Hoppa yfir valmynd

Starfsemi ráðuneytisins á árinu 2022

Ráðuneytið - skipulag og hlutverk

Verkefni heilbrigðisráðuneytisins varða heilbrigðisþjónustu, lyfjamál, lýðheilsu og forvarnir, sjúkratryggingar almannatrygginga, lífvísindi og lífsiðfræði, líkt og nánar er tilgreint í forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Innra skipulag

Heilbrigðisráðuneytið starfar samkvæmt skipuriti sem tók gildi 1. mars 2020. Innan ráðuneytisins starfa jafnframt tíu fagteymi þvert á skrifstofur um tiltekna málaflokka. Þetta eru fagteymi geðheilbrigðismála, fagteymi mönnunar heilbrigðisþjónustunnar, fagteymi lyfjamála, fagteymi stafrænnar þróunar, fagteymi þjónustu við aldraða og langveika, fagteymi sjúkraflutninga, fagteymi um gæðamál í heilbrigðisþjónustu, fagteymi um endurhæfingu, fagteymi samninga og starfsleyfa og fagteymi tannheilsu.

Í árslok 2022 voru starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins 60 talsins í 56,5 stöðugildum. Kynjahlutfallið var þannig að 77% starfsfólksins voru konur eða 46 talsins og 23% voru karlar eða 14 talsins. Meðalaldur starfsfólks var 49,9 ár og meðalstarfsaldur starfsfólks í ráðuneytinu var 6,7 ár.

Mannauðsstefna Stjórnarráðsins er leiðarljós ráðuneytisins í mannauðsmálum, með áherslu á að ráðuneytið sé eftirsóknarverður vinnustaður sem býður upp á tækifæri fyrir starfsfólk til að eflast og þróast í starfi. Ráðuneytið er með jafnlaunavottun og starfar í samræmi við jafnlaunastefnu Stjórnarráðsins sem er hluti af jafnréttisáætlun þess.

Stofnanir ráðuneytisins

Undir heilbrigðisráðuneytið heyra 15 stofnanir. Af þeim eru níu heilbrigðisstofnanir sem veita heilsugæslu- og sjúkrahússþjónustu í öllum sjö heilbrigðisumdæmum landsins, þar með eru taldar Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítali. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands veitir sérhæfða þjónustu á sínu sviði. Aðrar stofnanir ráðuneytisins eru embætti landlæknis, Lyfjastofnun, Sjúkratryggingar Íslands, Geislavarnir ríkisins og Vísindasiðanefnd.

Málefnasvið og málaflokkar

Lög um opinber fjármál mæla fyrir um skiptingu fjárlaga í málefnasvið og málaflokka sem eru á ábyrgð ráðuneyta. Málefnasviðin eru samtals 35 og málaflokkarnir yfir 100. Fimm málefnasvið eru á ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins og undir þau heyra 13 málaflokkar. Að auki ber ráðuneytið ábyrgð á málaflokknum 2960 bætur vegna veikinda og slysa. Sá málaflokkur heyrir undir málefnasvið 29 Fjölskyldumál* sem er á ábyrgð félagsmálaráðuneytisins.

23           Sjúkrahúsþjónusta

                2310 - Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta

                2320 - Almenn sjúkrahúsþjónusta

                2330 - Erlend sjúkrahúsþjónusta

24           Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa 

                2410 - Heilsugæsla

                2420 - Sérfræðiþjónusta og hjúkrun

                2430 - Sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun

                2420 - Sjúkraflutningar

25           Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta

                2510 - Hjúkrunar- og dvalarrými

                2520 - Endurhæfingarþjónusta

26           Lyf og lækningavörur

                2610 - Lyf

                2630 – Hjálpartæki

29           Fjölskyldumál*

                2960 – bætur vegna veikinda og slysa

32           Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

                3210 - Lýðheilsa- forvarnir og eftirlit

                3230 – Stjórnsýsla heilbrigðismála

Starfsemin árið 2022

Stefnumótun

Áherslur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar setja eðli málsins samkvæmt mark sitt á vinnu og helstu verkefni á málefnasviðum ráðuneytisins á hverjum tíma. Stefnumótun og áætlanagerð er jafnframt ríkur þáttur í störfum ráðuneytisins og felst í mörgum tilvikum í því að útfæra nánar áherslur og aðgerðir sem fram koma í stjórnarsáttmálanum. Slík vinna fer í miklum mæli fram í starfshópum sem ráðherra skipar til tiltekinna verkefna. Vinnu þessara hópa lýkur jafnan með lokaskýrslu og tillögum til ráðherra sem hann tekur afstöðu til, þ.e. hvort og hvernig þeim verði hrint í framkvæmd. Áhersla er lögð á víðtækt samráð í mikilvægum málum og mörg slík mál eru birt opinberlega til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda af hálfu heilbrigðisráðuneytisins ár hvert. Mikilvæg stefnumótun fer einnig fram við undirbúning stjórnvaldsfyrirmæla, s.s. við smíði reglugerða og vinnu við frumvarpagerð til undirbúnings lagasetningar Alþingis. Af einstökum málum sem birt voru til umsagnar má nefna þingsályktun um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til ársins 2027, drög að frumvarpi til að festa í lög ákvæði um cumulativa hlutlæga refsiábyrgð heilbrigðisstofnana, drög að frumvarpi um hámarksaldur heilbrigðisstarfsfólks í starfi hjá ríkinu, drög að frumvarpi um heimild til aukinnar samvinnu heilbrigðisstarfsfólks og lögreglu vegna heimilisofbeldis. Alls voru 22 mál birt til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda árið 2022.

Nánar

Nefndir, starfshópar, stjórnir og ráð

Heilbrigðisráðherra skipaði á árinu fimm manna stjórn Landspítala til tveggja ára í samræmi við breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu sem samþykkt var á Alþingi 9. júní 2022. Markmiðið er að styrkja stöðu og hlutverk Landspítala sem mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.  Ráðherra skipaði einnig notendaráð heilbrigðisþjónustu sem er nýmæli og var bundið í lög með breytingu á sömu lögum. Ráðið er skipað samkvæmt tilnefningum sjúklingasamtaka og er tilgangur þess að tryggja að sjónarmið notenda séu höfð til hliðsjónar við ákvarðanatöku um atriði sem varða hagsmuni sjúklinga innan heilbrigðisstofnana. Aðrar nefndir, starfshópar, vinnuhópar og ráð sem ráðherra skipaði árið 2022 eru eftirtalin:

  • Starfshópur um leiðir til að jafna aðgang að sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði óháð búsetu
  • Stýrihópur um þróun og stefnumótun um stafrænar lausnir og heilbrigðistæknilausnir við veitingu heilbrigðisþjónustu
  • Starfshópur um fyrirkomulag vegvísunar í heilbrigðiskerfinu
  • Starfshópur um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería
  • Vinnuhópur sem falið er að endurskoða lög um geislavarnir nr. 44/2002 í heild sinni
  • Starfshópur um framtíðarsýn húsnæðis geðþjónustu á Landspítala
  • Verkefnastjórn um innleiðingu verklags vegna liðskiptaaðgerða
  • Starfshópur um aukna lyfjafræðilega þjónustu í apótekum, hvítbók og tillögur
  • Endurhæfingarráð
  • Viðbragðsteymi um bráðaþjónustu í landinu
  • Vinnuhópur um endurskoðun á mats- og greiðslukerfi hjúkrunarheimila
  • Verkefnahópur um aðgerðaáætlun lýðheilsustefnu
  • Starfshópur um útgáfu vottorða skv. reglugerð á grundvelli 19. gr. laga nr. 34/2012
  • Samráðshópur um sjúkraflug, samkvæmt tillögu starfshóps frá 2018, um aukna aðkomu þyrlna að sjúkraflugi
  • Samráðshópur til að fjalla nánar um afstöðu notendahópa til mögulegra breytinga á lögum um réttindi sjúklinga hvað viðkemur beitingu nauðungar á heilbrigðisstofnunum
  • Starfshópur um endurskoðun refsiábyrgðar heilbrigðisstarfsfólks
  • Samráðshópur um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til ársins 2030
  • Starfshópur um afglæpavæðingu neysluskammta
  • Vinnuhópur um samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu
  • Starfshópur til að greina mál yngri einstaklinga á hjúkrunarheimilum

Uppbygging innviða

Hér á eftir er fjallað um verkefni sem miða að því að styrkja innviði heilbrigðiskerfisins. Annars vegar er fjallað um framkvæmdir sem snúa beint að mannvirkjum þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt. Hins vegar er fjallað um verkefni sem miða að því að byggja upp og efla þjónustu heilbrigðiskerfisins og gera hana skilvirkari í þágu notenda.

Framkvæmdir og nýtt húsnæði

Mikill kraftur var í framkvæmdum við Nýjan Landspítala á árinu. Lykilbyggingar Landspítala við Hringbraut rísa nú hratt og má þar helst nefna meðferðarkjarnann og rannsóknahúsið. Einnig var á árinu unnið að framkvæmdum við hönnun bílastæða- og tæknihúss, auk undirbúnings að viðbyggingu endurhæfingardeildar Landspítala við Grensás. Frá árinu 2010 hefur verið fjárfest í uppbyggingu Landspítala fyrir 28,7 milljarða króna, þar af fyrir 10,3 milljarða króna árið 2022. Gert er ráð fyrir að fjárfestingin verði tvöfalt hærri árið 2023 og nemi þá 21,5 milljörðum króna.

Samningur Nýs Landspítala ohf. við Nordic Office of Architecture og EFLU verkfræðistofu um fullnaðarhönnun 3.800 fermetra viðbyggingar við endurhæfingardeild Grensáss var undirritaður í ágúst. Gert er ráð fyrir að hönnunarferlið taki um það bil eitt ár og að þá verði unnt að hefja verklegar framkvæmdir.

Heilbrigðisráðherra og bæjarstjóri Kópavogs undirrituðu í janúar viljayfirlýsingu um byggingu hjúkrunarheimilis í Kópavogi fyrir 120 íbúa.

Samningur heilbrigðisráðuneytisins og Ísafjarðarbæjar um stækkun hjúkrunarheimilisins Eyrar á Ísafirði var undirritaður í mars. Með nýrri viðbyggingu bætast við rými fyrir 10 íbúa en þeir eru nú 30.

Heilbrigðisráðherra og bæjarstjóri Mosfellsbæjar undirrituðu í maí samning um stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra í Mosfellsbæ. Reist verður nýbygging áföst heimilinu fyrir 44 íbúa. Þar með ríflega tvöfaldast stærð heimilisins með aðstöðu fyrir samtals 77 íbúa.

Fyrsta skóflustungan að nýju hjúkrunarheimili á Nesvöllum í Reykjanesbæ var tekin í maí. Þá var ráðgert að með því myndi hjúkrunarrýmum fjölga um 60, en síðar var tekin ákvörðun um að stækka framkvæmdina og verður nýja heimilið með aðstöðu fyrir 80 íbúa.

Tekin var fyrsta skóflustungan að nýju hjúkrunarheimili á Höfn í Hornafirði í september. Framkvæmdin felur í sér 1.400 fermetra viðbyggingu við eldra húsnæði Skjólgarðs sem jafnframt verður endurgert.

Gengið var til samninga um leigu á húsnæði fyrir nýja heilsugæslustöð við Aðalgötu 60 í Reykjanesbæ um mitt ár 2022 og rekstur stöðvarinnar jafnframt boðin út. Þetta verður fyrsta sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðin utan höfuðborgarsvæðisins. Gert er ráð fyrir að hún taki til starfa í september 2023.

Ráðherra úthlutaði í september um 650 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Áhersla var lögð á verkefni sem bæta aðbúnað íbúa á hjúkrunarheimilum, úrbætur sem tengjast aðgengismálum og öryggismálum og ýmsum stærri viðhaldsverkefnum.

Heilbrigðisráðherra veitti Sjúkrahúsinu á Akureyri 307 milljónir króna í auknar fjárheimildir til að ljúka brýnum framkvæmdum. Annars vegar vegna lokafrágangs við nýtt sjúkrahúsapótek spítalans og hins vegar á innréttingu tæplega 600 fermetra húsnæðis sem m.a. nýtist fyrir kennsluaðstöðu og skrifstofur.

Þjónusta

Heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk er eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar líkt og fram kemur í stjórnarsáttmála. Viljayfirlýsing þriggja ráðherra, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landssamtaka eldri borgara um slíka heildarendurskoðun var undirrituð 21. júní. Á Alþingi var samþykkt þingsályktun heilbrigðisráðherra um framtíðarsýn fyrir heilbrigðisþjónustu við aldraða og skipuð var verkefnastjórn vegna heildarendurskoðunar á þjónustu við eldra fólk. Drög að aðgerðaáætlun til fjögurra ára um þjónustu við eldra fólk voru kynnt fyrir húsfylli á opnum fundi sem heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra héldu sameiginlega þann 5. desember. Gott að eldast er yfirskrift aðgerðaáætlunarinnar. Markmiðið er að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu og að þjónustan sé veitt þegar hennar er þörf, á forsendum fólksins sjálfs og réttu þjónustustigi.

Samningur um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu til næstu fimm ára var undirritaður í apríl. Samningsaðilar eru Sjúkratryggingar Íslands og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Samningurinn tekur til allra sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu auk flutninga fyrir Landspítala. Til marks um umfang þjónustunnar sem samningurinn fjallar um nemur kostnaður vegna hennar vel á annan milljarð króna á ári.

Heilbrigðisráðherra staðfesti í apríl samning Sjúkratrygginga Íslands um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Samningarnir eru til þriggja ára og nemur heildarfjármagn til þeirra tæpum 130 milljörðum króna. Með samningnum var rekstrargrunnur heimilanna styrktur um 1,0 milljarð króna á ársgrundvelli, framlög vegna betri vinnutíma aukin um 1,2 milljarða króna, auk rúmlega 570 milljóna króna til að mæta aukinni hjúkrunarþyngd, styrkja litlar rekstrareiningar með svokölluðu smæðarálagi og eflingu kostnaðarútlagasjóðs.

Samið var við Sóltún öldrunarþjónustu ehf. um nýja tegund sérhæfðrar þjónustu við aldraða og fer starfsemin fram í endurgerðu húsnæði gamla Sólvangs í Hafnarfirði. Þar er aðstaða fyrir 39 einstaklinga sem njóta tímabundinnar endurhæfingar sem miðar að því að viðhalda og auka virkni viðkomandi og efla getu þeirra til sjálfstæðrar búsetu. Gert er ráð fyrir að árlega verði hægt að veita a.m.k. 400 einstaklingum þessa þjónustu.

Með samkomulagi milli Sjúkratrygginga Íslands og Eirar hjúkrunarheimilis var ákveðið að fjölga endurhæfingarrýmum á Eir um 20. Rýmin eru ætluð einstaklingum sem útskrifast af Landspítala í þörf fyrir fjölþætta endurhæfingu. Þetta er liður í aðgerðum heilbrigðisyfirvalda til að styðja við starfsemi Landspítala, létta álagi af bráðaþjónustu spítalans og efla endurhæfingarþjónustu.

Ákveðið var að byggja upp á Vífilsstöðum þjónustu fyrir aldraða með áherslu á skammtímainnlagnir og endurhæfingu til að veita markvissari stuðning við aldraða sem búa í sjálfstæðri búsetu en þurfa á tímabundinni þjónustu að halda. Fyrirtækið Heilsuvernd tók að sér rekstur þjónustunnar að undangengnu útboði.

Viðbragðsteymi um bráðaþjónustu á landsvísu sem heilbrigðisráðherra skipaði í ágúst skilaði ráðherra heildstæðum tillögum í lok árs um aðgerðir til að efla og bæta bráðaþjónustu um allt land. M.a. lagði teymið til að bæta tækjabúnað á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum á grundvelli þarfagreiningar sem teymið vann og ákvað heilbrigðisráðherra að ráðstafa um 330 milljónum króna í því skyni.

Ný skurðstofa fyrir liðskiptaaðgerðir við Heilbrigðisstofnun Vesturlands var tekin í notkun í september. Markmiðið er að stórefla getu og afköst stofnunarinnar á þessu sviði. Áætlað er að afkastagetan ríflega tvöfaldist og að árlega verði framkvæmdar um 430 liðskiptaaðgerðir við HVE.

Brjóstamiðstöð Landspítala var formlega opnuð í september. Þar fer m.a. fram brjóstaskimun, brjóstamyndgreining, greiningar á sjúkdómum og öflug göngudeildarþjónusta. Miðstöðin heldur utan um fjölbreytta þjónustu tengdum ýmsum sjúkdómum í brjóstum, sinnir þjónustu úti á landi og fólki sem er í áhættuhópi á að fá krabbamein vegna stökkbreytinga í genum.

Rammasamningur við sálfræðinga var endurnýjaður á árinu með þeirri viðbót að samningurinn nær núna til allra aldurshópa en ekki aðeins barna og unglinga. Þjónustan tekur nú til fólks á öllum aldri vegna gruns eða staðfestingar á vægum eða meðalalvarlegum kvíða og þunglyndi. Þjónusta er veitt á grundvelli tilvísana.

Samið var við Klíníkina um aðgerðir vegna endómetríósu með áherslu á að stytta bið eftir þessari þjónustu.

Heilbrigðisráðherra veitti Sjúkratryggingum Íslands fjármagn til kaupa á 1.000 svefnöndunarvélum til meðhöndlunar á kæfisvefni. Ákvörðunin tengdist aukinni getu Landspítala til að veita meðferð við kæfisvefni og markmiði um að stytta til muna bið fólks eftir þessari mikilvægu þjónustu.

Áfram var unnið að nýsköpun og þróun fjarheilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisráðherra úthlutaði tæpum 35 milljónum króna í gæða- og nýsköpunarstyrki með áherslu á heilsueflingu og nýtingu nýrra lausna til að auka gæði þjónustu og hagkvæmni. Einnig ákvað hann að ráðstafa tæpum 30 milljónum króna til uppbyggingar fjaraugnlækninga við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og búnaðar á sviði fjarlækninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Í lok árs skipaði heilbrigðisráðherra stýrihóp um þróun og stefnumótun vegna stafrænna lausna og heilbrigðistækni í heilbrigðisþjónustu. Hópurinn verður samráðsvettvangur og ráðuneytinu til ráðgjafar við að móta stefnu og framtíðarsýn á þessu sviði.

Greiðsluþátttaka sjúklinga

Tæplega 400 milljónum króna var varið til að lækka greiðsluþátttöku öryrkja og aldraðra fyrir almenna tannlæknaþjónustu og greiðsluþátttöku almennings vegna nauðsynlegra tannlækninga af völdum meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Gjaldskrárbreytingar þessa efnis tóku gildi 1. janúar.

Þann 1. apríl voru gerðar breytingar á greiðsluþátttöku lífeyrisþega, barna og ungmenna í lyfjakostnaði. Breytingin var gerð í samræmi við markmið stjórnvalda um að draga úr greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu með áherslu á að bæta stöðu viðkvæmra hópa og jafna aðgengi fólks að þjónustunni. Framlag ríkissjóðs vegna breytinganna nemur um 270 milljónum króna á ársgrundvelli.

Gerðar voru breytingar á reglum um styrki vegna hjálpartækja fyrir íbúa á hjúkrunarheimilum. Heimildir Sjúkratrygginga Íslands til að veita styrki til hjálpartækja fyrir fötluð börn með tvö heimili voru auknar. Enn fremur voru styrkir til kaupa á heyrnartækjum hækkaðir.

Lýðheilsa og forvarnir

Heilbrigðisþing 2022 fór fram 10. nóvember og var þingið að þessu sinni helgað lýðheilsu. Með því var fylgt eftir þeim áherslum sem fram koma í ályktun Alþingis um lýðheilsustefnu til ársins 2030, með áherslu á innleiðingu hennar. Á fjórða hundrað manns sóttu þingið og fjöldi fólks fylgdist jafnframt með því í beinu streymi.

Heilbrigðisráðherra úthlutaði styrkjum til félagasamtaka úr Lýðheilsusjóði í apríl. Til úthlutunar voru tæpar 82 milljónir króna í styrki til fjölbreyttra verkefna á sviði geðræktar, næringar, kynheilbrigðis, hreyfingar og íþróttaiðkunar, áfengis-, vímu- og tóbaksvarna auk almennrar heilsueflingar. Ráðherra veitti einnig styrki til félagasamtaka sem starfa að heilbrigðismálum. Alls voru rúmar 75 milljónir króna til úthlutunar af safnliðum fjárlaga til verkefna í þágu einstaklinga eða hópa, s.s. á sviði fræðslu og forvarna, ráðgjafar og stuðnings.

Ráðherra skipaði á árinu þverfaglegan starfshóp um aðgerðir til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería sem er ört vaxandi vandamál á heimsvísu. Verkefnið er unnið í samstarfi við matvælaráðuneytið og ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Alþjóðastofnanir sem starfa á sviði heilbrigðismála, matvælaöryggis og umhverfismála telja sýklalyfjaónæmi eina helstu heilbrigðisógnina sem steðjar að fólki í dag. Þessar stofnanir hafa hvatt þjóðir til að grípa til allra mögulegra ráða til að stemma stigu við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis á grundvelli hugmyndafræði „Einnar heilsu“ (e. One Health) sem byggir á því að heilbrigði manna, dýra og umhverfis sé samtengt sem kalli á heildstæð og samræmd viðbrögð. Hlutverk starfshópsins er að auka þverfaglegt samstarf til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og móta framtíðarsýn og aðgerðaáætlun til næstu tíu ára með tillögum um leiðir til að hrinda aðgerðunum í framkvæmd. Liður í verkefni hópsins er enn fremur að vinna að vitundarvakningu í samfélaginu til að auka þekkingu almennings á sýklalyfjaónæmi, hvað í því felst og hvað sé til ráða.

Heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra skipuðu Endurhæfingarráð – samstarfsvettvang um endurhæfingu. Ráðið verður ráðherrunum til ráðgjafar við faglega stefnumörkun á þessu sviði. Markmiðið er að tryggja samþættingu í endurhæfingu fólks, hvort sem um er að ræða heilbrigðistengda endurhæfingu, atvinnutengda starfsendurhæfingu eða önnur tengd úrræði. Við vinnuna er ráðinu meðal annars ætlað að greina og útfæra skilgreindar aðgerðir ífimm ára aðgerðaáætlun heilbrigðisráðuneytisins um heilbrigðistengda endurhæfingu og huga að samþættingu við aðgerðir sem tengjast endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu.

Heilbrigðisráðherra kynnti í október áform sín um að bjóða almenna bólusetningu gegn HPV veiru öllum börnum óháð kyni og jafnframt að innleiða nýtt breiðvirkara bóluefni sem veitir víðtækari vörn gegn krabbameini af völdum veirunnar. Ávinningur af bólusetningu gegn HPV veirunni er mikill en oft kemur fullur ávinningur ekki í ljós fyrr en 15-20 árum eftir að reglubundin bólusetning hefst. Góð bólusetningarþátttaka skiptir því miklu máli.

Heilbrigðisráðuneytið í samvinnu við Landspítala réðist í það verkefni að tryggja greiðan aðgang að neyðarmeðferð vegna ofneyslu ópíóíða með lyfinu Naloxone, sjúklingum að kostnaðarlausu. Lyfinu hefur verið dreift til fjölmargra aðila um allt land sem koma að þjónustu við jaðarsetta einstaklinga sem nota ópíóíða, s.s. Rauða krossins á Íslandi, lögreglu, heilsugæslustöðva, björgunarsveita, félagsþjónustu sveitarfélaga og úrræða á þeirra vegum. Greiðara aðgengi að Naloxone í nefúðaformi er mikilvægt skaðaminnkandi úrræði fyrir jaðarsettan hóp einstaklinga sem nota ópíóða en ofnotkun þeirra er vaxandi vandamál hér á landi líkt og víða annars staðar.

Í október auglýsti heilbrigðisráðuneytið eftir umsóknum frá frjálsum félagasamtökum um styrki til afmarkaðra verkefna sem hafa að markmiði að vinna gegn fíknisjúkdómum.

Heilbrigðisráðherra veitti Reykjanesapóteki styrk vegna tilraunaverkefnis að norskri fyrirmynd sem miðar að öruggari lyfjanotkun sjúklinga og bættri meðferðarheldni. Verkefnið afmarkast við þá sem taka lyf við hjarta- og æðasjúkdómum og felst í skilgreindri umsjón lyfjafræðings sem veitir viðkomandi sjúklingi ráðgjöf og eftirfylgni á fyrstu vikum meðferðar. Vonir eru bundnar við að verkefnið geti orðið fyrirmynd að aukinni lyfjafræðilegri þjónustu í apótekum í samræmi við markmið lyfjastefnu.

Mönnun og menntun heilbrigðisstarfsfólks

Í heilbrigðisráðuneytinu er unnið að viðamikilli greiningu á mönnun heilbrigðiskerfisins og menntun heilbrigðisstarfsfólks til framtíðar. Í september lögðu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og heilbrigðisráðherra fram sameiginlegt minnisblað til upplýsinga fyrir ríkisstjórn varðandi forgangsaðgerðir í þágu heilbrigðismenntunar. Meðal aðgerða sem mótaðar hafa verið til að efla heilbrigðismenntun er hvatning til háskólanna til að forgangsraða í þágu heilbrigðisvísinda og fjölga nemendum í námsgreinum á sviði heilbrigðisþjónustu. Jafnframt verða skólarnir hvattir til aukins samstarfs á þessu sviði. Þá verður óskað eftir hugmyndum um hvernig fjölga megi nemendum og hvað skólarnir telja sig þurfa til þess að af þeirri fjölgun geti orðið. Fjölgun lækna í sérnámi hér á landi er einnig til skoðunar sem og efling sérnáms almennt.

Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, geðþjónusta Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri buðu í fyrsta sinn upp á sameiginlegt tveggja ára klínískt meistaranám í geðhjúkrun hér á landi og er námið vistað hjá Háskóla Íslands. Fyrsti nemendahópurinn innritaði sig haustið 2022 og bárust 21 umsókn um þær 12 námsstöður sem voru í boði.

Í október útskrifuðust frá Háskóla Íslands 14 hjúkrunarfræðingar af nýrri námsleið fyrir fólk sem lokið hefur háskólagráðu í öðru fagi en hjúkrun. Með þessari nýju námsleið gefst fólki sem lokið hefur háskólanámi (BS, BA eða Bed) kostur á að ljúka hjúkrunarnámi á skemmri tíma en ella, uppfylli það inntökuskilyrði.

Í samræmi við stefnu stjórnvalda um að efla heilsugæsluna hefur markvisst verið unnið að því að fjölga sérnámsstöðum í heimilislækningum og styrkja umgjörð námsins síðustu ár. Þetta hefur skilað árangri, því aldrei hafa fleiri stundað sérnám í heimilislækningum. Haustið 2022 voru 95 læknar skráðir í námið en til samanburðar voru þeir 38 árið 2017. Frá þeim tíma hafa að jafnaði sjö til átta læknar útskrifast úr sérnáminu ár hvert. Nú er umtalsverð fjölgun fyrirsjáanleg. Við bestu aðstæður munu samtals 57 læknar ljúka sérnámi í heimilislækningum á næstu þremur árum.

Nýtt fólk til forystu

Heilbrigðisráðherra skipaði Runólf Pálsson í embætti forstjóra Landspítala 1. mars til fimm ára. Runólfur Pálsson er læknir að mennt með sérfræðiréttindi í lyflækningum og nýrnalækningum. Runólfur hefur afburðarþekkingu á öllum þáttum faglegrar starfsemi spítalans en hefur einnig yfirgripsmikla þekkingu á heilbrigðiskerfinu hér á landi í víðu samhengi, samspili stofnana og mismunandi þjónustustiga.

Skipað var í nýtt embætti skrifstofustjóra á skrifstofu ráðuneytisstjóra í heilbrigðisráðuneytinu. Heilbrigðisráðherra skipaði Sigurð Kára Árnason í embættið. Sigurður er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og LLM gráðu frá London School of Economics and Political Science. Sigurður hefur stundað lögmennsku, sinnt stundakennslu í stjórnsýslurétti við Háskóla Íslands, hann starfaði um árabil hjá umboðsmanni Alþingis og var yfirlögfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu frá árinu 2019 þar til hann tók við embætti skrifstofustjóra.

Þingstörf ráðherra

Fimm frumvörp heilbrigðisráðherra urðu að lögum frá Alþingi á árinu og tvær tillögur hans til þingsályktunar voru samþykktar. Samþykkt voru ný heildarlög um dýralyf nr. 14/2022, breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 44/2022 sem kveður m.a. á um skipun stjórnar yfir Landspítala og skipun notendaráðs, breyting á lögum um landlækni og lýðheilsu um skimunarskrá nr. 43/2022, breyting á lögum sem fól m.a. í sér að fella nikótínvörur, s.s. nikótínpúða, undir sömu lagaumgjörð og rafrettur, nr. 56/2022 og loks breyting á lögum um sjúklingatryggingu með bráðabirgðaákvæði um tímabundinn bótarétt vegna bólusetningar nr. 114/2022.

Samþykkt var á Alþingi tillaga heilbrigðisráðherra til þingsályktunar sem felur í sér framtíðarsýn um heilbrigðisþjónustu við aldraða nr. 25/152 og tillaga til þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 nr. 26/152.

Ríkur þáttur í þingstörfum ráðherra felst í því að svara fyrirspurnum þingmanna á málefnasviðum heilbrigðisráðuneytisins. Ráðherra svaraði 84 fyrirspurnum þingmanna, 77 þeirra voru skriflegar og 7 munnlegar. Enn fremur svaraði ráðherra 15 fyrirspurnum í óundirbúnum fyrirspurnartímum á Alþingi.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum