Hoppa yfir valmynd

Stýrihópur um eflingu umhverfis- og loftslagsvænna nýfjárfestinga á landsvísu ("Græni dregillinn")

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skipaður 8. nóvember 2022.
Stýrihópur um eflingu umhverfis- og loftlagsvænna nýfjárfestinga. Verkefnið hefur hlotið heitið „Græni dregillinn“ og er því ætlað að efla stuðning við aðila sem sýna áhuga á að ráðast í loftslagstengd græn nýfjárfestingarverkefni á Íslandi.

Verðmæt tækifæri kunna að vera fólgin í grænni nýfjárfestingu og uppsetningu grænna iðngarða á Íslandi. Undanfarna mánuði hafa aðilar úr ýmsum áttum unnið að kortlagningu grænna iðngarða og hvar helstu sóknarfærin liggja. Hringrásarhagkerfið leikur þar mikilvægt hlutverk en að vinnunni stóðu Íslandsstofa, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, Landsvirkjun og Norðurþing. Kynntur hefur verið fyrsti áfangi þeirrar vinnu og leiðarvísir fyrir næstu skref. Er þar gerð grein fyrir því hvernig efla má atvinnulífið, auka samkeppnishæfni Íslands og treysta byggð á landsbyggðinni með grænum nýfjárfestingum og uppbyggingu grænna iðngarða.

Greining Íslandsstofu bendir til þess að stuðningsumhverfið við nýfjárfestingarverkefni sé öflugra í helstu samkeppnislöndum okkar, og að ferli og umgjörð slíkra fjárfestingaverkefna, frá hugmynd að rekstri, sé markvissara, einfaldara og skýrara.

Markmið verkefnisins um Græna dregilinn er að framfylgja stefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs t.a.m. á sviði útflutnings, erlendrar fjárfestingar, nýsköpunar, orkumála, loftslagsmála og sjálfbærni, og fjölga störfum með áherslu á græna nýsköpun, aukna framleiðni og virkjun hugvits til þess að stuðla að hringrásarhagkerfi og kolefnishlutleysi. Verkefnið er viðbragð við breyttu alþjóðlegu samkeppnisumhverfi þar sem vægi sértækra ívilnana hefur minnkað en meira er lagt upp úr samkeppnishæfu almennu viðskiptaumhverfi, sjálfbærni, markvissri þjónustu, fyrirsjáanleika og skýrum og einföldum ferlum.

Íslandsstofa hefur kynnt þessar hugmyndir með almennum hætti fyrir sveitarfélögum og landshlutasamtökum sveitarfélaga og hafa þær hlotið góð viðbrögð. Fyrir liggur að allmörg nýfjárfestingarverkefni eru í athugun víðsvegar um landið og myndi verkefnið bæði geta stutt við framgang þeirra og notið góðs af þeirri greiningarvinnu sem unnið er að í tengslum við þau.

Gerður verður samstarfssamningur á milli umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og Íslandsstofu um verkefnisstjórn verkefnisins. Í verkefnisstjórn felst áhersla á stuðning við landshlutasamtök sveitarfélaga, sveitarfélög og aðra hagaðila við að skilgreina og þróa tækifæri til nýfjárfestinga og bæta þjónustu við áhugasama fjárfesta. Ljóst er að fjöldi hagsmunaaðila þarf að leggjast á eitt til að verkefnið nái árangri.

Sýn verkefnisins um Græna dregilinn er að bæta ferla og þjónustu, allt frá hugmynd að rekstri, við nýfjárfestingarverkefni sem falla að framangreindri stefnumótun eða eru á skilgreindum þróunarsvæðum samkvæmt vinnu landshlutasamtaka sveitarfélaga og/eða sveitarfélaga.

Stýrihópurinn er þannig skipaður:

Án tilnefningar
Diljá Mist Einarsdóttir, formaður
Halla Sigrún Sigurðardóttir

Samkvæmt tilnefningu forsætisráðuneytis
Eggert Benedikt Guðmundsson

Samkvæmt tilnefningu utanríkisráðuneytis
Ragnar G. Kristjánsson

Samkvæmt tilnefningu fjármála- og efnahagsráðuneytis
Ólafur Heiðar Helgason

Samkvæmt tilnefningu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis
Sigríður Valgeirsdóttir

Samkvæmt tilnefnigu innviðaráðuneytis
Arnheiður Ingjaldsdóttir

Samkvæmt tilnefningu menningar- og viðskiptaráðuneytis
Ingvi Már Pálsson

Samkvæmt tilnefningu matvælaráðuneytis
Björn Helgi Barkarson

Samkvæmt tilnefningu Skattsins
Guðlaug Guðjónsdóttir

Samkvæmt tilnefningu Skipulagsstofnunar
Ólafur Árnason

Samkvæmt tilnefningu Byggðastofnunar
Sigríður Elín Þórðardóttir

Samkvæmt tilnefningu Umhverfisstofnunar
Hugrún Geirsdóttir

Samkvæmt tilnefningu Íslandsstofu
Pétur Óskarsson

Samkvæmt tilnefningu Orkustofnunar
Sigurður Ingi Friðleifsson

Samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga
Hrönn Hrafnsdóttir

Kjartan Ingvarsson, lögfræðingur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu er starfsmaður stýrihópsins.


Tímabundnar nefndir
Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum