnmálamanna er að ýta á eftir nauðsynlegri hugarfarsbreytingu og gera fjölskyldum það eðlilegt og sjálfsagt að skapa jafnræði og jafnrétti, jafnt á heimilum sem á vinnumarkaði.

 

Kæru landsmenn.

 Á tímum örra breytinga er mikilvægt að hafa haldreipi, að hafa trausta undirstöðu í lífinu. Þannig getum við haft stjórn á og ráðið við þær breytingar, sem knýja á, í stað þess að láta breytingarnar stjórna okkur. Hin gömlu gildi, sem foreldrar hafa kennt börnum sínum á öllum tímum - hófsemd, iðjusemi, trygglyndi og trú, virðing fyrir náunganum - þetta og margt fleira í hljóðlátri speki aldanna tapar aldrei mikilvægi sínu hvernig sem allt veltist í þjóðmálum. Hinn innri styrkur þjóðarinnar og hvers einstaklings ræður gæfu okkar á komandi tímum. Munum að börn læra aðeins að bera virðingu fyrir öðrum ef þau eru sjálf virt og forsenda þess að ganga vel í lífinu er að læra að meta aðra til jafns við sjálfan sig.

Vonandi geta flestir landsmenn kvatt þetta ár með góðar minningar í sjóði, en við skulum jafnframt hugsa til þeirra sem hafa orðið fyrir sorgum og áföllum, misst ástvini, hvort heldur er á sjúkrabeði eða í þeim skelfilegu slysum sem orðið hafa á árinu og snerta okkur öll. Við biðjum þess að þau fái styrk á ný.

 Á árinu 2007 verða 100 ár liðin frá því fræðsluskylda var leidd í lög á Íslandi. Þau tímamót minna okkur á gildi hvers kyns fræðslu og menntunar og hve nauðsynlegt er að hún svari kalli tímans hverju sinni. Það er hluti af uppfræðslu hvers Íslendings að kynnast ljóðum listaskáldsins góða, Jónasar Hallgrímssonar, en á næsta ári verða liðnar réttar tvær aldir frá fæðingu hans. Þeirra tímamóta verður minnst með veglegum hætti, bæði hér á landi og í Kaupmannahöfn þar sem Jónas starfaði lengst.

Töfrar málsins í ljóðum Jónasar snerta strengi í brjósti sérhvers Íslendings. Segja má að hvar sem lokið er upp í ljóðasafni Jónasar glitri á perlur. Margt af skáldskap hans er lifandi á vörum okkar, hvort sem við höfum lært hann í barnaskóla eða síðar á ævinni. Kvæðið alkunna, Ég bið að heilsa, er gott dæmi um þetta:

 

                             Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,

                             á sjónum allar bárur smáar rísa

                             og flykkjast heim að fögru landi Ísa

                             að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

 

Þetta fallega kvæði, sem yljað hefur mörgum um hjartarætur, tvinnar saman íslenska arfleifð og evrópska menningu. Það er óður til fósturjarðarinnar en undir erlendum bragarhætti, fyrsta sonnettan sem ort er á íslensku.

Mörgum áratugum eftir andlát Jónasar Hallgrímssonar fæddist sá maður sem átti eftir að gefa þessu kvæði annað líf, tónskáldið góða, Ingi T. Lárusson.  Lag Inga T. hefur greypt kveðju Jónasar heim til Íslands í hug og hjörtu okkar Íslendinga. Þessara tveggja listamanna er gott að minnast í kvöld.

Ég þakka landsmönnum öllum ágæta samfylgd á þessu ári og óska Íslendingum, nær og fjær, gleðilegs og heillaríks nýs árs - eins og Jónas sagði, "í drottins ást og friði".

   



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum