Hoppa yfir valmynd
31. maí 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Enduropnun Sjóminjasafnsins í Reykjavík 31. maí 2008

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

við enduropnun Sjóminjasafnsins í Reykjavík,

31. maí 2008.

Góðir hátíðargestir.

Íslensk saga og íslensk menning verða ekki aðskilin. En til að varðveita hvort tveggja þarf að hlúa að þeim og gæta þess að ekki falli í gleymsku ýmsir þeir þættir sem sagan og menningin byggjast á. Sjóminjasafnið í Reykjavík ber þessa fagurt merki. Nú er mikil uppskera í húsi sem vert er að halda upp á og ánægjulegt að safnið sé nú opnað aftur með viðhöfn í tengslum við Hátíð hafsins.

Barátta íslenskra sjómanna við náttúruöflin var lengst af háð við erfiðar aðstæður. Segl og árar, máttur og afl mannsins var það sem menn höfðu til að bera. Það gerðist í rauninni fátt í hér um bil eitt þúsund ár. Auðvitað þróuðu menn veiðarfæri sín eitthvað, vitaskuld lærðu menn stöðugt betur á baráttuna við náttúruöflin en merkilegt er að allt fram yfir aldamótin 1900 beittu menn sömu tækni við fiskveiðar og gert hafði verið öld eftir öld allt frá því að land byggðist.

Eftir aldamótin gjörbreyttust hlutirnir. Með vélvæðingu íslenska fiskiskipaflotans, með upphafi togaraútgerðar og vélvæðingu fiskvinnslunnar í landinu á þriðja áratug aldarinnar. Þetta var hin íslenska iðnbylting reynd. Það er í raun og veru ótrúlegt ævintýri að hugsa til þess að einungis rúmlega ein öld er liðin frá þessum tíma.

Ég er þeirrar skoðunar að við nútímamenn höfum of lítið hugað að þessu sögulega samhengi. Ég tel ennfremur að sjávarútvegurinn eigi hér sérstökum skyldum að gegna. Okkur ber að minnast þessara hluta, okkur ber að setja þjóðfélagsbreytingar tuttugustu aldarinnar í samhengi við þær breytingar og þær framfarir sem sjávarútvegurinn stuðlaði að og var aflvaki fyrir. Það stendur engum nær en okkur. Þessu eru einmitt gerð verðug skil hér á efri hæð safnsins þar sem við getum fetað okkur eftir framfarasporunum í sjávarútvegi á sýningunni Frá örbirgð til allsnægta.

Breytingarnar eru undraverðar, þær gerast svo hratt. Verkskipulag í fiskvinnslu sem var við lýði þegar ég sló úr pönnum í íshúsinu í Bolungarvík er löngu úrelt og pönnurnar orðnir safngripir hér. Það segir þó vonandi ekkert um örlög mín í bráð!

Hér getur að líta fimm glæsilegar sýningar og án þess að ég ætli að gera upp á milli þeirra með nokkrum hætti, þá gleður það mig óneitanlega mjög að sjá að Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna að Reykjum í Hrútafirði á hér hlut að máli, þar sem hákarlasýningin er. Þá er auðvitað sérstaklega mikill fengur að Óðni sem nú verður til sýnis hér fyrir utan.

Eins og glöggt má sjá er unnið af miklum metnaði. Með þrotlausri elju og ómældum dugnaði hefur starfsfólk safnsins, með forstöðukonuna Sigrúnu Magnúsdóttur í broddi fylkingar, lyft grettistaki og það líklega án þess að spyrja um laun að kveldi. Ég ítreka það sem ég sagði hér í upphafi að það er mikilsvert að við gleymum hvorki uppruna okkar né sögunni. Hvort tveggja ber okkur að viðhalda og varðveita. Það er gert hér með glæsibrag.

Ég óska ykkur og Íslendingum öllum til hamingju með framtakið. Megi Víkin vaxa og dafna í framtíðinni.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum