Hoppa yfir valmynd
6. október 2009 Forsætisráðuneytið

Beðist afsökunar á vanrækslu og andvaraleysi

Virðulegi forseti!

Það er við hæfi að efna til umræðu á Alþingi, þegar ár er liðið frá banka- og gjaldeyrishruni, um þá efnahagserfiðleika sem þjóðarbúið glímir við og þau endurreisnaráform sem uppi eru.

Ástandið var alvarlegt fyrir ári, það hefur verið alvarlegt fram til þessa og það er enn alvarlegt. Við erum sem þjóð að glíma við mestu gjaldeyris- og bankakreppu sem nokkur þjóð hefur glímt við á síðustu áratugum og við stöndum frammi fyrir skuldakreppu ríkissjóðs og þjóðarbús sem ógnar efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.

Í aðdraganda hrunsins fyrir um ári síðan rann það upp fyrir okkur Íslendingum að við stóðum ein og yfirgefin í hildarleik alþjóðlegrar lánsfjárkreppu. Enginn vildi liðsinna okkur nema innan ramma Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, hvorki gamlar samstarfsþjóðir austan hafs og vestan né frændur okkar á Norðurlöndum.

Eina færa leiðin á þeim tíma var að efna til samstarfs við aðrar þjóðir um fjárhagslega endurreisn Íslands innan vébanda Alþjóða gjaldeyrissjóðsins

Það var löngu orðið ljóst að enginn Seðlabanki eða ríkisstjórn myndi taka að sér að koma Íslandi til hjálpar í gjaldeyriskreppu. Enginn vildi veita okkur gjaldeyrislán þótt Alþingi hefði heimilað slíka lántöku vorið 2008 – þá stærstu sem um getur – til þess að styrkja gjaldeyrisvarnir okkar.

Engin risalán frá einstökum þjóðum reyndust vera í boði þegar á reyndi og slíkar hugmyndir hafa hingað til reynst vera byggðar á óskhyggju og pólitísku óraunsæi þegar að hefur verið gáð. Þessi staða er að mestu leyti óbreytt. Samstarf við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn er mikilvæg forsenda endurreisnar efnahagslífsins.

Það var þegar ljóst á árinu 2006 að hið ofvaxna bankakerfi á Íslandi gat ekki lengur nærst á ódýru alþjóðlegu lánsfé. Þá gripu tveir stærstu íslensku bankarnir til þess ráðs að safna sparifé í Bretlandi, Hollandi og víðar inn á hávaxta innlánsreikninga á Netinu. Þessi samkeppni um sparifé í Evrópulöndum var mjög óvinsæl hjá bankayfirvöldum í viðkomandi löndum.

Þegar Landsbankinn  þverskallaðist síðan gegn eindregnum tilmælum við að koma Icesave reikningum sínum í breskt dótturfélag og opnaði ofan í kaupið svo seint sem í maí 2008 slíka reikninga í Hollandi var verið að setja alla þjóðina undir í fífldjörfu hættuspili.

Við áttum engra góðra kosta völ þegar alþjóða fjármálakerfið riðaði til falls í þingbyrjun fyrir ári og okkar eigið bankakerfi féll saman. Sjálfsagt hafa margvísleg mistök verið gerð og ákvarðanir á einhverjum stigum verið rangar. Allt verður það vegið og metið og dómar felldir af sögunni og dómstólum hvernig það mátti verða að við flutum sofandi að feigðarósi í okkar fjármála- og viðskiptalífi.

 

Virðulegi forseti!

Í störfum mínum sem alþingismaður beindi ég þrásinnis spurningum til stjórnvalda um það hvort stærð bankakerfisins væri ekki að vaxa ríkinu yfir höfuð, ég spurði um hvort ekki væru hættur samfara áberandi krosseignatengslum í bönkum og viðskiptalífi, ég spurði um innistæðutryggingar, um eignarhaldsfélögin og hlutverk þeirra og um lánafyrirgreiðslu til eigenda banka og fjármálastofnana.

Engin skýr og skilmerkileg svör bárust og viðkvæðið var oftast það að eftirlitsstofnunum eða fjármálastofnunum bæri ekki skylda til þess að upplýsa um málin m.a. vegna þess að bankarnir hefðu verið einkavæddir.

Undirstrikað var þó oftast að ekki væri hætta á ferðum. Þetta styður undir þá skoðun að ógagnsæ og óvönduð einkavæðing bankanna á sínum tíma og skortur á regluverki hafi verið undirrót ófaranna. Miklu veldur sá er upphafinu veldur.

Þeir atburðir sem áttu sér stað hér á landi eiga sér ekki hliðstæður í okkar samfélagssögu. Í löngum aðdraganda að banka- og gjaldeyrishruni brást margt sem við áður töldum tryggt eða sjálfsagt.

Bankarnir brugðust, stjórnkerfið brást, stjórnmálin brugðust, eftirlitskerfið brást, fjölmiðlarnir brugðust, hugmyndakerfi hins frjálsa markaðar brást og það hafa efalítið verið teknar margar rangar ákvarðanir sem leiddu okkur í þessa erfiðu stöðu.

Hver sem niðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis verður um ábyrgð einstakra aðila blasir við að ríkisvaldið, raunar allt frá einkavæðingu bankanna 2004, brást í því verkefni að koma í veg fyrir hörmungarnar sem yfir okkur dundu eða að minnsta kosti  draga verulega úr högginu.

Þess vegna tel ég mér sem forsætisráðherra, rétt og skylt  fyrir hönd ríkisins og stjórnsýslunnar að biðja íslensku þjóðina afsökunar á vanrækslu og andvaraleysi stjórnvalda að þessu leyti.

Þjóðin er í sárum, hún hefur liðið þjáningar og skaða sem enn sér ekki fyrir endann á. Þess vegna á hún heimtingu á afsökunarbeiðni.

Það er síðan rannsóknaraðila og dómstóla að leggja grunn að,  og sjá svo til, að þeir sem ábyrgð bera, axli hana.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur stigið mörg og afar mikilvæg skref til þess að tryggja að hér fari fram fullnægjandi og afdráttarlaust uppgjör þannig að sannleikurinn um aðdraganda hrunsins verði leiddur í ljós og refsað verði fyrir misgjörðir eftir rannsóknir og dómsmeðferð.

Einskis verður heldur látið ófreistað til þess að endurheimta fé sem ranglega hefur verið skotið undan og falið fyrir skattyfirvöldum.  

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa lengi verið í helmingaskiptum um stjórn landsins og þeir báru ábyrgð á því hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna sem margir telja að sé frumrótin að óförum okkar í fjármálalífinu. Þar voru að mínu mati gerð stórkostleg mistök sem við nú súpum seiðið af.

 

Tengsl Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við valdahópa í viðskiptalífinu hafa jafnan verið mikil og þau hafa teygt sig inn í stjórnkerfi og stofnanir. Hinir einkavæddu bankar voru aflvaki framfara til að byrja með og tóku forystu í uppbyggingu nýs atvinnulífs og útrás til annarra landa.

En síðar urðu þeir eins og umskiptingar sem sögðu sig úr siðferðilegu sambandi við íslenskt samfélag og virtust ætla að leggja undir sig heiminn án þess að hafa til þess vegarnesti né baktryggingu aðra en fámenna þjóð við ysta haf.

Menn geta spurt sig að því í dag hvort þeir stjórnmálaflokkar, sem mesta ábyrgð bera á hruninu hér á landi, og löngum aðdraganda þess, hefðu haft kjark og þor til þess að stíga þau skref í uppgjöri við fortíðinu og uppstokkun stjórnkerfisins sem ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur þegar tekið og  boðað að verði stigin? Ég fyrir mitt leyti leyfi mér að efast stórlega um það.

Ég vona svo sannarlega að okkur takist að reka algjörlega burt hagsmunapotið sem einkenndi kunningjasamfélagið hér á landi sem var gegnsýrt af krosseignatengslum. Samfélag sem hafði fjarlægst hinn almenna mann og hagsmuni venjulegra fjölskyldna í landinu. Samfélag sem byggði á tengslum og völdum fárra.

Ég heyri því miður á fólki sem skil kann á viðskiptalífinu og verðbréfaviðskiptum að ekki hafi átt sér stað nægilega miklar breytingar að þessu leyti. Að því miður sitji sömu klíkurnar og hagsmunahóparnir enn að kjötkötlunum víða í samfélaginu.

Þetta vill ríksistjórnin sjá breytast og þetta vill almenningur sjá breytast.  Fólk vill óráðsíuna, græðgina og völdin burt úr höndum þeirra sem grófu undan heilbrigðu viðskiptalífi eins og ég nefndi í stefnuræðu minni í gær.

Ég treysti því að nýja Bankasýslan og nýju bankarnir muni vinna þannig að endurskipulagningu á íslensku atvinnulífi að þessu markmiði verði náð. Mikilvægar breytingar á lögum um starfsemi fjármálastofnana eiga einnig að styðja þá viðleytni.

Kostnaður samfélagsins af hruninu er gríðarlegur og það mun taka okkur mörg ár að greiða þann reikning. Er þá ótalinn sá fjárhagslegi skaði sem einstaklingar, fyrirtæki, lífeyrissjóðir og erlendir lánadrottnar hafa glatað í þessum hildarleik. Erlendir kröfuhafar bankanna einir og sér, munu að líkum tapa 5-6000 milljörðum króna vegna hinna föllnu banka – allt að fjórfaldri landsframleiðslu Íslands.

Skuldir ríkisins munu vaxa úr rúmum 300 milljörðum króna árið 2007 í rúma 1700 milljarða árið 2010  eða um nærri eina landsframleiðslu - 1400 milljarða króna.. Þetta er frumkostnaður ríkisins af hruninu og hann á eftir að verða meiri. Icesave er þarna ótalið en sá reikningur mun leggjast á þjóðarbúið eftir 7 ár ef af líkum lætur.

Það er risavaxið verkefni að vinna sig út úr þessum vanda þannig að efnahagslegt sjálfstæði landsins sé tryggt til frambúðar. En það munum við gera.

Eins og kemur fram í Þjóðhagssáætlun sem lögð hefur verið fram hér á Alþingi eru megináherslur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum tvær:

 

Í fyrsta lagi að koma Íslandi út úr

 kreppunni eins og fljótt og auðið er á forsendum norrænna velferðarsamfélaga. Þetta felur í sér að ná aftur jafnvægi í rekstri ríkissjóðs, endurreisa fjármálakerfið, ná þjóðarsátt um lykilmarkmið og viðamiklar efnahagsráðstafanir og sátt við nágrannalönd eftir hrun íslenska fjármálakerfisins.

Í öðru lagi er það lykilatriði efnahagsstefnunnar  að koma í veg fyrir að slíkt hrun geti dunið yfir á nýjan leik. Til þess hefur ríkisstjórnin ekki aðeins lagt fram ábyrga áætlun í ríkisfjármálum til næstu ára heldur einnig gjörbreytt umgjörð hagstjórnar til þess að tryggja betri samþættingu hinna ýmsu þátta hennar og styrkt stöðu Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.

Á næstu mánuðum verður samstarf þessara stofnana aukið enn frekar til þess að tryggja öruggt eftirlit með fjármálastöðugleika til framtíðar. 

Samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verður enn um sinn snar þáttur í efnahagsstefnu stjórnvalda og gert er ráð fyrir að svo verði fram á vormánuði 2011. Framkvæmd þessarar efnahagsstefnu er forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar enda er hún mynduð um að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Aðildarumsókn að Evrópusambandinu er einig liður í þeirri áætlun.

Samstarfið við AGS snýst ekki eingöngu um lánveitingar og að byggja upp gjaldeyrisforða Seðlabankans. Kjarninn í samstarfinu við AGS snýst um að endurreisa trúverðugleika Íslands í samfélagi þjóðanna eftir hrun fjármálafyrirtækja og gjaldeyrismarkaðar. Slík endurreisn kallar á aðgerðir á öllum sviðum og að því hefur verið unnið sleitulaust síðasta árið.

Það ber því að líta á samstafið við AGS sem leiðarvísir um efnahagslega vegferð út úr kreppunni til aukins jafvægis og nýrrar sóknar. Af þessu megum við ekki missa sjónir enda þótt við séum ósátt við að Bretar og Hollendingar hafi beitt sér fyrir því að tefja endurskoðun áætlunarinnar og eðlilega lánafyrirgreiðslu vegna Icesave-deilunnar.

Þann hnút verður að leysa, hann hefur skaðað hagsmuni Íslands verulega og sjóðurinn hefur sett niður.

Hið nýja bankakerfi sem er í mótun á Íslandi verður mjög frábrugðið hinu gamla. Hvort sem bankarnir verða í eigu einkaaðila eða ríkissjóðs er ljóst að þeir munu þurfa að breyta um starfsaðferðir. Tíma ofurlauna og kaupauka fyrir stjórnlausa áhættusækni er lokið. Íslenskir bankar þurfa fyrst og fremst að hugsa um hefðbundna bankastarfsemi og öllum ætti nú að vera ljós sú áhætta sem fylgir verulegri innlánasöfnun banka sem starfa eftir lögmálum fjárfestingabanka.

Á næstu mánuðum verður tekin afstaða til þess hvort sameina eigi Seðlabankann og Fjármáleftirlitið á nýja leik eða hvernig megi með öðrum hætti bæta samstarf þessara tveggja stofnana.

Á haustþingi verður einnig lagt fram frumvarp til styrkingar lagaumhverfi fjármálakerfisins. Þar er stefnt að því að styrkja ákvæði um ýmsar hegðunar- og hæfisreglur, t.d. varðandi lánveitingar með veði í eigin hlutabréfum, krosseignarhald, áhættustýringu, lán til tengdra aðila og stórar áhættuskuldbindingar, aukna möguleika til að fylgjast með eigendum virkra eignarhluta og hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Einnig mun íslensk löggjöf á þessu sviði áfram mótast af þróun í Evrópu.

Þau gjaldeyrishöft sem sett voru á fyrir árslok 2009 eru ill nauðsyn við núverandi aðstæður. Seðlabankinn hefur birt stefnu um slökun haftanna sem unnin var í samstarfi við viðskiptaráðuneytið og samþykkt af ríkisstjórnin nú í sumar. Stefnt er að því að opna fyrir innflæði fjármagns á næstu mánuðum og lina svo höftin í stigum án þess að gengisstöðugleika verði ógnað.

Ein mesta áskorun þessarar ríkisstjórnar er að koma í veg aukningu langtímaatvinnuleysis, en um helmingur allra atvinnulausra í ágúst höfðu verið án vinnu í sex mánuði eða lengur. Í þeim efnum gegnir Stöðugleikasáttmálinn og sú samvinna stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga sem þar fer fram gríðarleg miklu máli.

Þá er ekki síður mikilvægt fyrir endureisn efnahagslífsins að vel takist til með endurskipulagningu skulda heimilanna. Allar kannanir sýna að vandinn er viðráðanlegur og í raun séu það um 20% heimila sem þurfi á róttækum aðgerðum að halda.

Þær tillögur um aðgerðir vegna skulda heimila sem kynntar hafa verið, munu tryggja að skuldsettar fjölskyldur verði ekki fastar í skuldafjötrum um ókomna tíð þegar samdrættinum linnir og er m.a. gert ráð fyrir möguleikum á afskriftum skulda í því skyni.

 

Virðulegi forseti

Í júní síðstliðin fól forsætisráðuneytið Félagsvísindastofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að vinna stöðuskýrslu um íslenskt samfélag. Þar er staðfest sú mikla ójafnaðar- og misskiptingarþróun sem varð hér á Íslandi á síðustu 20 árum.

Þeir er mest höfðu tóku til sín sífellt stærri sneið af kökunni. Hagvöxtur var hér meiri en víðast annars staðar en aukin hagsæld var að verulegu leyti tekin að láni, þannig að í raun var um óraðsíu að ræða frekar en farsæla þróun.

Þróunin hefur einkennst af því að ráðstöfunartekjur tekjuhæstu hópa hækkuðu langt umfram aðra hópa í þjóðfélaginu. Á sama tíma drógust lægri tekjuhópar aftur úr. Raunar er þessi aukning ein sú mesta sem hefur átt sér stað í hinum vestræna heimi.

Nýlegar rannsóknir benda til að ýmis félagsleg vandamál séu fylgikvillar  mikils ójöfnuðar til lengri tíma litið. Því er mikilvægt að stjórnvöld móti framtíðarstefnu um skiptingu gæða samfélagsins.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur lögðu á valdatíð sinni mikla áherslu á að lækka skatta með þeirri meginröksemd  að þannig mætti lokka erlenda fjárfestingu til landsins. Skýrslan sýnir þó tæpast að sú hafi verið raunin.

Fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi hafa eftir sem áður verið aðallega í stóriðju og svo í formi fjármagnsflutninga til að hagnast á jákvæðum vaxtamun milli Íslands og útlanda. Áhugi erlendra fjárfesta á Íslandi jókst hreint ekki í takt við skattalækkanir.

Launahækkanir á útrásartímabilinu reyndust óraunhæfar og sömuleiðis mikill útgjaldavöxtur ríksins.  Skuldir heimilanna hafa aukist hratt á síðustu árum, sérstaklega uppúr árunum 2003 og 2005 sem skýrist aðallega af innkomu bankanna á húsnæðislánamarkaðinn.  

Í skýrslunni er brýnt fyrir okkur að huga  sérstaklega að stöðu viðkvæmra hópa í samfélaginu í kjölfar efnahagshrunsins, svo sem kvenna, barna, fatlaðra og fólks af erlendum uppruna. Má í því sambandi nefna að konur eru í sérstakri hættu á að lenda í fátækt, þær eru háðari sterku velferðarkerfi og mikil hætta er á að kynbundið ofbeldi, svo sem heimilisofbeldi aukist á tímum efnahagskreppu.

Það eru tíðindi í sjálfu sér að íbúum landsins skuli fækka á milli ára í fyrsta sinn í um 120 ár eða um 109. Það er hinsvegar hæpið að líta á svo litla fækkun sem merki um að brostinn sé á landflótti. Merkilegra þótti mér að sjá að brottflutttir íslenskir ríkisborgarar hafa verið fleiri en þeir sem flytja heim næstum öll árin síðustu tuttugu ár. Þrátt fyrir mikinn hagvöxt og þá staðreynd að Ísland trónir enn meðal efstu þjóða á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna þá höldum við ekki nægilega í okkar fólk. Það er umhugsunarefni.

 

Virðulegi forseti

Eitt brýnasta málið sem framundan er, og allir verða að leggja sig fram um, er að efla tiltrú almennings á stofnanir lýðræðisins og réttarkerfisins. Það þarf einnig að breyta umgjörð viðskiptalífsins á róttækan hátt til að draga úr grunsemdum um spillingu. Þetta styður ríkisstjórnina í þeirri vissu að stjórnkerfis- og lýðræðisumbótum megi ekki slá á frest. Þvert á móti.

Þá má leiða líkur að því að gangi rannsóknin á bankahruninu tiltölulega hratt, verði niðurstaðan trúverðug, og verði réttlætinu  fullnægt, þá muni það verða til þess að efla traust á stofnunum ríkisins. Allt kapp verður lagt á það.

Það er ár liðið frá hruni – erfitt ár, viðburðaríkt og vinnusamt. Átakaár hjá öllum Íslendingum. Ég heiti á okkur öll að kveðja nú ár hrunsins og beina sjónum okkar í ríkari mæli fram á veginn. Horfa til uppbyggingarinnar sem framundan er og þeirra óteljandi tækifæra sem framtýðin býður okkur hér á Íslandi. Þó margt hafi breyst í hruninu þá breytist það aldrei að Ísland er og verður land tækifæranna – það er í okkar höndum hvernig þau verða nýtt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum