Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2007 Forsætisráðuneytið

Ræða forsætisráðherra á starfsmannahátíð Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði, 31. mars 2007

Geir H. Haarde við opnun Alcoa á Reyðarfirði
Geir H. Haarde við opnun Alcoa á Reyðarfirði

Ágætu starfsmenn Alcoa Fjarðaáls, aðrir hátíðargestir.

Dear friends from Alcoa.

Í dag er gamall draumur margra Austfirðinga að rætast. Þetta er gleðidagur og merkisdagur í atvinnusögu landsmanna. Hugmyndin um stóriðjuver hér á Reyðarfirði hefur verið vakandi í meira en aldarfjórðung en í þessum mánuði eru liðin fjögur ár síðan samningar voru undirritaðir við Alcoa um þær framkvæmdir sem nú sér senn fyrir endann á. Við núverandi utanríkisráðherra undirrituðum þá samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og ég segi við ykkur í einlægni að það var eitt mitt ánægjulegasta verk á vettvangi stjórmálanna.

Ég óska ykkur öllum innilega til hamingju með þann merka áfanga sem er að nást hér í dag. Hinum nýju starfsmönnum þessarar glæsilegu verksmiðju óska ég sérstaklega til hamingju með þennan nýja vinnustað. Reynslan sýnir að störfin hér eru eftirsótt og sú starfsmannastefna sem fyrirtækið hefur kynnt er til sérstakarar fyrirmyndar. Sama er að segja um öryggismál hér á svæðinu og umhverfisstefnu fyrirtækisins. Það er reynsla annars staðar í frá að starfsmenn kjósa að vinna lengi hjá vinnuveitanda af þessu tagi og ég er sannfærður um að þannig verður það einnig hér.

Þetta fyrirtæki á eftir að verða gríðarleg lyftistöng fyrir atvinnulíf á Austurlandi en einnig mikilvæg viðbót við íslenskan þjóðarbúskap sem á eftir að skila drjúgum arði og bættum lífskjörum. Framkvæmdirnar hér og við hina miklu virkjum við Kárahnjúka hafa þegar haft mikil og jákvæð efnahagsleg áhrif eins og alkunna er.

Mikið vatnsafl verður vikjað til að sjá þessari verksmiðju fyriri nægilegri orku. En ekki skiptir minna máli sá mikli mannauður og það hugvit sem í starfsfólkinu býr og verður virkjað á þessum hátæknivædda vinnustað.

Þessar miklu framkvæmdir eru lýsandi dæmi um hvernig okkur Íslendingum hefur á einni öld tekist að þróast úr fátæku bændasamfélagi í velferðarríki sem einungis fáar þjóðir heims geta státað af. Að baki þessum framkvæmdum liggur hátækniþekking sem við höfum byggt upp hér á landi með dyggri aðstoð erlendra aðila og stendur jafnfætis því sem best gerist í veröldinni á þessu sviði.

Ég vil að lokum ítreka hamingjuóskir mínar til starfsmanna Alcoa Fjarðaáls og allra íbúum Austurlands með þennan mikilvæga áfanga og vona að þið skemmtið ykkur vel á þessari starfsmannahátíð.

 

Dear friends from Alcoa.

I would like to use this opportunity to thank the representatives from Alcoa for their dedication to this project and their commitment to building a first class state of the art plant here in Fjarðabyggð. For me personally it has been a pleasure to work with you.

 

Ágætu gestir.

Megi gæfa og blessun fylgja þessum vinnustað um ókomin ár.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum