Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. október 2008 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 17. október 2008

Ávarp ráðherra á fyrsta ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, föstudaginn17. október 2008.


Góðir fundarmenn.

Ég fagna því að við efnum nú til fyrsta ársfundar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Tilgangurinn er annars vegar að fræðast um starfsemina á liðnu ári og hins vegar að skyggnast fram á við og reyna að sjá fyrir þær breytingar sem framundan eru á starfssviði Jöfnunarsjóðs og hjá sveitarfélögunum sjálfum og á ég þar við mögulega eflingu og stækkun þeirra.

Varla þarf að rifja upp að málefni sveitarfélaganna voru um síðustu áramót flutt frá félagsmálaráðuneytinu til samgönguráðuneytisins. Þetta er umfangsmikill málaflokkur en með í kaupunum fylgdi afbragðsgott og hæft starfslið sem hefur verið gaman að kynnast og starfa með.
Samgöngu- og fjarskiptamál, þar með talin póstmálin, eru mjög svo samofin ýmsu og kannski flestu því sem sveitarfélögin sýsla með í daglegri starfsemi sinni og því hefur það reynst farsælt skref að þessum málaflokkum er nú sinnt af einu og sama ráðuneytinu.

Efnahagsmálin

Efnahagsmálin eru mál málanna um þessar mundir og við erum öll afar áhyggjufull vegna hinnar alvarlegu stöðu sem komin er upp. Svo miklar fjárhæðir hafa tapast í hlutafé og beinhörðum peningum að við skynjum það varla. Engan gat órað fyrir því að atburðarásin yrði með þeim hætti sem hún hefur verið og ríkisstjórnin hefur unnið hörðum höndum að því að takmarka það tjón sem af þessu hlýst.

Unnið hefur verið að því að tryggja verðmæti almennings og að þjóðfélagið í heild sinni geti starfað með sem eðlilegustum hætti. Allir stóru viðskiptabankarnir eru nú komnir undir stjórn ríkisins og í raun er verið að byggja upp fjármálakerfið á Íslandi frá grunni.

Það er ljóst að það mun taka okkur einhvern tíma að ná þeim stöðugleika sem við þurfum á að koma fjármálastarfsemi landsins í eðlilegt horf á ný. Þetta bitnar á öllum hér á landi, almenningi, fyrirtækjunum og stjórnvöldum, hvort sem það er ríki eða sveitarfélögin.

Það er mikilvægt að við höldum ró okkar og yfirvegun við þessar aðstæður og við reynum að láta þessa erfiðu tíma ekki hafa grundvallar áhrif á daglegt líf okkar.

Því er mikilvægt að ríki og sveitarfélög standi saman um það að varðveita grunnþjónustuna út um allt land og þar með velferð borgaranna. Því fagna ég sérstaklega því frumkvæði sem nokkur sveitarfélög hafa tekið um að breyta sínum áætlunum á þann veg, að láta þessa velferðarþætti ganga fyrir en fresta verkefnum sem hafa minni þýðingu á tímum sem þessum.

Ég hef undanfarið verið í nánu sambandi við forystumenn sambandsins um þessa stöðu og þann vanda sem sveitarfélögin eiga við að etja. Við skrifuðum undir yfirlýsingu í síðustu viku þar sem við hétum hvor öðrum auknu samráði og samstöðu.

Ég er einnig þakklátur fyrir að hafa fengið að sitja upplýsingafundinn með ykkur í morgun og hlusta á ykkar sjónarmið og ráðleggingar, en í framhaldi af honum átti ég fund með formanni ykkar til þess að ræða frekar hvernig við getum stillt saman strengi.

Ljóst er að mikil óvissa er um fjárhagslegar forsendur fyrir næsta ár. Fjárlagafrumvarpið er í fullkominni óvissu og öll áætlanagerð hjá sveitarfélögunum varðandi næsta ár þar af leiðandi einnig. Það á einnig við um forsendur fyrir framlög Jöfnunarsjóðs á næsta ári.

Þá hafa sveitarfélögin skertan aðgang að lánsfé um þessar mundir. Ég fagna því frumkvæði sem Sambandið og Lánasjóður sveitarfélaga hafa sýnt hvað það varðar og ég er bjartsýnn á, eftir samtöl mín við seðlabankastjóra og framkvæmdastjóra Lánasjóðsins, að fljótlega takist að hrinda í framkvæmd þeim áformum sem Lánasjóðurinn hefur á prjónunum með aðkomu lífeyrissjóðanna.

Aðgerðir ráðuneytisins

Hvað ráðuneytið varðar vil ég nefna þrennt:

Í fyrsta lagi er nú unnið að því í samstarfi við Sambandið að fá upplýsingar frá öllum sveitarfélögum landsins um fjárhagslega stöðu sveitarsjóðanna og A-hluta stofnana um þessar mundir. Markmiðið er að reyna að fá heildarmynd af fjárhagslegri stöðu allra sveitarfélaga í landinu svo hægt sé að segja betur til hvar skóinn kreppir helst að, og hvernig. Slíkum upplýsingum munum við óska reglulega eftir héðan í frá og bið ég ykkur um að sjá til þess að engar tafir verði á því, þegar beiðni um slíkt berst á ykkar borð.

Í öðru lagi mun ég fá í næstu viku tillögur að úthlutun 250 milljón króna aukaframlags úr ríkissjóði vegna niðurskurðar í aflamarki og stefni ég á því að koma þeim fjármunum til sveitarfélaganna sem fyrst.

Í þriðja lagi hef ég beðið starfsmenn mína að skoða með hvaða hætti væri hægt að flýta greiðslum framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, t.d. þannig að greiðslur sem eiga að berst uppúr mánaðamótum berist strax í næstu viku. Um 2 milljarðar ættu því að geta runnið inn á reikninga sveitarfélaganna úr Jöfnunarsjóði í næstu viku. Þá kemur í mínum huga til greina að greiða fyrr en ráð var fyrir gert helmings þess aukaframlags sem eftir er (sem er 500 m.kr.).

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Þá vil ég greina frá því, að til stóð að kynna fyrir ykkur hér í dag með hvaða hætti ég hyggðist breyta reglum Jöfnunarsjóðs með hliðsjón af þeim tillögum, sem endurskoðunarnefnd sjóðsins kom á framfæri í greinargerð um síðustu áramót. Það er skemmst frá því að segja að ég hef ákveðið að bíða enn um sinn með ákvarðanir um breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs.

Ég tel, að með hliðsjón af þeirri óvissu nú sem ríkir í fjármálum sveitarfélaga, að sé ekki rétt að taka neinar ákvarðanir sem kunna að auka óvissuna enn frekar.

Ekki er þar með sagt, að ekki sé breytinga von fyrir næsta fjárhagsár, ég vil hins vegar bíða með allar ákvarðanir hvað þetta varðar meðan á þessari óvissu stendur. Bæði formaður ykkar og formaður ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs eru mér sammála um þetta atriði.

Þó vil ég geta þess, og það var hluti af tillögum nefndarinnar, að ég hef skipað starfshóp til að fjalla um svæðisbundna samvinnu sveitarfélaga og starfsemi landshlutasamtakanna. Hólmfríður Sveinsdóttir mun leiða þá vinnu fyrir mína hönd.

Ég er hins vegar staðráðinn í að hefja vinnu sem miðar að því að endurskoða regluverk Jöfnunarsjóðs í heild sinni og horfa þannig til framtíðar. Flosi Eiríksson mun leiða þá vinnu fyrir mína hönd og hafa sér til fulltingis góðan hóp sérfræðinga.
Finnst mér eðlilegt að taka til rækilegrar athugunar hvort ekki má einfalda þessar reglur og um leið auka gæði jöfnunaraðgerða sem við nýtum með Jöfnunarsjóði.

Í því sambandi verður að hafa í huga að Jöfnunarsjóður leikur stórt og þýðingarmikið hlutverk fyrir sveitarfélög landsins og það hefur hann gert allt frá stofnun árið 1937. Það munum við sjá betur á eftir í erindi Elínar Pálsdóttur, forstöðumanns sjóðsins.

Næstum 10% skatttekna sveitarfélaga að meðaltali koma úr Jöfnunarsjóðnum. Hjá þeim sveitarfélögum sem mesta hlutdeild hafa er þetta hlutfall yfir 60%, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Í ár og í fyrra munar líka mjög mikið um það 1.400 milljóna króna aukaframlag sem Jöfnunarsjóður fékk til ráðstöfunar. Á þessari stundu er ekki ljóst hvort framhald verður á því aukaframlagi en ég hef talað fyrir því enda er brýnt að styðja áfram við þau sveitarfélög sem verst eru stödd fjárhagslega. Efnahagsástandið kann þó að hafa áhrif á niðurstöðuna í því máli.

Efling sveitarstjórnarstigsins

Jöfnunarsjóður hefur alltaf komið til skoðunar þegar verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er annars vegar. Þessi verkaskipting hefur verið tekin til endurskoðunar af og til í gegnum árin. Má segja að á síðustu árum hafi annað meginhlutverk sjóðsins verið að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga og það í bókstaflegri merkingu og hitt stóra verkefni Jöfnunarsjóðs á síðustu árum tengist flutningi grunnskóla til sveitarfélaganna árið 1996.

Nú eru framundan ný verkefni sem við munum fela sveitarfélögunum, sem þýðir að nýjar skyldur verða lagðar á herðar Jöfnunarsjóði. Það fellur mjög að þeim hugmyndum sem uppi hafa verið um stækkun og eflingu sveitarfélaga og hækkun á lágmarksíbúafjölda þeirra sem er í dag aðeins 50.

Verið er að undirbúa flutning á málefnum fatlaðra og aldraðra til sveitarfélaganna á árunum 2011 og 2012. Þetta eru risavaxin verkefni, umfangið er um 30 milljarðar króna árlega, og kringum 20% af núverandi útgjöldum sveitarfélaganna. Í verkefnastjórn, sem undirbýr þennan flutning, er talað um að lágmarksíbúafjöldi þjónustusvæða fyrir málefni fatlaðra verði 7 til 8 þúsund íbúar.

Í þessu samhengi verður það æ áleitnari spurning hvort sveitarfélögin séu nægilega fjölmenn og öflug til að takast nýjar skyldur á herðar – jafnvel þótt Jöfnunarsjóðsins njóti við. Meira en helmingur sveitarfélaga hefur innan við þúsund íbúa og í þeim býr aðeins um 6% þjóðarinnar.

Ég tel rétt að kanna gaumgæfilega hvort ekki sé tímabært að hækka lágmarksíbúafjöldann úr 50 í kannski eitt þúsund og hef varpað því fram í ræðu og riti undanfarið. Um þetta eru skiptar skoðanir en ég hygg að æ fleiri sjái kosti þess að stækka einingarnar og efla með þessum hætti.
Best er að þetta gerist sjálfkrafa en lagasetning myndi tvímælalaust ýta við sveitastjórnarmönnum og tekið skal fram að í slíkri lagasetningu yrði að sjálfsögðu gefinn góður aðlögunartími og vel má vera að á stöku stað krefjist aðstæður þess að við gerum á þessu undantekningu.

Góðir fundarmenn.

Ég þakka ykkur fyrir komuna á þennan fyrsta ársfund Jöfnunarsjóðsins og vonum að við eigum eftir að eiga hér góðan fund saman.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum