Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2010 Forsætisráðuneytið

Ræða Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins miðvikudaginn 21. apríl 2010

Kæru aðalfundargestir!
Tímarnir sem við lifum nú hafa minnt okkur rækilega á þær takmarkanir sem náttúruöflin setja okkur og hversu viðkvæm nútíma tækni er fyrir truflunum af þeirra völdum. Um leið eru þeir atburðir sem setja mark sitt á þessi misserin okkur áminning um hversu háð við erum hvert öðru, einstaklingarnir og þjóðirnar.

Það getur enginn staðið einn, hvorki þjóð né einstaklingur, við erum öll háð samhjálp og samvinnu þegar á bjátar.

Frammi fyrir áföllum, hvort sem þau eru af manna völdum eða verða þegar regindjúpin ræskja sig, þá stöndum við fyrst agndofa, en síðan hefst björgunarstarfið.

Á síðustu árum hefur tekist að einfalda og samhæfa alla stjórnun björgunaraðgerða á Íslandi þegar um er að ræða náttúruvá eða slys. Þegar um eldgos er að tefla eru til nákvæmar viðbragðsáætlanir um gos í okkar helstu eldstöðvum. Þetta gerir það að verkum að festa, yfirvegun og örugg yfirsýn einkennir aðgerðir og stjórnun þeirra. Þessi framganga skapar traust og veitir öryggi, bæði hér heima og erlendis.

Hversu mjög hefðum við ekki þurft á að halda slíkum viðbúnaði þegar fjármálakerfi okkar riðaði til falls á árinu 2006 og féll að lokum haustið 2008. Staðreyndin er hins vegar sú að íslenskum stjórnvöldum bauðst að vera með í gerð samnorrænnar áætlunar um viðbúnað gegn fjármálakreppu, en ákváðu að draga sig út úr því starfi vegna þess að Ísland gat ekki kveðið upp úr með það hvort ríkið stæði á bak við bólubankana eða ekki. Um þetta má lesa í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eins og fleira sem niðurlægir okkur sem þjóð.  Rannsóknarskýrslan sýnir okkur svo ekki verður um villst að því miður sýndu allir áhrifahópar andvaraleysi í aðdraganda hrunsins og mikill doði og afneitun einkenndi ekki einungis stjórnvöld heldur einnig aðra hagsmunaðila í samfélaginu.

Það er hefð fyrir því á Íslandi að standa saman gagnvart náttúruhamförum og slysum og við slíkar aðstæður sýnum við svo sannarlega hvað í okkur býr. Eftir fjármálaáfallið þurfum við að ná áþekkri samstöðu um að girða fyrir að slíkt geti gerst aftur, og að hér verði komið upp viðvörunar- og viðbúnaðarkerfi sem bregst við ef í það stefnir. Eftirlit með fjármálamarkaði verður stóraukið. Í því skyni hafa meðal annars verið lögð fram frumvörp um fjármálamarkaðinn, um tryggingasjóð innistæðueigenda og verðbréfamarkaðinn sem er nú til umfjöllunar á Alþingi.  

Án trausts fjármálakerfis þrífst ekkert nútímasamfélag og því hefur það verið eitt helsta forgangsverkefnið að skjóta styrkum stöðum undir endurreistar fjármálastofnanir og ljúka fjármögnun viðskiptabankanna. Segja má að það verkefni sé í höfn, þótt enn eigi eftir að gera upp við kröfuhafa og endurskipuleggja margt í starfsemi bankanna og umsvifum. Um leið og kröfur hafa verið endanlega metnar þarf að birta hverjir teljast vera eigendur Íslandsbanka og Arion banka, en allt bendir til að eignaraðildin verði mjög dreifð og að meðal stærstu hluthafa verði íslenskir lífeyrissjóðir og stórir erlendir bankar.

Og vitnisburður rannsóknarskýrslunnar um háttalag helstu forkólfa atvinnulífsins sem var, hlýtur að verða lagður til grundvallar með öðru þegar metið er hvort viðkomandi aðilar séu verðir áframhaldandi samstarfs eða trausts. Róttækar breytingar á lagaumhverfi fjármálastofnana og stóreflt eftirlit FME og Seðlabanka munu auðvitað breyta miklu en nýir stjórnendur munu axla mikla ábyrgð í þessum efnum. Eitt af mikilvægustu verkefnum þeirra er að byggja upp traust þjóðarinnar til þessa nýja bankakerfis og til þess nýja atvinnulífs sem hér er að mótast.

Við þurfum nýja siði, nýjan hugsunarhátt og ný vinnubrögð í bönkunum. Ofurlaun og bónusar eiga að heyra sögunni til, leynimakkið og ógengsæ eignarhaldsfélög eiga að heyra sögunni til!
Skattsvikahagkerfið sem þreifst í gömlu bönkunum í skjóli leyndarinnar á einnig að heyra sögunni til!
Skilanefndirnar hafa starfað á gráu svæði eða óljósu og þær eiga ekki að vera við lýði deginum lengur en bein þörf er á. Pukur, óhóf og sjálftaka í fjármálakerfinu á að heyra sögunni til, aðeins þannig tekst okkur ætlunarverkið um að öðlast traust þjóðarinnar á fjármálakerfinu.

Samhliða endurreisn bankanna hefur það verið annað helsta nauðsynjamálið að ná tökum á skuldum ríkisins. Styrk stjórn fjármála ríkis og sveitarfélaga er ekki aðeins forsenda framfara heldur í raun sjálfstæðismál þjóðarinnar við núverandi aðstæður.

Bætt skuldastaða hins opinbera hefur skilað þeim árangri að draga má úr áætluðum samdrætti ríkisútgjalda miðað við fyrri viðmið. Engu að síður verður að skera verulega niður hjá hinu opinbera á næsta fjárlagaári. Ríkisstjórnin hefur þegar kynnt áform um 30-40% fækkun ríkisstofnana, sameiningu og einföldun í ríkisrekstri, samruna ráðuneyta og fækkun ráðherra. Rannsóknarskýrsla Alþingis bendir okkur á að smáar og vanburða einingar í stjórnkerfinu, sem margar fást við áþekk verkefni eru ekki líklegar til að skila tilætluðum árangri. Uppstokkunar og endurskoðunar er þörf. Sameiningar á ýmsum sviðum eru þegar komnar til framkvæmda og aðrar eru í umfjöllun á vettvangi Alþingis. Ljóst er að með slíkri hagræðingu má ná umtalsverðum sparnaði til frambúðar án þess að grundvallarþjónusta skerðist.

Eitt atvinnuvegaráðuneyti er markmið hjá ríkisstjórninni og með slíkri sameiningu má styrkja og efla umhverfi atvinnuvega hér á landi. Það hafa allar atvinnugreinar á Íslandi þörf fyrir stefnumótun, rannsóknir, nýsköpun og þróun og um það á starfsemi nýs atvinnuvegaráðuneytis að snúast. Í því efni veit ég að þið eruð mér sammála en það er hins vegar að halda í liðna tíð að viðhalda ráðuneytum kringum sérhagsmuni einstakra atvinnugreina.

Ágætu gestir.
Samtök atvinnulífsins hafa haldið því fram að ekki hafi verið staðið við þau markmið stöðugleikasáttmálans að hlutfall aukinna skatta yrði 45% en niðurskurður á útgjöldum ríkisins 55%. Opinberar tölur sýna hins vegar að í ár eru 40% skattamegin en 60% útgjaldamegin. Það er því meira skorið en skattað þótt öðru sé sífellt haldið fram.
Launagreiðslur á vegum ríkisins lækkuðu um 5% á árinu 2009. Markmið um samdrátt í útgjöldum ársins 2009 náðust fram og í ár er um að ræða 54 milljarða króna niðurskurð eða lækkun á útgjaldahorfum. Ég finn það sjálf í mínu ráðuneyti að þá má vel skera niður og það hef ég svo sannarlega gert um allt að 70 % í ýmsum liðum. Menn hafa vanið sig á ýmsan óþarfa í anda ársins 2007 innan stjórnsýslunnar og ég vil sjá þá tiltekt sem nú er hafin halda áfram.

Nú er gert ráð fyrir að skuldir hins opinbera verði töluvert minni en áætlað var eftir hrunið og verði að hámarki 95% af landsframleiðslu árið 2014 sem jafngildir 65% hreinni skuldastöðu í hlutfalli við landsframleiðslu. Þetta er afar mikilvægt því það sýnir að Ísland er ekki í neinum sérflokki hvað skuldasöfnun varðar í hópi þjóða. Um margt erum við að standa okkur betur í uppgjörinu en aðrar þjóðir og takast á við vandamál sem víða annars staðar hafa verið geymd til síðari tíma.

Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkti síðastliðinn föstudag aðra endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS. Það var árangur af tvennu. Í fyrsta lagi hafa íslensk stjórnvöld uppfyllt öll skilyrði og staðið sig um margt betur en ætlað var, eins og fram hefur komið hjá Dominique Strauss-Kahn forstjóra sjóðsins. Og í öðru lagi vegna þrotlausrar vinnu íslenskra stjórnvalda við að brjóta á bak aftur tenginguna við Icesave. Þar holaði dropinn steininn.
Markmiðum um stöðugt gengi hefur verið náð og gert er ráð fyrir að verðbólga fari ört lækkandi. Við erum á góðri leið með að treysta efnahagsstöðugleikann, draga úr áhrifum samdráttar á skuldsett heimili og og fyrirtæki og ná viðspyrnu í vexti landsframleiðslu.

Fyrst og fremst sýnir ákvörðun AGS að samstarfsþjóðir okkar innan hans bera traust til þess árangurs sem við höfum náð og getu Íslendinga til að ná markmiðum sínum. Þetta traust ætti að skila sér í þýðu á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði sem hefur verið frosinn gagnvart Íslendingum. Fyrirgreiðslan tryggir lausafjárstöðu ríkisins og er gæðastimpill á efnahagsstefnu stjórnvalda. Hún er líkleg til þess að greiða fyrir erlendum lánum til orkufyrirtækjanna og þar með auknum virkjanaframkvæmdum.

Frá því tilkynnt var um að efnahagsáætlunin yrði tekin fyrir í stjórn AGS hafa vextir ríkissjóðs af skuldabréfum allt fram til ársins 2025 lækkað verulega. Endurskoðunin leiðir því þegar til lækkandi fjármögnunarkostnaðar ríkisins.
 
Stjórnvöld fá nú aðgang að lánum frá AGS, öðrum norrænum ríkjum og Póllandi og draga úr líkum að Seðlabankinn þurfi að snúa sér að plani B - sem felst í hærri vöxtum og veikara gengi með kaupum á gjaldeyri. Plani B hefði einnig fylgt aukin samdráttur ríkisútgjalda. Engin ástæða er til þess að óttast greiðslufall ríkissjóðs næstu árin.

Við gerum því ráð fyrir að skuldatryggingarálag lækki. Þar með lækkar áhættuálag á ríkissjóð og Seðlabankinn ætti því að eiga auðveldara með að lækka vexti. Einhver dráttur verður vafalítið á rýmkun gjaldeyrishafta en að því verður að stefna sem fyrst, því atvinnulífið mun ekki þrífast í þeirri spennitreyju til langframa.

Vísbendingar eru um að einkaneysla sé að ná jafnvægi og vinnumarkaðurinn hefur verið nokkuð stöðugur síðustu mánuði. Ástæða er til þess hafa áhyggjur af því að langtímaatvinnuleysi festist í sessi hjá ákveðnum hópum á vinnumarkaði og gegn því þarf að berjast af alefli.

Utanríkisverslun gengur vel með áframhaldandi afgangi á viðskiptajöfnuði. Fjárfestingar eru enn mjög veikar og hætta á að svo verði enn um sinn, ekki síst í ljósi mikillar skuldsetningar nær allra atvinnugreina. Því er afar brýnt að bankarnir vinni hratt og örugglega að endurskipulagningu á fjárhag helstu fyrirtækja og geri það á þann veg að það þoli alla skoðun.

Lágt raungengi gefur íslenskum fyrirtækjum verulegt samkeppnisfæri sem við sjáum þau þegar ná að nýta sér - ekki síst í þjónustugreinum.

Kæru aðalfundargestir.
Af stað segið þið nú hjá Samtökum atvinnulífsins. Ég tek undir það og tel einnig að nú sé lag. Fjármálakerfið íslenska hrundi en ekki raunhagkerfið. Það er sterkt.

Til sjávarins eru flest teikn jákvæð. Þorskurinn er á hægri uppleið, norsk íslenski síldarstofninn, sem áður stóð undir góðærum á Íslandi, er nú í sögulegu hámarki. Ný tegund, makríllinn, er að skila 200 þúsund tonnum inn í efnahagslífið og skötuselurinn er farinn að skipta máli í veiðum eins og deilur um hann eru órækt vitni um.

Heimurinn er að sigla út úr kreppunni og það mun vafalítið einnig færa okkur betra verð á afurðum. Staðan nú leyfir ekki annað en að við leitum allra leiða til að hámarka afrakstur samfélagsins af auðlindum okkar til sjávar.

Við munum finna leiðir til þess að nýta orkulindir okkar – þær þurfum við að nýta og eigum að gera á ábyrgan hátt. Á Suðurlandi, á Reykjanesi, Hellisheiði og í Þingeyjarsýslum eru margir virkjanakostir sem hægt er að nýta þegar í dag. Nú eru að skapast aðstæður fyrir orkufyrirtæki okkar að hefjast handa með verkefnafjármögnun í samstarfi við innlenda og erlenda aðila, og þau þurfa að láta hendur standa fram úr ermum. Afgreiðsla rammáætlunar um verndun og nýtingu, sem stefnt er að því að klára á þessu þingi, mun síðan færa okkur möguleika til þess að gera áætlanir um orkunýtingu til lengri tíma. Meiri fjárfestingar er þörf í íslensku efnahagslífi og það væri þarft og heilbrigt ef um erlenda fjárfestingu yrði að ræða í verulegum mæli.

Ríkistjórnin hefur fyrir sitt leyti ýtt undir fjárfestingar með sérstökum lögum um hvata til fjárfestinga í þróun og nýsköpun og umhverfi þeirra 400 sprotafyrirtækja sem hér eru að skjóta rótum er að þessu leyti með því allra besta sem þekkist. Þar er framtíðin og hinar nýju aflvélar atvinnulífsins.

Enda þótt eldgosið hafi skapað ákveðna óvissu kringum ferðaþjónustuna þá er hún vaxtarbroddur um allt land og undirstaða aukinnar fjölbreytni í avinnulífi þar sem það er of einhæft. Framkvæmdasjóður ferðaþjónustunnar, sem vonandi kemst á laggirnar á þessu vori, markar upphaf nýrrar sóknar í uppbyggingu sem á að undirbúa okkur undir að taka við milljón ferðamönnum eftir tíu ár.

Við höfum ekki borið gæfu til þess að vera sammála um auðlindanýtingu í hafinu. Þar vegast á miklir hagsmunir og ólík sjónarmið. Í því sambandi vek ég athygli á að nefnd um fyrirkomulag leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins hefur nýverið skilað áliti og eru nefndarmenn sammála um nokkrar grundvallaratriði: tímabundna ráðstöfun auðlindaréttinda; möguleika á framlengingu með ábyrgri nýtingu; gjald fyrir nýtingarrétt og gegnsæi í úthlutun afnotaréttar þar sem jafnræðissjónarmið verði leiðarljós. Ég er að vona að að skýr framsetning þessara grundvallarviðhorfa hjálpi okkur til þess að ná samkomulagi um almennar reglur sem gildi um auðlindanýtingu hverju nafni sem auðlindirnar nefnast.

Stöðugleikasáttmálinn hefur skipt verulegu máli í samfélagi sem hefur þurft að takast á við fjölþætt vandamál. Hann á veigamikinn þátt í þeim árangri sem þó hefur náðst í efnahagsmálum. Enda þótt deilur hafi staðið um einstaka þætti hans skiptir þó höfuðmáli að unnið hefur verið samviskulega og látlaust að framkvæmd hans.

Nú á vordögum liggur fyrir niðurstaða geysilega mikillar og góðrar vinnu sem unnin hefur verið um land allt á grundvelli sóknaráætlunar til ársins 2020. Fjölmargir hafa komið að þessari vinnu og þar á meðal margir fulltrúar atvinnulífsins sem hér eru staddir í dag. Þar hefur verið fjallað um atvinnuþróun og atvinnuuppbyggingu og sóknarfæri á hverju landsvæði fyrir sig og fyrir  landið í heild.

Ég vil að nú þegar verði unnið úr þessum upplýsingum og niðurstöðum með markvissum hætti og að án tafar verði hafin vinna við að samþætta og sameina ýmsar áætlanir sem unnið hefur verið eftir árum saman hér á landi. Ég nefni samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og byggðaáætlun, ég nefni stefnu vísinda- og tækniráðs og rannsóknarsjóði ýmiss konar og nýsköpunarsjóði. Að mínu mati hafa þessar áætlanir og sjóðir dreifst um of og skort verulega a samhæfingu þeirra.  

Með því að sameina þessar áætlanir í eina sóknaráætlun fyrir landið í heild munum við efla samkeppnishæfni þjóðarinnar og tryggja hér menntun, verðmætasköpun og atvinnuppbyggingu til frambúðar. Þar verður meðal annars litið til þess hvernig hér má skapa fjölbreytt vel launuð og gjaldeyrisskapandi störf auk þess að tryggja hér almenna menntun sem nýtist atvinnulífinu vel.  

Það er grundvallaratriði að fulltrúar atvinnulífsins komi að þessari vinnu með stjórnvöldum á næstu vikum og mánuðum. Ég vil að þessi vinna verði tengd undirbúningi á endurskoðun kjarasamninga og heildarendurskoðun á skattkerfinu sem nú er að fara af stað,. Undirbúningur kjaraviðræðna er eitt af mikilvægustu verkefnum samfélagsins framundan og þar eru stjórnvöld fús að koma að málum eins og skylt er.

Allir aðilar stöðugleikasáttmálans hafa skorað á Samtök atvinnulífsins að koma aftur að borðinu. ASÍ gerði í gær gott betur og kallaði eftir því að samhliða því sem áfram yrði unnið að þeim verkefnum úr sáttmálanum sem eru í farvegi, yrði sameinast um nýja aðgerðaáætlun í efnahags- og atvinnumálum út frá þeim forsendum sem nú liggja fyrir m.a. á grunni afgreiðslu AGS í síðustu viku. Ég vil fyrir mitt leyti skora á Samtök atvinnulífsins að koma að slíku borði enda er um brýna þjóðarhagsmuni að ræða. Öllum ber nú skylda til að leggjast á árarnar til frekari sóknar.


Góðir aðalfundargestir.

Ríkið hefur unnið að fjölþættum aðgerðum til þess að auka framkvæmdir og styrkja atvinnustigið. Allt þokast þar áfram í rétta átt þótt hægara gangi en mörgum líkar. Við eigum þann kost að flýta framkvæmdum á stofnbrautum kringum höfuðborgina með notendagjöldum í framtíðinni eða láta okkur nægja lengri framkvæmdatíma með framlögum af samgönguáætlun. Ákvörðun um þetta mál verður í höndum Alþingis.  
Framkvæmdir við samgöngumiðstöð í Reykjavík og flugstöð á Akureyri eru í sjónmáli. Þriggja ára áætlun um margmilljarða viðhaldsframkvæmdir sem nær til landsins alls er í undirbúningi og fyrir Alþingi liggur frumvarp um  að bæta skattafslætti við 100% niðurfellingu á virðisaukaskatti til þess að hvetja almenning til viðhaldsframkvæmda á tímum þegar byggt hefur verið nóg til næstu ára.

Áætlanir um 360 hjúkrunarrými og byggingu nýs fangelsis eru vel á veg komnar í samstarfi við lífeyrissjóði. Og framkvæmdir við Tónlistar- og ráðstefnuhús halda áfram af fullum krafti svo og undirbúningur að byggingu nýs Landspítala. Þannig mætti lengi telja.   

Ég sagði í ræðu á mínum flokksvettvangi að pólitíska valdið ætti að vera mótvægi við efnahagslegt vald atvinnulífsins og einkageirans. Að vera mótvægi þýðir ekki að pólitíska valdið eiga að vera á móti atvinnulífinu. Þarna er um svipaða nauðsyn að ræða og þegar sagt er að skýr valdmörk eigi að vera á milli einstakra þátta ríkisvaldsins, það er að segja löggjafarvaldsins, framkvæmdavaldsins og dómsvaldsins. Á sama hátt er ekki æskilegt að samkrull sé á milli einkageirans og hins opinbera, heldur gegni hvor um sig skýrt afmörkuðu hlutverki. Samkrullið hefur verið afgreitt sem höfuðmeinsemd í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Í mínum huga vegnar okkur best með frjálsum viðskiptum í opnu og alþjóðlegu hagkerfi þar sem pólitíska valdið setur atvinnulífinu laga- og regluramma og hefur virkt eftirlit með því að honum sé framfylgt. Samskiptin fari eftir almennum leikreglum sem séu gegnsæjar þannig að hægt sé á hverjum tíma að sannreyna að þeim hafi verið fylgt.

Ég hefi í störfum mínum reynt að fylgja þessu grundvallarsjónarmiði og hef ekki freistast til þess að grípa til handstýringar eða stjórnunar með tilskipunum sem falla utan ramma hins formlega stjórnkerfis. Það má vel vera að mönnum finnist slíkir stjórnarhættir seinvirkir og að þeir skili okkur seint í áfangastað. En þá verður bara að hafa það. Betra er að stýra heilum báti í höfn en að fara sér að voða.

Ágætu aðalfundargestir.
Við munum afla okkur endurnýjaðs trausts á alþjóðavettvangi ef við hvikum ekki frá þeim áætlunum sem við höfum gert. Ef við höldum fast við framkvæmd efnahagsáætlunar Íslands og AGS, ef við framfylgjum stöðugleikasáttmálanum, vinnum saman að framgangi og sókn og ráðumst í brýnar kerfis- og lýðræðisumbætur.

Íslendingar þurfa nú að móta stefnu til langs tíma. Gamla hagkerfið – með sitt einhæfa atvinnulíf, helmingaskipti og raðgengisfellingar – er ekki eftirsóknarverður valkostur. Frjálshyggjutilraunin sem hrundi með bankakerfinu á ekki afturkvæmt.

Hún átti aldrei erindi við okkur. Við þurfum endurreisn en ekki afturhvarf.

Við þurfum framsýni og víðsýni sem byggð er á skynsemi. Við þurfum að sýna þeim sem við þjónum virðingu og stíga hvert skref af skynsemi með langtímahagsmuni þjóðarinnar í huga. Við þurfum að sýna þjóðinni hvert við stefnum.

Ég tel að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu sé óaðskiljanlegur hluti af endurreisninni. Í henni felast skýr skilaboð til umheimsins og hún er veigamikill þáttur í stefnumótun okkar til lengri framtíðar. Það er mikill misskilningur að of miklum fjármunum og tíma sé varið í undirbúning að samningaferlinu.

Staða okkar mun eflast þegar Ísland verður viðurkennt umsóknarríki og í ferlinu sjálfu munu skapast margskonar möguleikar og tækifæri til aðlögunar og uppbyggingar. Jafnframt verður tekinn af allur vafi um þá efnahagsstefnu sem fylgt er því markmiðið verður að standast efnahagsskilyrði Maastricht-samkomulagsins sem eru skynsamleg og eftirsóknarverð fyrir ríkið og þjóðina. Þau verða keppikefli og ögunartæki í efnahagsstjórninni.

Ég er sannfærð um að Íslendingar munu fylgjast vel með umsóknarferlinu og munu geta metið það með yfirveguðum hætti hvort tekst að ná fram samningum sem samræmast markmiðum okkar og hagsmunum. Takist okkur að ná fram þeim efnahagsmarkmiðum sem ferlið gerir ráð fyrir þá verðum við fyrst í stakk búin til þess að taka ákvörðun hvort við tökum skrefið til fulls inn í Evrópusambandið eða höldum okkar eigin leið. Reynsla annarra þjóða sýnir að smáríki innan ESB telja sig hafa styrkst við aðild að sambandinu og  hafa sterka rödd innan þess. Á það hljótum við að hlusta.

Aðild að Evrópusambandinu er ekki eina leiðin en ég tel að hún sé skynsamleg nema að svo fari að ekki náist fram hagstæðir samningar. Einangrun er ekki kostur og við þurfum á nánu samstarfi við Evrópuþjóðir að halda sem getur  styrkt okkar bakland í efnahags- og stjórnmálalegu tilliti.

Að lokum þetta:
Þær þjóðir sem takast á við sín vandamál munu rísa upp á ný!
Þær þjóðir sem gera upp sína reikninga munu afla sér virðingar!
Þær þjóðir sem bæta ráð sitt eiga framtíðina fyrir sér!

Því tek ég heilshugar undir með Samtökum atvinnulífsins nú þegar við kveðjum vetur og heilsum sumri: Af stað Íslendingar, fram til nýrrar sóknar.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum