Hoppa yfir valmynd

Hvað næst?

Viðamikil eftirfylgni verður með framgangi aðgerða

Mikilvægt er að tryggja að aðgerðaáætlun sé fylgt vel eftir og að reglulega sé fylgst með þeim árangri sem næst í samdrætti í losun á hverjum tíma þannig að Ísland standist skuldbindingar og nái markmiðum sínum.

Þörf er á átaki alls samfélagsins auk víðtæks samráðs sem getur skilað nýjum aðgerðum að frumkvæði annarra gerenda, betri útfærslu á aðgerðum og ekki síst aðhaldi gagnvart stjórnvöldum um framgang verkefna.

 

Aðgerðir uppfærðar í rafrænni útgáfu

Eftir því sem aðgerðum vindur fram verða þær uppfærðar í rafrænni útgáfu aðgerðaáætlunarinnar sem finna má hér á vefnum.

Ábyrgð: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Árlega verður unnin stöðuskýrsla og árangur rýndur

Unnin verður stöðuskýrsla á hverju ári þar sem farið verður yfir framgang aðgerða og skilgreinda árangursmælikvarða einstakra aðgerða. Í stöðuskýrslunni verður einnig farið yfir þróun losunar miðað við niðurstöður úr nýjustu útgáfu af losunarbókhaldi Íslands. Mikilvægt er að fylgjast vel með árangri því samkvæmt skuldbindingum Íslands er krafa um að samdráttur í losun skuli eiga sér stað frá árinu 2021. Stöðuskýrslunni skal skilað til umhverfisráðherra fyrri hluta árs og hún kynnt fyrir Alþingi og jafnframt send Loftslagsráði til rýni. Skýrslan verður sett í samráðsgátt stjórnvalda. Sé aðgerðaáætlun uppfærð í heild sinni skal hluti af þeirri uppfærslu felast í að gera grein fyrir stöðu aðgerða sem annars væri gert í stöðuskýrslu.

Ábyrgð: Verkefnisstjórn Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum

Lykilbreytur rýndar reglulega

Til viðbótar við árangursmælikvarða og losunarbókhald Íslands fyrir gróðurhúsalofttegundir verða skilgreindar lykilbreytur sem verkefnisstjórn aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum mun fylgjast náið með. Hér eru nefnd sem dæmi upplýsingar um sölu bifreiða og olíunotkun. Þetta er gert í ljósi þess að tölur úr formlegu losunarbókhaldi Íslands liggja ekki fyrir fyrr en um 15 mánuðum eftir að viðkomandi ári lýkur og mikilvægt er að geta fylgst með lykilbreytum í rauntíma. Þær verða aðgengilegar hér á vefnum.

Ábyrgð: Verkefnisstjórn Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum

Aðgerðaáætlun uppfærð reglulega

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum skal endurskoða í heild sinni á að minnsta kosti fjögurra ára fresti að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga og yfirlýstra markmiða stjórnvalda, líkt og kveðið er á um í lögum um loftslagsmál. Til að byrja með verður þó ráðist fyrr í uppfærslu áætlunarinnar. Við gerð hennar skal haft samráð við hagsmunaaðila.

Ábyrgð: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Framfylgd markmiða

Til að tryggja að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar og að markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda verði náð, þarf að tryggja að hægt sé að bregðast tímanlega við ef mælingar gefa til kynna að losun verði meiri en markmið segja til um. Skýrt verður að vera hvar ábyrgðin liggur á því að bregðast við. Til að taka á þessu er stefnt að því að gera viðeigandi breytingar á lögum um loftslagsmál. Breytingarnar fela í sér að gefi mælingar til kynna að losun verði meiri en skuldbindingar segja til um beri umhverfis-, og orku- og loftslagsráðherra ábyrgð á því að gripið verði til viðeigandi ráðstafana, þ.e. að setja fram nýjar eða hertar aðgerðir í því skyni að draga úr losun. Ráðherra skal upplýsa ríkisstjórn Íslands og Alþingi um stöðuna.

Ábyrgð: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Kostnaðar- og ábatagreining og félagslegt réttlæti aðgerða

Loftslagsbreytingar af mannavöldum munu hafa gríðarleg áhrif á samfélagið á næstu áratugum og hið sama gildir um víðtækar aðgerðir til að sporna við þeim. Áhrifin geta verið misjöfn eftir hópum, svo sem með tilliti til kyns, stéttar, atvinnu og fötlunar. Aðgerðir í loftslagsmálum þurfa að miða samhliða að auknu jafnrétti og jöfnuði, en ekki verða til þess að auka á misrétti. Réttlát umskipti þurfa þannig að eiga sér stað. Huga þarf að breytingum á störfum sem aðgerðir geta haft áhrif á og greina hvaða hópa samfélagsins getur þurft að koma sérstaklega til móts við vegna slíkra breytinga. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum verður rýnd með tilliti til þessa, auk þess sem hún verður greind með tilliti til kostnaðar og ábata, meðal annars hvað varðar þjóðhagsleg áhrif aðgerða. Vinna við þetta hefst haustið 2020 og skal lokið haustið 2021.

Ábyrgð: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Landsákvarðað framlag Íslands uppfært

Aðildarríki Parísarsamningsins skulu uppfæra framlög sín gagnvart samningnum á fimm ára fresti. Ísland mun taka þátt í því líkt og önnur ríki.

Ábyrgð: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið

Framreiknuð losun Íslands

Lykilatriði til framtíðar er að samþætta framreikninga um losun gróðurhúsalofttegunda við Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, sjá textabox hér að neðan. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Umhverfisstofnun vinna nú markvisst að þeirri samþættingu. Umhverfisstofnun er sú stofnun sem sér um losunarbókhald Íslands gagnvart Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna, auk þess að vinna skýrslu um framreiknaða losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

Ábyrgð: Umhverfisstofnun

Framreikningar Umhverfisstofnunar – strangt eftirlit með aðgerðum

Samkvæmt samkomulagi við Evrópusambandið um sameiginlegt losunarmarkmið á tímabilinu 2021-2030, ber Íslandi að skila skýrslu og upplýsingum til Evrópusambandsins um stefnur og aðgerðir sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum. Einnig skal framreikna losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta felur í sér að skila skal tölulegum gögnum um stefnur, aðgerðir og framreiknaða losun, ásamt ítarlegri skýrslu um efnið að minnsta kosti annað hvert ár. Næstu framreikningar munu samkvæmt reglum ná til ársins 2040.

Umhverfisstofnun skilaði þann 15. mars 2019 í fyrsta sinn slíkri skýrslu og náði hún til ársins 2035. Þar kom fram að gert væri ráð fyrir að losun frá Íslandi næði hámarki árið 2021 en færi síðan lækkandi. Jafnframt kom fram að á þeim tíma sem framreikningarnir voru gerðir (síðari hluta árs 2018) átti eftir að útfæra margar aðgerðir í Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum en hún kom út sama haust.

Framreikningarnir taka mið af þeim stefnum og aðgerðum sem eru í gildi þegar þeir eru gerðir – það er „with existing measures“ eða „með núgildandi aðgerðum“. Íslandi ber að skila Evrópusambandinu næstu skýrslu með framreiknaðri losun þann 15. mars árið 2021. Umhverfisstofnun vinnur að þeim framreikningum og nýtir til þess forsendur uppfærðra aðgerða í Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

Framreikningarnir ættu að sýna að með þeim aðgerðum sem settar hafa verið fram sé Ísland á réttri leið með að ná þeim skuldbindingum sem gengist hefur verið undir. Ef svo er ekki þarf að endurskoða og herða aðgerðirnar.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum