Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2024 Matvælaráðuneytið

Annað starfsár matvælaráðuneytis

Árið 2023 var annað starfsár matvælaráðuneytisins, en ráðuneytið tók til starfa 1. febrúar árið 2022. Undir matvælaráðuneyti heyra málefni lagareldis, landbúnaðar, landgræðslu, sjávarútvegs, og skógræktar. Yfirlit yfir helstu verkefni matvælaráðuneytisins árið 2023 má sjá hér.

Mat á brottkasti og losun gróðurhúsalofttegunda

Í janúar 2023 fól Svandís Svavarsdóttir Fiskistofu að gera kerfisbundið mat á brottkasti á Íslandsmiðum. Markmiðið var að þróa aðferðafræði til að meta umfang brottkasts á íslenskum fiskimiðum, safna upplýsingum og meta áhrif brottkasts á stofnstærðir.

Í sama mánuði var ýtt úr vör verkefni um endurmat á losun gróðurhúsalofttegunda frá ræktarlandi. Verkefnið er unnið í samvinnu við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og var Landgræðslunni falin framkvæmd þess. Seinna á árinu sameinuðust Landgræðslan og Skógræktin undir merkjum nýrrar stofnunar sem fékk heitið Land og skógur.

Smitvarnir, verndun hafsvæða og bleikir akrar

Starfshópur um smitvarnir í sjókvíaeldi skilaði tillögum til matvælaráðherra í febrúar. Hlutverk hópsins var að meta gildandi regluverk, þ.m.t þau viðbrögð sem viðhöfð eru þegar smitsjúkdómar koma upp, ásamt því að bera saman smitvarnir og löggjöf í öðrum löndum. Sjókvíaeldi er ein þeirra greina sem falla undir lagareldi en ný skýrsla um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi var kynnt í febrúarlok. Niðurstöður skýrslunnar munu nýtast við stefnumótun fiskeldis á Íslandi til framtíðar. Leiðarljós í vinnunni voru vernd náttúrunnar og vöxtur greinarinnar í sátt við umhverfi.

Matvælaráðherra staðfesti í upphafi marsmánaðar nýja reglugerð um verndarráðstafanir vegna viðkvæmra hafsvæða og botnvistkerfa. Við gildistöku reglugerðarinnar voru allar botnveiðar bannaðar á sautján svæðum í fiskveiðilandhelgi Íslands en svæðin taka til tæplega 2% af fiskveiðilandhelginni.

Um miðjan mánuð var skýrslan Bleikir akrar kynnt á opnum fundi. Skýrslan fjallar um eflingu kornræktar á Íslandi og var unnin af hópi sérfræðinga frá Landbúnaðarháskóla Íslands að beiðni matvælaráðherra.

Landbúnaðarverðlaun og nýting lífrænna efna

Samantekt á stöðu nýtingar lífrænna efna í landbúnaði og landgræðslu var einnig skilað til matvælaráðherra í mars. Þar koma fram tillögur að meginmarkmiðum og aðgerðum sem nýtast við mótun stefnu og aðgerðaáætlana í landbúnaði, landgræðslu, skógrækt, lagareldi og sjávarútvegi.

Í sama mánuði greindi matvælaráðherra frá þeirri ætlun stjórnvalda að endurvekja aðild Íslands að Laxaverndunarstofnuninni (NASCO). Matvælaráðherra greindi frá þessu á ráðstefnunni Salmon Summit sem haldin var í Reykjavík af verndarsjóði villtra laxastofna (NASF).

Í lok mánaðarins lagði ráðherra fram þingsályktunartillögu um matvælastefnu fyrir Ísland. Stefnan er mörkuð til ársins 2040 og er ætlað að vera leiðarstef í ákvarðanatöku til að auka verðmætasköpun í innlendri matvælaframleiðslu, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru.

Landbúnaðarverðlaunin voru afhent í marslok af matvælaráðherra á Búnaðarþingi og hlutu verðlaunin þau Þorgrímur Einar Guðbjartsson og Helga Elínborg Guðmundsdóttir á Erpsstöðum í Dalabyggð. Landnýting, loftslagsmál og umhverfisvernd voru, ásamt tækni og nýsköpun, uppistaða nýrrar landbúnaðarstefnu sem matvælaráðherra mælti fyrir á Alþingi og mörkuð er til ársins 2040.

Samþykktar stefnur og frumvörp til laga

Landbúnaðarstefna var samþykkt á Alþingi í júní 2023. Meginmarkmið stefnunnar er að efla og styðja íslenskan landbúnað og styrkja stoðir hans til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Matvælastefna til ársins 2040 var einnig samþykkt á þingi. Stefnunni er ætlað að vera leiðarstef í ákvarðanatöku til aukinnar verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu á Íslandi, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru. Að lögum urðu líka frumvarp um lax- og silungsveiði sem heimilar veiðifélögum og veiðiréttarhöfum veiðar á hnúðlaxi, frumvörp um breytingu á lögum á stjórna fiskveiða vegna rafvæðingar smábáta og afnám tegundatilfærslu í deilistofnum botnfisks o.fl. Breyting á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands vegna aflvísis fiskiskipa var einnig samþykkt auk frumvarps til laga um Land og skóg og frumvarp um samræmingu á gjaldtökuheimildum Matvælastofnunar var samþykkt í júní.

Viðhorf til sjávarútvegs kannað, skilvirkari gagnaúrvinnsla í sjávarútvegi

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands skilaði könnun til matvælaráðuneytisins í apríl um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegsmála. Könnunin var liður í stefnumótunarverkefninu Auðlindin okkar sem var ýtt úr vör árið 2022. Tilgangur könnunarinnar var að fá skýrar vísbendingar um viðhorf almennings til aðskilinna þátta íslensks fiskveiðistjórnunarkerfis. Í sama mánuði skilaði ráðgjafafyrirtækið Intellecta skýrslu til matvælaráðherra um markvissari og skilvirkari öflun og úrvinnslu gagna í sjávarútvegi. Meginmarkmið var að greina upplýsingamyndun við fiskveiðar, allt frá veiðiferð til útskipunar.

Útrýming riðuveiki og styrkir til góðra verka

Í lok apríl ákvað matvælaráðherra að vinna yrði hafin við framkvæmd tillögu yfirdýralæknis um breytta aðferðafræði við útrýmingu riðuveiki. Ný nálgun felur í sér að markvisst verður unnið að hraðari ræktun riðuþolins sauðfjársstofns á ræktunarsvæðum sem eru skilgreind sem áhættusvæði. Stjórn Fiskeldisjóðs úthlutaði í maímánuði styrkjum til tólf verkefna í sjö sveitarfélögum, samtals að fjárhæð 247,7 milljónum króna. Einnig var úthlutað rúmum 93 milljónum króna til 27 þróunarverkefna í landbúnaði, og í lok mánaðarins úthlutaði matvælaráðherra um 577 milljónum króna úr Matvælasjóði til 53 verkefna.

Samið við Grænland og Landbúnaðarháskóla Íslands, leiðar á langreyðum stöðvaðar tímabundið

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskóla Íslands undirrituðu í júní samning um þjónustu á sviði rannsókna, þróunarvinnu og sérhæfðrar ráðgjafar á sviði landbúnaðar og matvælaframleiðslu.

Reglugerð um frestun veiða á langreyðum til 31. ágúst var sett í kjölfar birtingu álits fagráðs um velferð dýra.

Samningar voru undirritaðir í ágúst við Grænland um skiptingu loðnu og gullkarfa og í lok sama mánaðar voru lokaniðurstöður starfshópa verkefnisins Auðlindin okkar kynntar og settar í samráðsgátt stjórnvalda. Samhliða vinnu við verkefnið voru unnin drög að stefnu um sjávarútveg sem m.a. byggja á matvælastefnu til 2040. Stefnan inniheldur framtíðarsýn íslensks sjávarútvegs til 2040, gildi sjávarútvegs og áherslur og er ætlað að vera leiðbeinandi við ákvarðanatöku um sjávarútveg í sátt við umhverfi og samfélag.

Auknar fjárveitingar, Land og skógur tekur til starfa

Fjárlagafrumvarp var birt í september og var þar gert ráð fyrir auknum fjárveitingum upp á 126 milljónir króna vegna eftirlits í sjókvíaeldi en umfang greinarinnar hefur vaxið hratt síðustu ár.

Einnig var gert ráð fyrir auknu framlagi til hafrannsókna hjá Hafrannsóknastofnun (Hafró) upp á 180 milljónir króna til að skapa sjávarútvegi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar auk fjárheimildar upp á 126 milljónir króna til að styrkja verkefni Hafró á sviði burðarþolsmats fjarðakerfa, þ.m.t. eldissvæðaskiptingu, mat á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis, áhættumat erfðablöndunar og rannsóknir á dreifingu laxa- og fiskilúsar. Í september var Ágúst Sigurðsson einnig skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stofnunar sem varð til við sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar.

BIODICE,ný stefnumótun um lagareldi, matvælaþing og loftslagsvænn landbúnaður

Matvælaráðuneytið og BIODICE héldu saman málþing 21. september um vistkerfisnálgun við nýtingu auðlinda og var markmið þess að vekja athygli á hugtakinu vistkerfisnálgun og hlutverki þess í stefnumörkun matvælaráðuneytisins. Samantekt um nýtingu lífbrjótanlegra efna í landbúnaði og landgræðslu ásamt tillögum að markmiðum og aðgerðum var skilað til matvælaráðuneytisins í lok september. Samantektin var unnin af ráðgjafarfyrirtækinu Eflu með þátttöku vinnuhóps með fulltrúum matvælaráðuneytisins, Landgræðslunnar, Matís, Matvælastofnunar og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.

Ný stefnumótun um lagareldi, matvælaþing og loftslagsvænn landbúnaður

Matvælaráðherra kynnti drög að nýrri stefnumótun lagareldis í byrjun október. Stefnumótunin nær til ársins 2040 og aðgerðaáætlun til ársins 2028. Takmark stefnumótunarinnar er að framtíðaruppbygging í lagareldi byggi á skýrum viðmiðum sjálfbærrar nýtingar, vistkerfisnálgunar og varúðar. Áhersla er lögð á að eftirlit, vöktun og rannsóknir með framleiðslunni standist ítrustu kröfur til að koma megi í veg fyrir að greinin hafi neikvæð áhrif á umhverfið í framtíðinni.

Matvælaráðherra undirritaði þann 17. október samstarfssamning um loftslagsvænan landbúnað við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Landgræðsluna og Skógræktina. Samningurinn gildir út árið 2024 og eflir verkefnið sem hefur verið í gangi síðan 2020. Í lok árs 2022 voru 46 bú í verkefninu, 22 í sauðfjárrækt og 24 í nautgriparækt.

Matvælaþing var haldið í Hörpu 15. nóvember. Hringrásarhagkerfið, í samhengi við nýsamþykkta matvælastefnu til ársins 2040 var meginviðfangsefni þingsins. Þær fjölmörgu og ólíku starfsgreinar sem koma að framleiðslu vinnslu og dreifingu matvæla á Íslandi komu saman undir einu þaki á þinginu. Gestafyrirlesar voru þær Ladeja Godina Košir frá Circular Change samtökunum í Slóveníu og Anne Pøhl Enevoldsen frá dönsku matvælastofnuninni, þær fluttu erindi um innleiðingu hringrásarhagkerfis í matvælaframleiðslu á alþjóðlega vísu.

Stuðningur við bændur, efling lífrænnar framleiðslu og nýtt frumvarp um lagareldi

Drög að aðgerðaáætlun um eflingu lífrænnar matvælaframleiðslu voru kynnt á fundi sem haldinn var 30. nóvember. Aðgerðaáætlunin var unnin í matvælaráðuneytinu og byggir á tillögum Umhverfisráðgjafar Íslands ehf. Við mótun áætlunarinnar var einnig tekið mið af annarri stefnumótun á málefnasviðinu, áherslum matvælaráðherra og matvælaráðuneytis.

Í byrjun desember lögðu þau Svandís Svavarsdóttir matvælaráðaherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir , fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, fyrir ríkisstjórn tillögur að aðgerðum til stuðnings bændum sem áttu í fjárhagserfiðleikum vegna efnahagsástandsins. Tillögurnar byggðu á mati hóps sem var skipaður af ríkisstjórn til að fjalla um fjárhagsstöðu landbúnaðar á Íslandi og var skipaður ráðuneytisstjórum þriggja ráðuneyta; matvælaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innviðaráðuneytis. Sérstakar stuðningsgreiðslur til bænda vegna verkefnisins bárust fyrir jól.

Nýtt frumvarp Svandísar Svavarsdóttir matvælaráðherra um lagareldi var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 6. desember. Frumvarpið er afrakstur umfangsmikillar stefnumótunarvinnu sem hófst í byrjun árs 2022. Í frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um sjókvíaeldi, landeldi og hafeldi. Markmið frumvarpsins er að skapa lagareldi á Íslandi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi og dýravelferð og að sjúkdómavarnir verði með besta hætti á heimsvísu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum