Stofnanir

Stofnanir á vegum forsætisráðuneytis

Ríkislögmaður

Hverfisgata 4-6

Ríkislögmaður rekur lögmannsskrifstofu í einkamálum fyrir Stjórnarráð Íslands í heild og þjónar þannig öllum ráðuneytunum. Samkvæmt lögum nr. 51/1985 er hlutverk embættisins þríþætt: Rekstur einkamála fyrir dómstólum, umfjöllun bótakrafna á hendur ríkissjóði og álitsgerðir og aðstoð við vandasama samningsgerð eftir ósk einstakra ráðherra.
Staðsetning: Hverfisgata 4-6, 101 Reykjavík.
Vefur: rikislogmadur.is

Seðlabanki Íslands

SeðlabankinnSeðlabankinn fer með stjórn peningamála á Íslandi og hefur með höndum margþætta starfsemi í þeim tilgangi. Meginmarkmiðið með stjórn peningamála er stöðugleiki í verðlagsmálum. Seðlabankanum ber þó einnig að stuðla að framgangi meginmarkmiða efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að svo miklu leyti sem hann telur það ekki ganga gegn meginmarkmiði hans um verðstöðugleika. Seðlabankinn á ennfremur að sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd. Fleiri verkefni mætti upp telja, svo sem sem útgáfu seðla og myntar, framkvæmd gengismála og fleira.
Vefur:  sedlabanki.is

Umboðsmaður barna

Umboðsmaður barna er í Kringlunni 1

Umboðsmaður barna er opinber embættismaður og talsmaður barna og unglinga að 18 ára aldri gagnvart opinberum aðilum og einkaaðilum. Umboðsmaður barna vinnur að bættum hag barna og unglinga og stendur vörð um réttindi þeirra, hagsmuni og þarfir. Umboðsmaður barna vinnur að réttinda- og hagsmunamálum barna og unglinga almennt séð en ekki að málum einstakra barna eða unglinga.
Staðsetning: Kringlan 1, 103 Reykjavík
Vefur: barn.is


Húsameistari ríkisins (ráðuneytisstofnun) 

Embætti húsameistara ríkisins undirbýr stefnumótun á nokkrum sviðum auk þessa að annast rekstur verkefna sem áður heyrðu undir byggingadeild Stjórnarráðsins. Megin markmið embættisins er að leiða stefnumótun ráðuneytisins á sviði þjóðlendumála og framkvæmd þeirra og skipulagsmála og áætlanagerðar í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Embættið leiðir þróun uppbyggingar og ráðstöfunar á húsnæði Stjórnarráðsins og embættis forseta Íslands og stuðlar þannig að hagkvæmum rekstri húsnæðis og annarra innviða í samvinnu við önnur ráðuneyti. Embættið leggur áherslu á að leiða saman ólíka hagsmuni með farsælum hætti og að leiða þau stefnumarkandi verkefni sem því eru falin með góðum undirbúningi, viðeigandi greiningum og styrkri verkstjórn. 

Meginverkefni húsameistara ríkisins eru eftirfarandi:

  • Málefni þjóðlendna,  stefnumótun, undirbúningur mála og afgreiðsla þeirra.
  • Skipulagsmál og áætlanagerð í þjóðgarðinum á Þingvöllum í samvinnu við Þingvallanefnd.
  • Ráðstöfun skrifstofuhúsnæðis ráðuneyta og gestahúsa ríkisstjórnarinnar.
  • Rekstur og viðhald húsnæðis forsætisráðuneytisins og embættis forseta Íslands.
  • Mótun stefnu um uppbyggingu húsnæðismála Stjórnarráðsins til framtíðar og þróun stjórnarráðsreitsins.