Hoppa yfir valmynd
12. desember 1998 Forsætisráðuneytið

Formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 1999

Ísland leggur fram eftirfarandi starfsáætlun um samstarf norrænu ríkisstjórnanna árið 1999 en í ár gegna Íslendingar formennsku á þeim vettvangi.

Í inngangi áætlunarinnar eru meginþættir og helstu áherslur reifaðar og í hinum köflum hennar er gerð grein fyrir áætlunum fagsviðanna fyrir næsta ár. Þverfagleg áætlun, nefnd ,,Fólk og haf í norðri" liggur með sem fylgiskjal.

1. Inngangur

Hið hnattræna og hið evrópska

Einkennandi fyrir þróunina nú í lok 20. aldar er að þjóðríkin verða í auknum mæli háðari umheiminum og samskiptum við hann. Jafnframt eru skilin milli innanríkis- og utanríkismála mun óljósari en áður og alþjóðamál spanna nú í ríkara mæli en áður allan heiminn og norrænt samstarf hefur sannað að það á sinn sess í því fjölþætta hnattræna og alþjóðlega samstarfi, sem þróast hefur á síðustu áratugum. Fyrirhuguð stækkun Evrópu leiðir einnig til þess að mikilvægi svæðisbundins samstarfs eykst og að sama skapi hlutverk norræns samstarfs í Evrópu.

Þessi þróun á alþjóðlegum og evrópskum vettvangi hefur á síðustu árum aukið vægi norræns samstarfs, samvinnu og samráðs um alþjóðamál. Þannig hefur þýðing reglubundinna funda milli norrænu forsætisráðherranna og utanríkisráðherranna aukist. Að auki hefur nú verið tekið upp samband milli norrænu forsætisráðherranna og fjármálaráðherranna til upplýsinga og umræðna um Evrópska myntbandalagið.

Næsta ár verður stækkun Evrópusambandsins, NATO, Schengensamningurinn, Evrópska myntbandalagið og Norðlæga víddin svo og Sameinuðu þjóðirnar og Endurreisnar- og þróunarbankinn (IBRD) á dagskrá funda norrænu forsætisráðherranna og norrænu utanríkisráðherranna. Markmiðið verður að móta norræna afstöðu til málefna sem efst eru á baugi í Evrópu, á alþjóðavettvangi og hnattrænt, þegar hagsmunir Norðurlanda falla saman.

Í tilefni þess að nú eru 50 ár liðin síðan mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt gáfu norrænu forsætisráðherrarnir út yfirlýsingu á 50. þingi Norðurlandaráðs í Osló, þar sem þeir hvetja til sameiginlegs átaks til stuðnings grundvallarmannréttindum og frelsi og gegn skerðingu á þessum réttindum. Þessu ber að fylgja eftir á norrænum og alþjóðlegum vettvangi.

Ísland leggur áherslu á að auka tengslin milli Norrænu ráðherranefndarinnar og formennskulands Evrópusambandsins. Vegna formennsku Finnlands þar seinni hluta 1999 og formennsku Danmerkur og Svíþjóðar í framhaldinu gefst gott tækifæri til að styrkja þessi tengsl. Mikilvægt er að nýta þessa möguleika markvisst á svo mörgum sviðum sem mögulegt er bæði í norrænu samstarfi ráðherra og embættismanna.

Árið 1999 tekur Ísland við formennsku í Evrópuráðinu og Noregur tekur við formennsku hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE). Hugmyndir um aukið samstarf milli þessara samtaka hafa verið lagðar fram. Þannig verða Norðurlönd og norrænar áherslur sýnilegri í Evrópusamstarfi en áður.

Ísland leggur áherslu á norrænt samráð þegar þess er kostur við undirbúing við lögfestingar tilskipana Evrópusambandsins í því skyni að stuðla að norrænni réttareiningu. Með skipulögðum hætti ber að ganga úr skugga um að slíkt samráð eigi sér stað á öllum sviðum hins norræna samstarfs.

Ísland leggur áherslu á aukið upplýsingaflæði milli aðalskrifstofa Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar og höfuðstöðva Evrópusambandsins í Brussel. Þess vegna er lögð áhersla á að styrkja það kerfi sem byggt hefur verið upp til að gefa starfsmönnum Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs kost á að dvelja við sendiráð Norðurlanda í Brussel.

Fólk og haf í norðri

Ísland vill beina sérstakri athygli að hinu strjálbýla Norðurskautssvæði og Vestnorræna svæðinu og leggur fram þau markmið sem æskilegt er að unnið verði að til hagsbóta fyrir íbúa þessara svæða í þverfaglegu áætluninni ,,Fólk og haf í norðri". Markmið hennar eru: bætt lífsskilyrði á svæðunum, sjálfbær nýting náttúruauðlinda, atvinnuþróun, náttúruvernd, aukin samskipti innan svæðisins og aukin þekking umheimsins á lífi, kjörum og menningu þeirra þjóða sem þar búa. Áætlunin, sem tekur bæði til verkefna sem heyra undir norræna stoð og grannsvæðastoð hins norræna samstarfs á umhverfis-, sjávarútvegs-, byggðamála-, menntunar-, rannsókna-, landbúnaðar- og skógræktarsviði. Það er æskilegt að áætlunin verði höfð að leiðarljósi bæði innan þessara sviða og annarra eftir því sem við á. Listi yfir verkefni sem falla að markmiðum áætlunarinnar verður kynntur fyrir árslok 1998. Vonir eru bundnar við að þessi verkefni og önnur verkefni tengd ,,Fólki og hafi í norðri" komi til framkvæmda innnan Norrænu rannsóknaáætlunarinnar um málefni Norðurskautsins og Norrænu samstarfsáætlunarinnar um málefni Norðurskautssvæðisins.

Grannsvæði Norðurlanda

Samstarf Norðurlanda við Eystrasaltsríkin og grannsvæði Norðurlanda í Rússlandi sem og við Norðurskautssvæðið er mikilvægt. Með tilliti til þess takmarkaða fjármagns af fjárlögum Norrænu ráðherranefndarinnar sem hægt er að veita til þessa samstarfs leggur Ísland áherslu á nauðsyn hagkvæmrar verkaskiptingar milli Norrænu ráðherranefndarinnar og annarra sem eiga samstarf við þessi svæði þannig að komist verði hjá tvíverknaði. Jafnframt er mikilvægt að samnorrænni aðstoð sé beint að verkefnum sem hafa í för með sér hvað mest norrænt notagildi. Í formennskutíð Íslands verður lögð áhersla á að bæta stöðu barna á grannsvæðum Norðurlanda. Þegar ákvarðanir um samnorrænar aðgerðir til að bæta stöðu barna þar eru teknar ber m.a. að líta til niðurstaðna og upplýsinga sem fram komu á barnaráðstefnu Norðurlandaráðs (BARNforum) í desember 1998.

Í tilefni formennsku Finna í Evrópusambandinu leggja þeir áherslu á að auka samstarf og aðstoð Evrópusambandsins við Norðvestur-Rússland og Eystrasaltssvæðið. Þetta átak ,,Norðlæga víddin" er mikilvægt áherslumál fyrir Norðurlönd öll og grannsvæði þeirra. Ísland leggur áherslu á góðar upplýsingar um inntak þessarar áherslu og frjóar umræður á norrænum vettvangi um hana.

Hið hefðbundna norræna

Mikilvægt er að hugað verði að því þegar í upphafi árs 1999 hvernig árþúsundamótanna verður minnst á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Æskilegt er að rætt verði við Norðurlandaráð um sameiginlegt framlag í þessu skyni.

Ísland vill leggja sitt af mörkum til þess að vestnorrænu löndin, Færeyjar og Grænland ásamt með Álandseyjum verði sýnilegri í norrænu samstarfi og að þau taki í auknum mæli þátt í verkefnasamstarfi á fagsviðunum.

Ísland leggur áherslu á að þróa og styrkja það norræna samstarf sem nú þegar er hafið á sviði upplýsingatækni. Þetta á við það pólitíska samstarf undir leiðsögn þeirra ráðherra sem fara með upplýsingatæknimál, þar sem miðlæg áherslusvið eins og notkun upplýsingatækninnar til eflingar lýðræði og til að tryggja jafnræði hvað varðar aðgengi að upplýsingasamfélaginu standa í fyrirrúmi. Og þetta á einnig við um aukna notkun upplýsingatækni á öðrum samstarfssviðum norræna samstarfsins, ekki síst á menningar- og menntamálasviði ásamt neytendasviði, þar sem auka ber notkun upplýsingatækni til að ná eða miðla settum markmiðum. Í upplýsingasamfélagi nútímans er það jafnframt mikilvægara en nokkru sinni fyrr að vernda tungumál lítilla málsamfélaga. Samvinna Norðurlanda um verndun norrænna mála á að stuðla að því að þau verði notuð hnökralaust í samskiptum manns og tölvu. Jafnframt þarf að vinna markvisst að því að auka gagnkvæma þekkingu og skilning á tungumálum norrænu grannþjóðanna. Einnig á að leggja áherslu á að viðhalda og vekja athygli á þeirri málstefnu sem fylgt er á Norðurlöndum til að vernda norrænu tungumálin.

Við eigum einnig að taka upplýsingatæknina í okkar þjónustu við miðlun upplýsinga um menningararf okkar, norrænt vísindastarf og samfélagsmál. Á þessu sviði eru margir samstarfsfletir eins og framleiðsla á margmiðlunarefni fyrir menntakerfi og almenning. Jafnframt ber að auka stuðning til margmiðlunarverkefna á sviði menningar.

Ísland vill beina sjónum að menningarmiðlun til barna og ungmenna á Norðurlöndum ásamt því að auka samskipti norrænna barna og ungmenna. Í þessu sambandi er vakin sérstök athygli á norrænu ungmennamóti sem fyrirhugað er að halda í Reykjavík árið 2000 á vegum aðildarfélaga NSU (Norrænna samtaka um ungmennasamstarf). Á mótinu verða þátttakendur frá öllum norrænu löndunum og menningar- og umhverfismál verða þar í fyrirrúmi.

Sérstök áhersla verður lögð á þátttöku frá jaðarsvæðum og þátttöku fámennra þjóðarsamfélaga í norrænu menningarsamstarfi.

Eitt áherslumálanna er að efla norrænt samstarf um menningarkynningar utan Norðurlanda á þann veg að öll norrænu löndin fái tækifæri til að kynna menningu sína. Nú þegar er hafinn undirbúningur viðamikillar farandsýningar í Norður-Ameríku árið 2000 um víkingatímann og vesturferðir Norðurlandabúa við síðustu aldamót sem Ísland leggur mikla áherslu á að komist til framkvæmda ásamt öðrum menningarkynningum utan Norðurlanda.

Í samstarfi við Svíþjóð, fráfarandi formennskuland, er lögð áhersla á að á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar verði tekið upp samstarf við frjáls félagasamtök, samkvæmt þeirri áætlun um samstarf við slík samtök sem samþykkt var á 50. þingi Norðurlandaráðs.

Með hliðsjón af norrænni samstarfsáætlun um sjávarútvegsmál, verður aðalmarkmið sjávarútvegssamstarfsins að efla sjávarútveg, sem mikilvægan þátt þjóðlífs í löndunum.

Ári hafsins verður fylgt eftir m.a. með aukinni umræðu um ábyrga nýtingu sjávarauðlinda og með því að stuðla að auknum skilningi á alþjóðavettvangi á sjónarmiðum norrænu ríkjanna um fiskveiðistjórnun, sjálfbærni og umhverfismál. Samhliða þessu verður stefnt að samræmingu norrænna sjónarmiða og kynningu á þeim í svæðisbundnu samstarfi og á alþjóðavettvangi.

Umhverfismál verða áfram meðal áherslumála og áhersla lögð á að fylgja eftir yfirlýsingu norrænu forsætisráðherranna sem nefnd hefur verið ,,Sjálfbær Norðurlönd". Á sviði umhverfis og sjávarútvegs verður lögð áhersla á verndun hafsins og nýtingu sjávarauðlinda, sem og á verndun og nýtingu ferskvatns.

Umhverfismálin á grannsvæðunum eru eins og undangengin ár eitt af meginverkefnum samstarfsins, þar skiptir norræna umhverfisfjármögnunarfélagið NEFCO miklu. Sama gildir um umhverfismál á Norðurskautssvæðinu sem í auknum mæli verður unnið að í samstarfi við önnur alþjóðasamtök, m.a. innan ramma Norðurskautssráðsins. Á umhverfissviði er jafnframt mikilvægt að auka enn frekar samskiptin við Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið.

Það er markmiðið að auka og styrkja hið pólitíska samstarf á sviði neytendamála með það fyrir augum að samnorræn stefnumótun geti haft áhrif á stefnu Evrópusambandsins, Evrópska efnahagssvæðisins og á alþjóðavettvangi.

Auk þess sem fram kemur í norrænu samstarfsáætluninni á sviði neytendamála fyrir árin 1999-2004 leggur Ísland m.a. áherslu á mótun samnorrænnar stefnu hvað varðar upplýsingatækni, samnorrænar lágmarkskröfur við nýja lagasetningu um neytendavernd og að neytendamál verði samþætt öðrum sviðum.

Lögð er áhersla á að haldið verði áfram því starfi sem hafið var 1998 við að ryðja úr vegi þeim fjölmörgu hindrunum og óþægindum sem mæta Norðurlandabúum sem flytjast milli norrænu landanna til að stunda atvinnu eða menntun. Upplýsingar um mál af þessum toga, sem Norræna félagið í Svíþjóð safnar frá þeim er nýta þjónustusímann ,,Halló Norðurlönd", verða m.a. notaðar við þessa vinnu.

Einnig verður leitast við að auka upplýsingamiðlun milli norrænu landanna um atvinnuhorfur, húsnæðismál, skólamál, félagsmál og fleira með það fyrir augum að aðstoða fólk sem vill flytja búferlum frá einu landi til annars. Þessum markmiðum má ná með aukinni nettengingu milli viðkomandi stofnana á Norðurlöndunum.

Á sviði landbúnaðar og skógræktar er stefnt að því að styrkja samstarfið við Grænland og Færeyjar og taka upp samstarf um sameiginleg hagsmunamál við aðila í Skotlandi, á Orkneyjum, Írlandi og í Kanada. Vakin er athygli á þörfinni á að viðhalda og endurheimta landgæði á hinum viðkvæmu svæðum Norðurskautsins. Einnig er lögð áhersla á að aðstoða þróunarríkin þar sem þekkingu á nýtingu landgæða skortir oft á tíðum.

Margt bendir til þess að áhugavert og verðmætt efni kunni að leynast í þeim fjölmörgu skýrslum og verkefnum sem lokið hefur verið við á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar án þess að niðurstöður þeirra hafi verið notaðar sem skyldi. Lagt er til að þessi gögn verði skoðuð á ný á viðkomandi fagsviðum í því skyni að meta, hvort nú séu möguleikar fyrir hendi, sem ekki voru þar áður til að fylgja málum eftir.

Það er alkunna að almenningur hefur í mörgum tilfellum takmarkaða vitneskju um norræna styrkjakerfið, möguleika á þátttöku í verkefnasamstarfi eða á því að notfæra sér þá þjónustu sem norrænar stofnanir bjóða, ekki einungis á menningar- og rannsóknasviði heldur á mörgum öðrum sviðum. Því er stefnt að því að efla og bæta hagnýtar upplýsingar og leita skilvirkari leiða til að koma þeim á framfæri, m.a. með auknum atbeina nýrrar upplýsingatækni.

2. Menningarmál

  1. Á fundi Norrænu ráðherranefndarinnar, menningarmálaráðherranna, 8. júní 1998 var samþykkt greinargerð um stefnumið í norrænu menningarsamstarfi við árþúsundamót. Sú stefnumörkun sem í greinargerðinni felst lýtur bæði að inntaki og starfsháttum í norrænni menningarsamvinnu á vegum ríkisstjórnanna. Á formennskuári Íslendinga verður mikilvægt verkefni að fylgja þessari stefnumörkun eftir, m.a. stuðla að því að verkaskiptingu milli samstarfsstofnana ráðherranefndarinnar á menningarsviðinu verði þróuð í samræmi við þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar í greinargerðinni.
  2. Á fundi ráðherranefndar menningarmála í júní 1998 var einnig fjallað um tillögur starfshóps um norræna málstefnu, en verkið var unnið á vegum ráðherranefndar menntamála og vísinda. Margar af tillögunum varða menningarmálasviðið, t.d. þær sem lúta að þætti bókmennta og fjölmiðla. Af íslenskri hálfu er lögð áhersla á að tillögum í þessum efnum verði fylgt eftir með raunhæfum hætti. Í því sambandi verður m.a. hugað að aðgerðum sem fallnar eru til að efla gagnkvæma kynningu barna- og unglingabókmennta á Norðurlöndum.
  3. Nærtækt er að Íslendingar beiti sér fyrir því á formennskuári sínu að hugað verði sérstaklega að stöðu jaðarsvæða og fámennra þjóðarsamfélaga í norrænu menningarsamstarfi. Til greina kemur að efna til ráðstefnu á Íslandi þar sem reynt verði að varpa ljósi á hver hlutur íbúa þessara svæða er nú, hvers þeir vænta af samstarfinu, hvað veldur þeim örðugleikum og hvernig mætti efla þátttöku þeirrra og stuðla að því að samstarfið kæmi þeim að sem bestum notum.
  4. Oft verður þess vart að almenningur á Norðurlöndum, jafnt á Íslandi sem annars staðar, hefur óljósa vitneskju um það samstarfskerfi sem byggt hefur verið upp á sviði menningarmála og á því óhægt um vik að nýta þá möguleika sem samstarfið býður. Því virðist enn þörf á að efla og bæta hagnýtar upplýsingar, t.d. um ýmis styrkjakerfi, og leita skilvirkari leiða til að koma þeim á framfæri, m.a. með auknum atbeina nýrrar upplýsingatækni.
  5. Áfram ber að leggja áherslu á nýtingu nútímalegrar upplýsingartækni í menningarsamstarfinu sjálfu, ekki einungis til að koma á framfæri upplýsingum um samvinnuna heldur og til að auka fjölbreytni verkefna, greiða fyrir þátttöku og auðvelda aðgang almennings að menningarverðmætum. Nú þegar er nokkru fé varið til samvinnu um margmiðlunarverkefni, en kanna þarf hvernig skipuleggja megi öflugri stuðning við framleiðslu á norrænu efni fyrir slíka miðlun.
  6. Gildistími samnings um Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn rennur út í lok árs 1999. Íslendingar hafa hug á að stuðla að því eftir föngum, að búið verði í haginn fyrir öflugt framhald á starfsemi sjóðsins.
  7. Mikilsvert er að norrænt samstarf um menningarkynningar utan Norðurlanda haldi áfram og eflist og nýtist öllum þjóðunum til að koma menningu sinni á framfæri og stofna til nýrra menningartengsla. Uppi eru áform um umfangsmikla sýningarstarfsemi í Norður-Ameríku aldamótaárið til að minnast landafunda og vesturfara norrænna manna. Af íslenskri hálfu er lögð áhersla á að það undirbúningsstarf sem vinna þarf á næstu misserum stuðli að því að þau áform takist sem best.

3. Menntun og rannsóknir

Samstarf á sviði menntamála og vísinda á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar mun á formennskuári Íslands áfram beinast að því að auka almennt samstarf landanna auk þess að styrkja samstarf við önnur Evrópuríki sem og við grannsvæði Norðurlanda. Markmiðið er að jafn auðvelt verði að mynda tengsl, skiptast á hugmyndum og flytjast frá einu fræðslu- og rannsóknarumhverfi til annars á Norðurlöndum og í eigin landi. Lögð verður áhersla á að styrkja norræn viðhorf í alþjóðasamstarfi og gera starfsemina skilvirkari. Lögð verður sérstök áhersla á að styrkja tengslin milli hinna vestlægu Norðurlanda og annarra ríkja Norðurlanda.

Á formennskuári Íslands verður lögð áhersla á sjálfbært samfélag á Norðurlöndum, sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og málefni hafsins. Þessir áhersluþættir hafa skírskotun til verkefna sem þegar er unnið að í norrænu samstarfi. Starfsemi á sviði menntunar og rannsókna innan ráðherranefndarinnar mun því taka mið af þeim og því beint til viðkomandi nefnda og stofnana innan mennta- og rannsóknasviðsins að huga að því hvernig þessi áhersluatriði falli að starfsemi þeirra og að metið verði hvort forsendur séu fyrir nýjum verkefnum undir þessum formerkjum.

Eitt þeirra verkefna sem nýlega hefur verið hleypt af stokkunum er verkefnið mat í skólastarfi. Var þetta verkefni tekið upp að frumkvæði Íslands á formennskuári þess 1994. Á formennskuári Íslands 1999 verður því fylgt eftir með aukinni áherslu á mat og gæði í skólastarfi að háskólastigi meðtöldu. Það fellur vel við umræðuefnið á fundi mennta- og rannsóknamálaráðherra í desember 1998 en þeir hafa ákveðið að taka tiltekin umræðuefni fyrir á fundum sínum. Munu umræðuefnin hverju sinni taka mið af þeim málefnum sem ráðherrarnir leggja áherslu á að ræða á norrænum vettvangi. Formennskulandið mun sjá um samhæfingu í undirbúningi þeirrar umræðu í samstarfi við menntamálaráðuneyti landanna og skrifstofu ráðherranefndarinnar. Hafa ráðherrarnir þegar rætt nokkrar hugmyndir um fleiri umræðuefni.

Áætlunin um norræna tungumálasamvinnu mun skipa forgangssess á formennskuári Íslands. Mikilvægi þess að varðveita hin norrænu tungumál eykst stöðugt í hraðfara þróun upplýsingasamfélagsins þar sem enska ræður stöðugt meira ríkjum. Í þeim samanburði eru norrænu tungumálin lítil málsamfélög. Nauðsynlegt er því að á vettvangi ráðherra um menntun og rannsóknir verði unnið skipulega að því að viðhalda norrænu málunum og stuðla að framgangi þeirra í upplýsingasamfélaginu og því ákjósanlegt umræðuefni á fundi ráðherranna.

Áfram verður unnið að því að styrkja norræna samvinnu á sviði upplýsingatækni með sérstakri áherslu á að skapa börnum og unglingum tækifæri til að nýta sér þá tækni sem best þekkist í þeim efnum enda munu málefni barna og ungmenna skipa áfram forgangssess á formennskuári Íslands í samræmi við þær áherslur sem ríkt hafa um árabil innan Norrænu ráðherranefndarinnar.

Á formennskuári Íslands á sviði menntunar og rannsókna verður lögð áhersla á samfellu í þeirri starfsemi sem fyrir er. Verkefnum sem mörkuð hafa verið af fyrrverandi formennskulöndum verður fylgt eftir á verksviði hinna ýmsu nefnda og vinnuhópa innan sviðsins. Helstu starfsáætlanir innan mennta- og rannsóknarsviðsins taka til fimm ára í senn. Unnið er að mestu eftir starfsáætlunum fyrir árin 1997-2000.

Nefna má eftirfarandi áætlanir og verkefni:

  • Mat í skólastarfi
  • Upplýsinga- og samskiptatækni (IKT) í skólastarfi
  • Brottfall nemenda úr skilgreindu framhalds-námi
  • Skilgreining á hlutverki kennarans
  • Símenntun
  • Rannsóknarverkefni um atvinnulíf og lýðfræðslu
  • Norræn endurmenntun í kennslufræði fullorðinna
  • Fullorðinsfræðsla og upplýsingatækni
  • Efling lýðræðis
  • Lítil fyrirtæki og lýðfræðsla
  • Auka og hvetja til stúdenta- og kennaraskipta (mobilitet - Nordplus)
  • Grunnmenntun og rannsóknir
  • Áhersla á svæðisbundið samstarf
  • Alþjóðlegt samstarf
  • Mótun norrænnar rannsóknarstefnu (Nordisk forskningspolitisk strategi) til að stuðla að markvissri forgangsröðun verkefna
  • Stefnumörkun með þverfaglegt samstarf í huga
  • Tillögur um forgangsröðun í rannsóknum á vettvangi ráðherranefndarinnar einkum með tilliti til forgangsröðunar í hinum einstöku löndum
  • Þróun gæðastjórnaraðferða í norrænu rannsóknasamstarfi

Ráðstefnur á formennskuári Íslendinga.

Fyrirhugað er að halda ráðstefnur um þau málefni sem lögð er áhersla á í norrænu samstarfi um menntun og rannsóknir og er ráðgert að halda eftirfarandi ráðstefnur á formennskuári Íslands á sviði menntunar og rannsókna.

  • Mat í skólastarfi. Það er eitt meginforgangsefni á sviði ráðherranefndarinnar um menntun og rannsóknir á vegum NSS.
  • Fjármögnun og skipulag háskóla, en fjármögnun háskólastigsins er orðið mjög aðkallandi úrlausnarefni í flestum löndunum. Högut-nefndin mun undirbúa ráðstefnuna og koma með tillögu um tímasetningu.
  • Meginstraumar í símenntun á norrænum, evrópskum og alþjóðlegum vettvangi. Horft verður um öxl og litið fram á veginn með hliðsjón af verkefnaáætlun FOVU 1997-2000. FOVU-nefndin mun undirbúa ráðstefnuna og koma með tillögu um tímasetningu.

4. Umhverfismál

Inngangur

Samstarfið á umhverfissviðinu byggir í grundvallaratriðum á Norrænu umhverfisáætluninni 1996 til 2000. Upphaflega var áætlað að hún gilti til ársloka árið 1999, en gera má ráð fyrir því að samþykkt nýrrar umhverfisáætlunar geti dregist fram á mitt ár 2000. Á formennskuári Íslands mun þó hefjast undirbúningur að gerð nýrrar umhverfisáætlunar. Mikilvægur þáttur í því er að líta yfir farinn veg og leggja mat á það hvernig til hefur tekist við að ná þeim markmiðum sem sett voru í áætluninni sem nú er unnið eftir. Niðurstöður úr slíkri endurskoðun ber að nýta við undirbúning og gerð nýrrar áætlunar.

Á formennskuári Íslands verður gengið út frá þeim þremur stoðum sem byggt er á í norrænu samstarfi, Norðurlönd, grannsvæðin og norðurslóðir og Evrópa og önnur alþjóðamál.

Norræna stoðin

Á formennskuári Íslands verður áhersla lögð á að styrkja norrænu stoðina í umhverfissamstarfi á nyrðri og vestari svæðum Norðurlandanna.

Í norrænu stoðinni er nærtækt að leggja áherslu á hafið á næsta ári. Í áætlun um þverfagleg málefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar á næsta ári kemur áherslan á hafið skýrt fram og af Íslands hálfu verður lögð áhersla á að umhverfisgeirinn leggi sitt af mörkum að því er varðar málefni hafsins. Leggja verður áherslu á að fjallað verði um alla þætti sem snerta umgengni við hafið og nýtingu auðlinda þess. Hér er átt við mengun, verndun búsvæða, sjálfbærar veiðar o.fl.

Lögð verður áhersla á að fylgja eftir yfirlýsingum ráðherra og samningum sem undirritaðir voru á ráðstefnunni ,,Environment for Europe" í Árósum í júnílok sl. Ennfremur ber að vinna að markmiðum sem sett eru í OSPAR-samningnum.

Af verkefnum vinnuhópa sem Ísland hyggst leggja áherslu á eru vernd og nýting vatns, þ.m.t. fráveitumál og ennfremur vernd strandsvæða. Af verkefnum vinnuhópa sem Ísland hyggst leggja áherslu á eru vatnsmálin og strandsvæði verða sérstakt áherslumál Íslendinga. Áfram mun verða lögð áhersla á þverfaglegt samstarf við aðra geira og sem dæmi um ný verkefni sem kom til álita er greining á fjárhagslegu verðmæti náttúrunnar.

Grannsvæðin/Norðurslóðir

Undanfarin ár hafa Norðurlöndin, saman og sitt í hverju lagi unnið markvisst að því að styðja jákvæða þróun umhverfismála á grannsvæðunum við Eystrasalt. Á formennskuári Íslands mun því starfi haldið áfram. Miðað er við það að Styrktarsjóður NEFCO haldi áfram sínu starfi og að reyna að vinna að því að umhverfismál fái aukið framlag úr grannsvæðasjóði Norrænu ráðherranefndarinnar.

Auk þess er það sérstakt áherslumál að styrkja tengsl við norðurslóðir enn frekar, bæði með því að leggja áherslu á að starfi fastra vinnuhópa verði beint frekar á þann vettvang og því að efla samvinnu við aðra sem starfa á þeim vettvangi. Sem dæmi um hið síðarnefnda eru tengsl við hópa sem vinna undir Arctic Environmental Protection Strategy (AEPS), einkum að því er viðkemur að draga úr mengun á svæðinu, náttúruvernd og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni. Sem dæmi um einstök verkefni má nefna framkvæmd á Regional Programme of Action sem er liður í því að hrinda í framkvæmd Global Programme of Action for the Protection of the Marine Environment from Land-Based Pollution (GPA) og alþjóðlegum samningaviðræðum um þrávirk lífræn efni. Jafnframt verður sérstakur gaumur gefinn að hættu sem stafar af geislavirkum úrgangi í Norðvestur-Rússlandi.

Í heild má segja að markmiðið sé að starf Norrænu ríkjanna á Norðurslóðum falli vel að þeim markmiðum sem þau hafa sett sér í samstarfinu innan Norðurskautsráðsins. Áhersla verður lögð á að vinna að sjálfbærri þróun á Norðurslóðum og meðal verkefna sem Ísland mun stuðla að er gerð staðardagskrár 21 fyrir smærri samfélög á köldum svæðum.

Evrópa og önnur alþjóðamál

Ísland mun á formennskutímabili sínu stuðla að því að styrkja samskiptin við ESB og EES. Fyrsta skrefið í því efni er að taka til gaumgæfilegrar athugunar og umræðu innan umhverfisgeirans hvernig þessum samskiptum verði best háttað. Ræða þarf hvort og þá hvernig eigi að hafa reglulegt samráð eða samskipti við framkvæmdastjórn ESB og hvernig eigi að haga samskiptum við EFTA. Að mati Íslands þarf að ræða bæði kosti og galla slíks fyrirkomulags.

Í þessu sambandi er ástæða til að ræða sérstaklega undirbúning og lögbindingu gerða sem gilda eiga á EES-svæðinu. Dæmi eru um vel heppnað starf af því tagi í efnavöruhópnum (Kemikaliegruppen), en spurningin er hvort starfið eigi að vera kerfisbundnara. Ekki verður framhjá því litið að umhverfislöggjöf Norðurlandanna, þ.m.t. þeirra sem standa utan ESB, á að stórum hluta uppruna sinn í tilskipunum sambandsins. Undir hatti sumra embættismannanefnda eru starfandi sérstakir lagahópar og það má velta því fyrir sér hvort taka eigi þennan þátt út með svipuðum hætti innan umhverfisgeirans. Hér er þó eingöngu um umræðugrundvöll að ræða en ekki beinar tillögur.

Á formennskutímabilinu mun Ísland leggja áherslu á að Norðurlöndin starfi áfram saman á alþjóðavettvengi eftir því sem við verður komið. Í því sambandi er vísað til þess sem segir að ofan um samningaviðræður um þrávirk lífræn efni og um framkvæmd á GPA. Jafnframt verður áfram stuðlað að samvinnu á sviði annarra samninga sem máli skipta. Þar má m.a. nefna gagnlegt samstarf sem oft hefur átt sér stað um Rammasamning S.þ.um loftslagsbreytingar og líffræðilega fjölbreytni.

5. Byggðamál

1. Samstarfsáætlun 2000-2004

Á árinu 1999 á að undirbúa samstarfsáætlun í byggðamálum fyrir árin 2000-2004. Undirbúningur áætlunarinnar hófst með málþingi í Stokkhólmi í september en meiri hluti vinnunnar mun fara fram á næsta ári. Samstarfið í byggðamálum hefur verið í þremur meginflokkum: hin norrænu samstarfssvæði; rannsóknir og kennsla og samskipti embættismanna.

Sú þróun hefur einkennt flest samstarfssvæðin (fyrir utan norræna Atlantssamstarfið) að þau njóta einnig umtalsverðs stuðnings ESB frá INTERREG áætluninni. Meginverkefni næstu ára er að viðhalda hinu norræna samstarfi í skugganum af mikilli fjárhagslegri fyrirgreiðslu. Ljóst er að fé af fjárlögum Norrænu ráðherranefndarinnar má sín lítils í slíkum samanburði til að hafa umtalsverð áhrif á efnahagsþróun svæðanna í samstarfinu. Hins vegar getur það nýst til að efla samstarf á milli þeirra sem er, þrátt fyrir allt, ekki kjarni stuðningsins af hálfu ESB. Norræn sjónarmið mega sín ef til vill ekki mikils í endurskoðun INTERREG áætlunarinnar en þó er nauðsynlegt að þeim sé komið á framfæri.

Nordregio hefur nú starfað í rúmt ár. Í samstarfsáætluninni þarf að leggja áherslu á eflingu hennar vegna þess að þar verður hægt að byggja upp kennslu og rannsóknir sem nýtast mun Norðurlandaþjóðunum öllum enda hafa þær ekki möguleika á að standa fyrir slíku sjálfar. Nánar er fjallað um Nordregio hér að neðan.

Samstarf og upplýsingamiðlun milli embættismanna í byggðamálum á Norðurlöndum gengur mjög greiðlega. Því verður væntanlega haldið áfram á sama grunni og verið hefur.

Verkefni ársins er að standa vel að því að gera og samþykkja samstarfsáætlunina.

2. Efling Nordregio

Komið hefur fram tillaga um að gera Nordregio að miðstöð þekkingar og þekkingarmiðlunar í umhverfismati á Norðurlöndunum. Ekki er mögulegt að stunda nauðsynlega fræðslu í þeim efnum einungis innanlands. Unnið verður að þessu verkefni á árinu 1999. Jafnframt þarf að tryggja að fræðsla á þessu sviði, svo og á sviði skipulags og byggðaþróunarmála fari ekki einungis fram í Stokkhólmi. Er bæði hægt að hugsa sér að námskeið verði haldin í hinum löndunum og að notast verði við netið og fjarkennslu. Á árinu 1999 þarf að kanna hvort grundvöllur er fyrir því að Nordregio tæki upp þekkingarmiðlun til þeirra sem starfa að staðbundinni atvinnuþróun.

3. Samvinna milli byggða og vinnumarkaðsmála

Undanfarin ár hefur staðið yfir samstarf milli embættismannanefndanna í byggðamálum og landbúnaðarmálum. Það hefur að mörgu leyti verið gagnlegt enda þótt það hafi meðal annars leitt í ljós erfiðleika í samstarfi milli tveggja ráðuneyta í sama landi. Af þessu samstarfi hefur fengist reynsla sem hægt er að læra af áður en farið yrði út í samstarf milli byggðaráðuneyta og ráðuneyta sem standa fyrir almennum vinnumarkaðsaðgerðum. Rétt er að hefja málið á því að gert yrði uppkast að mögulegum samstarfsverkefnum af ráðgjöfum Norrænu ráðherranefndarinnar á þessum sviðum og ræða tillögur á grundvelli skýrslu frá þeim. Markmiðið er að á árinu 1999 verði gerð samstarfsáætlun milli hinna norrænu embættismannanefnda á sviðum byggðamála og vinnumarkaðsaðgerða ef niðurstaða starfsins er að það sé gagnlegt.

4. Norrænt samstarf í ferðaþjónustu í strjálbýli

Eitt af samstarfsverkefnum landbúnaðar og byggðanefndanna hefur leitt til stofnunar tengslahóps um ferðaþjónustu. Áður hafa verið gerðar tilraunir til að auka samstarfið á þessu sviði. Ekki er undarlegt að í byggðamálunum sé mjög horft til möguleika ferðaþjónustunnar og þar er gagnlegt að miðla reynslu og upplýsingum. Á árinu 1999 verður ákveðið með hvaða hætti málefnum ferðaþjónustu í dreifbýli verður sinnt í norrænu samstarfi.

5. Upplýsingatækni og byggðaþróun

Árið 1997 fór, að frumkvæði norska formannsins, fram umræða um mikilvægi upplýsingatækni fyrir byggðaþróun og hvaða áhugaverð og mikilvæg sjónarmið gætu orðið uppi í hugsanlegri norrænni samvinnu á því sviði. Vorið 1999 mun NERP taka ákvörðun um áætlanir um sameiginlega þekkingaröflun á sviði upplýsingatækni og byggðaþróunar og jafnframt meta hvort ástæða sé til að taka slíkt með sem eitt af áhersluverkefnum í samstarfsáætlun í byggðamálum fyrir árin 20002004.

6. Menningarsamstarf á samstarfssvæðunum

Árið 1999 verður ýtt úr vör þriggja ára áætlun um eflingu menningarverkefna á samstarfssvæðunum. Markmiðið er að hvetja samstarfssvæðin til að þróa heilsteypta langtímasýn og ráðast síðan í verkefni sem gætu leitt til aukins menningarframboðs á svæðunum. Slíkt framboð gæti komið til viðbótar innanlandsaðgerðum og leitt í ljós að sameiginlegt átak fyrir allt samstarfssvæðið getur hvatt til nýrra og meira spennandi verkefna.

6. Efnahags- og fjármál

1. Almenn efnahagsmál

Almenn umræða og skoðanaskipti um stefnumörkun í efnahagsmálum er fyrirferðamikil í samstarfi efnahags- og fjármálaráðherra Norðurlanda. Ennfremur hafa ráðherrarnir reglubundið samráð á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, OECD og Eystrasaltsráðsins, ásamt Þýskalandi, Póllandi og Eystrasaltsríkjunum.

Áfram verður eitt veigamesta verkefnið á þessu sviði á komandi starfsári umfjöllun um stefnumörkun í ríkisfjármálum og peningamálum með það fyrir augum að treysta stöðugleika í efnahagsmálum, efla hagvöxt og stuðla að aukinni atvinnu.

Á árinu 1998 hefur verið unnið að umfangsmikilli athugun á áhrifum hagsveiflna á stöðu opinberra fjármála á öllum Norðurlöndunum. Þessari athugun verður fram haldið á næsta ári og áformað að ljúka henni þá með sérstakri skýrslu. Í tengslum við þetta verður efnt til alþjóðlegrar ráðstefnu um málið. Jafnframt verður fjallað um hugsanlegt framhald þessa málefnis.

Nú er unnið að sérstakri athugun á auknu samstarfi norrænna kauphalla og verðbréfaþinga þar sem meðal annars eru kannaðar leiðir til að samræma reglur á þessu sviði. Vaxandi alþjóðavæðing hefur leitt til aukinnar samkeppni og jafnframt knúið á um aukna samvinnu á þessum vettvangi. Ennfremur verða möguleikar á samvinnu milli Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á þessu sviði kannaðir.

Í mörgum löndum hefur tilhögun lífeyrismála verið til endurskoðunar, meðal annars í ljósi breyttrar aldurssamsetningar og áhrifa hennar á uppbyggingu velferðarkerfisins á næstu árum og áratugum. Norðurlöndin standa að mörgu leyti betur en aðrar þjóðir á þessu sviði. Að tillögu Íslands verða þessi mál tekin til sérstakrar skoðunar á árinu 1999.

2. Starfsemi og verksvið Norræna fjárfestingarbankans

Starfsemi Norræna fjárfestingarbankans hefur í vaxandi mæli verið til umræðu á vettvangi fjármálaráðherranna. Annars vegar í tengslum við sérstaka fjárfestingaráætlun fyrir Eystrasaltsríkin sem fjármálaráðherrarnir höfðu frumkvæði að á sínum tíma (sbr. lið 5). Hins vegar hefur verið vaxandi þörf fyrir lánsfé, ekki síst áhættufé, til ríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu sem hefur kallað á auknar ríkisábyrgðir og aukið hlutafé í bankanum. Með aukinni alþjóðavæðingu atvinnulífs á Norðurlöndunum og stuðningi eigenda hans hefur starfsemi bankans orðið alþjóðlegri. Lán og ábyrgðir eru nú ekki aðeins veittar til verkefna á Norðurlöndum heldur og utan þeirra. Þannig er hlutverk bankans nú að nýta traust lánshæfi á alþjóðamarkaði til að veita lán á almennum bankakjörum til fjárfestingarverkefna einkaaðila og opinberra aðila í þágu bæði Norðurlanda og þeirra ríkja utan Norðurlanda, sem fá lán eða ábyrgðir frá bankanum. Í ljósi aukinnar alþjóðlegrar starfsemi bankans og þeirrar auknu áhættu sem því fylgir er talið mikilvægt að treysta með formlegum hætti alþjóðlega stöðu bankans.

Fjármála- og efnahagsráðherrar Norðurlanda hafa nú samþykkt nýtt samkomulag um Norræna fjárfestingarbankann með þessi meginmarkmið að leiðarljósi og var það undirritað í Osló 23. október 1998 af fulltrúum stjórnvalda allra Norðurlandanna með fyrirvara um samþykkt viðkomandi þjóðþinga. Jafnframt hefur Forsætisnefnd Norðurlandaráðs fjallað um og samþykkt hið nýja samkomulag. Samkomulagið hefur verið lagt fyrir þjóðþing einstakra landa til afgreiðslu og er miðað við að það taki gildi í upphafi árs 1999.

3. Umhverfismál

Á vegum tveggja embættismannanefnda, þ.e. þeirra sem fjalla um efnahagsmál (EK-Finans) og umhverfismál (EK-Miljø), starfar sérstakur vinnuhópur um umhverfismál, einkum beitingu hagrænna aðgerða á því sviði. Fjármálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið eiga sinn hvorn fulltrúann í þessum hópi. Meginverkefni hópsins hefur verið gerð skýrslna um stöðu umhverfismála á Norðurlöndunum frá efnahagslegu sjónarmiði og er Ísland aðili að þessari skýrslugerð. Á vegum nefndarinnar hefur einnig verið efnt til ráðstefna og samráðs við Evrópusambandið á þessu sviði. Á árinu 1998 var meðal annars haldin ráðstefna í samráði við vinnuhóp um orku- og umhverfismál þar sem fjallað var um ákvæði Kyoto-bókunarinnar og viðskipti með losunarkvóta. Að tillögu Íslands mun þessi vinnuhópur á næsta ári taka til sérstakrar skoðunar ýmsa efnahags- og umhverfislega þætti sem tengjast nýtingu náttúruauðlinda.

4. Evrópumál

Í tengslum við almenna umræðu um efnahagsmál hafa málefni Evrópusambandsins mikið verið rædd á vettvangi efnahags- og fjármálaráðherranna. Sérstaklega hafa mál tengd stofnun Efnahags- og myntbandalagsins verið rædd, ekki einungis á milli norrænu ráðherranna heldur einnig á öðrum vettvangi svo sem OECD og á sameiginlegum fundum milli EFTA og Evrópusambandsins. Haustið 1998 var haldinn sameiginlegur fundur forsætis- og fjármálaráðherra Norðurlanda um málefni EMU. Jafnframt var ákveðið að ráðherrarnir myndu hittust reglulega til að ræða þessi mál og er áformað að næsti fundur verði haldinn á Íslandi í júní 1999.

5. Stuðningur við Eystrasaltsríkin og rússnesku nærhéruðin

Mikil áhersla hefur verið lögð á samskipti og stuðning Norðurlanda við Eystrasalts-ríkin, einkum í tengslum við hina sérstöku fjárfestingaráætlun (Det baltiske investeringsprogram, BIP) sem hrundið var í framkvæmd í mars 1992 og framlengd á árinu 1996 fram til ársins 2000. Með þessari áætlun hafa Norðurlöndin veitt umtalsverðum fjármunum, eða sem nemur um 1.500 milljónum íslenskra króna, til uppbyggingar efnahagslífs í Eystrasaltsríkjunum með milligöngu Norræna fjárfestingarbankans, Evrópubankans í London og Norræna verkefnaútflutnings-sjóðsins. Þessi áætlun hefur þegar skilað umtalsverðum árangri.

7. Orkumál

Inngangur

Samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði orkumála hefur öðlast aukið vægi á síðustu árum. Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hefur verið komið á markaðsbúskap í raforkumálum. Það hefur leitt til mikilla breytinga í viðskiptum með raforku á Norðurlöndum. Frá árinu 1993 hafa verkefni er lúta að loftslagsbreytingum (,,gróðurhúsavandanum") haft nokkurn forgang í samstarfinu og unnið hefur verið að fjölmörgum athugunum og verkefnum. Þessi vinna hefur verið þýðingarmikil bæði fyrir starfið á þessu sviði í löndunum sem og fyrir hinar alþjóðlegu samningaviðræður í tengslum við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Norræna orkurannsóknaráætlunin hefur mikla þýðingu við eflingu samstarfs háskóla og rannsóknastofnana á Norðurlöndunum og við að miðla niðurstöðum rannsókna. Áætlunin er fjármögnuð með framlagi beint frá löndunum. Mikil áhersla hefur verið lögð á samstarf við Eystrasaltsríkin (Eistland, Lettland og Litháen) og önnur ríki við Eystrasalt. Samstarfið fékk aukið vægi með yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlanda í Bergen árið 1997. Í yfirlýsingunni fólu forsætisráðherrarnir orkuráðherrum Norðurlanda að meta tilteknar leiðir til að stuðla að sjálfbærri þróun í orkuöflun við Eystrasalt. Miklar breytingar eiga sér stað á orkusviðinu á alþjóðavettvangi, ekki síst innan ESB. Ráðherraráð Evrópu og Evrópuþingið hafa samþykkt tilskipanir um innri markað á sviði raforku og jarðgass. Norrænt samstarf á orkusviðinu byggist á greinargerð sem Norræna ráðherranefndin lagði fyrir Norðurlandaráð í nóvember árið 1996, yfirlýsingu forsætisráðherranna í Bergen sumarið 1997 um sjálfbæra þróun í orkuöflun við Eystrasalt og úrvinnslu úr tilmælum Norðurlandaráðs.

Markmið

Markmiðið með samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði orkumála er að stuðla að sjálfbærri, skilvirkri, samkeppnishæfri og öruggri orkuöflun á Norðurlöndunum og grannsvæðunum. Nýta ber orkulindir og orku með skilvirkum hætti til að efla atvinnulíf og styrkja efnahag án þess að ganga á hið náttúrulega umhverfi. Áherslur í samstarfinu og þau verkefni sem unnið er að eiga að hafa pólitíska þýðingu fyrir Norðurlöndin.

Rammaáætlun fyrir norrænt samstarf á sviði orkumála

Um áramótin 1998/1999 er gert ráð fyrir að samþykkt verði rammaáætlun fyrir orkusamstarf á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Áætlunin mun meðal annars byggja á þeim verkefnum sem unnið hefur verið að, sérstaklega forgangsröðun í formennskuáætlun Svía en með þeim hætti verður stuðlað að samfellu í samstarfinu. Í áætluninni er lýsing á samstarfinu, einkum þeim sviðum þar sem gert er ráð fyrir að efla það.

Gert er ráð fyrir að vægi norrænu stoðarinnar verði aukið. Mikilvægustu verkefnin verða á sviði orkumarkaðar, loftslagsbreytinga, upplýsingamála og orkurannsókna. Í áætluninni verður lögð aukin áhersla á samstarf við aðra málaflokka, einkum umhverfis-, flutninga- og fjármálasvið.

Samstarfið hvað varðar grannsvæðin í austri mun grundvallast á því starfi sem unnið hefur verið í samræmi við Bergenyfirlýsinguna og niðurstöðum fundar norrænu orkuráðherranna og starfsbræðra þeirra handan Eystrasaltsins, sem haldinn var í Stafangri 1. desember 1998.

Samvinna Norðurlandanna um alþjóðlegt samstarf á sviði orkumála mun einkum beinast að framkvæmd tilskipana ESB um innri markað á sviði raforku og innri markað á sviði jarðgass. Mikilvægt er meðal annars að fjalla um hvernig unnt verður að veita svokölluðu ,,grænu rafmagni" forgang á markaðinum, þ.e.a.s. rafmagni sem unnið er með endurnýjanlegum orkulindum.

Norrænt orkusamstarf undir íslenskri formennsku

Hér á eftir verður í stuttu máli gerð grein fyrir nýjum verkefnum sem Íslendingar ætla að leggja mesta áherslu á á formennskuári. Áherslur hvað varðar grannsvæðin verða í samræmi við niðurstöðu Stafangursfundarins.

Í fyrsta lagi er lögð áhersla að löndin skiptist á upplýsingum og gögnum um orkumál og að efla miðlun upplýsinga um orkusamstarfið og orkusviðið. Íslendingar munu leggja til að settur verði á fót starfshópur, þar sem löndin skiptist á upplýsingaefni um orkusviðið jafnframt því sem hópurinn geri tillögu um starfsáætlun á upplýsingasviðinu. Sérstaklega verði hópnum falið:

a) Að gera tillögu að heimasíðu á Veraldarvefnum um samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði orkumála.

b) Að meta þörf fyrir upplýsinga- og kynningarefni fyrir skóla, ungt fólk, fjölmiðla o.fl. Efnið á að lýsa samstarfinu; stefnu einstakra landa í orkumálum; skipulagi orkumála; orkulindum Norðurlandanna og hagnýtingu þeirra; orkumarkaðinum; orkunotkun og hagkvæmri orkunýtingu; samhengi orku, efnahags, atvinnu og umhverfis; tengingu orku og loftslagsbreytinga sem og orkurannsóknum. Hópnum ber auk þess að fjalla um að hve miklu leyti áhugi kunni að vera á efninu utan Norðurlandanna.

Stefnt er að því að fjalla um niðurstöður og tillögur hópsins á fundi orkuráðherranna á Íslandi í ágúst 1999.

Í öðru lagi verður lögð áhersla á að koma á fót samstarfi milli orkusviðsins og annarra málaflokka, einkum flutningasviðsins. Þróun á samgöngu- og flutningasviðinu mun hafa mikla þýðingu fyrir loftslagsmálin. Því er mikilvægt að fara skipulega yfir þær leiðir sem færar eru til að draga úr olíunotkun í samgöngum og flutningum í bráð og lengd. Meðal áhugaverðra verkefna til skemmri tíma er gerð yfirlits yfir mögulegar aðgerðir til að spara olíu, að hrinda slíkum aðgerðum í framkvæmd og að miðla upplýsingum um það efni til íbúa landanna. Þegar litið er til lengri tíma er mikilvægt að kanna hvaða annað eldsneyti getur komið í stað olíu, sem og nýjungar í þróun farartækja (bílar, skip, flugvélar og járnbrautir), með það að markmiði að draga úr orkunotkun.

Í þriðja lagi eru áform um að styrkja samvinnuna við heimastjórnarsvæðin, einkum Færeyinga og Grænlendinga. Á síðustu árum hefur samvinnan á orkusviðinu einkennst af mörgum verkefnum er lúta að endurskipulagingu raforkukerfa í löndunum og grannsvæðunum. Mestur áhugi á þessum verkefnum hefur verið í Skandinavíu og Finnlandi. Með vísan til þessa er mikilvægt að hefja eitt eða fleiri verkefni þar sem Færeyjar, Grænland og Ísland koma til að hafa veigamikið hlutverk. Til skoðunar er hugmynd sem lýtur að því að meta með hvaða hætti nýta má orkulindir þessara landa með sjálfbærum hætti, einnig m.t.t evrópska orkumarkaðsins.

Í fjórða lagi er unnið að undirbúningi norrænnar námstefnu um ALTENER áætlun ESB. Öll Norðurlöndin taka þátt í og leggja fé til áætlunarinnar. Á námstefnuni munu löndin m.a. skiptast á upplýsingum um reynsluna af ALTENER I áætluninni sem lokið er. Jafnframt munu þau skilgreina hvaða árangurs þau vænta af ALTENER II, fjalla um á hvaða sviðum áhugamál landanna fara saman svo og um samstarf þeirra í milli.

8. Landbúnaður og skógrækt

Á formennskuári Íslands verður lögð áhersla á að efla norræna samvinnu innan ramma samstarfsáætlunarinnar á sviði landbúnaðar og skógræktar og halda áfram þeim verkefnum sem unnið er að innan ramma áætlunarinnar.

Við munum leggja áherslu á að efla samvinnu landa í vesturhluta Norðurlanda og auka þátttöku Færeyja og Grænlands. Auk þess er áhugi Íslands á því að kynna gagn og virkni norrænar samvinnu fyrir öðrum nágrannalöndum í vestri, sem eiga sameiginlegar rætur og menningu með Norðurlöndunum. Hér er átt við Skotland og eyjarnar, einkum Orkneyjar, Írland, og jafnvel austurfylki Kanada, s.s. Nova Scotia, Prince Edward Island og Nýfundnaland. Við ætlum að hefja undirbúning að ráðstefnu, að líkindum árið 2000, með þátttöku ofangreindra þjóða og Norðurlandanna og jafnframt kanna hvort um sé að ræða sameiginleg áhugamál milli þessara aðila sem væri vert að hefja samstarf um.

Ísland telur að finna þurfi framtíðarlausn fyrir aðbúnað og rekstur Norræna genbankans. Ísland telur bankann vera flaggskip norrænnar samvinnu í landbúnaðarmálum en hann er í reynd orðinn að fyrirmynd fyrir genbanka víða um heim. Húsnæðismál bankans þurfa sérstakrar athugunar við með lausn til framtíðar sem markmið. Á sama hátt þarf að komast að niðurstöðu um framtíð Húsdýragenbankans.

Á norðurslóðum, þar sem land er viðkvæmt, og víða hjá öðrum löndum er lögð vaxandi áhersla á varðveislu og endurheimt landgæða, en landbúnaður byggir í grundvallaratriðum á hæfilegri landnýtingu þar sem ekki er gengið á auðlindina sem slíka og landinu skilað jafn hæfu til framleiðslu frá einni kynslóð til annarrar. Hér er um ung vísindi að ræða, sem hafa aflað sér sér viðurkenningar á síðustu árum. Á formennskuári Íslands verður lögð sérstök áhersla á að vitneskja sem þegar er orðin til á þessu sviði verði nýtt. Í því sambandi verði einnig horft til þróunarlanda þar sem vankunnátta í meðferð landgæða mun leiða til skertrar framleiðslugetu.

Önnur þýðingarmikil svið sem við munum leggja áherslu á innan samvinnu Norðurlanda er frekari þróun í átt að sjálfbærum landbúnaði og skógrækt og að stuðla að aukinni hollustu og hreinleika matvara, t.d. með því að forðast eða draga úr notkun vaxtaraukandi efna, fúkkalyfja og hormóna í landbúnaði jafnt innan Norðurlandanna sem á alþjóðlegum vettvangi. Sem fyrr munum við leita eftir samstarfi við EK-Livs og EK-Miljø um þessi verkefni.

Sem sérlega áhugavert verkefni má nefna rannsóknir á mengun af þungmálmum í matvælum og leiðir til að draga úr mengun, s.s. notkun hagrænna stjórntækja til að hafa áhrif á þróun framleiðsluhátta í landbúnaði og skógrækt ásamt samstöðu um verkefni á sviði dýraverndar og dýrasiðfræði. Markmið norræns samstarfs á þessum vettvangi, auk innra gildi þess, er einnig að hafa áhrif á alþjóðlega þróun þessara mála.

Norðurlöndin hafa gert áætlun um hvernig eigi að fylgja eftir samþykktum FAO fundar þjóðarleiðtoga um matvælaöryggi sem haldinn var í Róm 1996. Ísland hyggst halda því verki áfram eins og áætlað var, en í áætluninni var einmitt lögð áhersla á hollustu og hreinleika matvæla og að takmarka notkun vaxtaraukandi efna.

Ísland hefur ásamt Noregi hvatt til þess að auka umræðu á samnorrænum vettvangi um málefni EU/EES og lagt áherslu á regluleg skipti á upplýsingum. Einnig leggjum við áherslu á aukið samráð á norrænum vettvangi um málefni sem verða á dagskrá hjá WTO.

Þó skógrækt hafi ekki sömu fjárhagsþýðingu hérlendis og í Skandinavíu metum við mikils samstarf á þeim vettvangi jafnt með tilliti til framleiðslu sem vegna umhverfisáhrifa og munum því leggja áherslu á samvinnu innan SNS.

Innan ESB hefur fengist góð reynsla af að efla samskipti ungs sveitafólks milli landa. Ísland mun á formennskuárinu kanna möguleika á að koma á skipulögðum skiptum æskufólks úr sveit milli hinna norrænu landa. Tilgangur þess er að auka þekkingu æskufólks hverrar þjóðar á lífskjörum og starfsháttum hinna þjóðanna auk þess að efla kynni meðal æskufólks úr sveit á Norðurlöndum.

9. Sjávarútvegsmál

Formennskuáætlun Íslands fyrir sjávarútvegssviðið á árinu 1999 byggir á grunni fjögurra ára samstarfsáætlunar sem gildir árin 1997--2000. Samkvæmt henni er höfuðmarkmið að efla sjávarútveg, sem mikilvægan þátt þjóðlífs í löndunum.

Þróun á alþjóðavettvangi hefur æ meiri áhrif á forsendur og umhverfi þeirra sem nýta lifandi auðlindir sjávar. Miklu skiptir að skilningur sé á því innan norræns sjávarútvegs að aðilar hans þurfa sjálfir að bregðast við þeim kröfum sem þar verða til.

Á formennskuári Íslendinga verður lögð áhersla á að miðla upplýsingum á Norðurlöndum um kröfurnar sem að sjávarútveginum beinast, en jafnframt að auka upplýsingamiðlun út á við um það hvernig sjávarútvegur er rekinn á Norðurlöndum.

Í framhaldi af ári hafsins verður aukin umræða um ábyrga auðlindanýtingu. Norræn sjónarmið um m.a. fiskveiðistjórnun, sjálfbærni og umhverfismál þurfa að vera sýnilegri og heyrast betur en verið hefur, fyrir þá sem áhuga hafa. Það markmið er sett að samræma, þar sem við á, afstöðu norrænu ríkjanna og reyna að ná samstöðu um að koma norrænum sjónarmiðum á framfæri bæði í svæðasamstarfi og alþjóðlegu samstarfi.

Margs konar norrænt frumkvæði hefur verið tekið í ljósi umræðu um umhverfismerkingar sjávarafurða með sjálfbærni að leiðarljósi. Meðal þeirra er að greina hvaða kröfur verða gerðar til sjávarútvegsins í framtíðinni, upplýsingaveita til að upplýsa almenning um norrænan sjávarútveg, beiðni til Alþjóðahafrannnsóknaráðsins (ICES) um að það geri skýrslu um sjálfbærni veiða í Norðurhöfum, erindi til sjávarútvegsdeildar Evrópusambandsins um þessi mál auk þess sem efnt var til tæknifundar Alþjóða matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um alþjóðleg viðmið fyrir sjálfbærnimerki á sjávarafurðir.

Þessu starfi verður haldið áfram og það styrkt í formennskutíð Íslendinga.

Meðal nýrra verkefna á árinu er að beina upplýsingaherferðinni að fiskkaupendum í markaðslöndum, stjórnmálamönnum, fjölmiðlum, áhugafélögum og ungu fólki. Þá þarf að afmarka með ICES, umfang skýrslunnar um sjálfbærar veiðar í norðurhöfum og frekari notkun þeirra upplýsinga sem þar koma fram. Íslendingar munu beita sér fyrir því að norrænu Evrópusambandsríkin haldi áfram innan ESB að koma á framfæri norrænum sjónarmiðum í málum sem varða þau öll og koma, ef hægt er, þannig t.d. að endurskoðun sjávarútvegsstefnu bandalagsins. Íslendingar munu beita sér fyrir því á formennskuárinu að fylgja eftir innan FAO norrænum sjónarmiðum sem fram komu á tæknifundi FAO um umhverfismerkingar haustið 1998.

Norrænt sjávarútvegssamstarf er lifandi og hefur m.a. sýnt að hlustað er á norrænu ríkin þegar rætt er um sjávarútveg. En einnig hefur komið í ljós að nauðsynlegt er að styrkja innri umræðu og þekkingu í greininni um svæðisbundið og alþjóðlegt samstarf og hvaða þýðingu þær ákvarðanir sem þar eru teknar geta haft á greinina í heild. Undir íslenskri stjórn verður lögð áhersla á það hlutverk sem sjávarútvegssamstarfið hefur við að miðla upplýsingum jafnt til sem frá greininni.

Þá verður haft frumkvæði að því að safna saman frekari upplýsingum úr alþjóðlegu ríkja- og félagasamstarfi þar sem Norðurlöndin eru ýmist fáliðuð eða taka ekki þátt. Markmiðið er að auka þekkingu á alþjóðlegum ferlum sem í gangi eru áður en að ákvörðunum er komið, ferlum sem gætu breytt þeim ramma sem norrænn sjávarútvegur býr við. Þekking sem þannig verður til er þarft innlegg í norræna umræðu innan málaflokksins og getur orðið til að sameiginlegum norrænum sjónarmiðum verði haldið fram á viðeigandi stað og tíma.

Vestnorrænu ríkin framleiða sjávarafurðir og selja stærstan hluta þeirra til Evrópusambandslandanna m.a. til norrænu ríkjanna innan sambandsins. Ísland mun á formennskuári styðjast við þá skilgreiningu á grannsvæðum sem sett er fram í gildandi samvinnuáætlun sviðsins en þar segir að grannsvæði Norðurlanda á sjávarútvegssviðinu taki til svæða þar sem eftirsóknarvert er að vinna saman. Í samræmi við þetta er Barentshafssvæðið, heimskauta- og Norður-Atlantshafssvæðið sérstaklega áhugavert í sjávarútvegssamstarfinu.

Meðal þeirra nýju krafna sem beint er að norrænum sjávarútvegi er að flétta inn í allan rekstur hans umhverfisverndarsjónarmiðum. Á árinu 1999 tekur gildi ný norræn umhverfis- og sjávarútvegsáætlun sem gildir til ársins 2002. Innan norræna sjávarútvegssamstarfsins er þetta þverfaglega samstarf talið til góðs og aðilar þess vilja leggja sitt af mörkum til að leysa verkefni sem liggja á mörkum umhverfis- og sjávarútvegsmála. Nauðsynlegt er að blása nýju lífi í samvinnu umhverfis og sjávarútvegsráðuneyta er varðar alþjóðasamstarf á þessu sviði.

Auk þess er vilji til þess innan sjávarútvegssamstarfsins að hvetja þá sem ábyrgð bera á öðrum sviðum að tryggja, eins og mögulegt er, heilbrigði sjávar sem er forsenda fyrir því fjölbreytilega lífi sem þar er að finna. Meðal þess er rétt væri að beina athygli að á næsta ári er:

  • Að auka starf við að takmarka mengun hafsins.
  • Að beita sér fyrir snörum alþjóðlegum viðbrögðum til að takmarka hættu af mengun vegna lestarvatns í skipum. Það er oft flutt um langan veg og getur borið lífverur sem eru skaðlegar á nýjum stað.
  • Að auka skilning á áhrifum hafsins á veðurfar.

Sjávarútvegsrannsóknir hafa fram til þessa verið stærstur hluti norræna sjávarútvegssamstarfsins. Aukin verkefni er varða stefnumótun (pólitískari verkefni) hafa orðið til þess að hlutur rannsókna hefur minnkað. Þrátt fyrir það eru rannsóknir ofarlega á forgangslista enda stuðla þær að frekari þróun og eru nauðsynlegur grundvöllur umræðu dagsins t.d. um sjálfbærni. Nauðsynlegt er að forgangsraða af festu rannsóknum sem styrktar eru.

Á formennskuári Íslendinga viljum við setja fé í rannsóknir og þróun veiðarfæra með sérstakri áherslu á kjörhæfi þeirra og hvaða áhrif þau hafa á umhverfið. Ennfremur er lögð áhersla á gæði sjávarafurða. Líta þarf bæði til krafna stjórnvalda í viðskiptalöndunum um öryggi og heilnæmi afurðanna en einnig viðbótarkrafna viðskiptavina og neytenda. Íslendingar vilja einnig styrkja rannsóknir, þróun og kennslu um öryggi, vinnuumhverfi og heilbrigði sjómanna.

Gildandi samstarfsáætlun norrænu ríkjanna á sjávarútvegssviðinu verður endurskoðuð árið 2000. Í ljósi þessarar áætlunar og þeirra breytinga sem átt hafa sér stað innan samstarfsins á undanförnum árum þykir Íslendingum rétt að umræða um skipulag þess hefjist þegar á árinu 1999.

Mikilvægir viðburðir er varða sjávarútvegssamstarfið á árinu 1999 eru:

  • CSD, nefnd Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, heldur fund í New York í apríl þar sem hafið er á dagskrá. CSD er sú stofnun Sameinuðu þjóðanna sem á að fylgja eftir Ríoráðstefnunni og framkvæmdaáætlunarinnar Agenda 21 sem samþykkt var í kjölfar hennar. Í tengslum við fundinn er áhugi á því í norrænu samstarfi að ljósi verði varpað á norræna umhverfishugsun, norræna fiskveiðistjórnun og samvinnu.
  • FAO-COFI. Fundur er í sjávarútvegsnefnd Matvæla og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í febrúar. Á fundinum er þess vænst að rætt verði um alþjóðlegan ramma um umhverfismerkingar sjávarafurða í framhaldi af tæknifundi um sama mál sem haldinn var í FAO að norrænu frumkvæði haustið 1998.
  • FAO ráðherrafundur. FAO hefur boðað sjávarútvegsráðherra heimsins á fund í byrjun mars. Þar er búist við að merkjamál verði einnig til umræðu.
  • ICES, Alþjóða hafrannsóknaráðið, hefur verið beðið um að vinna skýrslu um nýtingu fiskistofna í Norðurhöfum þar sem sagt er til um hvort þeir hafi á næstliðnu ári verið nýttir á sjálfbæran hátt. ICES hefur orðið við þessari beiðni og verður fyrsta skýrslan birt árið 1999. Á norrænum vettvangi verður það rætt á árinu hvernig þessar upplýsingar verða settar fram og notaðar við að koma á sjálfbærum veiðum.
  • Norræna Sjávarútvegsráðstefnan verður haldinn í 25. sinn. Til hennar var fyrst efnt 1949 og hefur hún verið haldin reglulega síðan. Ráðstefnan verður á Íslandi 16. og 17. ágúst. Yfirskrift hennar er: ,,Hvernig á að nýta lifandi auðlindir sjávar?"

10. Samgöngumál

Í lok júlí 1998 var lögð fyrir Norðurlandaráð greinargerð samgönguráðherra Norðurlandanna um stöðu og þróun norræns samstarfs á sviði samgöngumála. Greinargerðin var unnin af norrænu embættismannanefndinni um samgöngumál (NET) og staðfest af ráðherrum eða fulltrúum þeirra í júní.

Þær breytingar sem orðið hafa á sviði samgöngumála á Norðurlöndunum og á Eystrasaltssvæðinu, ásamt þeim breytingum sem gengið hafa yfir Evrópu á síðustu árum, hafa leitt til breytinga á samstarfi landanna. Þetta á fyrst og fremst við um afstöðu landanna til ESB, til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í upplýsingatækni, til aukinna krafna um bætt umferðaröryggi og til umhverfismála.

Markmið þessa samstarfs er að búa þannig um hnútana að samgöngur á Norðurlöndum og milli þeirra, svo og við næsta umhverfi, séu greiðar, öruggar og að mengun frá þeim sé í lágmarki.

Samstarfið í framtíðinni

Það er sameiginlegt álit samgönguráðherra Norðurlandanna að áhugi sé fyrir og þörf á að viðhalda norrænu samstarfi á sviði samgöngu- og umferðarmála. Þetta samstarf getur átt sér stað annað hvort innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar eða milli einstakra landa.

Samgöngumál snerta alla þætti þjóðlífsins og ekki er óeðlilegt að þau séu vistuð á einum stað þótt þau gangi þvert á verkefni annarra ráðuneyta. Þetta á einkum við um umhverfismál samgangna og umferðar, svo og upplýsingatækni í samgöngum.

Samstarfið á næstu árum greinist í þrennt. Í fyrsta lagi samnorræn verkefni og hefur á því sviði að undanförnu verið lögð áhersla á upplýsingatækni í samgöngu- og umferðarmálum. Á árinu 1998 hefur sérstök nefnd á vegum NET unnið að úttekt á þessum málum á Norðurlöndum og er að vænta skýrslu frá henni í lok þessa árs. Í framhaldi af henni er stefnt að frekari vinnu á þessu sviði sem gæti leitt til niðurstöðu og lausna sem gagnast gætu fleirum en hinum norrænu löndum. Markmiðið með þessu starfi er að leita að lausnum sem bætt gætu öryggi umferðar og minnkað mengun, væntanlega með því að draga úr umferð, og aukið afköst hennar og hagkvæmni.

Í öðru lagi mun kastljósinu verða beint að Evrópumálum. Þar er fyrst að nefna TEN-verkefnið eða þann þátt þess sem nær yfir nyrstu héruð Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Lögð verður áhersla á umhverfismál og hugað að mengun frá hinum ýmsu samgöngutækjum, aðgengi og nýtingu annarra brennsluefna en nú eru notuð og samstarfi við ríki sem liggja að Norðurlöndunum um að draga úr mengun samgöngutækja. Sérstakur starfshópur á vegum samgönguráðherranna vinnur að greinargerð um stærð og mikilvægi samgöngugeirans á Norðurlöndum út frá evrópskum sjónarhóli til undirbúnings formennsku Finna í ESB á næsta ári. Þar verða dregnar fram þær sérstöku aðstæður sem samgöngur Norðurlandanna búa við og ekki finnast í öðrum Evrópuríkjum. Einnig er þar gerð grein fyrir samgöngum við þau lönd sem liggja að norrænu ríkjunum, eins og við Eystrasaltsríkin og Rússland. Samgönguráðherrarnir munu halda áfram umræðu um mál er snerta ESB og EES og um framkvæmd og fullgildingu tilskipana ESB á Norðurlöndum.

Í þriðja lagi munu samgönguráðherrarnir leggja áherslu á að ræða samgöngur við nágrannaríkin, einkum við Rússland og Eystrasaltsríkin. Milli þessara svæða og norrænu landanna er vaxandi bílaumferð og er meðalaldur bifreiða í þessum löndum mjög hár og ástand þeirra lélegt. Litið er á það sem sérstakt áhersluverkefni að vinna að bættu öryggi umferðar á milli þessara landa, að draga úr mengun og að gera umferðina ábatasamari en nú er. Samgönguráðherrarnir munu hafa það sem forgangsverkefni að taka upp samstarf við samgönguyfirvöld í Rússlandi og í Eystrasaltsríkjunum til að ná ofangreindum markmiðum í samgöngum milli landanna.

Áhersluatriði Íslands á árinu 1999

Á formennskuári sínu mun Ísland fylgja eftir þeim samþykktu áformum um samstarfið í framtíðinni sem um er fjallað í greinargerð samgönguráðherranna hér að framan.

Auk þess mun samgönguráðuneytið á árinu beita sér fyrir nokkrum málum sem sérstaka þýðingu hafa fyrir íbúa Vestur-Norðurlanda. Þar eru efst á blaði aðgerðir til þess að bæta samgöngur á svæðinu, þ.e. á milli Íslands og Grænlands annars vegar og milli Íslands og Færeyja hins vegar og þá einkum aðgerðir er varða bættar flugsamgöngur. Einnig er áhugi fyrir því að taka fyrir umhverfismál í samgöngugeiranum með hliðsjón af Kyoto-samningnum og upplýsingatæknimál samgöngukerfisins.

Áhersla verður á það lögð að á sumarfundi norrænu embættismannanefndarinnar og hugsanlega ráðherrafundi, sem stefnt er að að halda á Íslandi, verði aðalfundarefnið samgöngumál þessa svæðis.

11. Heilbrigðis- og félagsmál

Inngangur

Til grundvallar norrænu samstarfi á sviði heilbrigðis- og félagsmála liggur samstarfsáætlun sem samþykkt var í lok ársins 1994 og nær hún til tímabilsins 1995-2000.

Eins og á öðrum sviðum hins opinbera samstarfs landanna hvílir samvinnan í heilbrigðis- og félagsmálum á þrem meginstoðum:

  • Samstarfi innan Norðurlanda.
  • Samstarfi við ESB/EES.
  • Samstarfi við grannsvæði Norðurlanda (þar með talin lönd við Norðurheimskautið).

Í gildandi samstarfsáætlun eru skilgreind þrjú helstu markmið samstarfsins og gerð grein fyrir þeim aðgerðum sem ætlað er að beita til að tryggja framkvæmd áætlunarinnar. Heilbrigðis- og félagsmálaráðherrarnir leggja áherslu á eftirfarandi:

  1. Að styrkja stoðir félags- og heilbrigðisgeirans í norrænum velferðarmálum.
  2. Að vinna að því að grundvallaratriðum í hinu norræna velferðarlíkani verði haldið á lofti í alþjóðasamstarfi - ekki síst í því evrópska.
  3. Að tryggja áhrifamátt og árangur samstarfsins með skipulegri upplýsingastarfsemi.

Í formennskutíð sinni ætlar Ísland að beita sér fyrir því að hafin verði endurskoðun á samstarfsáætlun landanna. Hugmyndin er sú að ný samstarfsáætlun taki einkum mið af nýjum áherslum í alþjóðasamstarfi og sameiginlegum þróunarverkefnum á sviði heilbrigðis- og félagsmála í aðildarlöndunum.

Forgangsverkefni árið 1999

1. Aukin gæði og árangur heilbrigðisþjónustu

Ísland leggur mikla áherslu á að starfsemi heilbrigðisþjónustunnar byggi á vísindalegum grundvelli og aðgerðum sem skilað hafa árangri. Í því skyni er ætlunin að styðja við starfsemi sem snýr að mati á árangri og hagkvæmni læknisaðgerða og annarra meðferðarúrræða heilbrigðisþjónustunnar. Sömuleiðis er mikilvægt að stuðlað verði að auknum gæðum heilbrigðisþjónustu með þróun klínískra leiðbeininga og kjörmeðferðar við sjúkdómum og öðrum heilsufarsvandamálum.

Heilbrigðisþjónustan og flest önnur svið þjóðfélagsins einkennast af gífurlegu flæði upplýsinga sem mörgum reynist erfitt að átta sig á hvort séu byggðar á nægjanlega traustum grunni. Þetta á jafnt við um heilbrigðisstarfsmenn, neytendur, vísindamenn eða stjórnmálamenn. Það er einfaldlega mjög örðugt að vinna á árangursríkan hátt úr sívaxandi straumi upplýsinga um heilbrigðismál og önnur málefni. Til þess að mæta þessum vanda innan heilbrigðisþjónustunnar lagði breski faraldsfræðingurinn Archie Cochrane til, árið 1972, að unnin væru skipuleg gagnrýnin yfirlit um árangur heilbrigðisþjónustu, eftir sérgreinum eða undirgreinum, sem byggðu á tvíblindum slembiúrtökum eða -rannsóknum (RCT, randomized controlled trials).

Sérstök rannsóknarmiðstöð, sem kennd er við Archie Cochrane, með greinar um öll Norðurlönd, hefur verið starfrækt undanfarin ár og eru aðalstöðvar hennar í Kaupmannahöfn. Tilgangur starfseminnar er að vinna skipuleg yfirlit yfir árangur meðferðar á ýmsum sviðum læknisfræðinnar. Norrænu Cochrane miðstöðvarnar gegna mikilvægu hlutverki við þróun árangursríkrar læknisfræði (evidence based medicine) á Norðurlöndum.

Í formennskutíð Íslands verður lögð áhersla á verkefni er miða að auknum gæðum heilbrigðisþjónustu og að tryggja grunnfjárveitingar til starfsemi Cochrane miðstöðva, auk þess sem stuðla verður að aukinni alþjóðasamvinnu þessara miðstöðva og námskeiðhaldi á vegnum þeirra eða í tengslum við þær.

2. Réttindi sjúklinga

Mikilvægt er að réttarstaða sjúklings gagnvart heilbrigðisþjónustunni sé tryggð og að heilbrigðisstarfsmenn haldi trúnað við sjúklinga. Starfi heilbrigðisstarfsmanna fylgir ábyrgð gagnvart einstaklingum og samfélagi og þeir geta því aðeins vænst trausts að þeir uppfylli þær siðfræðilegu kröfur sem gerðar eru til þeirra á hverjum tíma. Samtímis er brýnt að siðareglum sé komið á framfæri við starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar svo tryggt sé að þeim sé kunnugt um ábyrgð og skyldur sem á þeim hvíla.

Aukinni áherslu á mannréttindi sjúklinga fylgir að virða ber sjálfsákvörðunarrétt þeirra. Í því felst að sjúklingurinn eigi, eins og frekast er unnt, að fá að ráða því hvernig heilbrigðisþjónustu hann þiggur. Læknar geta ekki lengur tekið ákvarðanir fyrir sjúkling án samráðs við hann. Þessi viðhorfsbreyting kallar á breytt og betri samskipti heilbrigðisstarfsmanns og sjúklings.

Í framhaldi af Amsterdam yfirlýsingunni um réttindi sjúklinga árið 1994 hafa flest Norðurlöndin sett sér löggjöf um réttindi sjúklinga. Í löggjöf Norðurlanda er rík áhersla lögð á að tryggja einstaklingsbundin réttindi sem eiga við um alla menn jafnt, óháð lögum og án skilyrða. Þessi einstaklingsbundnu réttindi miða að því að vernda frelsi einstaklingsins og fela í sér ákvæði um að yfirvöld gangi ekki á mannhelgi hans.

Í ljósi mikilla samskipta Norðurlanda og vaxandi alþjóðlegs samstarfs á sviði heilbrigðisþjónustu er mikilvægt að stuðlað sé að ákveðinni samhæfingu í gerð og framkvæmd löggjafar sem varðar réttindi sjúklinga. Enn fremur er brýnt að samræmi sé í túlkun og framkvæmd alþjóðlegra sáttmála og samninga er snerta réttindi sjúklinga.

Ísland leggur áherslu á að í tengslum við árlegan fund heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Norðurlanda árið 1999 verði efnt til sérstaks málþings um réttindi sjúklinga. Enn fremur verði stuðlað að auknu samstarfi embættismanna og sérfræðinga á þessu sviði.

3. Heilsufar kvenna

Heilsufar kvenna hefur verið til umræðu á alþjóðlegum vettvangi á undanförnum árum. Alþjóðaheilbrigðisþingið samþykkti árið 1992 ályktun um málið og Alþjóða-heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur staðið fyrir ráðstefnum um málið. Stofnunin er þeirrar skoðunar að konur hljóti að gegna veigamiklu hlutverki við stefnumótun í heilbrigðismálum og uppbyggingu heilbrigðisþjónustu.

Athuganir benda til þess að í heilsufarslegu tilliti sé staða kvenna víða mun lakari en karla. Skortur er einnig á kynbundnum gögnum um heilsufar og upplýsingum um afleiðingar sjúkdóma fyrir konur. Til þess að bæta úr ástandinu hefur víða verið efnt til rannsókna á heilsufari kvenna og jafnvel sums staðar verið komið á fót sérstökum rannsóknarstofnunum á þessu sviði.

Konur leita meira til heilbrigðisþjónustunnar en karlar. Hluti af þessum mun tengist vandamálum varðandi getnaðarvarnir og barneignir. Konur ganga undir fleiri rannsóknir en karlar, konum er ávísað meiri lyfjum en körlum og konur sækjast meira eftir óhefðbundnum lækningum en karlar.

Helstu dánarorsakir kvenna eru hjarta- og æðasjúkdómar og illkynja æxli. Dánartíðni vegna blóðþurrðarsjúkdóma hefur minnkað hjá báðum kynjum á undanförnum árum. Aftur á móti hefur dauðsföllum vegna illkynja æxla fjölgað hlutfallslega meðal kvenna, þar vega dauðsföll vegna lungnakrabbameins og brjóstakrabbameins þyngst. Dánartíðni vegna lungnakrabbameins meðal kvenna á Norðurlöndum er með því hæsta sem þekkist í Evrópu.

Í formennskutíð Íslands verður lögð áhersla á frekari stuðning við athuganir á heilsufari kvenna á Norðurlöndum. Sömuleiðis telur Ísland mikilvægt að löndin nýti betur niðurstöður rannsókna á sviði forvarna, heilsuverndar og meðferðar helstu heilbrigðisvandamála kvenna á Norðurlöndum.

4. Bætt umhverfi fjölskyldunnar

Á Íslandi hefur á undanförnum árum verið unnið að mótun opinberrar fjölskyldustefnu. Meginforsendur hennar eru að fjölskyldan sé hornsteinn samfélagsins og ríkisstjórnum og sveitarfélögum beri á hverjum tíma að marka sér opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar í því skyni að styrkja hana og vernda. Fíkniefnaneysla og misnotkun áfengis er fjölskylduvandi sem sporna verður gegn með skipulegum aðgerðum á sviði forvarna og stuðnings við fjölskyldur.

Fjölskyldan og þá einkum foreldrarnir eru augljóslega best til þess fallnir að veita börnum öryggi og tækifæri til þroska og ljóst er að þeir eru almennt alfarið á móti áfengis- og vímuefnaneyslu barna sinna. Stjórnvöld geta á ýmsan hátt létt undir með foreldrum við umönnun og uppeldi barna sinna. Til dæmis með því að stuðla að efldum skilningi atvinnurekenda á mikilvægi uppeldishlutverks foreldra og gildi samstarfs foreldra og skóla.

Á formennskuári Íslands verður lögð áhersla á að verkefni sem stuðlað geta að bættu umhverfi fjölskyldunnar njóti ákveðins forgangs. Sérstaklega er mikilvægt að norrænir aðilar leggi sitt af mörkum til þess að skapa skilyrði fyrir því að jafnvægi náist á milli fjölskyldulífs og atvinnu foreldra.

Eftirfylgni

Ísland undirstrikar mikilvægi þess að Norræna embættismannanefndin um heilbrigðis- og félagsmál (EK-S), fagnefndir, stofnanir og vinnuhópar á því sviði taki í störfum sínum mið af þeim áherslum sem formennskulandið hefur lagt fram. Þessir aðilar verða síðan á miðju ári 1999 beðnir um skýrslur um framvindu mála og hvernig þeir hafi staðið að því að hrinda áherslum Íslands í framkvæmd. Þegar þær upplýsingar liggja fyrir verður metið hvort ástæða sé til frekari aðgerða eða hvort einstakir þættir framkvæmdaáætlunarinnar þarfnist endurskoðunar.

12. Matvæli

Helstu tillögur og markmið:

Stjórn og skipan málaflokksins

  • Fagráðherrar, sem fara með matvælalöggjöf og matvælaeftirlit, verði kallaðir saman og ræði framgang matvælamálefna í norrænu samstarfi og hvort ástæða er til að stofna ráðherranefnd fyrir matvælamál. [Samvinna á Norðurlöndum].
  • Samstarf vestnorrænu landanna verði aukið m.a. með aukinni áherslu á verkefni sem skipta máli fyrir vestnorrænu þjóðirnar. [Norðurlönd og grannsvæðin].
  • Stuðlað verði að aukinni samvinnu fagsviða (sektora) í norrænu samstarfi sem fara með mál sem geta haft áhrif á öryggi og hollustu matvæla og sem fara með mál á sviði neytendaverndar og neytendafræðslu. [Samvinna á Norðurlöndum].

Öryggi matvæla og neytendavernd

  • Norðurlöndin dragi sameiginlegan lærdóm af yfireftirliti ESB og ESA í þeim tilgangi að bæta og samræma yfirstjórn með eftirliti og tryggja að ESB og ESA túlki löggjöf um matvæli og framfylgi henni með sama hætti á EES. [Norðurlönd og ESB/EES].
  • Markmiðum og stefnu um matvælalöggjöf í ,,Green Paper" framkvæmdastjórnar ESB verði fylgt eftir með samstarfi Norðurlanda til að hafa áhrif á þróun mála. Samræming og einföldun reglna um hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla er meðal áhersluatriða. [Norðurlönd og ESB/EES].
  • Lögð verði áhersla á samræmda áhættugreiningu og gagnasöfnun til að vinna gegn matarsjúkdómum. Sérstaklega er bent á skoðun mála vegna lyfjanotkunar og afleiðinga hennar á myndun fjölónæmra örvera í matvælum. [Samvinna á Norðurlöndum].
  • Stuðlað verði að samstarfi og sérhæfingu rannsóknastofnana á sviði matvælarannsókna og matarsjúkdóma og að þær geti veitt ráðgjöf og þjónustu fyrir öll Norðurlöndin. [Samvinna á Norðurlöndum].
  • Könnuð verði þörf á formlegu samstarfi staðlaskrárnefnda (Codex nefnda) á Norðurlöndunum í þeim tilgangi að hafa áhrif á Codex-staðla. [Samvinna á Norðurlöndum].

Ofangreindar tillögur og markmið falla undir þau þrjú forgangssvið sem nú er unnið eftir í norrænu samstarfi, þ.e. [Samvinna á Norðurlöndum], [Norðurlönd og ESB/EES] og [Norðurlönd og grannsvæðin], sbr. þær merkingar sem fram koma í tengslum við hvert markmið. Ísland leggur áherslu á að stjórn og skipan málaflokksins verði tekin til skoðunar. Einnig er lagt til að samstarf milli vestnorrænu landanna verði aukið m.a. með auknu verkefnasamstarfi. Til greina kemur að fjármagna það með umsóknum í þá sjóði sem til eru á þessu sviði og af verkefnafé geirans. Markmiðið er að tryggja virkari þátttöku þessara landa í norrænu samstarfi, að þau hafi þar áhrif á framvindu mála og að fjallað verði um mál sem geta haft sérstöðu fyrir íbúa á vestnorræna svæðinu.

Samstarf um matvælaeftirlit tekur mið af því að ekki verði slakað á kröfum og eftirliti til að tryggja öryggi matvæla og að neytendur fái þær upplýsingar sem þeir eiga rétt á um samsetningu, eðli eða áhrif matvæla. Matarsjúkdómar virðast aukast um allan heim og má einnig rekja til áður óþekktra orsaka. Þá hafa komið fram stofnar fjölónæmra örvera sem geta valdið alvarlegum matarsjúkdómum. Þetta kallar á markvissa áhættugreiningu sem Norðurlöndin eiga að vinna saman að. Meðal annars þarf að leggja áherslu á gagnasöfnun og samanburð á sjúkdómsvaldandi örverum og faraldsfræðilegum upplýsingum er tengjast matvælum og matarsjúkdómum.

Áhersla á matvælalöggjöf tekur ekki síst mið af markmiðum ESB sem fram komu í skjalinu ,,The general principles of food law in the European Union – Commission Green Paper" og þeirrar stefnu sem mörkuð er á grundvelli þess. Auk áherslu á alþjóðlegt samstarf á vegum ESB/EES er nauðsynlegt að styrkja áhrif Norðurlandanna í starfsemi Alþjóðlega staðlaskrárráðsins fyrir matvæli (Codex Alimentarius Commission, FAO/WHO). Staðlar og verklagsreglur ráðsins eru notaðir af ESB og öðrum ríkjum við mótun matvælalöggjafar og framkvæmd eftirlits. Þá notar Alþjóða viðskiptastofnunin (WTO) Codex staðla ef upp kemur ágreiningur í alþjóðlegum viðskiptum með matvæli. Norðurlönd hafa unnið saman að Codex málum, en Ísland leggur til að rætt verði hvort koma skuli á formlegu samstarfi staðlaskrárnefnda á Norðurlöndunum.

13. Neytendamál

1. Inngangur

Grundvöllur neytendasamstarfsins á formennskuári Íslands er hin nýja ,,Stefnuáætlun fyrir norrænt samstarf á sviði neytendamála 1999-2004".

Forgangssvið hinnar norrænu samvinnu eru:

  • samvinnan á Norðurlöndum svo og á Vestur-Norðurlöndum,
  • Norðurlönd og ESB/EES,
  • grannsvæðin,

Ísland telur að mikilvægt sé að auka og dýpka samvinnu á Norðurlöndum í þeim tilgangi að samnorræn stefnumótun á sviði neytendamála geti lagt grunn að frekari stefnumótun og haft áhrif innan ESB/EES, svo og á alþjóðavettvangi.

Ísland leggur því áherslu á að auka megi stjórnmálalega samvinnu á sviði neytendamála á formennskuárinu.

Ísland býður til fundar öllum þeim ráðherrum sem fara með neytendamál á Norðurlöndum. Af tilliti til þeirra ráðherra sem bera ábyrgð á fleiri fagsviðum þá verður boðað til fundarins í tengslum við fundi annarra fagsviða en í Danmörku, Finnlandi og á Íslandi ber sami ráðherra ábyrgð málefnum iðnaðar,- atvinnu- og neytendamála. Til bráðabirgða er stefnt að slíkum fundi í Reykjavík í lok ágústmánaðar 1999.

Ennfremur leggur Ísland til að fulltrúum frá þingnefndum í þjóðþingum Norðurlandanna, sem fjalla um lagafrumvörp til verndar neytendum, verði kynnt sérstaklega hin nýja norræna stefnuáætlun um samstarf á sviði neytendamála og þar með þau helstu álitamál er varða neytendur. Þannig verður hin nýja stefnuáætlun þegar frá upphafi tengd við störf þingmannanna í þágu neytendaverndar sem fram fer í þjóðþingunum, svo og við störf Norðurlandaráðs.

Ísland vill auk þess sérstaklega stefna að virku samstarfi við grannríki sín á vestnorræna svæðinu um málefni er varða vernd neytenda, þ.e. Grænland og Færeyjar.

2. Samvinnan á Norðurlöndum

Neytendur og ný löggjöf til verndar neytendum

Ísland telur nauðsynlegt að styrkja enn frekar norræna stefnumótun á sviði löggjafar er varðar neytendavernd. Markmið með sameiginlegri stefnumótun er að tryggja að norrænar lágmarkskröfur verði hafðar að leiðarljósi við frekari stefnumótun í málefnum neytenda á öðrum vettvangi t.d. hjá ESB eða á alþjóðavettvangi (OECD, WTO, S.þ. o.fl.).

Til grundvallar verði lögð hin samnorræna stefnuáætlun á sviði neytendamála árin 1999-2004.

Ísland vill þó sérstaklega óska eftir því að til umfjöllunar verði tekin á formennsku þess eftirtalin málefni á sviði neytendaverndar:

a. mótun sameiginlegrar norrænnar stefnu um upplýsinga- og tölvutækni, þ.á m:

  • undirritun í tölvum,
  • internet og persónuvernd,
  • tölvutæknin og kaupalögin,
  • tölvutæknin og samningalögin,
  • tölvutæknin og auglýsingar,
  • tölvutæknin og markaðfærsla, einkum m.t.t. barna og unglinga,
  • fjarsala,
  • uppbyggingu samnorrænna gagnagrunna (t.d. um óréttmæta samningsskilmála, neytendarannsóknir, o.fl.).

b. mótun sameiginlegra norrænna lágmarksskrafna í lögum á sviði neytendaverndar þ.á m:

  • gjaldeyrisfærslur milli landa (sbr. tilskipun ESB um credit transfers),
  • trygging lágmarksneytendaverndar við einkavæðingu opinberrar þjónustu (s.s. rafmagnsveitna, sjúkrahúsa, grunnskóla, o.fl).

c. framkvæmd löggjafar á sviði neytendaverndar:

  • Ísland leggur áherslu á að löggjöf sem sett er til verndar hagsmunum neytenda sé virt í framkvæmd, að neytendum sé tryggður góður og greiður aðgangur að upplýsingum um hver séu réttindi þeirra og skyldur og ef löggjöfin er of flókin þá verði hún einfölduð án þess þó að það leiði til þess að vernd neytenda verði minni en nú er. Sbr. m.a. vinnuskjal framkvæmdastjórnar ESB um framkvæmd neytendalöggjafar í Evrópu svo og kröfur ýmissa aðila t.d. kaupmanna, lögmanna á Norðurlöndum (t.d. í Danmörku, þar sem þeir hafa krafist ,,mindre sjusk i lovgivningen") en þeir aðilar halda því fram að reglur séu orðnar of margar og að oft skorti nægilega yfirsýn yfir skyldur neytenda og réttindi en á hinn bóginn sé nauðsynlegt að tryggja skilvirka framkvæmd á þeim réttarreglum sem eru í gildi hverju sinni.

Fjárhags- og upplýsingamál neytenda:

Á þessu sviði vill Ísland á formennskuári sínu leggja áherslu á að:

  • mótaðar verði leiðir til þess að auka möguleika neytenda til að hagnýta sér bestu kjör sem bjóðast á markaðnum hverju sinni,
  • móta leiðir sem geta leitt til þess að neytendur hafi betri aðgang að upplýsingum og að gæði upplýsinganna verði betra, t.d. með aðstoð tölvutækninnar og notkun upplýsingagrunna fyrir tölvur, s.s. með því að setja upp samnorræna upplýsingagrunna þegar það á við og er fallið til þess að auka neytendavernd, sbr. einnig áðurnefnd áhersluatriði um löggjafarmálefni hér að framan.

Málefni neytenda að því er varðar vörur og vöruöryggismál:

  • mótuð verði sameiginleg forgangsatriði Norðurlanda að því er varðar vöruöryggismál og opinbera markaðsgæslu,
  • unnið verði að samnorrænum verkefnum á sviði vöruöryggis sem að gagni koma í alþjóðlegu samstarfi,
  • gerð verði áætlun um það hvernig miðla megi upplýsingum um vöruöryggismál til neytenda í því skyni að gera þá meðvitaðri um mál sem snerta öryggi vöru,
  • tryggja þarf áhrif neytenda á þær kröfur sem gerðar eru til matvæla þ.e. matvælaframleiðslu, merkinga á matvöru, o.fl.

Samþætting neytendamála við önnur samstarfssvið:

Í formennskutíð Íslands verður lögð sérstök áhersla á að unnið verði að sameiginlegri norrænni stefnuáætlun um samþættingu neytendamála og stjórnvalda er varða:

  • atvinnulífið,
  • umhverfismál, þ.m.t. atriði er varða matvæli og matvælaframleiðslu,
  • menntamál, þ.m.t. að stuðla að virkri framkvæmd norrænu áætlunarinnar um neytendafræðslu.

3. Norðurlönd og ESB/EES

Öll Norðurlöndin hafa nána samvinnu við Evrópusambandið; Danmörk, Finnland og Svíþjóð með aðild að ESB en Ísland og Noregur með aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Á sviði neytendaverndar gildir nánast sami ,,acquis communautaire" fyrir öll ríkin og er því samvinna þeirra ekki síst af þeirri ástæðu mikilvæg á þessu sviði, bæði að því er varðar þróun nýrrar löggjafar sem og lögleiðingu þegar samþykktra tilskipana.

Ísland leggur því áherslu á að í samstarfi við Evrópusambandið og stofnanir þess verði tryggt að sjónarmið Norðurlanda á sviði neytendaverndar verði höfð til hliðsjónar við mótun gerða sem gilda eiga á EES-svæðinu.

Ísland telur að á grundvelli velmótaðrar norrænnar stefnumótunar í málefnum neytenda sem byggir á hinni löngu norrænu hefð um samvinnu á þessu sviði eiga Norðurlönd að hafa frumkvæði og forystuhlutverki að gegna á vettvangi ESB á sviði neytendamála, þ.m.t að:

  • hafa áhrif á undirbúning og lögleiðingu ESB-gerða, t.d. tilskipunar um fjarsölusamninga, tilskipunar um lögbannsaðgerðir til verndar hagsmunum neytenda,
  • miðla af norrænni reynslu af kvörtunar- og úrskurðarnefndum og stuðla að því að innan ESB verði skipulögð kerfi sem annist úrlausnir utan dómstóla fyrir neytendur er sæki fyrirmyndir til hins norræna kerfis (sbr. tilmæli framkvæmdastjórnar ESB þess efnis),
  • tryggja sameiginlega hagsmuni vegna uppbyggingar og reksturs Norðurlanda á norræna umhverfismerkinu ,,Svaninum" og hafa áhrif á þróun evrópska umhverfismerkisins,
  • stuðla að því að fjármagni sé veitt til verkefna á sviði neytendamála innan fimmtu rammaáætlunar ESB á sviði rannsókna og þróunar.

4. Norðurlönd og grannsvæðin

Ísland vill leggja áherslu á að sú stefna norrænu landanna að styðja lýðræðisþróunina á grannsvæðunum og stuðla að jafnvægi og aukinni réttarvernd fyrir neytendur á þessum svæðum komist til framkvæmda, m.a. með því að veita þeim aðstoð:

  • við þróun löggjafar á sviði neytendaverndar og miðlun upplýsinga um norræn kerfi fyrir kvörtunar- og úrskurðarnefndir,
  • við þróun kennsluefnis til neytendafræðslu í skólum.

og aðra almenna ráðgjöf og upplýsingar um uppbyggingu á sviði neytendaverndar á Norðurlöndum.

14. Vímuefnamál

  1. Á formennskutímabili Íslands hjá Norrænu ráðherranefndinni mun rík áhersla vera á m.a. samstarfi vestnorrænu þjóðanna. Vestnorrænu þjóðirnar eru, af landfræðilegum ástæðum, betur varðar gegn markaðssetningu og misnotkun ólöglegra fíkniefna en hin Norðurlöndin. Engu að síður er fyllsta ástæða til þess að leggja áherslu á mikilvægi norræns samstarfs, gagnkvæm upplýsingaskipti um reynslu þjóðanna og á umræður um fíkniefnamál er geti komið að gagni á Vestur-Norðurlöndum.
  2. Á árinu 1999 mun megin áherslan í samstarfinu um fíkniefnamál halda áfram að byggjast á samstarfsáætluninni Norrænt samstarf um fíkniefnamál 1997-2000, en á grundvelli hennar er nauðsynlegt að fjalla um aukið samstarf lögreglu og tollayfirvalda á Norðurlöndum, PTN, ásamt því að halda áfram umræðum í ráðherranefndinni um að fella norrænar rannsóknaniðurstöður, NAD, inn í þær umræður. Á formennskuárinu verður áhersla lögð á þá stefnu í fíkniefnamálum er einkennir Norðurlöndin þar sem heftandi eftirlitsaðgerðir eru framkvæmdar ásamt almennum fyrirbyggjandi aðgerðum til þess að draga úr eftirspurn eftir fíkniefnum, leit og manneskjulegum meðferðartilboðum fyrir fíkla. Á formennskuári sínu mun Ísland miðla af reynslu sinni sem fæst með verkefninu ,,Fíkniefnalaust Ísland", en ráðherrar annarra Norðurlanda hafa sýnt því áhuga. Jafnframt verður tekið frumkvæði að undirbúningsumræðum um nýtt samstarfsverkefni eftir árið 2000 sem mun byggjast á þeirri reynslu sem fæst úr núverandi samstarfi og þeim skipulagsbreytingum sem gerðar voru árið 1997. Á formennskuárinu verður áfram tekið tillit til forgangsverkefna innan tengdra greina, s.s. félags- og heilbrigðissviða og refsigeirans. Þverfagleg verkefni fá forgang í þeim tilvikum þar sem slíkt er talið gagnlegt.
  3. Á formennskuárinu verður mikil áhersla lögð á pólitískt samráð á efri stjórnstigum um fíkniefnamál. Með tilvísun til umræðnanna á fundi Norrænu ráðherranefndarinnar í Stokkhólmi í júní 1998, þar sem viðstaddir ráðherrar gáfu skýr skilaboð um þennan málaflokk, og á grundvelli þeirrar athygli sem fundur þessi hlaut, munu íslensku ráðherrarnir boða til ráðherrafundar í Reykjavík árið 1999. Þetta er talið mikilvægt varðandi Vestur-Norðurlönd sem þurfa ekki síður athygli í þessum efnum en eystri svæðin. Á formennskuári Íslands eru aðilar reiðubúnir til stefnumótandi umræðna við þingmenn í Norðurlandaráði óski ráðið þess.
  4. Í samstarfinu skal vera samhengi við forgangsverkefni frá árinu áður. Ljúka skal þeim verkefnum sem hafin eru og umræðum skal ljúka eða þeim haldið áfram. Þetta á við t.d. um verkefnið er lýtur að misnotkunarmynstri og unglingamenningu, ásamt grænlenska verkefninu sem útfæra mætti m.a. til Færeyja, Íslands og annarra jaðarsvæða. Bæði verkefnin eru rekin í samstarfi við NAD. Halda ber áfram sænska forgangsverkefninu um umræður um þróunina í fíkniefnamálum á Norðurlöndum (Narkotikasituationen 1990-1996) fram að aldamótum, samstarfsverkefninu sem framundan er og mögulega einnig uppfærslu útgefinna rita eftir tvö eða þrjú ár.
  5. Hvað varðar fyrirbyggjandi aðgerðir hafa Íslendingar um margra ára skeið haft áhuga á gerð miðlægs gagnagrunns á Norðurlöndum sem hafi að geyma upplýsingar frá viðkomandi löndum um þróun fíkniefnavandans en þó með megináherslu á mat á forvarnar- og meðferðarverkefnum. Norðurlöndin búa öll yfir umtalsverðri þekkingu á forvarnaraðgerðum en hins vegar er hlutfallslega lítið fyrirliggjandi af upplýsingum um niðurstöður þeirra. Hjá ESB hefur verið unnið að kerfisbundinni söfnun upplýsinga um fíkniefnavandann en starfinu hefur miðað hægt. Norðurlöndin ættu að geta, án þess að hætta sé á að fleiri séu að sinna einu og sama verkefninu, haft eigin forgagnsverkefni og undirbúið aðgerðir varðandi kerfisbundna söfnun upplýsinga um mat á forvarnaraðgerðum. Vegna óvissu um niðurstöður evrópsks samstarfs og vegna mismunandi menningarlegra aðstæðna í Suður- og Norður Evrópu, gerir Ísland tillögu um að Norræna ráðherranefndin ýti úr vör norrænu samstarfi um nákvæmt mat á möguleikum og tilgangi stofnunar norræns gagnagrunns með það að markmiði að glæða baráttuna gegn fíkniefnanotkun á Norðurlöndum nýju lífi.
  6. Nýjar rannsóknir hafa varpað ljósi á samspil uppeldismynsturs og tilhneigingar síðar á æviskeiðinu til (tilrauna-)misnotkunar á áfengi og fíkniefnum. Þörf virðist vera á þemaumræðum, mögulega á þverfaglegum vettvangi, með talsmönnum mennta- og leikskólageirans, um í hvaða mæli og hvernig grípa megi til fyrirbyggjandi aðgerða fyrr en nú tíðkast, þ.e. strax á forskólaaldri með nálgun við börn og foreldra þeirra.
  7. Á formennskutímabilinu verður unnið að því að gera norrænar aðgerðir um fíkniefnalaust unglingaumhverfi og norræna reynslu sýnilega ungu fólki á Norðurlöndum og utan þeirra, ásamt því að skapa aðstæður til að stofna til og styrkja samskipti, og miðlun á reynslu milli ungs fólks á Norðurlöndum á þessu sviði. Á formennskutímabilinu verður því lögð áhersla á að stuðla að því að tvö verkefni með ungt fólk sem markhóp verði vel kynnt. Norræna borgarráðstefnan, sem fjalla mun um lífskjör ungs fólks og haldin verður í Reykjavík í júní 1999, hefur hlotið fjárhagsstuðning frá Norrænu ráðherranefndinni. Ísland leggur jafnframt til að stuðningur verði veittur við sérstaka norræna útfærslu unglingaverkefnisins Pallas Athena Thor með þátttöku ungs fólks frá öllum Evrópuríkjunum. Einnig er mælt með fjárhagsstuðningi við þátttöku fulltrúa frá Eystrasaltsríkjunum.
  8. Með tilvísun til samstarfsverkefnisins og forgangsröðunar mála er lúta að fíkniefnavandanum, gerir Ísland það að tillögu sinni að haldin verði ráðstefna um fíkniefnaneyslu í fangelsum. Einnig að gerð verði tilraun með fíkniefnalausar deildir í fangelsum, tengingu afplánunar og meðferðar, meðferðar á afplánunartíma, þjálfunar starfsmanna o.fl. Ísland er reiðubúið að vera gestgjafi slíkrar ráðstefnu eða fundar um málefni þetta innan vébanda embættismannanefndarinnar.
  9. Með vísan til evrópskra og annarra alþjóðlegra málefna verður áhersla lögð á það á formennskuári Íslands að Norræna ráðherranefndin og embættismannanefndin nýtist vel sem vettvangur samráðs og, í þeim mæli sem mögulegt er, til samræmingar norrænna viðhorfa varðandi baráttuna við fíkniefnavandann. Þetta skapar vestnorrænu þjóðunum, sem eru tengdar evrópsku samstarfi með öðrum hætti en hin Norðurlöndin, dýrmæt tækifæri til þátttöku og til að hafa áhrif á umræður.

15. Löggjafarmál

Inngangur

Norrænu dómsmálaráðherrarnir ákveða á hverju ári starfsáætlun, sem lögð er til grundvallar löggjafarsamstarfinu. Tilgangur slíkrar starfsáætlunar er að tryggja sameiginlegar áherslur í norrænu löggjafarsamstarfi, með því markmiði að viðhalda hefðbundinni einsleitni hinnar norrænu löggjafar auk þess að hafa frumkvæði að nýrri löggjöf varðandi sameiginlega norræna hagsmuni.

Það land sem fer með formennsku gegnir mikilvægu hlutverki við mótun árlegrar starfsáætlunar. Starfsáætlunin fyrir tímabilið júni 1999 – júní 2000 verður ákveðin af dómsmálaráðherrum Norðurlandanna í júní 1999.

Áhersluatriði

Á formennskuári Íslands hjá Norrænu ráðherranefndinni mun barátta gegn glæpum og forvarnir verða forgangsverkefni. Á formennskuárinu verður samvinnan þróuð milli afbrotavarnarráða á Norðurlöndunum með útgáfu áætlunar til samræmingar og skiptingu verkefna.

Samvinnan við Eystrasaltsríkin verður bætt og er fyrirhugaður fundur milli dómsmálaráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í september 1999. Megin áhersla fundarins verður baráttan gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem teygir sig yfir landamæri ríkja á Norðurlöndum og aðliggjandi landa.

Í hinni hefðbundnu löggjafarsamvinnu Norðurlandanna verður rík áhersla lögð á gæði lagasetningar.

Ennfremur mun samvinnan varðandi fjölskyldurétt, sem hefur verið ein af þungamiðjum norrænnar löggjafarsamvinnu, verða styrkt sérstaklega. Á formennskuári Íslands verður vinnu haldið áfram við rannsóknir, sem þegar eru hafnar og leiða eiga í ljós mismun í löggjöf á sviði fjölskylduréttarins á Norðurlöndum. Athyglinni verður sérstaklega beint að því að skilgreina þau svið, þar sem þörf er á frekari norrænni samvinnu með það fyrir augum að varðveita einsleitni í löggjöf Norðurlandanna á sviði einkamálaréttar.

Samræmd innleiðing ESB-reglna í innanlandsrétt er afar mikilvæg til þess að varðveita hina norrænu einsleitni. Embættismannanefndin um löggjafarmálefni mun áfram tryggja samráð Norðurlanda við innleiðingu ESB- og EES-löggjafar. Í þessu skyni verður verkefnum varðandi vandamál lögleiðingar ESB- og EES-reglna ýtt úr vör.

Sérstök verkefni

  • Fundur fyrirhugaður milli dómsmálaráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í september 1999.
  • Útgáfa skýrslu um sérstaka meðferð sem refsingu fyrir þá sem dæmdir eru fyrir kynferðislega misnotkun á börnum.
  • Skipun vinnuhóps til að takast á við vandamál vegna lögleiðingar ESB- og EES-reglna.
  • Haldin verður þverfagleg ráðstefna um rafræn viðskipti í samvinnu við aðila er hafa málefni neytenda og athafnalífs á sinni könnu.
  • Málþing verður haldið um einkamálaréttarfar.

16. Norrænn vinnumarkaður

Ísland vill áfram leggja áherslu á þau markmið sem unnið hefur verið eftir undanfarin ár af öðrum norrænum ríkjum, þ.e. að efla atvinnulífið og atvinnusköpun með þeim aðferðum sem möguleg eru í norrænni samvinnu.

Ísland vill einnig leggja áherslu á að samþætta norræna samstarfið á vinnumálasviðinu sem mest evrópsku og innlendu vinnumálasamstarfi þannig að stefnumörkunin horfi til allra þessara svæða samtímis. Þannig er mikilvægt að draga fram þá þætti í vinnumálasamstarfinu sem eru þýðingarmestir og mest samstaða er um á öllum þessum svæðum.

Ísland vill efla heildarsýn á vinnumarkaðs- og vinnuumhverfissviðinu með því að auka skipti á upplýsingum, viðhorfum og reynslu við önnur svið auk þess að efla áþreifanleg verkefni með þetta að markmiði og undirbúa þannig samræminguna að efnahagsstefnu, menntastefnu, svæðastefnu og atvinnustefnu landanna.

Ísland vill einnig styrkja norrænt samstarf við ESB-stofnanir bæði á vinnumarkaðs- og vinnuumhverfissviðinu.

Ísland leggur áherslu á aukið vinnumálasamstarf innan svæða á Vestur-Norðurlöndum og norðurslóðum auk þess sem eflt er margvíslegt samstarf við grannsvæði Norðurlanda um vinnumarkaðs- og vinnuumhverfismál.

1. Vinnumarkaðsmál

Í þeirri viðleitni að koma á fullri atvinnu og efla þau réttindi sem eru tilgreind í samningnum um sameiginlegan norrænan vinnumarkað eru áherslur á eftirfarandi meginmarkmið:

  • Efla virka og öfluga vinnumarkaðsstefnu, með það að markmiði að styrkja starfsemi á vinnumarkaði og að viðhalda skilvirkni og sveigjanleika á vinnumarkaði.
  • Efla réttindi þau, sem eru grundvölluð í samkomulaginu um sameiginlegan norrænan vinnumarkað, hér með talið að standa áfram vörð um sömu meðferð á norrænum þegnum á vinnumarkaði einstakra landa - og vinna að auknum hreyfanleika vinnuaflsins yfir landamæri í þeim mæli að þetta stuðli að aukinni jákvæðri þróun að sameiginlegum vinnumarkaði.
  • Gera sýnilegt og skapa umræður um ójafnvægi á vinnumarkaði.

Sérstök verkefni

Unnið er að verkefni sem auka á þekkingu á og innsýn inn í með hvaða hætti stjórnun vinnumarkaðsstefnunnar í einstökum löndum á sér stað.

a. Starfsmenntamál.

Helstu áherslur:

  • Styrkja frumkvæði sem hefur að markmiði að auka framleiðni, þar á meðal framtak sem eykur hæfni vinnuaflsins.
  • Halda áfram samvinnu á sviði starfsmenntunar einkum á sviði eftir- og framhaldsmenntunar til að bæta þekkingu vinnuaflsins.
  • Efla samvinnu um endurhæfingu til starfs.

Sérstök verkefni:

Nauðsynlegt er að skoða hvaða áherslur hafa verið í löndunum um starfsmenntamál langtímaatvinnulausra og hver sé árangurinn eða hvort framboðin starfsmenntun í löndunum henti þessum hópi illa.

Ráðstefna um starfsmenntamál langtímaatvinnulausra.

b. Atvinnumál sérstakra hópa.

Helstu áherslur:

  • Bæta möguleika eldra fólks og annarra illa staddra hópa til atvinnu.

Sérstök verkefni:

Undanfarin ár hefur verið lögð sérstök áhersla á atvinnumál ungs fólks. Þau verða áfram í brennidepli. Mikill áhugi er hins vegar á að skoða nú sérstaklega atvinnumál eldra fólks, bæði vegna breytinga á vinnumarkaði og viðhorfum til eldra fólks sem vinnuafls. Þannig takast á ýmis sjónarmið um atvinnumál eldra fólks, m.a. það sjónarmið að úrelding þekkingar sé það hröð að betra sé að ráða yngra fólk til starfa og það sjónarmið að aukin þörf sé fyrir að sem flestir standi undir samneyslunni ekki síst vegna aukins hlutfalls eldra fólks í samfélaginu.

Ráðstefna um atvinnumál eldra fólks.

c. Jafnrétti á vinnumarkaði.

Helstu áherslur:

  • Vinna gegn mismunun á vinnumarkaði.

Sérstök verkefni:

Mikilvægt er að kanna hvernig framkvæmd vinnumiðlunar og önnur þjónusta við þá sem eru í atvinnuleit sé m.t.t. jafnréttissjónarmiða. Er unnið eftir ákveðnum jafnréttismarkmiðum við að útfæra þjónustuna eða er sérstakt átak í gangi í löndunum til að taka á sýnilegri mismunun við þjónustuna.

Ráðstefna um jafnrétti í þjónustu við þá sem eru í atvinnuleit.

d. Vinnumiðlun.

Helstu áherslur:

  • Auka upplýsingar um aðstæður á vinnumarkaði á Norðurlöndum með efldri vinnumiðlun yfir landamæri, þar með taldar auknar skipulagðar upplýsingar til vinnumiðlunarskrifstofa landanna auk annarra stjórnsýslutækja um aðstæður á vinnumarkaði á hinum Norðurlöndunum.
  • Halda áfram með og efla vinnumiðlunarsamstarf milli norrænu vinnumiðlunarkerfanna og efla samstarfið innan vinnumiðlunarkerfis Evrópu EURES.

Sérstök verkefni:
Unnið er að verkefni sem á að gefa yfirlit yfir vinnumiðlunaraðferðir sem notaðar eru við vinnumiðlun milli Norðurlanda. Verkefnið á einnig að draga fram nýjar aðferðir í ljósi nýrrar tækni og alþjóðavæðingar vinnumarkaðarins.

e. Vinnumarkaðsransóknir.

Helstu áherslur:

  • Halda áfram samvinnu um vinnumarkaðsrannsóknir og efla útbreiðslu á niðurstöðum rannsókna, á Norðurlöndum sem utan þeirra.

Sérstök verkefni:

Unnið er að þverfaglegu rannsóknarverkefni með öðrum norrænum ríkjum. Um er að ræða sameiginlegt rannsóknarverkefni Vinnumálastofnunar, Tryggingastofnunar og Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar með sambærilegum aðilum í hinum löndunum, þar sem markmiðið er að gera grein fyrir mismunandi ferlum einstaklinga í velferðarkerfinu. þ.e. varpa ljósi á ólíkar aðstæður fólks sem hefur framfæri af einstökum þáttum velferðarkerfisins, gera grein fyrir skörun í kerfinu, sem og að skýra betur virkni þess.

2. Vinnuumhverfismál.

Í þeirri viðleitni að styrkja markmiðið um að launþegar séu verndaðir gegn slysum og hvers kyns heilsutjóni vegna vinnu sinnar og aðstæðna á vinnustað er lögð megináhersla á eftirfarandi:

  • Styrkja grundvallarreglur þær um bætt vinnuumhverfi sem norræni vinnuumhverfissamningurinn hefur að geyma.
  • Stuðla að því að Norðurlöndin standi áfram í fremstu röð ríkja hins Evrópska efnahagssvæðis hvað varðar þekkingu á vinnuumhverfismálum og áherslu á forvarnir á vinnustöðum. Efla samstarf við evrópskar stofnanir, þ.á.m. vinnuumhverfisstofnun ESB í Bilbao á Spáni.
  • Efla þekkingarmiðlun um vinnuumhverfismál innan vébanda norrænu stofnunarinnar fyrir framhaldsmenntun innan vinnuumhverfissviðsins.
  • Stuðla að rannsóknum á áhrifum vinnuumhverfisþátta á heilsu starfsmanna og líðan.
  • Stuðla að framþróun þeirra aðferða sem beita má til þess að hafa áhrif á vinnuumhverfið og stuðla að forvörnum gegn slysum og sjúkdómum sem rætur eiga að rekja til þess.

a. Rannsóknir á sviði vinnuverndar.

Helstu áherslur:

  • Stuðla að auknum rannsóknum á tengslum vinnu og heilsufari kvenna, en litlar rannsóknir hafa verið gerðar á því sviði. Efla samstarf við ESB stofnanir um rannsóknir og nýtingu niðurstaðna rannsókna.
  • Hin árlega norræna vinnuverndarráðstefna verði útvíkkuð þannig að sérfræðingar frá fleiri löndum Evrópu taki þátt í henni.
  • Efla rannsóknir á áhrifum vinnuumhverfisþátta sem eru sérstakir fyrir norðurslóðir og tengjast þeim atvinnuvegum og atvinnuháttum sem þar eru ríkjandi, t.d. fiskveiðum og fiskvinnslu.

b. NIVA – norræn stofnun fyrir framhaldsmenntun á vinnuumhverfissviði.

Helstu áherslur:

  • Leggja áherslu á námskeið þar sem miðlað er þekkingu sem aflað er í samnorrænum rannsóknarverkefnum.
  • Þróa námskeið um aðferðafræði í vinnueftirliti og miðlun þekkingar til stjórnenda og starfsmanna á vinnustöðum.
  • Þróa námskeið um afmörkuð svið sem varða vinnuaðstæður kvenna sérstaklega, t.d. um áhrif einhæfrar vinnu og þróun vinnuskipulags og tækni sem kemur í veg fyrir einhæfni vinnunnar.
  • Þróa námskeið um vinnuumhverfisþætti sem eru sérstakir fyrir norðurslóð, svo sem um áhrif kulda og um vinnuumhverfi við fiskveiðar og fiskvinnslu.

c. Stjórnvaldsaðgerðir og eftirlit.

Helstu áherslur:

  • Leggja áherslu á þróun aðferða sem beita má til að bæta vinnumhverfi á vinnustöðum þar sem konur eru í meirihluta. Þetta á t.d. við um aðferðir til að draga úr skaðlegum áhrifum einhæfrar vinnu.
  • Leggja áherslu á upplýsingaskipti milli landanna með það að markmiði að ræða og draga lærdóm af markmiðum þeim og leiðum sem löndin nota í viðleitni sinni til að bæta vinnuumhverfið. Ennfremur að stuðla með þessum hætti að samræmingu laga og reglna á sviði vinnuumhverfismála.
  • Taka fyrir verkefni sem stuðla að aukinni þátttöku starfsmanna í mótun vinnuumhverfis síns, þar á meðal verkefni sem stuðla að aukinni þekkingarmiðlun til starfsmanna á vinnustöðum til auka hæfni þeirra til að hafa áhrif á mótun vinnuumhverfisins.
  • Halda áfram samráði Norðurlanda á sviði stöðlunar og efla norræn áhrif á evrópska staðlasamvinnu hvað varðar öryggi og heilbrigði.

3. Sameiginleg vinnumál.

Með sameiginlegum vinnumálum er átt við verkefni sem ná bæði til vinnumarkaðs- og vinnuumhverfismála. Um er að ræða samstarf við jaðarsvæði eins og grannsvæði Norðurlanda og afmörkuð svæði innan Norðurlanda, samstarf við aðila vinnumarkaðarins, atvinnumál innflytjenda og ýmis upplýsingamál.

a. Samstarf við jaðarsvæði.

Undanfarin ár hefur verið unnið að margvíslegu samstarfi við grannsvæði Norðurlanda um vinnumarkaðs- og vinnuumhverfismál. Samstarf þetta hefur einkum náð til Eystrasaltsríkjanna. Þessu samstarfi verður haldið áfram.

b. Svæðabundið vinnumálasamstarf.

Ísland hefur einnig áhuga á að líta sérstaklega á þau svæði innan Norðurlandasamstarfsins sem tilheyra Vestur-Norðurlöndum og norðurslóðum bæði í vinnumarkaðs- og vinnuverndarmálum.

c. Samstarf við aðila vinnumarkaðarins

Helstu áherslur:

  • Þróa samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.
  • Stuðla að því að félagsleg sjónarmið verði að veruleika í evrópskri samvinnu.

Sérstök verkefni:

Aðilar vinnumarkaðarins innan ESB hafa unnið að því að ná samkomulagi um fyrirkomulag tímabundinna ráðninga. Samkomulag þetta gæti leitt til tilskipunar sem næði til alls Evrópska efnahagsvæðisins. Sveigjanlegt vinnufyrirkomulag hefur einnig mikið verið til umfjöllunar innan norræna samstarfsins m.a. var það umfjöllunarefni á ráðstefnu í Osló, þar sem ýmsar rannsóknarniðurstöður voru kynntar. Nú síðustu ár hafa rutt sér til rúms ýmis ný ráðningarform sem m.a. gera það óljóst hvort um launþega eða verktaka sé að ræða. Mikilvægt er að kanna stöðu þessara mála á Norðurlöndum. Mikill áhugi er fyrir að skipuleggja ráðstefnu um ráðningarfyrirkomulag í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins á næsta ári.

Ráðstefna um ráðningarfyrirkomulag

d. Atvinnumál innflytjenda.

Helstu áherslur:

  • Efla framlag til baráttunnar gegn kynþátta- og útlendingahatri í þjóðfélaginu.
  • Stuðla að samlögun flóttamanna og innflytjenda í þjóðfélaginu.
  • Efla þátttöku innflytjendakvenna og ungmenna á vinnumarkaði.
  • Tryggja sömu meðferð í atvinnulífinu með tilliti til kyns, kynþáttar, þjóðflokks, trúarbragða eða frá hvaða landssvæði menn koma o.s.fr.v.

e. Upplýsingamál.

Helstu áherslur:

  • Grundvallarreglur norræna fyrirkomulagsins fái hljómgrunn í alþjóðlegu samstarfi.
  • Efla upplýsingar og markaðssetningu á mikilvægum sviðum innan norrænnar vinnumarkaðs- og vinnuumhverfisstefnu.
  • Breiða út almenna þekkingu á mikilvægum vandamálum er varða vinnumarkað og vinnuumhverfi á Norðurlöndunum með því að efla áfram það upplýsingastreymi, sem meðal annars berst í gegnum "Arbetsliv i Norden".
  • Breiða út þekkingu á Norðurlöndunum um Evrópusamstarfið, þar á meðal á Evrópusviðinu.
  • Breiða út þekkingu í Evrópu á grundvallarþáttum norræna fyrirkomulagsins, sem vinnumarkaðs- og vinnuumhverfissviðið felur í sér.

17. Jafnréttismál

Grundvöllur norræns samstarf á sviði jafnréttismála er norræn samstarfsáætlun sem tekur til tímabilsins 1995 til 2000. Samkvæmt henni er markmiðið:

  • að samstarfið leiði til þess að haldið verði áfram að þróa sameiginlega lífssýn Norðurlandaþjóða, svo og sameiginlega stefnu þeirra í víðara samstarfi innan Evrópu og á alþjóðavettvangi,
  • að samstarfið stuðli að árangursríkara og öflugra jafnréttisstarfi á innanlandsvettvangi í hverju og einu Norðurlandanna,
  • að það verði sjálfsagt að gæta jafnréttissjónarmiða í starfi á mismunandi sviðum stefnumótunar í þjóðfélaginu. Einnig skal gæta jafnréttissjónarmiða á þeim sviðum stefnumótunar sem starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar tekur til.

Samkvæmt áætluninni er samstarfinu beint að eftirfarandi málaflokkum:

  • Jöfnum aðgangi kvenna og karla að ákvarðanatöku í stjórnmálum og efnahagsmálum.
  • Jafnri stöðu og áhrifum kvenna og karla í efnahagsmálum.
  • Jafnri stöðu kynjanna í atvinnulífinu.
  • Bættum möguleikum kvenna og karla til að sameina foreldrahlutverk og launavinnu.
  • Þróun jafnréttismála innan Evrópu og á alþjóðavettvangi.

Á grundvelli samstarfsáætlunarinnar hafa jafnréttisráðherrar Norðurlanda samþykkt tvær verkáætlanir, um karla og jafnrétti sem tekur til tímabilsins 1997 til 2000 og um baltneskt - norrænt samstarf á sviði jafnréttismála sem tekur til tímabilsins 1998 til 2000. Jafnréttisráðherrar Norðurlanda leggja árlega fram yfirlit yfir þau verkefni sem þegar er unnið að og fyrirhuguð eru á yfirstandandi ári.

Að öðru leyti mun Ísland leggja áherslu á:

1. Samvinnan á Norðurlöndum

Ísland leggur áherslu á að áfram verði unnið á þeim brautum sem markaðar hafa verið í þegar samþykktum áætlunum. Áhersla verður lögð á þau verkefni er snúa að stöðu kvenna í efnahagslífinu, einkum að því er varðar launajafnrétti kynja. Á árinu 1999 mun koma út fræðsluhefti þar sem kynntar verða aðgerðir og verkefni sem unnin hafa verið á þessu sviði í löndunum fimm frá því Norræna jafnlaunaverkefninu lauk á árinu 1994. Er mikilvægt að fræðsluheftið fái góða kynningu og verði hvati til áframhaldandi aðgerða á þessu sviði.

Nauðsynlegt er að áfram verði markvisst unnið að því að tryggja konum raunverulega jafnstöðu á við karla í efnahagslífinu. Ísland telur mikilvægt m.a út frá samþættingarsjónarmiðinu að vinnumálaráðherrar Norðurlanda komi markvisst að þessu starfi og verða kannaðir möguleikar á því.

Samkvæmt verkáætluninni um karla og jafnrétti kynja verður hafist handa við samvinnuverkefni um karla, jafnrétti og atvinnulíf á árinu 1999. Um er að ræða samstarfsverkefni milli jafnréttis- og vinnumálasviðsins. Markmið þess er að beina sjónum að tengslum karla við atvinnulífið, yfirvinnu og réttindum þeirra varðandi hlutastörf og orlofstöku. Starfsmenning karla og þær væntingar sem gerðar eru til þeirra á vinnumarkaði er lykilatriði í þessu verkefni. Gert er ráð fyrir að skipaður verði norrænn starfshópur til að stýra þessu verkefni.

Á árinu 1999 mun taka til starfa hjá Norrænu rannsóknarstofunni í kvenna- og jafnréttisfræðum (NIKK) starfsmaður sem á að byggja upp, styðja við og samhæfa norrænar karlarannsóknir. Ísland telur mikilvægt og mun beita sér fyrir því að þeir aðilar sem vinna sérstaklega að málefnum karla og jafnrétti, t.d. á jafnréttisskrifstofunum á Norðurlöndum, myndi eins konar ráðgjafarhóp við þennan nýja starfsmann og fái jafnframt möguleika á að mynda með sér tengslanet og styrkja þannig starfið á innlendum vettvangi.

Bæði framangreind verkefni eru tilgreind í verkáætluninni um karla og jafnrétti kynja en hafa verið í biðstöðu m.a. vegna þess að sýnt þykir að þau kalli á einhverja innlenda fjármögnun.

2. Samstarf við ESB

Ísland leggur áherslu á að þau málefni sem eru efst á baugi innan Evrópusambandsins verði á dagskrá norræns samstarfs og þannig verði ekki aðeins tryggt að löndin tvö, Ísland og Noregur, sem ekki eiga aðild að Evrópusambandinu fái nauðsynlegar upplýsingar, heldur einnig að það samhæfingarstarf sem nú á sér stað á þessu sviði sé tryggt.

Þá er mikilvægt að metið sé hverju sinni hvort og þá hvernig þau verkefni sem unnið er að á norrænum vettvangi geti lagt sitt af mörkum til þróunar mála á þessu sviði innan Evrópusambandsins. Þykir í þessu sambandi rétt að huga bæði að hinni nýju stöðu við karlarannsóknir hjá NIKK og því viðamikla verkefni sem nú er á lokastigi um konur og völd á Norðurlöndum.

3. Samstarf við Eystrasaltsríkin

Skipaður hefur verið starfshópur/verkefnisstjórn til að fylgja eftir þeirri áætlun sem samþykkt var í lok ársins 1997 um samstarfsverkefni á sviði jafnréttismála við Eystrasaltsríkin. Áætlunin gildir til ársins 2000. Starfið er rétt að hefjast. Mun Ísland leggja sitt af mörkum til að vel takist til undir sinni formennskutíð.

18. Húsnæðis- og byggingarmál

Á húsnæðisráðherrafundi í Halmstad 15. júní 1998 voru lögð fram drög að samstarfsáætlun fyrir árið 1999. Samstarfsáætlunin var unnin sameiginlega af fulltrúum Svíþjóðar og Íslands í embættismannanefndinni með hliðsjón af formennskuári Íslands.

Verkefni næsta árs.

Starfsáætlun embættismannanefndar um húsnæðis- og byggingarmál (EK- Bygg) byggir á samstarfsáætlun sem húsnæðisráðherrar Norðurlandanna hafa samþykkt fyrir tímabilið 1998-2001 þar sem lögð er áhersla á þrjú megin viðfangsefni:

  • Félagslegir þættir húsnæðismála
  • Sjálfbær þróun í byggingar- og húsnæðismálum
  • Samvinna við grannsvæðin

Jafnframt er lögð til grundvallar formennskuáætlun íslenskra stjórnvalda. Í starfi embættismannanefndarinnar á næsta ári verður lögð áhersla á þátttöku og samstarf við Vestur-Norðurlönd. Norrænt samstarf á sviði húsnæðismála verður kynnt aðilum á þessum vettvangi á Vestur-Norðurlöndum og fulltrúum boðin þátttaka í námsstefnum og fundum á vegum nefndarinnar.

Fjárveitingar til byggingar- og húsnæðismála hafa dregist verulega saman á síðustu árum og takmarkar það möguleika á að ráðast í ný verkefni. Norðurlandanefnd Norðurlandaráðs hefur fjallað um framkvæmdaáætlun í húsnæðis- og byggingarmálum 1998-2001 og leggur þar megináherslu á verkefni um félagslega þætti húsnæðismála. Í starfsáætluninni fyrir 1999 er lögð áhersla á að ljúka þeim verkefnum sem eru í gangi og fylgja þeim eftir með námsstefnum þar sem m.a. yrði lögð áhersla á að kynna þingmönnum Norðurlandaráðs niðurstöður verkefnanna.

Meðfylgjandi eru viðfangsefni samstarfsins á næsta ári.

1. Félagslegir þættir húsnæðismála

Á undanförnum árum hefur verið unnið að rannsóknum á orsökum og afleiðingum félagslegs aðskilnaðar (bostadssegregation) á húsnæðismarkaði á Norðurlöndum. Næsta skref í þessu starfi er að safna saman og kynna dæmi um góðar lausnir á þessu sviði. Embættismannanefndin hefur stofnað til samstarfs við Samband sænskra sveitarstjórna sem hefur tekið að sér undirbúning að norrænu samstarfi um hvernig megi styrkja ímynd íbúðarhverfa og samheldni íbúanna. Í tengslum við þetta verkefni eru áform um rannsóknarverkefni og skoðanaskipti um hvernig beita megi skipulagi og stjórnun húsnæðismála varðandi byggða- og búsetuþróun.

a. Húsnæði fyrir sérhópa

Staða sérhópa á húsnæðismarkaðnum hefur verið í kastljósi umræðunnar síðastliðin ár. Húsnæðismál aldraðra m.a. eru dæmi um þetta. Á árinu 1998 hófst undirbúningur að verkefni undir heitinu ,,húsnæðismál aldraðra í framtíðinni". Markmiðið er að lýsa reynslu af mismunandi fyrirkomulagi húsnæðismálum aldraðra á Norðurlöndum. Gert er ráð fyrir samanburðarrannsókn á fyrirkomulagi og framkvæmd þessara mála. Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað árið 1999 málefnum aldraðra. Lögð er sérstök áhersla á að ljúka þessu verkefni á næsta ári.

b. Húsnæðislöggjöf og efnahagslegt umhverfi

Á árinu 1997 var gefið út á vegum embættismannanefndarinnar rit um Húsnæðislöggjöf Norðurlandanna (Nordisk bustadsrett) og hefur það nú komið út í enskri þýðingu. Á árinu 1999 lýkur verkefni undir heitinu ,,Housing in the Nordic Countries".

Í báðum þessum verkefnum liggur fyrir mjög greinargóð lýsing og samanburður á lögum og reglum sem stýra húsnæðismálum og lánafyrirkomulagi á Norðurlöndum.

Í öllum norrænu löndunum hafa að undanförnu orðið breytingar og eru að verða á stjórnsýslu og þátttöku hins opinbera í húsnæðismálum. Á árinu 1999 verður haldin ráðstefna undir heitinu ,,Bostadsfinanseringens omstrukturering i Norden - individuellt och behovsprövat stöd til konsumtion". Skýrslunar tvær verða til umræðu og umfjöllunar á ráðstefnunni.

Í nefndarstarfinu á þessu ári hefur komið fram umræða um lagalega umgjörð fyrir félög, fyrirtæki og félagasamtök sem starfa að húsnæðismálum. Ástæðan er breytingar á starfsumhverfi húsnæðisfélaga og þær breytingar sem orðið hafa í kjölfar minni þátttöku hins opinbera í lánveitingum til húsnæðismála ásamt nýjum kröfum í kjölfar Evrópusamstarfs. Lagt er til að haldin verði námsstefna þar sem fjallað verði um mismunandi fyrirkomulag þessara mála á Norðurlöndum og reglur Evrópusambandsins þar að lútandi.

2. Sjálfbær þróun

Undir formennsku Svía á yfirstandandi ári hafa verkefni sem tengjast sjálfbæru samfélagi haft forgang. Embættismannanefndin styður námsstefnu um ,,Vistvænar byggingar" (Miljømæssigt bæredygtigt byggeri) sem halda á í byrjun 1999 undir danskri stjórn. Það er mikilvægt, einkum fyrir Ísland, að áframhald verði á norrænum skoðanaskiptum þar sem sérstaklega er fjallað um byggingar- og húsnæðismál í ljósi sjálfbærrar þróunar. Eðli málsins samkvæmt þarf að þróa þessi mál á þverfaglegum forsendum og í rannsóknasamstarfi á breiðum grundvelli. Í þeim efnum væri eðlilegt að embættismannanefndin leitaði samstarfs m.a. við nefnd umhverfismála (EK-Miljø) og eftir samstarfi um rannsóknir á þessum vettvangi við þá aðila sem tengjast því með einum eða öðrum hætti.

3. Grannsvæðin

Fram til þessa hafa samskipti við grannsvæðin verið á grundvelli tengsla milli tveggja landa (bilaterala program). Á árinu 1999 verður lögð áhersla á að miðla sameiginlega upplýsingum og þekkingu á húsnæðismálum á Norðurlöndum til grannsvæðanna á grundvelli rannsóknaverkefnanna ,,Housing in the Nordic Countries" og ,,Boligrett". Boðið verður upp á námsstefnur í löndunum þar sem niðurstöður verða kynntar á vegum embættismannanefndarinnar. Húsnæðisyfirvöldum í Eystrasaltsríkjunum verður boðið að fá til sín slíka kynningarfundi.

19. Iðnaðar- og atvinnumál

Markmið og leiðir

Samstarfið á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um iðnaðar- og atvinnumál byggir að nokkru á hefðbundnum viðfangsefnum og venjum en að öðru leyti á nýlundu og frumkvæði þeirra sem forystu hafa hverju sinni.

Eftir sem áður verður höfuðmarkmið samstarfsins að efla samkeppnishæfi atvinnulífsins á Norðurlöndum og búa þar með í haginn fyrir aukið bjargræði þegnanna og hagsæld.

Samstarfsaðilarnir eru Ráðherranefndin um iðnaðar- og atvinnumál (MR-N) og samnefnd embættismannanefnd (EK-N), svo og Velferðar- og atvinnumáladeild norrænu ráðherraskrifstofunnar í Kaupmannahöfn (NMRS), einnig starfshópar skipaðir til einstakra afmarkaðra ætlunarverka, enn fremur þar að lútandi stofnanir, sem eru Norræni iðnaðarsjóðurinn (NI) og Norræna prófanastofnunin (Nordtest).

Efni

Ráðstöfunarfé til hinna ýmsu ætlunarverka á vegum ráðherranefndarinnar (MR-N) ákvarðast af Norrænu samstarfsráðherranefndinni (MR-SAM) og nemur fjárveitingin á árinu 1999 1,4 millj. DKK. Að auki eru 600 þús. DKK ætlaðar til samstarfsverkefnis um upplýsingatækni í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Norðurlöndum.

Á döfinni

Þegar er hafinn undirbúningur og framkvæmd nokkurra verkefna, sem haldið verður áfram á hinu íslenska formennskuári. Má þar m.a. tilgreina viðfangsefni, er lúta að því að framfylgja niðurstöðum rannsóknar sem gerð var á sóknarfærum og samstarfsáformum um norræna nýsköpun; samstarf atvinnuþátta um umhverfisverndarstefnu í framleiðsluiðnaði; viðfangsefni á sviði upplýsingatækni og rafrænna viðskipta til bættrar samkeppnisstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Auk þess verður um áramótin hrundið af stað verkefni, sem kallast Norðurlöndin sem ein samkeppnishæf heild. Þá er að fara af stað tilraunaverkefni er tekur til rafrænna viðskipta með byggingarvörur.

Ráðagerð

Áhersluatriði á íslenska formannsárinu eru m.a. eftirfarandi:

  • Þörf er talin á nýrri og breiðari sýn á nýsköpunarferlið og hið norræna samstarf um nýsköpunarstefnu. Þar mætti taka mið af víðtækari skilgreiningum en þeim hefðbundnu, sem hingað til hafa að mestu snúist um rannsóknir og tækniþróun. Því er stefnt að því að glöggva og kveða sérstaklega á um almenna þróun atvinnulífsins, með tilliti til þess, að atriði svo sem aðgengi að fjármagni, opinber íhlutun, skipulagning og stjórnun hafi samverkandi áhrif á nýsköpun einstakra fyrirtækja. Þarna hlýtur að koma tilstilli og samræming hins pólitíska valds og stofnana þjóðfélagsins.
  • Annað brýnt mál er svokallað ,,benchmarking" eða samkeppnishæfi á Norðurlöndum. Á þeim vettvangi verða skilgreindar bæði hömlur og möguleikar, er forsvarsmenn fyrirtækja mæta við að skynja Norðurlöndin heildrænt í samkeppninni við umheiminn. Reynt verður að tilgreina svæði þar sem samnorrænt framtak í atvinnumálum getur bætt rekstrarskilyrði fyrirtækjanna. Verði þar horft til nýsköpunar, vinnumarkaðarins, menntunar o.s.frv.
  • Ætlunin er að menn beri saman bækur sínar um reynslu af gildandi lagasetningu, aðferðum og skorðum hvers konar. Með hliðsjón af því verði stefnt að nánara samráði þeirra aðila hins norræna samstarfs, er fara með stefnumörkun í atvinnumálum, vinnumálum og menntamálum.
  • Hugað verður að iðnhönnun sem sérlegu samstarfssviði á hinum norræna vettvangi.
  • Fyrirliggjandi er að Ráðherranefndin efli framtak, í tengslum við viðfangsefni og samstarfsverkefnin á hverjum tíma, sem gæti orðið til þess að bæta forsendur kvenna til atvinnusköpunar og atvinnurekstrar.
  • Sérstætt atvinnusköpunarverkefni, verði að leggja þróun ferðaiðnaðar lið á vestnorrænum slóðum sem og í norðurhéruðum Skandinavíu, með samverkan viðkomandi aðila á þessum svæðum. Í þessu tilliti verði lögð áhersla á þróun ferðaiðnaðar á norðlægum slóðum, þ.e. Grænlandi, Færeyjum og Íslandi sem og hinum samísku svæðum Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Þannig bendir Alheimsferðamálaráðið sérstaklega á, að slík framandi og fáförul landssvæði hafi til að bera stórfellda möguleika til þróunar ferðamannaiðnaðarins sem og atvinnusköpunar og farsældar.

Grannsvæðin

Áframhald verður á samstarfinu við Eystrasaltsríkin til eflingar atvinnulífsins þar. Dæmi þar um mætti nefna verkefnið Nordpraktik. Með því er átt við áætlun sem gefur ungu fólki af grannsvæðunum í Eistlandi, Lettlandi, Litháen og af St. Pétursborgarsvæðinu í Rússlandi, kost á að ferðast um og kynnast starfs- og framleiðsluháttum, sem tíðkast í litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Norðurlöndum.

ESB/EES

Fylgst verður grannt með þeirri þróun innan vébanda Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins, sem kann að hafa hagnýtt gildi fyrir iðnþróun og atvinnulíf á Norðurlöndum.

Ennfremur verður eftir atvikum lögð áhersla á, að efla gagnkvæm tengsl ráðherranefndarinnar (MR-N) og embættismannanefndarinnar (EK-N) við norrænu sendinefndirnar og iðnaðarfulltrúana í Brussel.

Stofnanirnar

Embættismannanefndin fer með mál tveggja stofnana í umboði ráðherranefndarinnar, þ.e. Norræna iðnaðarsjóðsins í Osló (NI) og Norrænu prófanastofnunarinnar (Nordtest) í Espoo í Finnlandi. Starfsemin þar er bæði talin afar mikilvæg og hafa sérlegt gildi fyrir norrænt samstarf. Stjórnskipaðir fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum sitja í stjórnum beggja stofnananna, og munu ráðherranefndin og embættismannanefndin eftir sem áður gaumgæfa og sinna því starfi, sem þar fer fram.

19. Iðnaðar- og atvinnumál

Markmið og leiðir

Samstarfið á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um iðnaðar- og atvinnumál byggir að nokkru á hefðbundnum viðfangsefnum og venjum en að öðru leyti á nýlundu og frumkvæði þeirra sem forystu hafa hverju sinni.

Eftir sem áður verður höfuðmarkmið samstarfsins að efla samkeppnishæfi atvinnulífsins á Norðurlöndum og búa þar með í haginn fyrir aukið bjargræði þegnanna og hagsæld.

Samstarfsaðilarnir eru Ráðherranefndin um iðnaðar- og atvinnumál (MR-N) og samnefnd embættismannanefnd (EK-N), svo og Velferðar- og atvinnumáladeild norrænu ráðherraskrifstofunnar í Kaupmannahöfn (NMRS), einnig starfshópar skipaðir til einstakra afmarkaðra ætlunarverka, enn fremur þar að lútandi stofnanir, sem eru Norræni iðnaðarsjóðurinn (NI) og Norræna prófanastofnunin (Nordtest).

Efni

Ráðstöfunarfé til hinna ýmsu ætlunarverka á vegum ráðherranefndarinnar (MR-N) ákvarðast af Norrænu samstarfsráðherranefndinni (MR-SAM) og nemur fjárveitingin á árinu 1999 1,4 millj. DKK. Að auki eru 600 þús. DKK ætlaðar til samstarfsverkefnis um upplýsingatækni í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Norðurlöndum.

Á döfinni

Þegar er hafinn undirbúningur og framkvæmd nokkurra verkefna, sem haldið verður áfram á hinu íslenska formennskuári. Má þar m.a. tilgreina viðfangsefni, er lúta að því að framfylgja niðurstöðum rannsóknar sem gerð var á sóknarfærum og samstarfsáformum um norræna nýsköpun; samstarf atvinnuþátta um umhverfisverndarstefnu í framleiðsluiðnaði; viðfangsefni á sviði upplýsingatækni og rafrænna viðskipta til bættrar samkeppnisstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Auk þess verður um áramótin hrundið af stað verkefni, sem kallast Norðurlöndin sem ein samkeppnishæf heild. Þá er að fara af stað tilraunaverkefni er tekur til rafrænna viðskipta með byggingarvörur.

Ráðagerð

Áhersluatriði á íslenska formannsárinu eru m.a. eftirfarandi:

  • Þörf er talin á nýrri og breiðari sýn á nýsköpunarferlið og hið norræna samstarf um nýsköpunarstefnu. Þar mætti taka mið af víðtækari skilgreiningum en þeim hefðbundnu, sem hingað til hafa að mestu snúist um rannsóknir og tækniþróun. Því er stefnt að því að glöggva og kveða sérstaklega á um almenna þróun atvinnulífsins, með tilliti til þess, að atriði svo sem aðgengi að fjármagni, opinber íhlutun, skipulagning og stjórnun hafi samverkandi áhrif á nýsköpun einstakra fyrirtækja. Þarna hlýtur að koma tilstilli og samræming hins pólitíska valds og stofnana þjóðfélagsins.
  • Annað brýnt mál er svokallað ,,benchmarking" eða samkeppnishæfi á Norðurlöndum. Á þeim vettvangi verða skilgreindar bæði hömlur og möguleikar, er forsvarsmenn fyrirtækja mæta við að skynja Norðurlöndin heildrænt í samkeppninni við umheiminn. Reynt verður að tilgreina svæði þar sem samnorrænt framtak í atvinnumálum getur bætt rekstrarskilyrði fyrirtækjanna. Verði þar horft til nýsköpunar, vinnumarkaðarins, menntunar o.s.frv.
  • Ætlunin er að menn beri saman bækur sínar um reynslu af gildandi lagasetningu, aðferðum og skorðum hvers konar. Með hliðsjón af því verði stefnt að nánara samráði þeirra aðila hins norræna samstarfs, er fara með stefnumörkun í atvinnumálum, vinnumálum og menntamálum.
  • Hugað verður að iðnhönnun sem sérlegu samstarfssviði á hinum norræna vettvangi.
  • Fyrirliggjandi er að Ráðherranefndin efli framtak, í tengslum við viðfangsefni og samstarfsverkefnin á hverjum tíma, sem gæti orðið til þess að bæta forsendur kvenna til atvinnusköpunar og atvinnurekstrar.
  • Sérstætt atvinnusköpunarverkefni, verði að leggja þróun ferðaiðnaðar lið á vestnorrænum slóðum sem og í norðurhéruðum Skandinavíu, með samverkan viðkomandi aðila á þessum svæðum. Í þessu tilliti verði lögð áhersla á þróun ferðaiðnaðar á norðlægum slóðum, þ.e. Grænlandi, Færeyjum og Íslandi sem og hinum samísku svæðum Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Þannig bendir Alheimsferðamálaráðið sérstaklega á, að slík framandi og fáförul landssvæði hafi til að bera stórfellda möguleika til þróunar ferðamannaiðnaðarins sem og atvinnusköpunar og farsældar.

Grannsvæðin

Áframhald verður á samstarfinu við Eystrasaltsríkin til eflingar atvinnulífsins þar. Dæmi þar um mætti nefna verkefnið Nordpraktik. Með því er átt við áætlun sem gefur ungu fólki af grannsvæðunum í Eistlandi, Lettlandi, Litháen og af St. Pétursborgarsvæðinu í Rússlandi, kost á að ferðast um og kynnast starfs- og framleiðsluháttum, sem tíðkast í litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Norðurlöndum.

ESB/EES

Fylgst verður grannt með þeirri þróun innan vébanda Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins, sem kann að hafa hagnýtt gildi fyrir iðnþróun og atvinnulíf á Norðurlöndum.

Ennfremur verður eftir atvikum lögð áhersla á, að efla gagnkvæm tengsl ráðherranefndarinnar (MR-N) og embættismannanefndarinnar (EK-N) við norrænu sendinefndirnar og iðnaðarfulltrúana í Brussel.

Stofnanirnar

Embættismannanefndin fer með mál tveggja stofnana í umboði ráðherranefndarinnar, þ.e. Norræna iðnaðarsjóðsins í Osló (NI) og Norrænu prófanastofnunarinnar (Nordtest) í Espoo í Finnlandi. Starfsemin þar er bæði talin afar mikilvæg og hafa sérlegt gildi fyrir norrænt samstarf. Stjórnskipaðir fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum sitja í stjórnum beggja stofnananna, og munu ráðherranefndin og embættismannanefndin eftir sem áður gaumgæfa og sinna því starfi, sem þar fer fram.

20. Upplýsingatækni

Í formannstíð Norðmanna árið 1997 og Svía árið 1998 hefur verið lagður grunnur að samstarfi Norðurlandanna á sviði upplýsingatækni. Á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 1999 mun Ísland leggja áherslu á að vinna að þeim markmiðum, sem staðfest voru á ráðherrafundi um samstarf Norðurlanda á sviði upplýsingatækni, sem haldinn var í Haga-höllinni 20. mars 1998. Meginmarkmið samstarfsins eru að:

  • efla lýðræði,
  • tryggja öllum aðgengi að upplýsingasamfélaginu,
  • efla norræn tungumál og norræna menningu,
  • ryðja brautina fyrir rafræn viðskipti,
  • örva uppbyggingu tengsla meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Á ráðherrafundinum var ákveðið að efla samstarf þjóðanna á sviði upplýsingatækni og mynda norrænt tengslanet milli þeirra ráðuneyta sem bera ábyrgð á samræmingu á sviði upplýsingatækni.

Ísland hyggst vinna að þessum markmiðum með því að:

1. Standa fyrir ráðstefnu

Haldin verði ráðstefna á Íslandi þar sem þátttakendur verði þeir aðilar sem vinna að stefnumótun og framkvæmd stefnu landanna um upplýsingasamfélagið.
Tilgangur ráðstefnunnar verður að skiptast á upplýsingum um hvað löndin eru að gera á þessu sviði, hvað er í bígerð, spá fyrir um þróun næstu ára og undirbúa formlega gangsetningu tengslanets embættismanna.

Haldinn verði embættismannafundur til að undirbúna ráðstefnuna þar sem rætt verði um fyrirkomulag hennar og dagskrá.

Ráðstefnan verði t.d. haldin í júní, á sama tíma og fundur forsætisráðherra Norðurlanda er í Reykjavík.

2. Gefa út skýrslu um stöðu og stefnu Norðurlanda í upplýsingatæknimálum

Í tengslum við ráðstefnuna verði gefin út skýrsla um þróun upplýsingasamfélagsins á Norðurlöndum sem dreifa mætti til lykilaðila í Evrópu og birta á Veraldarvefnum.

3. Koma á rafrænu tengslaneti og vefsíðum

Komið verði á rafrænu tengslaneti milli þeirra aðila sem fara með stefnumótun og framkvæmd stefnu stjórnvalda í hverju landi. Settur verði upp póstlisti þar sem fréttum og upplýsingum, sem nýst geta öðrum löndum, er reglulega komið á framfæri. Póstlistinn verði jafnframt sá vettvangur sem notaður væri til að einstaklingar sem vinna á þessu sviði geti skipst á skoðunum um þau mál sem efst eru á baugi hverju sinni.

Komið verði upp sérstökum vefsíðum fyrir almenning og fyrirtæki þar sem miðlað verður upplýsingum um það nýjasta sem er að gerast í málefnum upplýsingasamfélagsins á Norðurlöndum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum