Hoppa yfir valmynd
11. mars 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Samvinnufélög á forsendum samfélaga: Drög að breytingu á lögum um samvinnufélög í samráðsgátt

Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um samvinnufélög hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Um er að ræða uppfærslu á löggjöf frá árinu 1991 en meginmarkmið frumvarpsins er að renna tryggari stoðum undir rekstur samvinnufélaga.

Viðamesta breytingin lýtur að því að einfalda stofnun samvinnufélaga, þannig að lágmarksfjöldi stofnenda samvinnufélaga fari úr 15 í 3. Þá er í frumvarpinu að finna minni háttar lagfæringar á löggjöfinni til að gera hana aðgengilegri. Í frumvarpinu eru einnig tillögur um að sett verði almenn reglugerðarheimild í lög um Evrópufélög og lög um evrópsk samvinnufélög.

Önnur mikilvæg breyting miðar að því að sporna við að félagsmenn í samvinnufélagi geti tekið félagið yfir og útdeilt eignum þess til félagsmanna í stað þess að styðja áframhaldandi uppbyggingu á starfssvæði eða á starfssviði félagsins. Er því lagt til að felld verði brott heimild til að breyta rekstrarformi samvinnufélags í hlutafélag, takmarkanir verði settar við hámarksfjárhæð aðildargjalds og þrengri skorður verði settar við slit félags.

,,Breytingunum er ætlað að treysta grundvöll samvinnufélaga og tryggja að hagsmunir þeirra samfélaga þar sem þau kunna að vera starfrækt njóti vafans ef til slita kemur á félagi. Ég tel það eðlilegt þegar um er að ræða fyrirtæki sem byggð eru upp af félagsmönnum á forsendum samfélagsins. Aukinheldur vil ég auðvelda fólki að vinna saman undir þessu félagaformi með því að fækka lágmarksfjölda stofnenda,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

 


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum