Hoppa yfir valmynd
12. ágúst 2005 Forsætisráðuneytið

Forval til útboðs á eignum og yfirtöku skulda Lánasjóðs landbúnaðarins

Fimm aðilar tilkynntu um þátttöku í forvali til útboðs um kaup á útlánasafni og yfirtöku á skuldum Lánasjóðs landbúnaðarins, en skilafrestur erinda rann út 5. ágúst s.l. Skilyrði til þátttöku voru eftirfarandi:

1. Tilboðsgjafi skal yfirtaka skuldbindingar Lánasjóðsins sem eru í langflestum tilfellum með ríkisábyrgð.


2. Tilboðsgjafi skal hafa trausta fjárhagsstöðu og alþjóðlegt lánshæfismat.


3. Tilboðsgjafi skal vera fjármálafyrirtæki í skilningi 4. gr., 1.-3. tl. laga nr. 161/2002.


4. Tilboðsgjafi skal fallast á það skilyrði að standa við lánsloforð sem stjórn Lánasjóðsins hefur þegar veitt að uppfylltum skilyrðum.


5. Tilboðsgjafi skal lýsa því yfir með því að leggja inn tilboð um kaup á umræddum skuldabréfum, að hann muni ekki hækka vexti né breyta kjörum skuldabréfanna til hins verra fyrir skuldara, umfram það sem stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins hefur samþykkt við yfirtöku lána.


6. Tilboðsgjafi skal lýsa því yfir að ákvæði skuldabréfanna um uppgreiðsluheimild skuldara haldist.


7. Tilboðsgjafi skal lýsa því yfir að hann muni kappkosta að veita landbúnaðinum öllum fjármálaþjónustu á viðskiptalegum grundvelli.


8. Tilboðsgjafi skal lýsa því yfir að hann mun leggja sig fram um að starfsfólk Lánasjóðsins haldi störfum sínum eða fái sambærileg störf hjá tilboðsgjafa.

 

Þrjú erindanna, frá Kaupþingi banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Íslandsbanka hf. uppfylltu öll ofangreind skilyrði og hefur bönkunum verið boðin áframhaldandi þátttaka í söluferlinu. Samband íslenskra sparisjóða, f.h. sparisjóðanna á Íslandi, og Sparisjóðabankinn, og MP Fjárfestingarbanki uppfylltu ekki öll skilyrðin og hefur því verið synjað um frekari þátttöku.

 

                                                                                                         Reykjavík, 12. ágúst 2005
                                                                                                         Framkvæmdanefnd um einkavæðingu



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum