Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Aukin gæði með stærri háskólaeiningum og samstarfi

Aukin gæði með stærri háskólaeiningum og samstarfi - myndHáskóli Íslands

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kynnti nýlega niðurstöður úr Samstarfi háskóla fyrir árið 2023. Alls var tæplega 1,6 milljarði króna úthlutað til 35 fjölbreyttra verkefna sem skiptast í sex áhersluflokka sem allir hafa það að markmiði að auka gæði háskólanáms og samkeppnishæfni íslenskra háskóla.

Mestum fjármunum, um 709 m.kr., er ráðstafað í áhersluflokkinn Sameining háskóla. Þar er fyrirhuguð sameining Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst annars vegar og háskólasamstæða Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum hins vegar efst á blaði. Þar að auki eru verkefni á borð við vettvangsakademíu á Hofstöðum í Mývatnssveit, ferðamálanám og þverfaglegt nám í sjálfbærri byggðafræði styrkt í þessum flokki.

Stóraukin tækifæri í rannsóknastarfi um land allt

Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Bifröst fá 250 milljóna króna stofnframlag í nýjan rannsóknasjóð sameinaðs háskóla auk 200 milljóna króna styrks að undirbúa sameiningu skólanna. Niðurstaða fýsileikagreiningar um aukið samstarf og hugsanlega sameiningu skólanna leiðir í ljós að sameining gæti leitt til stóraukinna tækifæra í rannsóknastarfi um land allt. Í undirbúningi og framkvæmd sameiningar felst m.a. samræming á kennslu-, upplýsinga- og mannauðskerfum skólanna sem og samræming námsframboðs og rannsókna. Þá kemur fram í lýsingu verkefnisins að við sameiningu skapist möguleikar til að koma til móts við fjölbreyttari þarfir nemenda í nútímasamfélagi óháð búsetu og að þannig fá fleiri raunverulegt val um hvað þau búa og starfa.

Stofnframlagi í nýjan rannsóknasjóð sameinaðs háskóla er ætlað að styrkja rannsóknateymi og stoðþjónustu rannsókna, auk þess að skapa frekari tækifæri til sóknar í alþjóðlega sjóði og þátttöku í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum. Framlag úr Samstarfi háskóla er til þess að unnt sé að setja sjóðinn á laggir sem allra fyrst, óháð annarri fjármögnun, en vonir eru bundnar við að sjóðurinn geti vaxið umtalsvert til lengri tíma.

Aukin tengsl við atvinnulíf og samfélag með háskólasamstæðu

200 milljónum króna er úthlutað til myndunar háskólasamstæðu Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum. Með háskólasamstæðunni eflast rannsóknir og tengsl við atvinnulíf og samfélag um landið allt ásamt auknu framboði fjölbreyttra námsleiða. Litið verður til þess að styrkja Háskóla Ísalands sem leiðandi háskóla í íslensku samfélagi og Háskólann á Hólum sem sérhæfðan háskóla á landsbyggðinni. Með þessu verður HÍ flaggskipsháskóli samstæðunnar og Hólaskóli sjálfstæður kampus með starfsemi á Hólum í Hjaltadal og á Sauðárkróki.

Fjölbreytt námsframboð á landsbyggðinni með auknu samstarfi

Auk fjármagns til myndunar háskólasamstæðu fá þrjú mismunandi samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Háskólann á Hólum fá einnig styrk.

Á Hofstöðum í Mývatnssveit verður komið á fót vettvangsakademíu fyrir kennslu og rannsóknir á sviði fornleifafræði, minjaverndar og menningarferðaþjónustu. Þar verður boðið upp á fjölbreytt námskeið og meistara- og doktorsstigi og aðstöðu til þverfaglegra vettvangsrannsókna, tilrauna og þróunar til að byggja upp þekkingu á íslenskri menningarsögu og hagnýtingu hennar. Verkefnið er unnið í samstarfi við Minjastofnun Íslands.

Ferðamálanám er kennt við bæði Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum. Með verkefninu Ferðamálanám til framtíðar verður rýnt í leiðir til nýsköpunar í kennsluháttum og sérstaklega verður litið til samþættingar og samstarfs á sviði meistaranáms og eflingar þess með auknu alþjóðlegu samstarfi.

Stefnt er að þróun þverfaglegs nám í sjálfbærri byggðafræði á grundvelli þeirrar sérþekkingar sem er til staðar við Háskólann á Hólum og innan margra fræðasviða Háskóla Íslands. Verkefnið eflir innra samstarf skólanna og samstarf við Byggðastofnun og rannsókna- og þekkingarsetur um land allt auk þess að styðja við myndun háskólasamstæðu. Áætlað er að meistaranám í faginu hefjist haustið 2025.

---

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ráðstafað fjármunum af safnlið háskólastigsins til samstarfsverkefna háskólanna með það að markmiði að auka gæði háskólanáms og samkeppnishæfni íslenskra háskóla. Samstarf háskóla er þegar fjármagnað af safnlið háskólastigsins en með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum er fjármögnun á háskólastigi gerð gagnsærri en áður hefur verið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum