Hoppa yfir valmynd

Starfsemi ráðuneytisins á árinu 2022

Starfsemi ráðuneytisins nær til þriggja málefnasviða samkvæmt lögum um opinber fjármál og snerta fjölmörg svið þjóðfélagsins. Þau varða meðal annars almannavarnir, ákæruvald, dómstóla, réttarfar, fullnustu dóma, landhelgisgæslu, löggæslu, persónurétt, sýslumenn og kosningar. Hjá ráðuneytinu starfa rúmlega 50 starfsmenn og heyra 30 stofnanir undir starfsemi þess. Starfsemi stofnana skipast eftir málefnasviðum þannig að undir málefnasviðið dómstólar heyra héraðsdómstólar, Landsréttur, Hæstiréttur og dómstólasýslan. Níu lögregluembætti, Ríkislögreglustjóri, Landhelgisgæslan, ríkissaksóknari, héraðssaksóknari og Fangelsismálastofnun heyra undir málefnasviðið almanna- og réttaröryggi, og Persónuvernd, Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og níu sýslumannsembætti undir málefnasviðið réttindi einstaklinga, sem og trúmál og stjórnsýsla dómsmálaráðuneytisins. Ráðuneytið skiptist árið 2021 niður á fimm skrifstofur sem nefnast lagaskrifstofa, skrifstofa almanna- og réttaröryggis, skrifstofa réttinda einstaklinga, skrifstofa fjármála og rekstrar og skrifstofa yfirstjórnar.

Helstu verkefni ársins 2022

Sýslumenn lögðu mikla áherslu á stafrænar umbætur á árinu 2022, með það að meginmarkmiði að bæta þjónustuna við almenning. Áfram var unnið að úrbótum á starfskerfi sýslumanna og stafrænum lausnum fyrir þjónustu embættanna, svo sem vegna rafrænna þinglýsinga, dánarbúsmála, fjölskyldumála og annarra málaflokka. Vefur sýslumanna á Ísland.is hélt áfram að þróast en nú eru þar aðgengilegir listar yfir útgefin rekstrarleyfi ásamt leyfum fasteigna- og skipasala og lögmanna. Þá var að auki tekin í gagnið ný þjónustuleið í gegnum vefinn, sem býður upp á bætt samskipti við starfsfólk sýslumannsembættanna, auk þess sem tekin var í notkun sérstök gagnagátt sem býður almenningi upp á öruggar gagnasendingar í gegnum vefgátt Ísland.is. Á árinu 2022 voru sýslumenn tilnefndir til verðlauna Ský (Skýrslutæknifélagsins) í flokknum UT-Stafræna þjónustan 2021 ásamt því að hljóta viðurkenningu fyrir stafræn skref frá Ísland.is.

Áfram var unnið að því að leita leiða til að styðja við Persónuvernd vegna aukins álags á stofnunina undanfarin misseri. Í þeirri viðleitni var unnið að frumvarpi til breytinga á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga með það að markmiði að einfalda og bæta málsmeðferð hjá Persónuvernd. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi haustið 2022 þar sem það var tekið til meðferðar en samþykkt aðeins að hluta.

Á árinu var samþykkt frumvarp til breytingar á hjúskaparlögum en með þeim voru gerðar breytingar á ýmsum ákvæðum hjúskaparlaga. Meðal annars lutu breytingarnar að því að afnema undanþáguheimild frá 18 ára lágmarksaldri til þess að stofna til hjúskapar.

Á árinu var unnið að frumvarpi til nýrra laga um nafnskírteini þar sem mælt er fyrir um útgáfu nýrra handhægra nafnskírteina sem teljast örugg persónuskilríki til auðkenningar og geta jafnframt verið gildi ferðaskilríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Frumvarpið var samþykkt sem lög á Alþingi í maí 2023.

Á árinu 2022 tók Vinnumálastofnun formlega við þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sbr. breyting á lögum um útlendinga, en þjónustunni hafði þá verið sinnt af Útlendingastofnun um árabil. Ágætt samstarf hlutaðeigandi stjórnvalda var við undirbúning á flutningi þjónustunnar og hefur það samstarf haldið áfram og vaxið. Umsækjendum um alþjóðlega vernd fjölgaði mjög árið 2022 er ríflega 4.500 umsóknir bárust íslenskum stjórnvöldum. Þessi mikla aukning stafaði að hluta af stríðinu í Úkraínu en þaðan sóttu 2.350 einstaklingar um alþjóðlega vernd. Í byrjun mars 2022 ákvað dómsmálaráðherra að virkja 44. gr. útlendingalaga sem kveður á um tímabundna vernd vegna fjöldaflótta. Var það í fyrsta sinn sem ákvæðið var virkjað, en undanfari þess var samráð bæði innanlands sem utan þ. á m. við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Haustið 2022 lagði dómsmálaráðherra fram frumvarp til breytinga á útendingalögum, nánar tiltekið breytingar er varða ákvæði laganna um alþjóðlega vernd, en það var að hluta endurframlagt.

Í dómsmálaráðuneyti fer fram rýni og gæðaeftirlit með stjórnarskjölum, þ.e. frumvörpum og þingsályktunartillögum allra ráðuneyta sem ráðherrar hyggjast leggja fram á Alþingi. Á árinu 2022 bárust ráðuneytinu 135 frumvörp og 22 þingsályktunartillögur. Þetta er nokkur fjölgun frá árinu 2021 þegar 95 frumvörp og 23 þingsályktunartillögur bárust til yfirlestrar, enda þingsetning þá í lok nóvember.

Dómsmálaráðuneytið annast umsjón samráðsgáttar í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneyti. Markmið samráðsgáttarinnar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila. Þar er á einum stað hægt að finna öll mál ráðuneyta sem birt hafa verið til samráðs við almenning. Öllum er frjálst að senda inn umsögn eða ábendingu (www.samradsgatt.is). Fjöldi mála í samráðsgátt á árinu 2022 var 254 en árið áður voru þau 241. Heimsóknir á árinu 2022 voru u.þ.b. 138.000 en voru um 126.000 árið áður. Alls bárust á árinu 2022 um 1.700 umsagnir sem er nokkur fjölgun frá fyrra ári. Stjórnarfrumvörp sem urðu að lögum á árinu 2022 höfðu í 66% tilvika verið birt sem drög til opins samráðs á fyrri stigum. Tekið skal fram að fjárlög og fjáraukalög eru utan þessara talna.

Sveitastjórnarkosningar voru haldnar þann 14. maí 2022 og var það fyrstu almennu kosningar sem haldnar voru hér á landi í tíð nýrra kosningalaga sem tóku gildi 1. janúar 2022. Í aðdraganda þeirra samþykkti Alþingi lagabreytingar enda höfðu þá komið í ljós ýmis atriði sem betur máttu fara í hinni nýju löggjöf. Lutu þær breytingar einkum að því að leiðrétta misræmi í dagsetningum hvað varðaði viðmiðunardag kjörskrár og hvenær framboð skyldi tilkynnt, auk þess sem gerðar voru nokkrar lagatæknilegar breytingar.

Dómsmálaráðherra lagði á árinu 2022 fram tvö frumvörp til breytinga á almennum hegningarlögum. Með fyrra frumvarpinu voru gerðar breytingar á þeim ákvæðum laganna sem taka til mútugreiðslna til erlendra opinberra starfsmanna í því skyni annars vegar að gera ákvæðin skýrari auk þessi refsihámark var hækkað. Með síðara frumvarpinu voru lagðar til verulegar breytingar á barnaníðsákvæðum almennra hegningarlaga, bæði að því er varðar efni þeirra og refsihámark fyrir brot gegn börnum, sem og breytingar á ákvæðum sem fjalla um hatursorðræðu og mismunun.

Þá lagði dómsmálaráðherra fram frumvarp, sem samþykkt var af Alþingi 15. júní 2022, þar sem lagðar voru til umfangsmiklar breytingar ákvæðum laga um meðferð sakamála í því augnamiði að bæta réttarstöðu brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda látinna einstaklinga. Eftir þeir breytingar hefur til að mynda aðgangur brotaþola að gögnum á rannsóknarstigi verið aukinn verulega, ótvíræður réttur til að vera viðstaddur lokuð þinghöld verið viðkenndur og réttur til að leggja fram sönnungargögn og spyrja spurninga við skýrslutökur verið rýmkaður, ásamt fleiru. Einnig samþykkti Alþingi 16. desember 2022 frumvarp dómsmálaráðherra sem fól í sér ýmsar breytingar á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og lögum um dómstóla. Með þeim var meðal annars rýmkuð kæruheimild til Hæstaréttar Íslands í kærumálum og rýmkuð skilyrði fyrir því að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar. 

Þann 16. desember 2022 samþykkti Alþingi enn fremur frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem leitast var við sporna við misnotkun á hlutafélagaforminu og svokölluðu kennitöluflakki í atvinnurekstri. Mikilvægasta nýmæli frumvarpsins fólst í heimild til að úrskurða þann sem ekki telst hæfur til að stýra hlutafélagi vegna skaðlegra eða óverjandi viðskiptahátta við stjórnun félags í atvinnurekstrarbann sem að meginreglu vari í þrjú ár.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum