Hoppa yfir valmynd
22. mars 2001 Innviðaráðuneytið

Nýtt útlit Stjórnarráðsvefs

Forsætisráðherra opnar nýjan stjórnarráðsvef í mars 2001
Forsætisráðherra opnar nýjan stjórnarráðsvef í mars 2001

Frétt nr 07/2001

Forsætisráðherra opnar nýjan vef: Raduneyti.is


Á síðustu árum hefur ríkisstjórnin unnið að framgangi ýmissa mála sem snerta það sem nefnt hefur verið „upplýsingasamfélagið“, þar sem markmiðið hefur verið að hagnýta tölvu- og fjarskiptatækni til að bæta opinbera þjónustu og auka skilvirkni í miðlun upplýsinga frá hinu opinbera til almennings, fyrirtækja og stofnana.

Ríkisstjórnin birti árið 1996 stefnu sína um upplýsingasamfélagið og í kjölfarið var skipuð verkefnisstjórn til að hrinda stefnunni í framkvæmd. Síðan hefur verið unnið ötullega að framkvæmd þessarar stefnu, og sér þess stað í fjölmörgum verkefnum sem unnið hefur verið að á vegum ráðuneyta og ríkisstofnana. Þetta er til marks um að ríkisstjórnin telur afar mikilvægt að þróun upplýsingasamfélagsins verði farsæl og við berum gæfu til að hagnýta þessa tækni með skynsamlegum hætti.

Alþjóðleg tölfræði sýnir ítrekað að Íslendingar eru í hópi forystuþjóða í notkun upplýsinga- og fjarskiptatækninnar. Og oft vermir Ísland efsta sætið í könnunum á þessu sviði.

Sameiginlegur vefur ráðuneytanna - stjórnarráðsvefurinn - hefur um fjögurra ára skeið gegnt mikilvægu hlutverki í miðlun opinberra upplýsinga og þjónustu. Þar hafa stjórnvöld kynnt starfsemi sína og veitt þeim, sem eftir hafa leitað, upplýsingar um skipulag, starfsemi og þjónustu Stjórnarráðsins og ríkisstofnana. Þessi vefur, sem orðinn er barn síns tíma, hefur vaxið jafnt og þétt og er nú í hópi stærstu vefja landsins. - Það var því tímabært að móta nýjan vef, enda er framþróun á þessu sviði afar ör.

Á síðustu mánuðum hefur verið hannað nýtt útlit fyrir stjórnarráðsvefinn. Efnt var til lokaðrar samkeppni og varð niðurstaðan sú að samið var við Íslensku vefstofuna um hönnun vefsins.

Markmiðið er að vefur Stjórnarráðsins gegni vaxandi hlutverki í samskiptum stjórnvalda við almenning, fyrirtæki og stofnanir. Lögð hefur verið megin áhersla á tvennt; að uppbygging vefsins sé notendavæn og að vefurinn verði í auknum mæli gagnvirkur, sem þýðir að þangað verði beinlínis hægt að sækja ýmiss konar þjónustu og sinna erindrekstri hvenær sem er sólarhringsins og hvaðan sem er í heiminum. Þetta atriði er afar mikilvægt því þá um leið geta landsmenn - hvar sem þeir búa á landinu - afgreitt sig sjálfir gegnum netið, þar sem því verður við komið.

Þróun stjórnarráðsvefsins er rökrétt framhald af innleiðingu upplýsingalaga og stjórnsýslulaga, sem liður í því að opna stjórnsýsluna og gera hana aðgengilegri fyrir allan almenning. Í þessu samhengi má benda á að nú er í gangi vinna sem er forsenda aukinnar gagnvirkni og beinnar þjónustu á vef Stjórnarráðsins og mun afrakstur hennar styrkja og örva þróunina á næstu árum:

Í fyrsta lagi er starfandi nefnd á vegum forsætisráðuneytis sem er að skoða almenn ákvæði laga til að hrinda úr vegi hindrunum fyrir því að almenningur geti fengið fullnaðarafgreiðslu erinda sinna í stjórnsýslunni með rafrænum hætti gegnum Netið. Niðurstaða þeirrar nefndar liggur væntanlega fyrir nú í sumar.

Í öðru lagi má nefna frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra til laga um rafrænar undirskriftir, sem komið er til meðferðar Alþingis, og standa vonir til að það geti orðið að lögum nú í vor.

Hinn nýi vefur Stjórnarráðsins, sem forsætisráðherra opnaði í dag, hefur slóðina Raduneyti.is og hefur efnisinnihald hans verið aukið og endurbætt. Sem dæmi má nefna að opnast hefur aðgangur að ýmsu sögulegu efni á vefsíðu ríkisstjórnar og forsætisráðuneytis. Upplýsingar um íslenska ráðherra og ríkisstjórnir frá 1904 eru nú aðgengilegar sem og myndir af öllum ríkisstjórnum frá árinu 1941. Á forsíðu stjórnarráðsvefsins verður svo framvegis það efni frá ráðuneytum sem talið er eftirsóknarverðast hverju sinni. Forsíðan verður því lifandi fréttasíða.

Á síðustu misserum hefur verið unnið mikið verk við að koma hvers kyns upplýsingum sem snerta lagaleg atriði eða réttarheimildir á vef Stjórnarráðsins. Þessi vinna er nú langt komin og má vænta þess að á næstu vikum aukist enn efni stjórnarráðsvefsins þegar tveir sérvefir verða tilbúnir: annar er heildarvefur um réttarheimildir og hinn inniheldur reglugerðasafn. Þessir vefir, sem eru á vegum dómsmálaráðuneytis, hafa sömu ásýnd og virkni og vefur ráðuneytanna, til hagræðis fyrir notendur.

Í Reykjavík, 22. mars 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum