Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2007 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra við undirritun samkomulags um Kolvið 16. apríl 2007 í Þjóðminjasafninu

Undirritun samkomulags um Kolvið 16. apríl 2007 í Þjóðminjasafni
Undirritun samkomulags um Kolvið 16. apríl 2007 í Þjóðminjasafni

Góðir gestir, ágætu tilheyrendur,

Það er mér mikil ánægja að vera hér með ykkur í dag og undirrita fyrir hönd ríkisstjórnarinnar yfirlýsingu um stuðning við Kolvið sem einn af þremur bakhjörlum sjóðsins.

Fá mál rísa hærra í alþjóðlegri stjórnmálaumræðu um þessar mundir en líklegar loftslagsbreytingar af manna völdum vegna vaxandi styrks gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Vandinn er alþjóðlegur og hann verður ekki leystur nema að allar þjóðir heims leggi sitt að mörkum. Stærstur hluti gróðurhúsalofttegunda kemur í dag frá brennslu jarðefnaeldsneytis. Við Íslendingar erum í afar öfundsverðri stöðu vegna ákvarðana okkar á sínum tíma að nýta endurnýjanlegar orkuauðlindir landsins sem mest fyrir innlenda orkunotkun. Engin önnur þjóð í heiminum getur státað af því að ríflega 70% af orkunotkun komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum sem valda sjálfir nánast engri losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta frumkvæði Íslands hefur m.a. hlotið viðurkenningu alþjóðlegra samtaka sem fylgjast með aðgerðum þjóða til að vinna gegn loftslagsbreytingum. Einnig blasir við að sú þekking sem íslensk orkufyrirtæki hafa aflað sér í beislun endurnýjanlegra orkugjafa síðustu áratugi er að verða eftirsótt markaðsvara víða um heim og mun ef fram fer sem horfir auka möguleika í útrás íslenskra fyrirtækja til annarra landa vegna loftslagsbreytinga.

En þrátt fyrir góða stöðu höfum við metnað til þess að vera áfram í forystu á þessum vettvangi með enn frekari minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda. Ýmsar ákvarðanir og aðgerðir á vegum ríkisstjórnarinnar síðustu mánuði eru vitnisburður um þann metnað sem ríkisstjórn Íslands hefur í þessum málum.

Í febrúarmánuði samþykkti ríkisstjórnin nýja langtímastefnu í loftslagmálum. Í þeirri stefnumörkun eru sett markmið um að minnka nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 50-75% miðað við losun árið 1990 fyrir árið 2050. Þessi metnaðarfullu markmið krefjast þess að allir Íslendingar, einstaklingar og fyrirtæki taki höndum saman um verkefnið. Íslensk stjórnvöld munu eftir því sem ástæða er til skapa á hverjum tíma þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að tryggja að þessi árangur náist.

Fyrstu skref stjórnvalda til að fylgja þessari stefnumótun eftir hafa þegar verið stigin. Hinn 27. febrúar s.l. samþykkti ríkisstjórnin að minni tillögu tilmæli til allra ríkisstofnana um að við endurnýjun á bifreiðum í eigu ríkisins yrðu almennt keyptar vistvænar útfærslur á bílum. Er að því stefnt að í lok árs 2008 verði 10% bifreiða í eigu ríkisins knúnar vistvænum orkugjöfum, 20% í lok árs 2010 og 35% í lok árs 2012. Jafnframt lagði ég til að vörugjald af metanbílum yrði fellt niður tímabundið fram til ársloka 2009. Flutti fjármálaráðherra frumvarp um það efni sem afgreitt var sem lög frá Alþingi í síðasta mánuði.

Hugmyndin að baki Kolviðar er í anda þeirrar stefnu sem ríkisstjórn Íslands vill styðja og mun Kolviður, ef vel tekst til, leggja sitt að mörkum til að ná þeim langtímamarkmiðum sem við höfum sett um að minnka umtalsvert nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Árangurinn mun þó ráðast fyrst og fremst af þeim viðtökum sem sjóðurinn fær hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Ríkistjórnin fagnar því að frjáls og öflug félagasamtök eins og Skógræktarfélag Íslands og Landvernd hafi forystu um að gefa almenningi og fyrirtækjum kost á því að bregðast við og taka ábyrgð á eigin losun gróðurhúsalofttegunda.

Það er í þessu efni eins og oftast mikilvægt að hver og einn taki ábyrgð á sínum gerðum og það er auðvitað ávallt heppilegra að það gerist án sérstakra fyrirmæla frá stjórnvöldum svo sem með lagasetningu. Starfsemi Kolviðar mun auk þess að minnka nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi stuðla að frekari landgræðslu með skógrækt sem er eins og allir vita afar mikilvægt verkefni til að auka landgæði og draga úr uppblæstri lands og landeyðingu. Ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við landgræðslu og skógrækt þó að alltaf megi betur gera og enn eru stór verkefni sem við blasa og vinna þarf á þessu sviði.

Starfsemi Kolviðar mun fyrst í stað einkum beinast að losun gróðurhúsalofttegunda frá bifreiðum einstaklinga og fyrirtækja. Mér er því ánægja að tilkynna hér í dag að ég mun leggja fram tillögu í ríkisstjórn í fyrramálið þess efnis að allir bílar stjórnarráðsins verði kolefnisjafnaðir um leið og starfsemi Kolviðar hefst hinn 15. maí næstkomandi.

Ég vil að lokum óska starfsemi Kolviðar allra heilla og vænti þess að hún eigi eftir að leggja sitt að mörkum til að við Íslendingar verði áfram í framvarðasveit þjóða í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum