Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. febrúar 2010 MatvælaráðuneytiðGylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra 2009-2013

Ávarp Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra við afhendingu EDI verðlaunanna 22. febrúar 2010

Ágætu gestir,

Mér er það sönn ánægja að ávarpa aðalfund Icepro nefndarinnar, og afhenda EDI verðlaunin í þetta sinn.

Icepro nefndin á langan ferill að baki sem samráðsnefnd um rafræn viðskipti. Nefndinni er ætlað að vera samstarfsvettvangur atvinnulífsins og opinberra aðila um rafræn viðskipti.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur haft forgöngu um setningu laga og reglugerða um rafræn viðskipti og hefur stutt við starfssemi Icepro með framlagi undanfarin ár.  

Tækniforskrift um einfaldan rafrænan reikning var kynnt á ráðstefnu í október sl. Hún er lykilinn að unnt sé að þróa lausnir fyrir rafrænan reikning á samræmdan hátt.  Þessi forskrift á að leiða til þess að hugbúnaðarhús geti þróað lausnir á ódýran hátt, til hagsbóta fyrir markaðinn.  Mikilvægt er að vinna áfram að tækniforskrift rafrænna viðskipta og hefur ráðuneytið stutt við þessa vinnu bæði með framlagi til Fagstaðlaráðs í upplýsingatækni (FUT) og Icepro.

FUT og Icepro eru um þessar myndir að útfæra sameiginlega stefnu til þriggja ára um þróun, kynningu og innleiðingu á tækniforskrift er varða rafræn innkaup. Samræmd stefna og framtíðarsýn þessara aðila mun vonandi skila betri árangri og skilvirkari forgangsröðun verkefna í framtíðinni. Með þátttöku íslenska lausnaraðila í þróun lausna á þessu sviði, þá byggist upp reynsla og hæfni til að bjóða lausnir á breiðari grundvelli.

Sameiginleg yfirlýsing ráðherra aðildarríkja Evrópusambandsins og EFTA var undirrituð í Malmö þann 18. nóvember 2009  Samþykktin fjallar m.a. um að á meðan stjórnvöld grípa til aðgerða á erfiðum tímum í efnahags-, félags- og umhverfismálum þá aukist væntingar evrópskra borgara og fyrirtækja til stjórnvalda um opinbera þjónustu og að hún verði opnari, sveigjanlegri og samstarfsfúsari við almenning um alla álfuna.  Sameiginleg sýn ríkjanna tekur m.a. mið af því að auka hreyfanleika á innri markaði með snurðulausri rafrænni opinberri þjónustu, þannig að stofna megi og reka fyrirtæki eða stunda nám, sækja störf eða flytja búsetu innan EES án teljandi hindrana.

Með yfirlýsingunni í Malmö höfum við, ráðherrar sem berum ábyrgð á stefnu í rafrænni stjórnsýslu í aðildarríkjum Evrópusambandsins, inngönguríkjum og umsóknarlöndum um aðild að sambandinu og EFTA-ríkjunum, samþykkt að leitast við að ná þessum markmiðum og vinna náið með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að skilgreina aðgerðir til að ná markmiðunum á tímabilinu fram til 2015.

Ríkisstjórnin hefur að undanförnu unnið að verkefninu 20/20 sóknaráætlun en ein af grunnstoðum þeirrar áætlunar sem kynnt verður síðar á þessu ári verður að auka samkeppnishæfni landsins. Fram hefur komið að einn af þeim þáttum sem dregur úr þeirri einkunn sem Ísland fær fyrir samkeppnishæfini í samanburði við önnur Evrópuríki er rafræn stjórnsýsla og aðgengi almennings að upplýsingum í stjórnkerfinu. Þrátt fyrir að íslenskt samfélag skari að mörgu leyti fram úr í upplýsinga- og tölvutækni er ljóst að enn er margt óunnið til að bæta og straumlínulaga ferla varðandi rafræn viðskipti á sviði stjórnsýslu og í samskiptum hins opinbera og atvinnulífsins. Mikilvægt er að við notum þá tækni sem til er til að auka aðgengi að opinberum upplýsingum og leggjum áherslu á rafræna stjórnsýslu til að draga úr stjórnsýslubyrði og bæta ferla.

Í dag eru hið opinbera og flest fyrirtæki að ganga í gegnum mikinn niðurskurð til þess að leggja grunn að enduruppbyggingu íslensks efnahags- og viðskiptalífs.  Stóra verkefnið er að treysta samkeppnishæfni Íslands til framtíðar. Ein meginstoð bættrar samkeppnishæfni er að viðhalda lágum kostnaði við helstu þætti viðskipta einstaklinga og fyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Þar sem íslenskt efnahagslíf verður ávalt háð fremur litlum einingum sem ekki ná fyllstu stærðarhagkvæmni eru allar leiðir til þess að draga úr þessum viðskiptakostnaði afar mikilvægar. Þannig leika rafræn viðskipti stórt hlutverk í að skapa grundvöll fyrir aukinni framleiðni og hagræði, þar sem sjálfvirkni og sjálfsafgreiðsla geta leyst af hólmi óhagkvæma og tímafreka handavinnu bæði í viðskiptum og stjórnsýslu. 

Síðastu mánuðir hafa þannig verið fremur litaðir af niðurskurði og aðhaldi en uppbyggingu og fjárfestingu í nýjum verkefnum. Engu að síður er vert að hafa í huga að margt hefur áunnist á undanförnum árum og mikil fjárfesting í upplýsingatækni hefur skilað árangri.

Að endingu langar mig því að nefna aðeins eitt dæmi um hvernig fjárfesting í upplýsingatækni skilar miklum og oft ómældum ábata. Eitt af því sem gleymist gjarnan í umfjöllun um afleiðingar bankahrunsins á Íslandi í október 2008 er að afleiðingarnar af þroti bankanna hefðu í reynd getað verið svo miklum mun verri. Þannig er hollt að velta fyrir sér hvaða brestir hefðu óhjákvæmilega komið í efnahagsstarfsemi á Íslandi þetta örlagaríka haust ef við byggjum ekki við eitt fullkomnasta og skilvirkasta greiðslumiðlunarkerfi í heimi sem byggt hefur verið upp á undanförnum árum af Reiknistofu bankanna, Seðlabankanum og fjármálastofnunum.

Þrátt fyrir að þrír stærstu viðskiptabankar landsins færu allir í þrot á innan við viku hélt almenn bankastarfsemi engu að síður áfram viðstöðulaust, dyr bankaútibúa stóðu opnar, hraðbankar virkuðu allan sólarhringinn og hvorki hökt né hiksti kom í viðskipti með greiðslukort, gegnum netbanka eða aðra miðla rafrænna viðskipta.  Lífæð viðskipta milli einstaklinga og fyrirtækja var furðu lítt snortin af þeim hamförum sem gengu yfir fjármálakerfið.

Þessi reynsla kennir okkur það að íslenskt samfélag býr að miklum mannauð, þekkingu og tækni á sviði rafrænna viðskipta sem getur og hefur við erfiðar aðstæður komið í ótrúlega góðar þarfir.

Þótt tímabundnir erfiðleikar dragi án efa úr sókndirfsku og fjárfestingu er mikilvægt að við missum ekki móðinn en höldum áfram að byggja á þeirri þekkingu og reynslu á þessu sviði sem er til staðar í landinu, enda er framtíð blómlegra viðskipta og þar með vöxtur efnahagslífsins að mörgu leyti háð því að við nýtum þau tækifæri sem til staðar eru á sviði upplýsingatækni og rafrænna viðskipta með sem bestum hætti. 

Nú er komið af afhendingu verðlaunanna en í ár hlýtur Samkaup hf. EDI bikarinn. Matsnefnd EDI bikars voru Vilhjálmur Egilsson Samtökum Atvinnulífsins, Júlíus Sæberg Ólafsson Ríkiskaup og Karl Garðarson stjórnarmaður í Icepro.

Samkaup hefur verið með EDI kerfið nú í rúm 10 ár í skráningu vörukaupa. Í dag er verið að skrá um 450 þúsund reikninga á ári og allt ferlið frá pöntun til móttöku reiknings fyrir 53 verslanir um allt land er rafrænt. Þetta hefur leitt til mikillar hagræðingar og álíta forsvarsmenn fyrirtækisins að ekki sé óvarlegt að áætla að sparnaður geti numið um 700 krónum á hvern reikning, sem reiknast til rúmlega 300 milljóna króna hagræðingar á ári.

Þetta gefur góða hugmynd um hversu mikils árángurs má vænta af frekari innleiðingu rafrænna viðskiptahátta í íslenskt viðskiptaumhverfi.

Nú hefur verið tekin upp sú nýbreytni hjá Samkaupum, að stór hluti reikninga frá aðilum sem ekki nýta sér rafræn viðskipti eru afreiknaðir, kassasala, og í kjölfarið sendir rafrænt í gegnum EDI eins og um venjulegan EDI reikning sé að ræða. Þetta þýðir að um 95% allra reikninga eru rafrænir, reikningar sem færast þar með sjálfvirkt í fjárhags- og birgðarkerfi fyrirtækisins og villur eru orðnar innan við 2%. Öllu þessu verki er sinnt með þremur stöðugildum.

Áætlað er að um 500 fyrirtæki í verslun gætu nýtt sér þetta fyrirkomulag til verulegrar hagræðingar þ.e. móttaka rafrænna pantana til sjálfvirkrar skráningar í fjárhags og birgðakerfi, fyrirtæki sem ekki eru að gera það í dag.

Hjá Samkaupum er fylgst vel með þeirri þróun sem í gangi er varðandi XML og miklar væntingar í gangi varðandi frekari framgang þeirrar þróunar.

Þá ætla ég að biðja framkvæmdarstjóra Samkaupa Ómar Valdimarsson að koma hér upp og taka við EDI bikarnum fyrir hönd Samkaupa.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum