Hoppa yfir valmynd
14. janúar 2010 Forsætisráðuneytið

Hvað er spunnið í opinberavefi 2009?

Helstu breytingar sem orðið hafa á opinberum vefjum á árunum 2007 – 2009 eru þær að nytsemi þeirra hefur aukist verulega og mestar framfarir hafa orðið á vefjum ráðuneytanna. Einnig hafa orðið verulegar framfarir í ýmissi lýðræðislegri virkni á opinberum vefjum og svo virðist sem hugarfarsbreyting hafi átt sér stað innan stofnana því nú meta 43% stofnana það svo að þeirra stofnun eigi að sinna rafrænu lýðræði en 23% voru á þeirri skoðun árið 2007. Yfir heildina litið er þróun er í rafrænni þjónustu og aðgengismálum hægfara. Framangreindar niðurstöður koma fram í úttekt sem forsætisráðuneytið hefur látið gera á vefjum hátt í þrjú hundruð stofnana ríkis og sveitarfélaga. Fyrirtækið Sjá ehf framkvæmdi úttektina og er þetta í þriðja sinn sem slík úttekt er gerð.

Markmiðið með úttektinni er að fá heildstætt yfirlit yfir þá þjónustu sem er í boði, fylgjast með þróun og breytingum á vefjum opinberra aðila, meta gæði þeirra en einnig að auka vitund forsvarsmanna opinberra stofnana og sveitarfélaga um það hvar þeir standa í samanburði við aðra og gefa hugmynd um möguleika og tækifæri sem felast í rafrænni þjónustu.

Könnunin var sem fyrr tvíþætt. Annars vegar voru vefirnir metnir af sérfræðingum samkvæmt gátlistum um innihald, nytsemi, aðgengi og þjónustu. Hins vegar svöruðu forsvarsmenn vefjanna spurningalista og gátu gert athugasemdir við matið. Metnir voru 274 vefir ríkisstofnana, ráðuneyta og sveitarfélaga, að meðtöldum ýmsum sérvefjum, þjónustugáttum og vefjum ohf.-fyrirtækja. Svarhlutfall var um 90%.

Frekari upplýsingar um könnunina er að finna á UT-vefnum, ut.is/konnun2009

Reykjavík 14. janúar 2010

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum