Hoppa yfir valmynd
31. desember 2007 Forsætisráðuneytið

Áramótagrein í Morgunblaðið 2007

VIÐ ÁRAMÓT

Árið 2007 var viðburðaríkt á vettvangi stjórnmála og efnahagsmála á Íslandi. Ný ríkisstjórn kom til valda í landinu og margvíslegar sviptingar urðu í viðskiptalífi og á mörkuðum.

Úrslit kosninganna í maí voru Sjálfstæðisflokknum hagstæð.  Flokkurinn bætti við sig um þremur prósentustigum í fylgi frá 2003 og á nú í fyrsta sinn í sögunni fyrsta þingmann í öllum kjördæmum.  Þingmenn flokksins eru 25 og fjölgaði um þrjá frá 2003 en þeir hafa flestir verið 26, eftir kosningarnar 1991 og 1999.  Af þingmönnunum 25 eru níu sem ekki höfðu áður setið á Alþingi.  Endurnýjun var því mikil og ljóst að mannval er einnig mikið í þessum öfluga hópi.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í apríl skynjaði ég strax hvert stefndi varðandi kosningarnar.  Baráttuandi var mikill og góður á þessum glæsilega fundi og hlutum við Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður flokksins afgerandi stuðning til áframhaldandi forystu.  Hleypti fundurinn frambjóðendum og flokksmönnum miklu kappi í kinn vikurnar fram að kosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn var ótvíræður sigurvegari kosninganna, með langmest fylgi, tæplega 37% atkvæða, og mjög góða fylgisaukningu.  Bilið milli hans og næststærsta flokksins, sem var um þrjú prósentustig í kosningunum 2003, er nú tíu stig. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vann einnig góðan sigur en aðrir flokkar töpuðu fylgi.  Mestu skipti í því sambandi að Framsóknarflokkurinn tapaði fimm þingmönnum í kjölfarið á illvígum innanflokksátökum eins og lesa má um í æviminningabók núverandi formanns flokksins.

Fyrir kosningar lá fyrir af hálfu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að þeir hefðu hug á áframhaldandi samstarfi, ef þeir héldu meirihluta sínum, og myndu tala saman þegar að loknum kosningum.  Árangurinn af tólf ára samstarfi þessara tveggja flokka var enda slíkur að annað hefði verið óeðlilegt.

Ræddumst við þáverandi formaður Framsóknarflokksins oft við dagana eftir kosningar, en staðan var þröng því meirihluti flokkanna valt nú á einu atkvæði, og daginn eftir kosningar hafði einn hinna nýju þingmanna Framsóknar lýst því yfir í sjónvarpi að áframhaldandi samstarf kæmi ekki til greina.  Fór þetta á endanum svo að formaður og varaformaður Framsóknarflokksins gengu á minn fund á fimmtudegi eftir kosningar og tjáðu mér að ekki væri grundvöllur fyrir frekara samstarfi.  Lauk þar með í sátt löngu og traustu stjórnarsamstarfi, sem reynst hafði þjóðinni afar vel.  Jón Sigurðsson, sem þá var formaður Framsóknarflokksins, lét skömmu síðar af formennsku en hann hafði ekki náð kjöri til Alþingis.  Samstarf okkar Jóns var afar gott meðan á því stóð og hef ég alltaf metið hann mikils, allt frá því hann kenndi mér íslensk fræði í Menntaskólanum í Reykjavík veturinn 1969 -70.  Óska ég honum allra heilla á nýrri vegferð.

Ég tel hins vegar í ljós leitt að við þær aðstæður sem ríkja á Alþingi Íslendinga nú orðið sé nánast óhugsandi að mynda ríkisstjórn á grundvelli eins atkvæðis meirihluta í þinginu.  Fjölbreyttar skyldur þingmanna, innan lands og utan, auk annarra fjarvista, gera það að verkum að slík ríkisstjórn yrði tæpast starfhæf og myndi eiga í miklum erfiðleikum með að ná málum sínum fram á Alþingi, sérstaklega ef í hópi þingmanna hennar væru menn með sérstöðu í viðkvæmum málum.

*****

Úrslit alþingiskosninganna voru með þeim hætti að ekki var möguleiki á tveggja flokka stjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokksins og aðrir möguleikar óraunhæfir. Staðan var í raun sú að Sjálfstæðisflokkurinn gat valið sér flokk til samstarfs enda hafði enginn flokkur fyrirfram hafnað samstarfi við hann.

Í lokaumræðum formanna stjórnmálaflokkanna á kosninganótt vakti ég athygli á því að við þær aðstæður sem upp væru komnar lægi í augum uppi að allir myndu tala við alla um stöðuna, þótt ekki væru það formlegar stjórnarmyndunarviðræður.  Þannig er pólitíska kerfið á Íslandi.

Mér varð fljótlega ljóst að þótt sennilega væri gerlegt að koma á samstarfi milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem ýmsir í Sjálfstæðisflokknum töldu nýstárlega og skemmtilega hugmynd, þá yrði þar um að ræða kyrrstöðustjórn, sem ekki myndi takast á við neinar aðkallandi breytingar á samfélaginu, og yrði Sjálfstæðisflokknum málefnalega dýru verði keypt. Slík stjórn var því ekki góður kostur.

Niðurstaðan varð sú að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking tóku höndum saman um þá ríkisstjórn sem mynduð var á Þingvöllum 23. maí síðastliðinn.  Ég hef af ýmsum verið gagnrýndur, m.a. Morgunblaðinu, fyrir myndun þessarar stjórnar og fyrir að hafa blásið lífi í hnignandi stjórnmálahreyfingu og ýmsa forystumenn hennar, sem ella hefðu horfið af hinu pólitíska sjónarsviði, að því er sagt var. 

Vel má vera að svo sé.  En ég lít ekki svo á að mitt meginhlutverk sem forystumaður í stjórnmálum sé að koma öðrum stjórnmálaforingjum fyrir pólitískt kattarnef.  Flokkar takast á um stefnur og strauma en illvíg persónuleg átök milli einstakra manna eiga að heyra til liðinni tíð. Ég hef aldrei fundið til persónulegs kala í garð minna pólitísku andstæðinga, sem ég geng út frá að reyni allir að vinna að landsmálum eftir bestu samvisku, þótt þeir velji sér að mínum dómi ekki alltaf bestu leiðirnar að sameiginlegum markmiðum.  Ég hef þess vegna sem formaður Sjálfstæðisflokksins ekki haft það sem markmið að halda tilteknum einstaklingum frá völdum hvað sem það kostar, á meðan þeir hlíta almennum leikreglum stjórnmálanna, heldur hitt að tryggja landinu trausta og öfluga ríkisstjórn.  Í þessu tilviki ríkisstjórn sem tekur í öllum höfuðatriðum mið af stefnumálum Sjálfstæðisflokksins og byggir á þeim grunni sem flokkurinn hefur skapað með störfum sínum undanfarin 16 ár.

Þetta sjónarmið hafði yfirburðastuðning í þingflokki sjálfstæðismanna þegar á reyndi sem og í flokksráði, þar sem fundarmenn samþykktu aðild flokksins að hinni nýju ríkisstjórn og stefnuyfirlýsingu hennar með því að rísa úr sætum undir dynjandi lófataki.

Samstarf okkar formanns Samfylkingarinnar til þessa staðfestir að þessar viðtökur áttu fullan rétt á sér.

Sjálfstæðisflokkurinn varð fyrir því áfalli um mitt sumar að missa einn sinn mætasta þingmann.  Einar Oddur Kristjánsson varð bráðkvaddur í fjallgöngu í heimabyggð sinni og varð öllum harmdauði sem til hans þekktu.  Hann bjó að yfirburðaþekkingu á atvinnulífi og vinnumarkaði og hafði mikla yfirsýn yfir stjórnmálin.  Það vissu margir að hann var ákveðið þeirrar skoðunar eftir síðustu kosningar að eina ríkisstjórnarmynstrið sem gæti gengið upp væri stjórn stóru flokkanna tveggja, sem varð svo niðurstaðan.  Mér þótti afar vænt um stuðning Einars Odds sem stóð þétt að baki mér við stjórnarmyndunina, eins og raunar þingflokkurinn allur.

*****

Eitt fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar var að takast á við þau ótíðindi sem bárust snemma sumars um slæmt ástand þorskstofnsins.  Hafrannsóknarstofnun lagði til verulegan niðurskurð á þorskaflanum og öllum var ljóst að áhrifin yrðu gríðarlega mikil, einkum fyrir útgerðir og einstök byggðarlög. 

Sjávarútvegsráðherra tók þá ákvörðun, með fullum stuðningi ríkisstjórnarinnar, að fara að tillögum vísindamannanna og hljóta allir að vona að hún leiði til hraðari uppbyggingar þorskstofnsins en ella hefði verið.  Samhliða niðurskurðinum ákvað ríkisstjórnin að ráðast í umfangsmiklar mótvægisaðgerðir til þess að draga úr búsifjum af hans völdum.  Mestu skiptir hins vegar að þeir sem nú taka á sig aflaskerðingu fái notið ávaxtanna þegar stofninn styrkist á nýjan leik.

*****

Við myndun ríkisstjórnarinnar á Þingvöllum í maí sl. kom á daginn að styttra var milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í ýmsum mikilvægum málum en ætla hefði mátt miðað við málflutning fyrir kosningar.  Einnig kom í ljós að grundvöllur var fyrir ýmiss konar umbótum og breytingum sem ekki hafði verið í fyrri ríkisstjórn og óhugsandi að ná fram í samstarfi við vinstri græna.  Má þar nefna löngu tímabærar skipulagsbreytingar í Stjórnarráði Íslands, en einnig nýskipan í heilbrigðis- og tryggingamálum, frekari skattalækkanir o. m. fl.

Hluti af þessum breytingum hefur þegar verið lögfestur.  Á vorþingi var gengið frá breytingum á stjórnarráðslögunum, sem fylgt hefur verið eftir með frekari tilflutningi verkefna milli ráðuneyta, en verkaskipting þeirra hefur í aðalatriðum verið óbreytt frá 1970.  Um áramótin tekur síðan gildi ný reglugerð um stjórnarráðið.  Munu ýmsar breytingar sem af þessu leiða sjá dagsins ljós eftir áramótin.

Ein stærsta skipulagsbreytingin lýtur að verkaskiptingu milli heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytis.  Lífeyristryggingahluti almannatrygginga hefur verið skilinn frá sjúkra- og slysatryggingum og fluttur í félagsmálaráðuneytið sem fyrir milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins mun fara með yfirstjórn þeirrar þjónustu á þessu sviði sem snýr beint að einstaklingum. 

Á grunni sjúkratryggingahluta almannatrygginga mun heilbrigðisráðuneytið hins vegar byggja upp nýja stofnun, sem fær það hlutverk að annast kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd almennings.   Heilbrigðisstofnanir ríkisins munu eftir sem áður verða langstærstu veitendur heilbrigðisþjónustu, en hinn nýi aðili mun greiða fyrir.  Með þessu móti er skilið á milli hlutverks ríkisins sem kaupanda og seljanda heilbrigðisþjónustu með svipuðum hætti og gert hefur verið með góðum árangri  t.d. í Svíþjóð.  Hugmyndin er að sjálfsögðu sú að nýta takmarkað fjármagn með sem hagkvæmustum hætti og tryggja skjólstæðingum heilbrigðiskerfisins bestu fáanlegu þjónustu.  Hugmynd þessa var að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 1999 en henni var ekki hrundið í framkvæmd.

Á vorþingi var samþykkt aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna, en umbætur á grundvelli hennar munu koma til framkvæmda allt kjörtímabilið.  Sama er að segja um breytingar á kjörum aldraðra og öryrkja.  Ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið réttarbætur fyrir þessa hópa sem kosta munu um fimm milljarða króna árlega.  Þær aðgerðir koma til viðbótar því sem fyrri ríkisstjórn hafði ákveðið sumarið 2006 í samstarfi við samtök eldri borgara.       

Eitt af hinum stóru málum núverandi ríkisstjórnar er ný löggjöf um skólastigin fjögur og tengd málefni.  Að frumkvæði menntamálaráðherra hefur geysimikið starf verið unnið til undirbúnings þessum málum en markmiðið með þeim er að skapa Íslandi sess í fremstu röð meðal þjóða á sviði menntamála.  Líta ber á niðurstöður nýlegrar PISA -rannsóknar um kunnáttu grunnskólanema á Íslandi miðað við jafnaldra erlendis sem sérstaka áskorun í því efni.

Eins og stundum áður hefur athygli manna einkum beinst að einu litlu atriði í þessu stóra máli, þ.e.a.s. því hvort rétt sé að fella brott tilvísun í kristilegt siðgæði í markmiðsgrein nýrra grunnskólalaga.  Á þessu hafa ýmsir klifað þótt fyrir liggi að ekki eru fyrirhugaðar breytingar á námsskrá hvað þetta varðar sem er auðvitað aðalatriðið.  Íslendingar eru kristin þjóð og, eins og Halldór Blöndal benti nýlega á í snjallri grein hér í Morgunblaðinu, þá er íslensk menning kristin menning.  Á þeim trausta grunni munum við að sjálfsögðu áfram standa, þótt umburðarlyndi í trúmálum og virðing fyrir öðrum trúarbrögðum sé í heiðri höfð.

*****

Skömmu fyrir jólin voru gerðar mikilvægar breytingar á lögunum um þingsköp Alþingis, sem m.a. er ætlað að koma í veg fyrir að málþóf kæfi málefnalegar umræður í þinginu, sem því miður eru ýmis dæmi um frá umliðnum árum.

Nýir þingmenn verða nær undantekningalaust forviða þegar þeir koma fyrst í þingið og átta sig á því að möguleikar þeirra til að tjá sig um mál eru í raun stórlega skertir.  Hefur þetta stafað af því að þingmenn stjórnarandstöðu hafa lagt undir sig ræðustólinn tímunum saman og fáir aðrir komist að án þess að kalla yfir sig frekari langlokuræður.  Málæði slíkra ræðumanna hefur því í raun stórlega takmarkað málfrelsi annarra þingmanna.

Nú hefur þessu verið breytt og það viðurkennt í reynd að málfrelsi allra þingmanna er jafnmerkilegt og að heilbrigð skoðanaskipti þar sem öll sjónarmið fá að koma fram eru forsenda lýðræðislegra stjórnarhátta.  Má búast við mun líflegri og skemmtilegri umræðum í þinginu eftir þetta.  Ræður verða væntanlega styttri en að sama skapi snarpari. 

Allir flokkar í þinginu aðrir en vinstri grænir stóðu að þessum breytingum og sýnir það vel hve þingmenn voru almennt uppgefnir á gamla fyrirkomulaginu.  Sturla Böðvarsson forseti Alþingis beitti sér af skörungsskap í þessu máli og uppskar almenna virðingu þingmanna fyrir frammistöðu sína.

Verður spennandi að sjá hvern ávöxt nýju þingskapalögin bera þegar þing kemur saman á ný.  Sama er að segja um önnur þau atriði sem þingforseti hefur beitt sér fyrir og lúta að bættri starfsaðstöðu þingmanna og þingflokka.

*****

Orkumálin hafa verið fyrirferðarmikil í þjóðfélagsumræðunni á árinu og hafa margir velt fyrir sér þeirri grundvallarspurningu hvort  rétt sé og eðlilegt að orkufyrirtæki í opinberri eigu ráðist í fjárfestingar erlendis.

Áður en þessu er svarað þarf að átta sig á nokkrum atriðum.  Í fyrsta lagi er alþjóðleg þróun orkuverðs með þeim hætti að hreinar, endurnýjanlegar orkulindir verða æ verðmætari og reynsla og þekking í að beisla þær þar með sífellt eftirsóknarverðari.  Íslendingar standa vel að vígi að þessu leyti, þótt við séum þeir fráleitt þeir einu sem kunnum til verka í þeim efnum.  Við getum nýtt okkur alþjóðleg tækifæri á þessu sviði, en auðvitað þurfum við ekki að gera það ef við ekki viljum.  Öllum fjárfestingum, jafnt innan lands sem utan, fylgir áhætta.  Ákvarðanir um slíkt á að taka á viðskipta- og markaðslegum forsendum en ekki pólitískum.

 Í öðru lagi þá eru öflug orkufyrirtæki í einkaeigu ekki enn þá til hér á landi og ekki um það að ræða að slíkir aðilar geti haft forystu í svokallaðri útrás. Hins vegar hafa opinberu orkufyrirtækin stundað áhættusamar fjárfestingar um langt árabil hér innan lands og notið til þess stuðnings og atbeina fulltrúa eigenda á Alþingi og í ríkisstjórn.  Rafmagnsframleiðsla Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja til stóriðju er þannig áhætturekstur í eðli sínu og hefur aldrei verið farið í felur með þá staðreynd.  Sú áhætta hefur hins vegar til þessa verið álitin innan eðlilegra marka.  Landsvirkjun var beinlínis stofnuð árið 1965 að frumkvæði þáverandi ríkisstjórnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins til þess að hefja slíkan rekstur.  Hefur fyrirtækið sinnt sínum verkefnum með sóma alla tíð.  Flestir sem lögðust gegn áhættusömustu framkvæmd Landsvirkjunar til þessa, Kárahnjúkavirkjun, gerðu það á forsendum náttúruverndar, en ekki vegna þess að Landsvirkjun væri opinbert fyrirtæki.  Rifja má upp að sú framkvæmd naut yfirgnæfandi stuðnings meðal fulltrúa allra flokka á Alþingi, annarra en vinstri grænna.

Þeir sem tala gegn þátttöku orkufyrirtækjanna í áhættufjárfestingum á þeirri forsendu að þau séu í opinberri eigu hljóta því annaðhvort að vera andvígir  slíkum fjárfestingum yfirleitt eða þá vilja að eignarhaldi fyrirtækjanna verði breytt og þau seld einkaaðilum, sem þá stundi slíka starfsemi, ef þeir svo kjósa.  Fyrir slíkri breytingu má færa mörg góð rök, eins og fyrir einkavæðingu almennt, ef um er að ræða starfsemi í samkeppnisrekstri.  Rök eru hins vegar ekki fyrir því að einkavæða einokunarþætti í rekstri orkufyrirtækjanna. 

Af þessum sökum orðaði ég þá hugmynd á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2005 að rétt væri að huga að sölu á hluta af Landsvirkjun til langtímafjárfesta, eins og t.d. lífeyrissjóða, og losa þannig um gríðarlega fjármuni sem bundnir eru í fyrirtækinu og nýta þá til annarra þarfa í þágu almennings.  Á landsfundi flokksins á sl. vori náðist málamiðlun um að skoða kosti þess og galla að færa eignarhald orkufyrirtækja ríkisins til einkaaðila en eindregnari tillaga um að stefnt skyldi að einkavæðingu þeirra náði ekki fram að ganga. 

Núverandi ríkisstjórn hyggst ekki hrófla við eignarhaldinu á Landsvirkjun en í stefnuyfirlýsingu sína tók hún nánast óbreytta ályktun landsfundar um að tímabært sé að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrásarverkefnum orkufyrirtækjanna.

Við sem berum ábyrgð á hagsmunum almennings í orkufyrirtækjunum verðum að gæta þess að verðmæti fyrirtækjanna haldi áfram að vaxa og að þau fái áfram svigrúm til að þróa sérþekkingu sína, líkt og Landssíminn gerði sem ríkisfyrirtæki á sínum tíma.  Þess vegna hef ég ekki lagst gegn því að Landsvirkjun stofni sérstakt dótturfélag um þá starfsemi sem einkum lýtur að útrásarverkefnum erlendis, þar sem íslensk hugvit er virkjað, enda rúmist það í einu og öllu innan ramma laganna um Landsvirkjun.

Á vegum iðnaðarráðherra er nú í undirbúningi frumvarp þar sem settar verða reglur um eignarhald auðlinda í opinberri eigu og skýrð mörk samkeppnis- og sérleyfisþátta í starfsemi orkufyrirtækja.  Með slíkum aðskilnaði skapast að mínum mati skilyrði fyrir því að færa samkeppnisrekstur í orkumálum í auknum mæli til einkaaðila, enda eru stjórnarflokkarnir sammála um að grunnþjónusta almannaveitnanna eigi áfram að vera á höndum hins opinbera.

*****

Þegar Bandaríkjastjórn tilkynnti Íslendingum að varnarliðið yrði kallað frá Íslandi 1. október 2006 blöstu skyndilega margs konar ný verkefni við Íslendingum.  Segja má að þau hafi í aðalatriðum verið tvíþætt.  Annars vegar að ganga þannig frá málum að öryggi Íslands væri áfram tryggt í viðsjárverðum heimi.  Hins vegar að umbreyta gömlu varnarstöðinni á Miðnesheiði og koma mannvirkjum þar sem fyrst í arðbær not í þágu íslensks samfélags.  Þessu tengt var svo að sjálfsögðu það verkefni að tryggja þeim sem misstu vinnuna hjá varnarliðinu önnur störf.  Hefur það gengið vonum framar.

Bregðast þurfti skjótt við hinum nýju aðstæðum.  Strax voru gerðar ráðstafanir til að efla íslenskar stofnanir sem koma að borgaralegum öryggismálum.  Þannig hefur þyrlusveit Landhelgisgæslunnar verið stórefld og í smíðum eru nýtt varðskip og ný flugvél fyrir gæsluna.  Lögreglan hefur verið styrkt og landamæraeftirlit stóreflt.

Varnarskuldbindingar Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjanna gagnvart Íslandi standa óhaggaðar, þrátt fyrir brottför varnarliðsins, en nánara samstarf við önnur ríki um hernaðarlegan viðbúnað á friðartímum var einnig talið nauðsynlegt.  Hófust því viðræður við grannríki um tvíhliða samstarf á sviði öryggismála en jafnframt var leitað eftir loftrýmiseftirliti af hálfu bandalagsins í kjölfar ábendinga minna um það efni á leiðtogafundi NATO í Riga á síðasta ári. Nokkur aðildarríki hafa þegar heitið þátttöku í slíku eftirliti allt fram til ársins 2010.  Gera má ráð fyrir að Frakkar verði fyrstir til að senda hingað flugsveit snemma árs 2008.

Eitt af þeim verkefnum sem nú er framundan er að búa þeirri starfsemi eðlilega lagaumgjörð, sem lýtur að hinum beinu samskiptum okkar við NATO.  Þau munu áfram felast í rekstri ratsjárstöðvanna fjögurra, sem tengjast þurfa beint inn í loftvarnakerfi bandalagsins, en einnig undirbúningi og umsjón með loftrýmiseftirliti bandalagsins sem og æfingum bandalagsþjóðanna í og við landið.  Er slíkt lagafrumvarp langt komið í vinnslu á vegum utanríkisráðherra.

Hitt verkefnið sem upp kom við brottför varnarliðsins fólst í því að taka við öllum eignum liðsins, reka þær áfram og halda þeim við, þar til þeim yrði komið í verð, og sjá jafnframt til þess að flugvallarstarfsemin í Keflavík, sem mjög hafði reitt sig á atbeina varnarliðsins, gæti gengið snurðulaust fyrir sig.  Gekk sá þáttur vel á grundvelli samings við Bandaríkjamenn um leigu á búnaði og fleira.

Fyrri ríkisstjórn ákvað haustið 2006 að stofnað skyldi sérstakt þróunarfélag til að annast það vandasama verkefni að koma mannvirkjum á Keflavíkurflugvelli í arðbær borgaraleg not.  Var í því efni stuðst við reynslu frá öðrum löndum þar sem herstöðvar hafa verið lagðar niður en margs kyns atvinnustarfsemi þróuð í staðinn. Að sjálfsögðu var allra nauðsynlegra lagaheimilda aflað til þess að félagið gæti sinnt sínu hlutverki.  Brýnt er að hafa í huga að fyrirtæki þessu var ekki fyrst og fremst ætlað að vera fasteignasala heldur undirbúa þróun svæðisins til framtíðar og koma eignum í verð í samhengi við hugmyndir félagsins um slíka þróun.

Fyrrverandi stjórnarflokkar tilnefndu hvor sinn stjórnarmanninn í félagið og síðan var leitað til sveitarfélaga á Suðurnesjum um að tilnefna þriðja manninn.  Leyfi ég mér að fullyrða að sérstaklega vel hafi tekist til um val stjórnarmanna í þessu félagi, sem hefur síðan unnið af verkefnum sínum af miklum krafti.

Nú, rúmu ári síðar, er svo komið að félagið hefur lokið við stóran hluta þeirra verkefna sem því voru falin, þó svo að í upphafi hafi verið talið að verkið myndi taka nokkur ár.  Er þegar búið að tryggja sölu stórs hluta þeirra eigna sem ætlunin var að selja og hefur verið eðlilega staðið að þeim málum í einu og öllu, eins og ég rakti í skýrslu minni til Alþingis fyrir nokkru.  Eftir er margs kyns hreinsun ásamt ýmsum öðrum verkefnum.  Ríkisendurskoðun taldi eðlilegt að færa þegar til tekna í ríkissjóði sölutekjur af viðskiptum með þesssar eignir sem og áfallinn kostnað og var það gert í fjáraukalögum fyrir 2007 sem og fjárlögum 2008.  Þær tölur sýna svart á hvítu að þrátt fyrir mikinn kostnað er hér um verulegan búhnykk að ræða fyrir íslenska ríkið.

*****

Seint á árinu bárust þau tíðindi að Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefði raðað Íslandi í fyrsta sæti meðal þjóða þegar litið væri til lífskjara á breiðum grundvelli.  Í slíkum samanburði er litið til fjölda mælikvarða, þar sem þjóðartekjur á mann eru vissulega mikilvægar, en einnig fjölmörg önnur atriði sem áhrif hafa á daglegt líf landsmanna. 

Þessi niðurstaða er vissulega ánægjuleg, þótt ekki sé hægt að segja að höfuðmáli skipti hvar í röð efstu þjóða Ísland lendir í mælingu sem þessari.  En niðurstaðan sýnir okkur þó alveg skýrt - hvað svo sem deilum hér innan lands líður - að við erum í fremstu röð meðal þjóða.  Þeim sem hafa tamið sér að gera lítið úr þeim góða árangri sem náðst hefur á Íslandi undanfarin ár, hlýtur að hafa brugðið nokkuð við þetta.

Þetta leiðir hugann að efnahagsmálunum í landinu, þar sem sviptingar hafa verið nokkrar á árinu.  Eftir þá miklu uppsveiflu sem varað hefur nær sleitulaust frá árinu 2003 eru að verða ákveðin tímamót sem munu ekki síður reyna á hagstjórnina en mikill hagvöxtur og kröftug innlend eftirspurn.  Nú sér fyrir endann á stóriðjuframkvæmdum um sinn og því horfur á minni hagvexti á næstu misserum.  Jafnframt eru nokkrar blikur á lofti í efnahagsmálum á alþjóðavettvangi sem hafa þegar haft neikvæð áhrif á þjóðarbúskap okkar.  Olíuverð hefur hækkað mikið á árinu 2007 og sama gildir um matvæla- og hráefnaverð á heimsmarkaði. Þá hafa vextir hækkað og aðgangur að ódýru lánsfé minnkað.  Í kjölfarið hefur verð á hlutabréfum fallið og verðbólga aukist víða um heim.  Við þessar aðstæður er mikilvægt að sýna fulla gát í öllum efnahagsákvörðunum, hvort sem þær snúa að opinberum eða einkaaðilum.

Ég tel reyndar að við Íslendingar séum einstaklega vel búnir undir að takast á við þær breyttu og að mörgu leyti erfiðu aðstæður sem nú blasa við.  Efnahagsþróun undanfarinna ára endurspeglar bæði styrk og sveigjanleika íslenska hagkerfisins.

Eins og nýsamþykkt fjárlög sýna er staða ríkisfjármála afar traust.  Samanlagður afgangur á ríkissjóði frá árinu 2004 til og með 2008 nemur meira en 300 milljörðum króna, hvort sem reiknað er með óreglulegum liðum eða ekki.  Má heita að vegna þessa séu hreinar skuldir ríkissjóðs nánast horfnar.  Áætlaður afgangur næsta árs er tæpir 40 milljarðar króna og ársins 2007 um 82 milljarðar. Þessi staða er nær einsdæmi í Evrópu. Jafnframt hefur mikill afgangur undanfarin ár verið nýttur til að bæta eiginfjárstöðu Seðlabankans auk þess sem inneignir í bankanum skila ríkissjóði miklum vaxtatekjum.  Þessi stefna hefur aukið aðhald í hagstjórninni og stutt við peningamálastefnu Seðlabankans.  Nýjustu tölur sýna að ef áhrif hagsveiflunnar eru tekin út úr afkomutölum ríkissjóðs reynist afgangurinn hafa numið 3 - 5% af landsframleiðslu að jafnaði á árunum 2005 – 07.  Þetta eru gríðarlega háar tölur í alþjóðlegum samanburði og bera vott um mikið aðhald í ríkisfjármálum.

Sterk staða ríkisfjármála hefur líka gefið færi á auknum framlögum til ýmissa málaflokka svo sem heilbrigðis- og tryggingamála, menntamála, samgöngubóta o.fl. auk þess sem skattar hafa verið lækkaðir og bætur hækkaðar.

Ekkert bendir nú til sérstakra efnahagslegra áfalla, en það er hyggilegt að vera ætíð undir það búin að jákvæð þróun geti snúist á verri veg. Vissulega er verðbólguþróunin óheppileg um þessar mundir og vextir Seðlabankans þarafleiðandi háir.  Hins vegar minnkar viðskiptahallinn nú hratt og meira jafnvægi er framundan í þeim efnum. Í hinu opna efnahagskerfi heimsins er þess ekki síður að vænta að sviptingar á mörkuðum eigi sér rætur utan lands en innan og þurfa lánastofnanir og aðrir aðilar með mikil viðskipti í útlöndum stöðugt að hafa það í huga.

Framundan eru kjarasamningar á vinnumarkaði og hljóta allir að vonast eftir skynsamlegri niðurstöðu úr þeim.  Ríkisstjórnin mun leggja sitt af mörkum til þess að svo megi verða.

*****

Ég færi landsmönnum öllum bestu óskir um frið og farsæld á komandi ári með þökk fyrir samfylgdina á árinu 2007.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum