Um vefinn

Fatlaðir og vefurinn

Hvað þarf að hafa í huga vegna fatlaðra?
Stjórnarráðsvefurinn þjónar breiðum hópi notenda og vinna við vefinn miðast við það. Taka þarf tillit til þess að notendur hafa mismikla reynslu í notkun vefsins og því mikilvægt að uppbygging hans og framsetning efnis sé skýr og einföld. Gefa þarf sérstakan gaum að þörfum fatlaðra, s.s. blindra og sjónskertra, heyrnarlausra, hreyfihamlaðra, þroskaheftra og fleiri hópa og gera vefinn þannig úr garði að þeir eigi auðvelt með að nýta sér efni hans. Sannleikurinn er sá að flest af því sem talið er að auðveldi aðgengi fatlaðra að Netinu nýtist ekki síður öðrum almennum notendum. Fatlaðir eru hvattir til að kynna sér þá möguleika sem tölva þeirra og stýrikerfi bjóða upp á til að auðvelda umgengni við tölvuna. Dæmi um slíkt er t.d. að finna í Windows stýrikerfinu (sjá Control Panel/Accessibility Options) og önnur kerfi bjóða upp á svipaða möguleika.

Á vef World Wide Web Consortium (hér eftir skammstafað W3C) http://www.w3.org/WAI/ eru birtar viðmiðunarreglur sem hafa þarf í huga við vefsíðugerð til að tryggja aðgengi sem flestra. Hér er aðeins stiklað á stóru á því sem fram kemur á vef W3C en að öðru leyti bent á fyrrgreindan vef. Á honum er að finna mjög ítarlegar útlistanir á kröfum um aðgengi allra að vefnum, svo sem ýmis forgangsröðuð viðmið, tækni sem þarf að beita og gátlista fyrir notagildi vefs.

Nokkrir punktar frá W3C

1.
Þegar notaðar eru myndir og/eða hljóð á vefnum þarf að bjóða upp á jafngildan valkost fyrir þá sem ekki geta nýtt sér slíka gagnamiðlun. Nota skal Alt-texta þar sem það á við en einnig getur þurft að lýsa myndum eða myndritum ítarlega svo öruggt sé að efnið komist til skila. Ámóta gildir um hljóð. Ef t.d. er boðið upp á að hlusta á ræðu beint af vefnum er æskilegast að ræðan sé einnig tiltæk á textaformi í heild sinni eða a.m.k. útdráttur úr ræðunni.

2.
Tryggja þarf að innihald texta og mynda skili sér án tillits til litanotkunar. Fjöldi fólks greinir ekki að alla liti og getur þá misst sjónar á þeim upplýsingum sem verið er að koma á framfæri.

3.
Notaðu merkjamál (t.d. HTML) rétt og nýttu þér kosti sniðskjala til að stjórna útliti síðna, til að mynda ýmsu sem viðkemur birtingu leturs.

4.
Notaðu merkjamál til að gefa skjálesurum til kynna á hvaða tungumáli texti er og einnig ef breytt er um tungumál í miðjum texta. Skjálesarar skynja þá tungumálabreytingu og bera viðkomandi orð rétt fram (sjá lang="" skipunina). Notið skýrt og hnitmiðað tungutak og sneiðið hjá skammstöfunum eða skýrið þær í upphafi.

5.
Vandaðu gerð taflna og notaðu þær sparlega. Sumir skjálesarar eiga í erfiðleikum með að lesa upplýsingar úr töflum. Html-merkjamálið býður upp á ýmsa möguleika til að auðvelda skjálesurum aflestur taflna.

6.
Þótt almennt sé mælt með notkun nýjustu tækni þarf að hafa í huga að búnaður notenda og aðgengi að Netinu er mismunandi. Vefsíður þurfa að vera þannig úr garði gerðar að hægt sé að nálgast þær í eldri vefskoðurum og einnig þótt notandi velji að hafa slökkt á nýjungum í vefrýni sínum, t.d. vegna hægs netsambands.

7.
Forðast ber blikkandi auglýsingaskilti, hreyfimyndir, texta sem rennur yfir skjáinn og þess háttar. Skjálesarar geta ekki lesið hlaupandi texta og hreyfihamlaðir geta átt í erfiðleikum með að smella á myndir sem eru á hreyfingu.

8.
Hafið í huga aðgengi fatlaðra að sérstökum tengiforritum sem sett eru inn á vefsíður (applets, scripts). Það þarf að vera hægt að nýta sér forritin með þeim aðferðum sem fatlaðir nota eins og t.d. lyklaborði eða raddstýringu.

9.
Það ætti ekki að skipta máli hvort notandi beitir mús, lyklaborði, rödd, sprota eða öðru í vefleiðangri sínum. Almenna reglan er sú að ef unnt er að nálgast efni síðunnar með lyklaborðið eitt að vopni er síðan líkleg til að vera aðgengileg með öðrum aðferðum einnig.

10.
Mælt er með að boðið sé upp á sér- eða bráðbirgðaútgáfu á síðum sem nota tækni sem er líkleg til að valda fötluðum erfiðleikum. Í eldri vefskoðurum er t.d. ekki unnt að nálgast auð textabox sem þarf að fylla inn í, blindir geta átt erfitt með að átta sig á að opnaður hefur verið nýr gluggi o.fl.

11.
Farið eftir reglum W3C um aðgengi fatlaðra. Ef það reynist ekki unnt einhverra hluta vegna svo sem vegna krafna um að beita þurfi nýjustu tækni, þarf að bjóða upp á sérútgáfu viðkomandi síðna. Dæmi um tækni sem fylgir ekki viðmiðunarreglum W3C er t.d. Shockwave, PDF o.fl. Slík tækni krefst gjarnan sérstakra forrita eða tengiforrita. Sé viðmiðunarreglunum fylgt er víst að vefsíðurnar verða aðgengilegar stærri hópi netverja og síður háðar tölvugerð, hugbúnaði og hraða netsambands.

12.
Þegar um flóknar síður er að ræða getur verið nauðsynlegt að setja fram, t.d efst á viðkomandi síðu, upplýsingar um uppbyggingu hennar. Skiptið löngum texta í kafla og undirkafla og bjóðið upp á efnisyfirlit í margbrotnum skjölum þar sem tengsl einstakra hluta síðu verða ljós. Gætið þess að krækjutexti gefi vísbendingu um síðuna sem hann bendir á.

13.
Skipuleggið vefinn vel, vandið gerð allra valmynda og veftrés og gætið þess að halda samræmi í öllum vefnum til að auka líkur á að notendur finni það sem þeir leita að. Afar brýnt er að það sé einfalt að ferðast um vefinn og notandinn átti sig ávallt á hvar hann er staddur.

14.
Gangið úr skugga um að allar síður séu skýrar og einfaldar svo auðvelt sé að átta sig uppbyggingu þeirra. Það nýtist öllum notendum að samræmis sé gætt í framsetningu vefsíðna með tilliti til umbrots, notkun leiðarvísa, mynda, hnappa eða annarra þeirra þátta sem setja svip sinn á vefinn. Skýrt og einfalt málfar sem um leið hæfir viðkomandi vef er líklegra til að ná til notenda sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að skilja flókið mál, t.d. vegna greindar eða annars móðurmáls. Þeir sem nota táknmál eiga einnig auðveldara með og eru fljótari að túlka það sem textinn segir ef hann er hnitmiðaður og skýr.