Hoppa yfir valmynd
24. júní 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Hugum vel að samkeppnismálum

Á undanförnum áratug hefur náðst góður árangur í stjórn efnahagsmála á Íslandi. Á þeim tíma hefur skuldastaða ríkissjóðs batnað mikið, afgangur af utanríkisviðskiptum og kaupmáttur launa hefur aukist verulega og verðbólgutölur haldist lágar í sögulegu samhengi. Ýmsar áskoranir hafa þó skotið upp kollinum undanfarin tvö ár. Heimsfaraldurinn setti hið venjubundna líf jarðarbúa á ís með ýmsum röskunum á aðfangakeðjum og tilheyrandi áhrifum á alþjóðaviðskipti. Þá hefur óverjanleg innrás Rússa í Úkraínu mikil áhrif á verðlagsþróun í heiminum öllum, meðal annars á orku- og fæðukostnað.

Áhrifa þessa er farið að gæta í efnahagsmálum víða um veröld og hafa verðbólgutölur hækkað töluvert á skömmum tíma. Áhrifin af slíkri þróun koma við hvert einasta heimili í landinu, sér í lagi tekjulágt fólk. Gripu stjórnvöld meðal annars til mótvægisaðgerða með þetta í huga, með sértækum aðgerðum eins og hækkun bóta almannatrygginga, sérstökum barnabótaauka til þeirra sem eiga rétt á tekjutengdum barnabótum og hækkun húsnæðisbóta. Aukinheldur hafa ríkisstjórn og Seðlabanki lagst sameiginlega á árarnar til þess að takast á við hækkandi verðbólgu. Kynnti ríkisstjórnin í því samhengi 27 milljarða aðhaldsaðgerðir í rekstri hins opinbera til að draga úr þenslu og verðbólguþrýstingi.

Það er skoðun mín að það sé sameiginlegt verkefni okkar sem samfélags, að halda aftur af verðlagshækkunum eins og kostur er. Þar skipta samkeppnismál miklu. Virk samkeppni er einn af hornsteinum efnahagslegrar velgengni. Samkeppniseftirlitið hefur meðal annars hafið upplýsingaöflun um þróun verðlags á helstu mörkuðum, til að meta hvort verðlagshækkanir kunni að stafa af ónægu samkeppnislegu aðhaldi eða óeðlilegum hvötum. Mun eftirlitið leggja sérstaka áherslu á dagvörumarkað, eldsneytismarkað og byggingarvörumarkað. Það gerir Samkeppniseftirlitinu auðveldara um vik að greina óhagstæð ytri áhrif á verðþróun og greina hvort verðhækkanir kunni að stafa af mögulegum samkeppnisbresti á viðkomandi mörkuðum. Í vikunni samþykkti ríkistjórnin einnig tillögu mína um skipun vinnuhóps til að greina gjaldtöku og arðsemi bankanna. Við vitum að stór hluti af útgjöldum heimilanna rennur til bankanna, í formi afborgana af húsnæðis-, bíla- og neyslulánum auk vaxta og þjónustugjalda. Samsetning þessara gjalda er oft flókin, sem gerir samanburð erfiðan fyrir almenna neytendur. Því tel ég brýnt að hlutur þessara þátta verði skoðaður ofan í kjölinn, með vísan til samkeppnisþátta og hagsmuna neytenda. Markmiðið er að kanna hvort íslensk heimili greiði meira fyrir almenna viðskiptabankaþjónustu en heimili á hinum Norðurlöndunum.

Þrátt fyrir stórar áskoranir á heimsvísu skipta aðgerðir okkar innanlands miklu máli. Ég hvet okkur öll til þess að vera á tánum, því sameiginlega náum við meiri árangri í verkefnum líðandi stundar.

Höfundur er viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum