Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. nóvember 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Fundur Kaupþings um fjármál og tryggingar, 14.11.00-

Valgerður Sverrisdóttir
viðskiptaráðherra.

Ræða á fundi Kaupþings um fjármál og tryggingar,
Hótel Sögu 14. nóvember 2000.

I.
Góðir áheyrendur. Það er vel til fundið hjá Kaupþingi að standa fyrir röð funda um þróun og horfur í hinum ýmsum atvinnugreinum. Slíkt stuðlar að nauðsynlegri og uppbyggilegri umræðu og hvetur til framþróunar og nýjunga. Það er ekki síst mikilvægt nú um þessar mundir þegar minni bjartsýni ríkir en áður um hag hinna ýmsu atvinnugreina og margt bendir til að við Íslendingar séum komnir yfir hátopp hagsveiflunnar. Við aðstæður sem þessar þurfa menn að bretta upp ermar í öllum atvinnugreinum og hugleiða hvernig unnt sé að hagræða í rekstri, bæta nýtingu fjármagns og auka framleiðni.

Við Íslendingar höfum upplifað lengsta samfellda hagvaxtarskeið í sögu þjóðarinnar, næstum 5% samfelldan hagvöxt frá miðjum tíunda áratugnum. Þessi hagvaxtartími er einstæður í sögunni vegna þess að honum hefur ekki fylgt óstöðugleiki í efnahagsmálum og óðaverðbólga. Nýja hagkerfið hefur blómstrað sem aldrei fyrr, að minnsta kosti hér á suð-vesturhorninu, og við erum ekki jafn háð sjávarútveginum og áður. Allir virðast uppfyllir af nýjum hugmyndum og frumkvæði og það eru til peningar til að vinna úr góðum hugmyndum.

Ég ætla að gera fjármagnsmarkaðinn að umtalsefni hér í dag, lagaumhverfi hans og hlutverk ríkisins. Fjármagnsmarkaðurinn er dæmi um grein sem hefur blómstrað nú á tímum nýja hagkerfisins. Í raun má halda því fram að hagvöxtur síðustu fimm ára hefði verið mun minni ef breytingar á fjármagnsmarkaðnum hefðu ekki verið jafn örar og raun ber vitni. Það eru ekki einungis skipulagsbreytingar á fjármagnsmarkaðnum sem leitt hafa til þessa árangurs heldur ekki síður frumkvæði og nýjungar sem fylgt hafa hinni auknu samkeppni á markaðnum. Ungt og vel menntað fólk haslar sér völl í þessari atvinnugrein í síauknum mæli. Fólk sem menntað hefur sig í hinum ýmsum greinum erlendis finnur störf við sitt hæfi á íslenskum fjármagnsmarkaði. Þetta fólk skapar verðmæti með nýjum hugmyndum og ferskir vindar leika í kjölfarið um íslenskt atvinnulíf. Hinn einsleiti og niðurnjörvaði fjármagnsmarkaður heyrir því sögunni til og í staðinn hafa komið þekkingarfyrirtæki fólks með fjölbreyttan bakgrunn. Á sama tíma hafa fjármálafyrirtækin stækkað ört. Það er til dæmis ekki svo ýkja langt síðan að tuttugu manns unnu hjá Kaupþingi í stað tvö hundruð.
II.
Ríkið hefur um áratugaskeið verið ráðandi á íslenskum fjármagnsmarkaði þó mjög hafi dregið úr áhrifum þess á síðustu árum. Áður fyrr ákvað ríkið vexti í landinu og jafnframt hvernig lífeyrissjóðir skyldu ráðstafa fé sínu svo dæmi séu tekin. Þetta er að sjálfsögðu liðin tíð.

Ítök ríkisins eru samt sem áður sterk. Ríkið á ennþá meirihluta í tveimur af þremur viðskiptabönkum landsins. Þó mikið verk sé enn óunnið í þeim efnum verður að taka með í reikninginn að ríkið hefur nú þegar selt nær helming eigna sinna á fjármagnsmarkaði. Það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að eiga þessar eignir til langframa. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er skýrt kveðið á um að ríkið hyggist selja hlutafé sitt í bönkunum. Slík stefnumörkun liggur ekki fyrir með sama hætti í mörgum öðrum löndum sem byggja að miklu leyti á ríkisbankakerfi, svo sem í Þýskalandi, Frakklandi og Noregi svo dæmi séu tekin.

Bankar í eigu hins opinbera eru alls ekki fátíðir í Evrópu þó að sönnu hafi þeim fækkað mikið á liðnum áratug. Af 100 stærstu bönkum Evrópu árið 1990 voru 43 hlutafélagsbankar í einkaeigu og skráðir í kauphöll, 20 voru sparisjóðir eða sjálfseignarstofnanir og 37 bankar voru í eigu hins opinbera. Árið 1999 voru hins vegar 63 af 100 stærstu bönkum Evrópu hlutafélagsbankar, 14 voru sparisjóðir eða sjálfseignarstofnanir og 23 voru í eigu hins opinbera.

Mörgum finnst sem hægt gangi að einkavæða bankanna. Ég get ekki tekið undir það. Bankarnir eru verðmætar þjóðareignir og sala þeirra fer ekki fram eins og hendi væri veifað. Skipulagsbreytingar á fjármagnsmarkaðnum hafa alls ekki tekið langan tíma. Landsbanka og Búnaðarbanka var breytt í hlutafélög í ársbyrjun 1998, fyrir aðeins tæpum þremur árum síðan, eftir langan og vandaðan undirbúning. Á sama tíma hóf FBA starfsemi á grunni gamalla fjárfestingarlánasjóða. Á árinu 1998 voru þessir þrír bankar skráðir á Verðbréfaþingi Íslands sem jók aga og aðhald í rekstri þeirra. Á sama tíma var hluti FBA seldur og gefið út nýtt hlutafé í viðskiptabönkunum. Yfir þriðjungur þjóðarinnar tók þátt í þessum útboðum. Á síðasta ári var einkavæðingu FBA lokið og ríkið seldi jafnframt 15% hlut í Landsbanka og Búnaðarbanka. Á þessu ári hefur hlutur ríkisins í Landsbankanum minnkað enn með tilkomu stórs bandarísks banka í hluthafahóp bankans.

Líta verður á sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka, nái hún fram að ganga, í ljósi alþjóðlegrar þróunar og meiri samkeppni um sparnað landsmanna. Tilkoma Netsins og afnám hafta eru lykilatriði í alþjóðavæðingu fjármagnsmarkaðarins og gerir fjármálafyrirtækjum kleift að keppa yfir landamæri. Einnig þarf að taka mið af því að bankar hafa mjög víða fengið meiri samkeppni frá ýmsum verslunar- og þjónustufyrirtækjum sem sinna nú margvíslegri starfsemi sem aðeins bankar buðu upp á áður fyrr. Til að bregðast við þessu hafa bankar brugðið á það ráð að stækka og hagræða í sínum rekstri.

Ég tel að sameining bankanna sé heilladrjúgt skref fyrir íslenskan fjármagnsmarkað. Slíkur samruni er þó langt í frá sársaukalaus enda eru bankarnir að mörgu leyti svipaðar einingar og reka báðir landsvíðtæk útibúanet. Samruni þessara banka leiðir til meiri hagræðingar en aðrir kostir sem í boði eru á fjármagnsmarkaði. Sameinaður banki yrði fjárhagslega sterk eining, sem eykur traust og öryggi á markaðnum. Hann verður einnig áhugaverðari fjárfestingarkostur fyrir erlenda banka en ég tel einmitt að aukin erlend eignaraðild að íslenskum fjármálafyrirtækjum muni styrkja markaðinn og flýta framþróun hans.

Hvort þessi samruni verður heimilaður mun tíminn leiða í ljós. Það þarf að vega og meta hvort að hinn nýi sameinaði banki muni leiða til minni samkeppni. Bankarnir hafa nú beðið Samkeppnisráð um forúrskurð á grunni 18. gr. samkeppnislaga og er beðið niðurstöðu ráðsins. Það er að sjálfsögðu eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar í bankamálum, eins og fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, að tryggja samkeppni á bankamarkaði. Niðurstaða samkeppnisráðs í þessu máli verður því mjög mikilvæg.

Ég sé fyrir mér öflugt samkeppnisumhverfi hér á landi með tveimur stórum viðskiptabönkum og sterku sparisjóðakerfi. Þessi fyrirtæki reki öll starfsemi í dótturfyrirtækjum eða útibúum erlendis og verði í samstarfi við erlenda banka um rannsóknir og þróun í upplýsingatækni og þau verði að hluta í erlendri eignaraðild. Þau búi yfir nægilegum fjárhagslegum styrk og frumkvæði í rekstri til að takast á við þá erlendu samkeppni sem óhjákvæmilega vofir yfir, sér í lagi vegna netbanka og nýjunga í fjarskiptum. Samhliða þessum þremur stoðum verði nokkrar minni lánastofnanir og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu sem sinni sérhæfðari og afmarkaðri verkefnum.

Í þessu sambandi er mjög mikilvægt að sparisjóðirnir fái tækifæri til að vaxa og dafna í þessu nýja umhverfi íslensks fjármagnsmarkaðar. Sparisjóðirnir hafa lengi haft hærra eiginfjárhlutfall en viðskiptabankarnir. Á síðustu árum hafa sparisjóðirnir hins vegar vaxið hratt og eigið fé þeirra minnkað að sama skapi. Með stækkandi markaði, alþjóðavæðingu og harðnandi samkeppni hefur þörfin fyrir eigin fé orðið brýnni. Það er því orðið brýnt að sparisjóðum verði gefinn kostur á að gefa út markaðsverðbréf til að geta keppt á jafnræðisgrunni við önnur fyrirtæki á nútíma fjármagnsmarkaði. Af þessum sökum er ég hlynnt því að sparisjóðum verði heimilað að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag.

Á síðastliðnum hálfum öðrum áratug hafa orðið miklar breytingar á starfsheimildum og starfsemi innlánsstofnana. Starfsskilyrði sparisjóða og viðskiptabanka hafa verið jöfnuð og starfsheimildir þeirra eru nú hinar sömu. Þetta er mjög viðamikil breyting frá því sem áður var. Sérstaða sparisjóða á íslenskum fjármagnsmarkaði er því ekki hin sama og áður. Sparisjóðirnir keppa á sama markaði og önnur fjármálafyrirtæki um hylli neytenda og beita sömu aðferðum við að nálgast viðskiptavini. Í þeirri miklu samkeppni sem ríkir á fjármagnsmarkaðnum verða sparisjóðir, líkt og aðrir, að gæta fyllsta aðhalds í rekstri í því skyni að geta boðið samkeppnishæf kjör. Ákvarðanir um lánveitingar og fjárfestingar þurfa að vera teknar á grundvelli arðsemi til að skaða ekki samkeppnishæfni fyrirtækisins. Rekstrarmarkmið fjármálafyrirtækja lúta því sömu lögmálum, þó að rekstrarform þeirra og eignarhald sé ólíkt.
III.
Góðir áheyrendur. Mér hefur orðið tíðrætt um stöðu ríkisins sem eiganda viðskiptabanka. En ljóst má vera að því hlutverki fer senn að ljúka. Hlutverk ríkisins er og verður fyrst og fremst að bæta samkeppnishæfni fjármagnsmarkaðarins og gæta hags viðskiptamanna fjármálafyrirtækja. Af nógu er að taka í því efni því markaðnum fleygir fram og fjármálalöggjöf sömuleiðis.

Við þurfum að nýta okkur fjármálalöggjöfina til að búa til sem bestar aðstæður fyrir íslensk fjármálafyrirtæki. Með því á ég ekki við að regluverk sem þessi fyrirtæki búa við sé sem léttbærast fyrir þau. Þau ríki sem þannig hafa búið um hnúta njóta almennt ekki trausts. En regluverkið verður að vera skilvirkt og réttlátt. Það getur ekki verið markmið í sjálfu sér að regluverkið sé sem umfangsmest.

Regluverk á fjármagnsmarkaði er til muna meira heldur en í flestum öðrum atvinnugreinum. Það kemur til af mikilvægi fjármagnsmarkaðarins í hagkerfinu. Fjármálafyrirtæki geyma sparnað almennings, veita almenningi og fyrirtækjum lán og ráðgjöf og sinna greiðslumiðlun. Fjármálafyrirtæki eiga allt sitt undir trausti viðskiptavina. Viðskiptavinir fyrirtækjanna verða að geta treyst því fullkomlega að hagsmunir þeirra sitji í fyrirrúmi en ekki hagsmunir fyrirtækisins sjálfs, starfsmanna þess eða aðrir hagsmunir. Þetta er lykilatriði. Gjaldþrot eins fjármálafyrirtækis hefur víðtækari áhrif á virkni hagkerfisins heldur en í öðrum atvinnugreinum. Með umfangsmiklu eftirliti og ítarlegri reglusetningu reyna stjórnvöld því að stuðla að sem mestu öryggi í starfsemi lánastofnana.

Grunnur flestra laga á fjármagnsmarkaði var að mestu mótaður um það leyti sem við Íslendingar skrifuðum undir Samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það var mjög stórt skref á sínum tíma. Við uppfylltum tilskipanir ESB á mjög skömmum tíma og höfum síðan verið að byggja ofan á þann grunn. Nú þegar markaðurinn er orðinn þroskaðri er kominn tími á að endurskoða grunninn.

Nú er að störfum sérstök bankalaganefnd sem ætlað er að endurskoða bankalöggjöfina og gera hana einfaldari og skilvirkari. Í því sambandi er nefndin sérstaklega að skoða hvort æskilegt sé að sameina öll ákvæði er varða stofnun og starfsemi viðskiptabanka, sparisjóði, fjárfestingarbanka og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu í eina heildarlöggjöf um fjármálafyrirtæki. Nefndin tekur í starfi sínu sérstakt tillit til alþjóðlegra strauma en mjög víða er einmitt um þessar mundir verið að vinna að sameiningu löggjafar á fjármagnsmarkaði.

Staða laga um vátryggingarstarfsemi hlýtur að koma til sérstakrar skoðunar ef ákveðið verður að setja sérstök lög um fjármálafyrirtæki. Það er margt líkt með vátryggingarfélögum og öðrum fyrirtækjum á fjármagnsmarkaði og því hlýtur að þurfa að skoða það ítarlega hvort þau eigi samleið með lánastofnunum og fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu í löggjöf. Að sjálfsögðu eru þó ýmis sérákvæði sem hljóta að gilda um vátryggingastarfsemi og eiga ekki erindi inn í almenna rammalöggjöf um markaðinn. Dæmi um það eru lög um vátryggingasamninga en þau lög eru einmitt til endurskoðunar í viðskiptaráðuneytinu um þessar mundir.

Annað dæmi um lagasetningu sem ég tel óhjákvæmilega á þessu kjörtímabili eru verðbréfasjóðir. Lögin um verðbréfasjóði eru frá þeim tíma sem við gengum í EES og hafa ekki staðist tímans tönn. Lögin taka að mestu mið af hinni þröngu skilgreiningu ESB á verðbréfasjóðum en ekki til hlutabréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Þetta er ekki ásættanlegt frá sjónarhóli neytendaverndar. Ég tel fullvíst að íslenskir neytendur átta sig ekki á muninum á verðbréfasjóðum og hlutabréfasjóðum að þessu leyti. Verðbréfasjóðir hafa starfsleyfi og lúta ströngum reglum um fjárfestingarstefnu og aðskilnað reksturs og vörslu og lúta jafnframt opinberu eftirliti. Hlutabréfasjóðir hafa ekki starfsleyfi heldur eru hlutafélög sem engar sérstakar reglur gilda um, aðrar en þær sem félagið setur sér sjálft. Ég tel að það sé mjög brýnt að sett verði rammalöggöf um alla sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Að þessu hefur verið unnið í nokkurn tíma en sú vinna dregist á langinn vegna þess að beðið er eftir breytingum á verðbréfasjóðatilskipun ESB.

Verðbréfaviðskiptalögin eru í sífelldri endurskoðun og þróast markaðurinn það hratt að löggjöfinn á fullt í fangi með að fylgja honum eftir. Á þessu ári hafa verið gerðar umfangsmiklar breytingar á lögunum sem lúta að aðskilnaði einstakra starfssviða, eða Kínamúrunum margfrægu, menntunarkröfum til starfsmanna fjármálafyrirtækja og afleiðusamningum. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp þar sem lagðar eru til breytingar á ákvæðum laganna um útboð verðbréfa og innherjaviðskipti. En þar með lýkur ekki þróun verðbréfaviðskiptalaganna. Fjármagnsmarkaðurinn er sífellt að verða alþjóðlegri og því verðum við að afnema þær tæknilegu hindranir sem geta verið í vegi frekari alþjóðavæðingar íslensks fjármagnsmarkaðar. Ég vil hér nefna eitt dæmi. Í verðbréfaviðskiptalögum er kveðið á um að skrá skuli hvert verðbréf á nafn eiganda. Safnskráning verðbréfa í einn pott, t.d. í vörslu verðbréfafyrirtækja, er því ekki heimil. Þetta getur verið bagalegt, sér í lagi fyrir erlenda fjárfesta sem vilja fjárfesta í íslensku atvinnulífi með ávöxtun í huga en ekki áhrif. Þeir myndu væntanlega flestir kjósa að verðbréfafyrirtækin sæju um eign sína og samskipti við viðkomandi félag en væru ekki sjálfir skráðir í hluthafaskrá þess. Þetta er ekki hægt í dag og í raun þurfa erlendir fjárfestar að skila skattframtali hér og hafa íslenska kennitölu til að geta átt hlut í íslenskum fyrirtækjum. Ég er að láta skoða það núna hvernig unnt sé að færa þessi mál í betra horf.
IV.
Ég vil nú víkja stuttlega að EES-samningnum. Það er engin spurning um það í mínum huga að samningurinn hefur orðið íslenskum fjármagnsmarkaði til góðs. Við getum treyst því að regluumhverfi íslensks fjármagnsmarkaðar er ekki ólíkt því sem gengur og gerist meðal annarra Evrópuríkja. Nýjungar í fjármálalöggjöf innan sambandsins eru strax teknar upp í íslenskan rétt og við njótum góðs af því sem og annarri vinnu sem frá ESB kemur.

Samstarf Evrópusambandsins á sviði fjármagnsmarkaðar er sífellt að verða umfangsmeira. ESB hefur gefið út framkvæmdaáætlun til næstu fimm ára um aðgerðir sem það hyggst grípa til á sviði fjármagnsmarkaðar. Áætlunin er mjög umfangsmikil og ber þess merki að sambandið telur að með tilkomu evrunnar og Netsins sé loksins unnt að koma á hinum sameiginlega innri markaði á sviði hefðbundinnar bankaþjónustu. Á síðustu árum hefur myndast skilvirkur innri markaður í fjárfestingarbankastarfsemi en hið sama hefur ekki verið uppá tengingnum hvað varðar viðskipti við heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki. Það er hins vegar að breytast. Sú breyting mun hafa mikil áhrif á hagkerfi Evrópuríkja. Bankar búa sig undir þessa samkeppni með samrunum og veita gríðarlegum fjármunum í rannsóknir og þróun í upplýsingatækni.

Við munum á næstu árum þurfa að uppfylla fjöldamargar tilskipanir á sviði fjármagnsmarkaðar. Margar þeirra snerta rafræn viðskipti á þessu sviði, svo sem tilskipanir um rafeyri og fjarsölu. Allt er þetta gert til að auðvelda framþróun fjármálaþjónustu yfir landamæri. En ESB hyggst ganga lengra. Nú eru hugmyndir uppi um að freista þess að samræma skattlagningu á þessu sviði en um það verða harðvítug pólítísk átök innan sambandsins. Annað mikilvægt mál fyrir okkur Íslendinga eru hugmyndir um að setja tilskipun um starfsemi og fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða.

V.
Góðir áheyrendur. Ég er þess fullviss að ársins 2000 verður lengi minnst á íslenskum fjármagnsmarkaði. Hver stórviðburðurinn hefur rekið annan. Ég vil til að mynda nefna tengingu Verðbréfaþingsins við NOREX. Sú gátt sem þar opnast mun hafa mikil áhrif á íslenskan fjármagnsmarkað. Íslenskir þingaðilar munu ugglaust sækja um aðild að sænsku eða dönsku kauphöllinni og nú þegar er kominn erlendur þingaðili á Verðbréfaþing Íslands. Aðildin að NOREX vekur óhjákvæmilega upp spurninguna um það hvort takmörkunin á erlendri eignaraðild í íslenskum sjávarútvegi geti gengið upp í hinu nýja umhverfi. Ég hef látið þess getið að ég telji sjálfsagt að skoða breytingar á þessu fyrirkomulagi en að nauðsynlegt sé að mikil umræða fari fram innan sjávarútvegsins áður en lengra sé haldið. Ég hef hins vegar séð í fjölmiðlum undanfarna daga að bankaráðsformaður Íslandsbanka-FBA má ekki heyra á þetta minnst.

Margt fleira markvert hefur gerst á þessu ári. Tilkoma rafrænnar skráningar verðbréfa er mikilvægt skref sem auka mun skilvirkni og veltu á markaðnum. Eftir þessu hefur verið beðið lengi en geta má þess að það eru um tíu ár síðan að viðskiptaráðuneytið hugaði fyrst að því hvernig koma mætti á fót verðbréfamiðstöð hér á landi.

Sameiningar fjármálafyrirtækja hafa verið áberandi á árinu, niðursveifla markaðarins, stofnun útibúa og dótturfyrirtækja erlendis, umræða um siðferði og hugarfar á markaðnum og verklagsreglur fjármálafyrirtækja, erlend eignaraðild að Landsbankanum, skráning Kaupþings á markaði og fleiri atriði mætti nefna sem gera þetta ár markvert og minnisstætt.

Ég er bjartsýn fyrir hönd íslensks fjármagnsmarkaðar og þess fullviss að hann getur spjarað sig í samkeppninni. Það er þó vert að undirstrika í lokin að fjármálafyrirtæki verða að fara að öllu með gát. Útlánaaukning lánakerfisins er mun meiri heldur en samrýmst getur langtímajafnvægi á markaðnum. Því þurfa öll fjármálafyrirtæki að huga vel að gæðum útlána sinna.

Ég vil þakka fyrir það tækifæri að fá að ávarpa þennan fund hér í dag og óska Kaupþingi og íslenskum fjármagnsmarkaði velfarnaðar.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum