Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

29. maí 2002 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Ávarp á fundi fjármálaráðuneytisins með forstöðumönnum ríkisstofnana 29. maí 2002

Ágætu fundargestir.

Það er mér ánægja að fá tækifæri til þess að ávarpa þessa ágætu samkomu, enda er efni fundarins sérstaklega áhugavert fyrir okkur sem veitum ríkisrekstrinum forstöðu. Það er að sjálfsögðu einnig mikið áhugaefni mitt sem fjármálaráðherra að gera rekstur ríkisins sífellt skilvirkari og að bæta samskipti ríkisins við einstaklinga og fyrirtæki á markaði og fagna ég því að sjá að það eru margir sem deila þeim áhuga.

Fyrir þremur vikum afhenti ég Þorkeli Helgasyni orkumálastjóra styttuna "Vegvísinn" sem viðurkenningu til Orkustofnunar sem ríkisstofnun til fyrirmyndar árið 2002. Auk Orkustofnunar fengu ÁTVR, Fiskistofa og Ríkiskaup einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur. Þessar stofnanir voru valdar úr hópi tuttugu stofnana sem komu til greina við valið. Ég vil nota tækifærið til að óska Orkustofnun aftur til hamingju með viðurkenninguna og þakka öllum hinum stofnununum fyrir þátttökuna.

Þetta var í fjórða sinn sem fjármálaráðherra veitir slíka viðurkenningu og er gleðilegt að sjá þennan góða sið festast í sessi. Fyrri verðlaunahafar eru Kvennaskólinn í Reykjavík, Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á Reykjanesi og Landgræðsla ríkisins.

Val á fyrirmyndarstofnun hefur margþættan tilgang, m.a. þann að hvetja ríkisstofnanir til þess að halda áfram að bæta rekstur sinn og þjónustu. Það er viðvarandi verkefni sem við leggjum metnað okkar í að sinna. Við erum sífellt að leita nýrra leiða við þetta verkefni, m.a. með því að heimfæra verklag og starfsaðferðir einkamarkaðarins yfir á ríkisreksturinn þar sem það á við. Hefur umtalsverður árangur náðst á því sviði á umliðnum árum.

En ríkisreksturinn er á margan hátt mjög frábrugðinn einkarekstri og þeir mælikvarðar sem þar eiga við eru ekki alltaf heimfæranlegir yfir á rekstur ríkisins. Einkafyrirtæki eru oftar en ekki metin á grundvelli fjárhagslegra þátta svo sem vaxtar, hagnaðar og markaðstöðu. Þar eru fjárhagslegir mælikvarðar tiltölulega einfaldir, en þeir virka vel gagnvart fyrirtækjum sem rekin eru á samkeppnismarkaði.

Fjárhagslegir mælikvarðar eru hins vegar sjaldnast nothæfir einir og sér til að meta frammistöðu ríkisstofnana, vegna þess að tekjur fæstra þeirra ráðast af greiðslum frá notendum. Við heyrum þess vegna því miður oftar talað um það neikvæða sem hefur farið úrskeiðis í opinberum rekstri svo sem bið eftir þjónustu og fjárhagsvanda heldur en það jákvæða.

Við þurfum þess vegna að beita öðrum mælikvörðum til þess að mæla árangur ríkisstofnana og er veiting fyrirmyndarverðlaunanna einmitt liður í því starfi. Við val á stofnunum var t.a.m. litið til eftirfarandi mælikvarða; þess hversu skýr stefnumótun, framtíðarsýn og markmiðssetning stofnunarinnar er, að hve miklu leyti hún beinist út á við gagnvart notendum þjónustu hennar, hversu vel henni er fylgt eftir og hversu vel starfsmenn eru meðvitaðir um hana. Jafnframt var lögð áhersla á að stjórnendur væru næmir á það umhverfi sem stofnunin starfar í, átti sig á lykilþáttum í rekstri og sjái möguleika til þess að bæta og efla þjónustu samhliða því að hagræða í rekstri. Enn fremur var lagt mat á fjármálastjórn, skýra og skjalfesta verkferla, starfsmannamál, upplýsingatækni og trúverðugleika. Rík áhersla var lögð á það að ríkisstofnun til fyrirmyndar sýni góðan árangur í starfi sínu, sé skilvirk og hafi metnað til að bæta sig.

Markvisst hefur verið unnið að því í ríkisrekstri á undanförnum árum að færa vald og ábyrgð til stjórnenda ríkisstofnana og gera starfsaðstæður þeirra líkari og er í fyrirtækjum. Samhliða þessu hafa kröfur um árangur stofnana aukist sem m.a. kemur fram í samningum sem ráðuneyti eru í auknum mæli að gera við stofnanir sínar. Þar er áhersla lögð á að stofnanir setji sér skýr markmið um árangur og geri síðan grein fyrir því hvernig tekst að ná settu marki. Viðurkenning til ríkisstofnunar sem er til fyrirmyndar í starfi sínu á rætur að rekja til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í ríkisrekstrinum á síðustu árum.

Sú þróun birtist m.a. í breyttum stjórnunarháttum fjölmargra ríkisstofnana. Liðlega 100 stofnanir hafa þegar gert árangursstjórnunarsamninga við sitt ráðuneyti og fleiri eru í undirbúningi. Samningarnir eru ætlaðir að vera fyrsta skref af mörgum í því að skerpa áherslur, efla skilning, bæta áætlanagerð og eftirfylgni. Þetta hefur tekist í stórum dráttum, en margt er að sjálfsögðu óunnið. Árangursstjórnunin er skipulegt lærdómsferli þar sem stöðugt er unnið að því að auka skilvirkni.

Einn af annmörkum opinbers rekstrar er skortur á samkeppni um hylli notenda. Oftast eru verkefnin lögbundin og ríkisstofnanir með nokkurs konar einkaleyfi til að sinna verkefnum á sínu sviði. Við verðum hins vegar vör við að einkaaðilum vex sífellt ásmegin og eru tilbúnir til að taka að sér verkefni sem opinberir aðilar hafa setið að. Því ber að fagna. Mörkin á milli þess sem hið opinbera og einkaaðilar fást við verða óskýrari. Verkefnin þurfa að geta færst á milli þessara aðila án mikillar fyrirhafnar. Af þeim ástæðum er afar mikilvægt að rekstrarumhverfi opinberra aðila sé sem líkast því sem gildir um einkarekstur. Á næstu árum þarf að leggja áherslu á að opinberir aðilar verðleggi þjónustu sína með viðlíka hætti og einkafyrirtæki þurfa að gera, þannig að verðið endurspegli allan kostnað við að veita þjónustuna.

Góðir fundargestir.

Umhverfi opinbers reksturs hefur breyst mikið á síðustu árum og það mun halda áfram að breytast. Því skiptir miklu máli að stofnanir séu sveigjanlegar og starfsfólk jákvætt gagnvart breytingum. Fjármálaráðuneytið hefur haft forystu um að koma á umbótum í ríkisrekstri með því að breyta reglum og auka sveigjanleika stjórnenda stofnana. Áfram verður haldið á sömu braut því verkefnin eru ærin.

Ég vona að fundurinn í dag verði okkur öllum hvatning til að halda áfram að bæta rekstur og þjónustu ríkisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum