Hoppa yfir valmynd
6. mars 2024 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra heimsækir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, heimsótti nýverið starfsstöð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í Kópavogi. Sigríður Kristinsdóttir sýslumaður tók á móti ráðherra ásamt sínum helstu stjórnendum og starfsfólki.

Sýslumannsembættið á höfuðborgarsvæðinu þjónar um 2/3 þjóðarinnar sem búsett er á þjónustusvæði þess. Starfsmenn embættisins eru rúmlega 90 talsins og eru þrír af hverjum fjórum starfsmönnum konur. Starfsstöð embættisins er í Hlíðasmára 1 í Kópavogi.

Rekstur batnar og málum fjölgar

Í heimsókninni fór sýslumaður sérstaklega yfir rekstur embættisins með ráðherra ásamt því að gera nánari grein fyrir verkefnastöðunni. Í kynningu sýslumanns kom fram að fjárhagslegur rekstur embættisins hefur batnað á undanförnum árum og hefur tekist að snúa við neikvæðri rekstrarstöðu áranna 2020 og 2021.  Embættið hefur einsett sér að bæta eftirfylgni með mælingum til að geta betur fylgst með þróun mála og árangri. Málafjöldi á fjölskyldusviði hefur aukist úr 4.500 málum árið 2020 í 5.400 mál árið 2023. Á sama tíma hefur mótteknum skjölum vegna þinglýsinga fækkað mikið. Árið 2020 tók embættið á móti 96.700 skjölum til þinglýsingar en árið 2023 er þessi fjöldi kominn niður í 56.000 skjöl.

Stafræn vegferð

Miklar vonir eru bundnar við stafræna vegferð sýslumanna og er áhrifa þeirrar vegferðar þegar tekið að gæta t.d. í aflýsingum skjala, en á síðasta ári var um 23 þúsund af 30 þúsund skjölum aflýst rafrænt. Ljóst þykir að öflugt samstarf allra sýslumannsembættanna, aukin aðkoma Sýslumannaráðs að innleiðingu stafrænna lausna og náið samráð við Stafrænt Ísland o.fl. haghafa hefur haft jákvæð áhrif í þeim efnum og bætt umtalsvert þjónustuna frá því sem áður var.

Leyfum og skírteinum fjölgar

Útgáfa hinna ýmsu leyfa, svo sem vegna áfengissölu, rekstrar og gististaða, og fasteignasölu, fer stöðugt vaxandi og voru 3.350 slík leyfi afgreidd á árinu 2023. Vöxturinn í heimagistingu sést glögglega í leyfisveitingum sýslumanns því um 2.200 ný leyfi til heimagistingar voru afgreidd árið 2023 og ríflega 1.500 leyfi endurnýjuð. Umsóknir um ökuskírteini hafa tekið mikinn kipp eftir Covid-árin því árin 2021 og 2022 var tekið við 24.000 umsóknum um skírteini á ári og árið 2023 voru umsóknirnar 27.800 talsins. Fjöldi umsókna um vegabréf á einu ári náði einnig nýjum hæðum en árið 2023 tók sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu við 36.500 umsóknum um vegabréf á meðan önnur embætti og sendiráð fengu samtals 21.000 umsóknir.

Ráðherra, aðstoðarmenn og starfsfólk ráðuneytisins heilsuðu upp á starfsfólk í hinum ýmsu deildum og áttu að lokum gott spjall við stjórnendur og sýslumann um helstu áskoranir og tækifæri sýslumannsembættanna til framtíðar.

Á mynd

Á myndinni eru Einar Jónsson, sviðsstjóri fullnustu- og skiptasviðs, Nanna Tómasdóttir þjónustu- og þróunarstjóri, Ásdís Halla Arnardóttir, sviðsstjóri þinglýsinga- og leyfasviðs, Eyrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs, Sigríður Kristinsdóttir sýslumaður, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, Árni Grétar Finnsson, aðstoðarmaður ráðherra, Berglind Bára Sigurjónsdóttir, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, Björg Ásta Þórðardóttir, aðstoðarmaður ráðherra og Guðni Geir Jónsson fjármálastjóri.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum