Hoppa yfir valmynd

Samstarf háskóla

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra setti Samstarf háskóla á laggir í september 2022. Um er að ræða tveggja milljarða króna verkefni sem ætlað er að ýta undir öflugt samstarf háskóla á Íslandi, nýsköpun og framfarir á háskólastigi. Helmingi þessarar fjárhæðar var ráðstafað árið 2022 og síðari helming verður úthlutað árið 2023. Með þessu er háskólunum í fyrsta sinn veittur fjárhagslegur hvati til að stofna til öflugs samstarfs sín á milli með það að markmiði að auka gæði náms og samkeppnishæfni skóla. Verkefnið er þegar fjármagnað af safnlið háskólastigsins, en með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum í gegnum Samstarf háskóla var fjármögnun á háskólastigi gerð gagnsærri en áður.

Opnað var fyrir umsóknir haustið 2022 og voru allir sjö háskólar landsins áhugasamir um aukið samstarf. Alls bárust 48 umsóknir og sótt var um styrki fyrir samtals 2,85 ma.kr. Matshópur, skipaður af ráðherra, leit til áætlaðs ávinnings af verkefnunum og nýnæmis þeirra við mat á umsóknum. Einnig var horft til gæða verk- og kostnaðaráætlana. Vænst var til þess að háskólarnir sýndu frumkvæði í greiningu á samstarfsmöguleikum sín á milli og sjálfstæði í vali verkefna sem styðja við nýsköpun og framfarir. Þannig er samstarfi þeirra á milli ætlað að auka gæði háskólastarfs og skilvirkni í rekstri. 

Tólf áherslur voru tilgreindar undir þremur meginmarkmiðum sem samstarfsverkefnum var ætlað að styðja við:

Bætt stjórnsýsla, aukin gæði náms og betri þjónusta við námsmenn

  1. Aukið samstarf um stjórnsýslu og stoðþjónustu skólanna með það að markmiði að draga úr yfirbyggingu.
  2. Samstarf um aukin gæði háskólanáms, ekki síst á meistara- og doktorsstigi, þar sem nemendur geta í auknum mæli tekið áfanga í fleiri en einum háskóla og kennarar kennt við fleiri en einn háskóla. 

  3. Fjármögnun á þróun og innleiðingu sameiginlegrar umsóknargáttar háskólanna í gegnum island.is.
 

Háskóli í þágu samfélags

  1. Samstarf um fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum, m.a. með áherslu á snjallvæðingu og færnibúðir sem létta á starfsnámi innan heilbrigðisstofnana og auðvelda fjölgun nemenda.
  2. Samstarf um fjölgun nemenda í menntavísindum, m.a. með áherslu á menntun leikskólakennara og aukið framboð fagháskólanáms.

  3. Samstarf um aukna áherslu á STEAM-greinar, þ.e. vísindi, tækni, verkfræði, listir og stærðfræði. 

  4. Samstarf um fjölgun erlendra stúdenta, m.a. með kennslu fleiri námsgráða á ensku með það að markmiði að fleiri erlendir nemendur geti lokið gráðunámi á Íslandi.

  5. Samstarf um nám óháð staðsetningu, m.a. með aukinni áherslu á framboð fjarnáms.

  6. Samstarf um sjálfbærni með áherslu á hlutverk háskóla í að hafa uppbyggileg áhrif á umhverfi, stjórnarhætti og samfélag. 

 

Öflugri rannsóknir, nýsköpun og miðlun þekkingar

  1. Samstarf háskóla, stofnana og fyrirtækja um nýtingu rannsóknarinnviða. 
  2. Samstarf um eflingu íslenskra háskóla í að sækja fram á alþjóðavettvangi.
  3. Samstarf til eflingar íslensku og máltækni.
 

Snemma árs 2023 tilkynnti ráðherra að vegna mikilla gæða umsókna yrði rúmlega milljarði króna úthlutað til 25 mismunandi samstarfsverkefna fyrir þessa fyrri umferð verkefnisins árið 2022. Við úthlutunina sagði ráðherra að áhugi háskólanna á samstarfi hafi farið fram úr björtustu vonum. ,,Um leið og hugmyndin var kynnt fór af stað mikið samtal á milli allra háskólanna sem skilað sér ekki einungis í miklum fjölda umsókna heldur eru gæði verkefnanna slíka að ég trúi því að þau geti haft mikil og jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Umsóknirnar sýna að með samstarfi háskóla erum við að leysa úr læðingi krafta og hugmyndir sem hafa verið í gerjun um langt árabil og geta nú loks orðið að veruleika.” 

Verkefnin 25 sem hlutu styrki til samstarfs eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg og koma allir háskólar landsins að 6 til 20 verkefnum hver. Þá er hver og einn skóli í forsvari fyrir a.m.k. eitt samstarfsverkefni. Háskóli Íslands (HÍ) er aðili að flestum verkefnum, alls 20, og sýnir það ríkan samstarfsvilja hjá þessum lang stærsta háskóla landsins. Háskólinn á Akureyri (HA) er aðili að 19 verkefnum og Háskolinn í Reykjavík (HR) að 16.  

Meirihluti styrktra verkefna styður á einna eða annan hátt við áherslur á betra framboð náms óháð staðsetningu, aukin gæði háskólanáms á Íslandi og eflingu STEAM-greina. Þá er nýting rannsóknainnviða og opin vísindi, sjálfbærni og bætt stjórnsýsla og stoðþjónusta í háskólaumhverfinu ofarlega á lista. 

Allir skólarnir taka höndum saman í þremur mismunandi verkefnum. Þannig eru allir skólarnir aðilar að verkefni sem felst í aukinni starfsþróun háskólakennara til að auka gæði kennslu í stafrænu samfélagi og í verkefna sem gerir nemendum kleift að taka námskeið í meistaranámi við marga skóla samtímis, bæði hér á landi og erlendis. Í þessu felst að nemendur geta sniðið nám að sínum þörfum og þeim hröðu samfélagsbreytingum sem eiga sér stað.  

Tilkynnt verður um fyrirkomulag og áherslur seinni úthlutunar verkefnisins sumarið 2023 og stefnt er að úthlutun að hausti. 

Nánar um styrkt samstarfsverkefni árið 2022: 

Fréttir um Samstarf háskóla 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum