Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2009 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra á aðalfundi SA 22. apríl

Góðir ársfundargestir

Ég vil þakka fyrir að fá tækifæri til þess að vera með ykkur á ykkar árlega fundi, þar sem þið farið yfir stöðu mála og metið framtíðarhorfur. Við komum hér saman í lok vetrar. Að baki er vetur sem hefur ekki látið neinn ósnortinn. Vetur sem skall á okkur í byrjun október þegar grunnstoðir bankakerfisins hrundu nánast á einni nóttu og féllu af fullum þunga á ríkissjóð og þar með hvern einasta borgara þessa lands.

Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur haft rúma tvo mánuði til að byggja hér upp traust og hefja endurreisn efnahagslífsins. Traust, sem nauðsynlegt var að byggja upp innanlands og í alþjóðasamfélaginu, og endurreisn efnahagslífsins sem er grundvöllur vinnu og velferðar og þar með framtíðar okkar allra.

Endurunnið traust mun leggja grunn að sparnaði landsmanna, heilbrigðum fjármálamarkaði og hlutabréfamarkaði og atvinnuuppbyggingu og þar með almennri velferð hér á landi í framtíðinni.

Það þarf ekki að segja ykkur það, forsvarsmönnum í atvinnulífinu, að hlutir fóru alltof hægt af stað eftir hrunið og sú ríkisstjórn sem nú situr hefur tekið öll verkefni sem máli skipta fyrir atvinnulífið mun fastari tökum og snúið vörn í sókn.

Margt hefur verið ritað og rætt um orsakir og afleiðingar efnhagshrunsins og hvað hefði mátt betur fara og margir kvarta undan gagnrýni og stóryrðum í þeirra garð.

Ég bið menn að hafa hugfast, að það dettur engum í hug að allir sem starfa á vettvangi atvinnulífsins eða viðskiptalífsins hafi komið okkur í þá stöðu sem við erum nú í. Bankarnir, útflutningsfyrirtækin og atvinnu- og viðskiptalífið eru ómissandi hlekkir í þeirri endurreisn sem framundan er og það eru okkar öflugu lífeyrissjóðir líka. Á það minni ég hér í dag.

Ég vil undirstrika að allir verða nú að líta í eigin barm og það með opnum huga. Aðeins með því móti lærum við og aðeins með því móti gerum við unga fólkinu, börnum okkar og komandi kynslóðum kleift að draga lærdóm af því sem gerðist, þannig að mistökin endurtaki sig ekki og við verðum betri manneskjur með heilbrigðari gildi.

Ég vil að við byggjum hér upp samfélag jafnræðis og jafnréttis og tel grundvallaratriði að sjónarmið og kraftar beggja kynja nýtist að fullu í atvinnu- og fjármálalífinu og þeirri endurreisn sem nú er hafin.

Það er mikilvægt að við tölum saman um það hvernig við viljum haga málum til frambúðar og leitum sáttar og samstöðu með skýra framtíðarsýn að leiðarljósi. Við eigum að tala skýrt um Evrópumálin og við eigum að tala skýrt um leiðir út úr vandanum.

Ég hef talað skýrt í Evrópumálum og ég geri það hér með ykkur í dag. Ég er staðfastlega þeirrar skoðunar að það sé eina trúverðuga leiðin til stöðugleika og farsældar fyrir íslenska þjóð að óska nú þegar eftir viðræðum við Evrópusambandið um fulla aðild og upptöku Evru. Ég byggi það ekki á tilfinningasemi heldur sjónarmiðum og rökum fjölmargra sérfræðinga sem hafa árum saman ráðlagt að sú leið verði farin.

Á sama tíma verðum við einnig að veita íslensku krónunni eins trausta umgjörð og kostur er á meðan beðið er niðurstöðu til frambúðar. Það er því lykilatriði til að afla okkur trausts og þar með stöðugleika til skemmri tíma með því að sækja sem fyrst um aðild að Evrópusambandinu.

Við eigum að nota tækifærið á meðan Svíar og Finnar eru við stýrið innan Evrópusambandsins og hefja aðildarviðræður. Svíar taka við forystu innan ráðherraráðs Evrópusambandsins í júlí næstkomandi og það skiptir okkur máli. Endurskoðun sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins er nú hafin og henni á að ljúka árið 2012.

Það skiptir okkur Íslendinga miklu máli að komast nú beint að því borði, þar sem endurskoðunin fer fram, sem fullgildir aðilar. Vitað er að hlustað verður grannt á Íslendinga á þessu sviði og leitað eftir sérfræðiþekkingu okkar og reynslu.

Nú liggur fyrir niðurstaða nefndar um þróun Evrópumála þar sem Samfylkingin, ASÍ, Viðskiptaráð Íslands og jafnframt 70% af aðildarfélögum Samtaka atvinnulífsins eru sammála um að hagsmunum íslensku þjóðarinnar verði best borgið innan Evrópusambandsins og með upptöku evru.

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að framkvæmdastjórn ESB telur unnt að ljúka aðildarviðræðum við Ísland á innan við einu ári eftir að þær hefjast og að aðild að ERM II, sem tengir gjaldmiðil nýs aðildarríkis við evruna með ákveðnum vikmörkum, gæti fengist nokkrum mánuðum eftir aðild.

Það er því fyllilega raunhæft að stefna að aðild að ESB og tengingu við evru í samstarfi við Evrópska seðlabankann innan eins og hálfs árs eftir að aðildarviðræður hefjast.

Villuljós um einhliða upptöku evru eða upptöku evru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið eru ekki boðleg í þessari umræðu. Slíkar leiðir eru ekki í boði og umræða um þær drepur málum aðeins á dreif.

Framtíðarsýn okkar á að byggjast á þeim markmiðum að fólk hér á landi búi við sambærilegt matarverð og er í nágrannaþjóðum okkar og sambærileg lífskjör, vexti og launakjör og þar bjóðast. Til þess þurfum við samstarf við alþjóðasamfélagið og og með því tryggjum við atvinnu- og efnahagslíf á Íslandi búi við stöðugleika og starfhæf samskeppnisskilyrði innan alþjóðasamfélagsins.

Niðurstaða aðildarviðræðna mun leiða í ljós svart á hvítu þau tækifæri sem felast í aðild að Evrópusambandinu bæði varðandi almenn lífskjör og í gjaldmiðlamálum. Þannig fengi þjóðin raunhæfa kosti sem hún gæti atekið afstöðu til en slíkir raunverulegir kostir fengjust aldrei upp á borðið í óformlegum könnunarviðræðum.

Undirbúningur aðildarviðræðna yrði að sjálfsögðu unninn í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins og ekki síst þá sem telja hagsmunum sínum ógnað, til dæmis útgerðarmenn og forystumenn í landbúnaði.

Það segir sig sjálft að við munum ekki ganga í Evrópusambandið nema við fáum ásættanlegar niðurstöður til dæmis fyrir sjávarútveg eða landbúnað.

Ég heiti ykkur því að leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að leiða þetta mikilvæga hagsmunamál til lykta og ég skora á ykkur að fara með mér í þá vegferð.

Ágætu aðalfundargestir.

Það fer vel á því að yfirskrift fundar ykkar í dag fjalli um atvinnumál ég er sammála ykkur um að það er atvinnulífið sem skapar flest störf hér á landi og þar með velferðina í samfélagi okkar.
Atvinnuleysi var 8,9% í mars, en mældist þá í fyrsta sinn í langan tíma lægra en spár hafa gert ráð fyrir. Lausum störfum fjölgar og nú eru um 600 laus störf á skrám Vinnumálastofnunar.
Í niðurstöðum nýrrar könnunar sem gerð var á vegum Atvinnuþjónustu Háskólans í Reykjavík kemur fram að rúmur helmingur stærstu fyrirtækja á Íslandi ætlar að ráða í ný störf á þessu ári.
Niðurstöðurnar eru sérstaklega ánægjulegar og hvetjandi og veita vísbendingu um að okkur sé að takast að snúa þróun aukins atvinnuleysis við og að farið sé að draga úr hlutfallslegri aukningu atvinnulausra. Þetta eru jákvæð teikn um að botninum sé náð og að þróunin sé tekin að snúast við.

Það er fyrst og fremst vettvangi atvinnulífsins sem störfin skapast, störfin sem auka hér hagvöxt og munu standa undir þeirri endurreisn sem framundan er og það er verkefni stjórnvalda að skapa heilbrigt umhverfi til atvinnusköpunar.

Ég vil vinna með ykkur að framgangi áætlunar stjórnvalda 6.000 störf sem allar forsendur eru fyrir. Stærstur hluti þessara starfa mun verða til á almennum vinnumarkaði .

Ég vil vekja sérstaka athygli á því hér, í ljósi þeirrar villandi umræðu sem verið hefur um að ríkisstjórnarflokkarnir hyggi á stórfelldar skattahækkanir, að tvær af nýjustu aðgerðum ríkistjórnarinnar nú í atvinnumálum ganga einmitt í þveröfuga átt. Hér vísa ég til þess að endurgreiðsla á virðisaukaskatti hefur verið aukin verulega, bæði á kvikmyndagerð og viðhaldsverkefnum.

Ég útiloka ekki frekari aðgerðir af sambærilegum toga, til að efla atvinnulífið til dáða og er opin fyrir öllum ykkar hugmyndum í þeim efnum. Ég tel að þar þurfi að skoða sérstaklega frekari skattaívilnanir gagnvart frumkvöðlafyrirtækjum, sprotafyrirtækjum og nýsköpunarstarfsemi sem eykur fjölbreytni í atvinnulífinu og eflir það í heild til framtíðar litið.

Þegar höfum við komið á ívilnunum til fyrirtækja sem stunda viðurkenndar rannsóknir og nýsköpun og hins vegar tímabundinn frádrátt vegna fjárfestinga í viðurkenndum nýsköpunarfyrirtækjum. Þetta er raunveruleg fjárfesting til frambúðar.

Mikilvægt er að taka ríkisfjármálin föstum tökum, það er mikilvæg forsenda efnahagsumhverfisins og umhverfis atvinnulífsins. Mikilvægt er að ná niður með markvissum aðgerðum á næstu árum þeim 170 milljarða króna halla ríkissjóðs sem áætlaður er á þessu ári.
Það er verkefni okkar að snúa við rekstri ríkissjóðs þannig að hann verði farinn að skila afgangi sem allra fyrst en núgildandi áætlanir gera ráð fyrir en gert er ráð fyrir 44 milljarða króna afgangi árið 2013. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur verði um 3,5 til 4% árið 2011.
Ég tel mikilvægt að við setjum markið enn hærra og stefnum að því að við sjáum hér hagvöxt á ný þegar á næsta ári. Skjót úrlausn bankamála og inngangur í Evrópusambandið gætu flýtt fyrir auknum hagvexti. Það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni okkar að setja okkur slík metnaðarfull markmið og ná þeim.

Ég vil tala skýrt í þessum málum og ég vil að ríkið hagræði hjá sér eins og atvinnulífið hefur þegar gert. Ég vil forgangsraða upp á nýtt, ég vil fækka ráðuneytum og sameina stofnanir. Það er vel hægt að gera án þess að segja upp fjölda manna þannig að atvinnulausum fjölgi.

Það hlýtur að vera töluvert svigrúm til hagræðingar þegar við lítum til þess að útgjöld ríkissjóðs hafa hækkað um rúm 60% frá aldamótum. Á sama tíma hefur hlutfall útgjalda til almannatrygginga og velferðarmála aðeins hækkað um 3% og hlutfall heilbrigðisútgalda hafa lækkað lítillega.
Það er því mikið svigrúm til hagræðingar og tækifæri til breyttrar forgangsröðunar.

Við þurfum í þessu sambandi að spyrja okkur að nokkrum lykilspurningum:

  • Hvernig getum við hagrætt án þess að skerða nauðsynlega þjónustu?
  • Hvernig getum við hagrætt og bætt þjónustu?
  • Hvernig getum við eflt rafræna þjónustu og dregið úr kostnaði til lengri tíma?
  • Hvernig getum við fjölgað “one-stop shop” afgreiðslustöðvum þjónustu ríkisins um land allt og þannig samþætt þjónustu mismundi stofnana?
  • Hvernig getum við gert þjónustu sveigjanlegri og hagkvæmari?
  • Hvernig getum við aukið skilvirkni í opinberri þjónustu?
  • Hvernig getum við virkjað starfsfólk betur og aukið sveigjanleika í starfi og tilflutning starfsmanna milli stofnana?
  • Hvernig getum við eflt þróun og nýsköpun innan stjórnsýslunnar?
  • Hvaða verkefni má flytja frá ríkinu og fela öðrum s.s. sveitarfélögum, einkaaðilum eða þriðja geiranum án þess að almannahagsmunum sé teflt í tvísýnu?
  • Hvernig getum við varið störf eftir því sem kostur er við framangreinda hagræðingu?

Ég vil sameina ráðuneyti efnahagsmála, ég vil sameina ráðuneyti atvinnumála og stórefla nýsköpun og efla rannsóknir og vísindi í samfélaginu. Ég vil að stjórnvöld, aðilar vinnmarkaðarins, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og vísindasamfélagið á Íslandi móti stefnu um samkeppnishæfni Íslands árið 2020.

Óhófleg skriffinnska, vanþróuð eftirlitskerfi og pólitísk afskipti af stjórnun og mönnun fyrirtækja hamla samkeppnisfærni. Þjóðir með einfalt, gagnsætt skattakerfi, lágmarks skriffinsku og vandaða stjórnsýsluhætti hafa því gott forskot. Ég vil að við eflum samkeppnishæfni Íslands í alþjóðasamfélaginu og tryggjum varanlega verðmætasköpun og hagsæld til frambúðar.

Mikilvægt er að fyrirtæki, sem nú eru tímabundið í ríkiseigu, komist sem fyrst í eigu einkaaðila, helst í gegnum heilbrigðan hlutabréfamarkað, þannig að hann mætti efla á ný, og með aðkomu erlendra aðila, bæði kröfuhafa og nýrra fjárfesta. Með því byggjum við hér upp heilbrigt efnahagsumhverfi og eflum traust á fjármálakerfið innan lands og í alþjóðlega umhverfinu.

Ríkið á einfaldlega ekki að reka fyrirtæki í samkeppnisrekstri, ríkið á að einbeita sér að því að tryggja öryggisnet velferðar, menntunar og annarrar sameiginlegrar uppbyggingar svo sem samgangna. Ríkið á jafnframt að tryggja traustan lagaramma í kringum efnhagslífið sem tryggir gagnsæja samkeppnisstöðu fyritækja og að almannahagsmunir séu ávallt hafðir í fyrirrúmi en ekki sérhagsmunir.

Ég vil jafnframt vinna með atvinnulífinu og aðilum vinnumarkaðarins og þjóðarsátt um breytingar á ýmsum sviðum samfélagsins, hjá hinu opinbera og hjá atvinnulífinu. Grunnur að því, sem mér líst afar vel á, hefur þegar verið lagður. Verði ég í forystu fyrir nýrri ríkisstjórn verður það eitt af mínum fyrstu verkum að sameina hagsmunaaðila um slíka stefnumótun.

Annars vegar þjóðarsátt um endurreisn næstu 4 – 5 árin og hins vegar um langtímastefnumótun um hvernig Ísland geti orðið á meðal samkepppnishæfustu þjóða árið 2020. Þar verður hlusta vel eftir ykkar tillögum.

Við hljótum á þessum erfiðu tímum að setja til hliðar ofurlaun og óeðlileg kaupaukakerfi. Ég tel að öll fyrirtæki sem skila hagnaði um þessar mundir hljóti að horfa til þess að verja hagnaði sínum til frekari verðmætaaukningar á vettvangi fyrirtækjanna sjálfra og fjölgunar starfa frekar en að greiða út arð og stuðla þannig að uppbyggingu til framtíðar í þessum fyrirtækjum.

Aðeins á þeim forsendum er hægt að ætlast til þess að launþegar sætti sig tímabundið við lakari kjör og kostnaðarsamra aðgerða ríkisvaldsins í formi skattalækkana sem þegar hefur verið gripið til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Ágætu aðalfundargestir.

Um allan heim er litið til Norðurlandannna sem fyrirmyndarsamfélaga þar sem jafnvægi er á milli velferðar og hagvaxtar og stöðugleiki ríkir. Stöðugleiki sem kemur öllum til góða. Á sama tíma megum við ekki glata þeim sveigjanleika sem verið hefur einkenni íslensks vinnumarkaðar. Hann er okkur mikilvægur og jafnvel enn mikilvægari en nokkru sinni nú þegar við snúum vörn í sókn.

Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins miðar að því að draga úr óvissu og auka stöðugleika. Það er ánægjulegt að heyra ítrekað og sjá í fjölmiðlum umsagnir fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fagleg vinnubrögð íslenskra stjórnvalda í vinnu í tengslum við innleiðingu og framvindu efnhagsáætlunarinnar.

Í dag fer sendinefnd stjórnvalda á vorfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hefst síðar í þessari viku. Í tengslum við þann fund munu fulltrúar Íslands eiga jafnframt fundi um samstarf á alþjóðavettvangi og um tvíhliða samstarf við öflugar þjóðir og okkar vinaþjóðir um fjárhagsmálefni

Ég finn fyrir vaxandi vilja annarra þjóða til að koma að samvinnu við okkur um framtíðaruppbyggingu hér á landi og ánægjulegt er að finna fyrir trú erlendra aðila á skjóti endurreisn íslensks efnahagslífs.

Ég hef persónulega verið í sambandi við fulltrúa ýmissa þjóða undanfarið og er sannfærð um að slíkt alþjóðlegt samstarf mun styðja við og efla uppbyggingu atvinnulífs hér á landi í náinni framtíð.

En hér þarf meira til. Ég tel ljóst að við verðum að endurskoða peningastefnuna hér á landi í ljósi breyttra aðstæðna og þeirra efnahagsþrenginga sem við göngum nú í gegnum. Það er vafalítið margt sem má betur fara, ekki síst í ljósi atburða undanfarinna mánuða. Ég hef falið nýrri peningastefnunefnd Seðlabankans að fara yfir kosti og galla þess að breyta peningastefnunni og gera tillögu til stjórnvalda með hliðsjón af því mati.

Það er ánægjulegt að aðstæður hafa nú skapast til lækkunar vaxta með auknum trúverðugleika Seðlabankans í kjölfar skipulagsbreytinga og skipunar peningastefnunefndarinnar og við höfum séð mikilvæg skref til lækkunar stigin eftir að ný ríkisstjórn tók við.

Ég hefði gjarnan viljað sjá meiri lækkun vaxta, en forsendur hennar eru nú að skapas. Þegar í upphafi ársins 2010 er gert ráð fyrir að verðbólgan verði einungis 2,5% og við slíkar aðstæður ættu vextir að vera orðnir lægri en við höfum lengi séð.

Stöðugt gengi, lág verðbólga og lágir vextir eru þær vítamínsprautur sem atvinnulífið þarfnast nú mest. Fjármálastofnanir hafa þegar hafið lækkun útlánsvaxta og ég fagna þeim skrefum sem þegar hafa verið stigin og treysti því að við sjáum fleiri slík skref verði reglulega tekin á næstu vikum, mánuðum og misserum.

Nú er unnið að áætlun um það hvernig við getum sem fyrst komist úr úr þeim gjaldeyrishöftum sem komið var á á síðastliðnu ári. Gjaldeyrishöftin eru vissulega ekki æskileg og það er engin óskastaða fyrir okkur að búa við þau nú. Þau leika hins vegar mikilvægt hlutverk við að tryggja aukinn stöðugleika gengisins.

Höftunum var komið á af illri nauðsyn á meðan fjármálaóveður geysar á alþjóðlegum mörkuðum og lokið er við enduruppbyggingu bankakerfisins. Þeir sem fara á svig við höftin eru aðeins að framlengja tilvist þeirra; þeir vinna gegn þjóðarhag einmitt þegar við ættum öll að leggjast saman á árarnar.

Nú sjáum við loksins til lands varðandi enduruppbyggingu bankakerfisins hér á landi. Á næstu vikum munu skapast forsendur fyrir endurfjármögnum bankana og þar með endurreisn þeirra og heilbrigðs og öflugs hagkerfis og atvinnulífs hér á landi

Ágætu aðalfundargestir.

Það er atvinnulífið sem skapar vinnu og velferð og ég hlakka til að hlýða á það öfluga fólk sem nú fær orðið.

Við höfum svo sannarlega verk að vinna. Við skulum taka höndum saman í þjóðarsátt til þess að ná árangri fyrir Ísland og Íslendinga og endurreisa traust okkar og orðspor á alþjóðavettvangi. Við skulum vinna með alþjóðasamfélaginu að því að styrkja samfélag okkar til lengri og skemmri tíma.

Niðursveiflan skall á okkur fyrr en öðrum þjóðum og kom mörgum óvart. Nú skulum við leiða uppsveifluna með markvissum og öruggum hætti og standa á vaktinni. Við skulum sýna sjálfum okkur og alþjóðasamfélaginu að við ætlum okkur að verða fyrst til þess að rísa upp aftur öflugri og traustari en nokkru sinni fyrr.

Gleðilegt sumar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum